Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 27  —  27. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson,


Jóhann Ársælsson, Bryndís Hlöðversdóttir.


1. gr.

    6. og 8. mgr. 17. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeir aðilar sem selt hafa hlutabréf fyrir gildistöku laga þessara geta farið fram á frestun tekjufærslu söluhagnaðar svo sem hér segir:
     a.      Lögaðilar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, geta farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa sem seld eru fyrir gildistöku laga þessara, þar á meðal skiptum á hlutabréfum, annarra en eigin bréfa, um tvenn áramót frá söludegi. Sama gildir um einstaklinga í atvinnurekstri enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist. Þegar skattskyldur söluhagnaður er ekki tekjufærður á söluáári samkvæmt heimild í þessu ákvæði skal hann hækkaður eða lækkaður samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr. laganna fram til þess árs þegar hann er tekjufærður.
     b.      Maður sem selt hefur hlutabréf fyrir gildistöku laga þessara getur farið fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar þeirra um tvenn áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð hans er umfram 3.000.000 kr. hjá einstaklingum og 6.000.000 kr. hjá hjónum. Kaupi hann önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á því kaupverði hinna nýju bréfa sem ákvörðun söluhagnaðar samkvæmt þessari grein miðast við. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinna keyptu bréfa. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst hagnaðurinn með skattskyldum tekjum á því ári þegar hann myndast. Ákvæði þetta tekur ekki til söluhagnaðar sem myndaðist í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilgangur þeirrar breytingar sem hér er lögð til er að fella brott þau ákvæði skattalaga sem heimila frestun á greiðslu skatts af söluhagnaði hlutabréfa og að hægt sé að komast hjá skattgreiðslu af slíkum söluhagnaði með því að kaupa ný hlutabréf.
    Þegar fjármagnstekjuskattur var settur á árið 1996 varð jafnframt sú breyting á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt að lögaðilar geta farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa um tvenn áramót frá söludegi. Sama gildir um einstaklinga í atvinnurekstri enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist.
    Afleiðingar þessara breytinga hafa e.t.v. orðið aðrar og víðtækari en reiknað var með. Alvarlegast fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf er að mikið fjármagn hefur verið losað úr íslensku atvinnulífi með sölu hlutabréfa og verið flutt úr landi. Ef marka má þá litlu umræðu sem fram fór um breytinguna þegar hún var gerð á Alþingi vorið 1996 var tilgangurinn sá að stuðla að sparnaði og því að fjármagnið héldist áfram í íslenskum atvinnufyrirtækjum. Þó að upplýsingar um hlutabréfaeign Íslendinga erlendis séu ónákvæmar sýna tölur Seðlabankans að gríðarlega mikið fjármagn hefur flust frá landinu á allra síðustu árum. Frá árslokum 1996 hefur hlutabréfaeign Íslendinga erlendis vaxið úr rúmum 12 milljörðum kr. í 155 milljarða. Umræddar skattbreytingar og sá möguleiki að fresta skattgreiðslum með því að fjárfesta áfram í hlutafélögum, ásamt hagstæðu skattumhverfi erlends, hefur haft það í för með sér að margir fara þá leið að stofna eigin eignarhaldsfélög erlendis og fjárfesta síðan í þeim.
    Uppbygging íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis hefur auðveldað mönnum að nýta sér þessa möguleika og e.t.v. hefur þessi breyting einnig hraðað stofnun og vexti dótturfyritækjanna. Dótturfyrirtæki Kaupþings í Lúxemborg hefur vaxið hratt á þessum árum. Um síðustu áramót var það með sem samsvarar 35 milljörðum íslenskra króna í fjárvörslu. Aðrar fjármálastofnanir hafa einnig stofnað dótturfyrirtæki erlendis. Landsbankinn er með starfsemi á eyjunni Guernsey á Ermasundi og í London. Íslandsbanki er einnig með starfsemi í London og Búnaðarbankinn er að undirbúa stofnun dótturfyrirtækis í Lúxemborg. Þótt fleira en þessi eina skattbreyting hafi áhrif á það að íslenskar fjármálastofnanir eru með starfstöðvar erlendis er almennt talið að breytingin hafi haft veruleg áhrif á þessa þróun. Menn geta líka velt fyrir sér áhrifum þessa á vaxandi viðskiptahalla á sömu árum.
    Á undanförnum árum hefur það sætt sérstakri gagnrýni hve mikinn söluhagnað einstaklingar hafa fengið af sölu hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum.
    Markaðsverð aflahlutdeilda hefur farið hækkandi allt frá því að gildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett. Einstaklingar sem hafa selt aflahlutdeildir en hafa ekki keypt aðrar í staðinn hafa því oft hagnast verulega, jafnvel þótt þeir hafi greitt fullan tekjuskatt af ágóðanum. Þeir sem eru óbeint handhafar aflahlutdeilda með því að eiga hlutabréf í útgerðarfyrirtækjum hafa hins vegar getað komist hjá þessari skattlagningu vegna þessarar lagabreytingar. Þegar þeir selja hlutabréf með hagnaði, sem að einhverju leyti stafar af hækkuðu verði á aflahlutdeildum félagsins, geta þeir frestað skattlagningu og þar með komist hjá henni með því að kaupa hlutabréf í öðrum hlutafélögum sem ekki þurfa að vera tengd útgerð eða skrásett hér á landi. Noti þeir sér ekki þann kost greiða þeir fjármagnstekjuskatt af hagnaðnum nema hann fari fram úr rúmum 3 millj. kr. á ári hjá einstaklingi. Þetta hefur eðlilega sætt margvíslegri gagnrýni. Skuldir sjávarútvegsins eru nú í kringum 175 milljarða kr. og hafa aukist um 70 milljarða á síðustu fjórum árum. Nýfjárfestingar í sjávarútvegi á sama tíma eru ekki miklar og afkoma í greininni hefur verið viðunandi. Ástæður hinnar miklu skuldaaukingar eru því að stórum hluta taldar stafa af því að kvóti og fyrirtæki hafa verið seld fyrir fé sem ekki hefur verið varið til endurfjárfestingar í greininni.
    Reglan um frestun skattlagningar nær auðvitað til hlutabréfaeigenda í öllum atvinnugreinum en hagnaður af viðskiptum með hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum hafa stungið almenning mest í augu, e.t.v. af því að margir þeirra sem hafa farið með mikla peninga út úr greininni og komist hjá skattlagninu vegna framangreindra ákvæða hafa heldur ekki greitt fyrir þau afnot sem þeir fengu af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.
    Í vor lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram frumvarp til laga um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Þá var jafnframt tilkynnt að á haustþingi yrði lögð fram tillaga um breytingu á 17. grein laga um tekjuskatt og eignarskatt til að afnema ákvæði um frestun á tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


1. gr.

    Ákvæði um frestun á tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa eru í 6. og 8. mgr. 17. greinar. Því er lagt til að þær málsgreinar falli brott.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða er sett vegna þeirra ákvæða stjórnarskrár að skattalög megi ekki vera afturvirk.



Fylgiskjal.


Hvaða reglur gilda í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við?


    Það er fróðlegt að bera íslensku skattaákvæðin varðandi meðferð söluhagnaðar af hlutabréfum saman við hvernig gert er hjá þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við. Eftirfarandi upplýsingar um það efni voru teknar saman af Árna Harðarsyni, forstöðumanni skatta og lögfræðisviðs Deloitte &Touche.

Danmörk.
    Ef eignarhald varir skemur en þrjú ár: Söluhagnaður af hlutabréfum sem einstaklingur hefur átt skemur en þrjú ár er skattlagður sem tekjur. Hægt er að draga frá söluhagnaði, sem skapast hefur á þessum stutta tíma, tap sem orðið hefur á sama tíma, þ.e. innan þriggja ára, og skammtímatap má draga frá söluhagnaði næstu fimm ár á eftir.
    Eignarhald varir lengur en þrjú ár: Söluhagnaður er skattlagður með mismunandi hætti eftir því hvort um skráð eða óskráð hlutabréf er að ræða. Ef einstaklingur á hlutabréf í skráðum hlutafélögum, innlendum eða erlendum, í þrjú ár er söluhagnaður ekki skattskyldur svo lengi sem hann fer ekki fram úr 110.200 dönskum krónum. Eftir það er hagnaðurinn skattlagður upp að næstu 35.000 DKR með 25% skatti og þegar því marki er náð er skatturinn 40%. Tap má draga frá með sömu skilyrðum og gilda um skammtímaeignarhald.
    Allur söluhagnaður af óskráðum hlutabréfum er skattlagður annað hvort með 25% eða 40% skatti á sama hátt og skráð hlutabréf en þar er engin undanþága, þ.e. ekkert mark við 110.200 DKR eins og þegar um skráð hlutabréf er að ræða.
    Tap af sölu hlutabréfa þar sem eignarhald hefur varað lengur en í þrjú ár má draga frá söluhagnaði af sams konar eignarhaldi, en ef það er ekki til staðar má draga það tap frá tekjuskatti viðkomandi aðila.

Noregur.
    Söluhagnaður er skattlagður sem tekjur. Söluhagnaður er fundinn út frá uppreiknuðu kaupverði. Heimildir eru til að færa tap á móti söluhagnaði.

Svíþjóð.
    Einstaklingar skulu greiða 30% skatt af söluhagnaði. Heimildir eru til að færa tap á móti söluhagnaði.

Bandaríkin.
    Meginreglan er að söluhagnaður er skattlagður með 20% fjármagnstekjuskatti. Tekjulágir einstaklingar, samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, borga hins vegar 10% fjármagnstekjuskatt.
    Einstaklingar sem kaupa hlutabréf samkvæmt gildum kaupréttarsamningi greiða fullan tekjuskatt ef sala á sér stað innan 12 mánaða frá kaupum. Ef sala á sér stað á bilinu 12–18 mánuðum eftir kaup skattleggst hagnaðurinn með 28% fjármagnstekjuskatti. Að 18 mánuðum liðnum skattleggst þessi sala á sama hátt og almennur söluhagnaður, þ.e. með 20% fjármagnstekjuskatti.
    Einstaklingur sem ekki er í fyrirtækjarekstri og á hlut í skráðum hlutafélögum að ákveðinni stærð, miðað út frá veltu félagsins, getur eftir fimm ár selt þann hlut og þá á hann rétt á að draga helminginn af söluhagnaðinum frá, upp að vissu hámarki, og greiða 20% fjármagnstekjuskatt af þeim hagnaði sem eftir stendur. Aðilar hafa þó þann möguleika að láta tap af sölu á hlutabréfum jafnast á móti hagnaði af sölu annarra hlutabréfa.

Kanada.
    Meginreglan er sú að einstaklingar telja 75% af söluhagnaði fram sem tekjur og skattleggst því söluhagnaðurinn sem slíkur.
    Einstaklingar sem fjárfest hafa í skráðum félögum að ákveðinni stærð, miðað við veltu, hafa þó rétt á „persónuafslætti“ á æviskeiði sínu sem nemur 500.000 kanadadölum af þessum söluhagnaði. (Gæti hugsanlega verið til þess að örva fjárfestingu í litum og meðalstórum fyrirtækjum.)

Þýskaland.
    Meginreglan er sú að söluhagnaður af hlutabréfum er ekki skattlagður.
    Einstaklingur sem á meira en 10% í því félagi sem hann selur í, beint eða óbeint, borgar tekjuskatt af þeirri sölu. Þó hefur hann heimild til að draga 20.000 mörk frá fyrstu 80.000 mörkunum og borgar hann engan skatt af söluhagnaði á bilinu 80.000–100.000 mörk. Eftir það er hagnaður skattlagður að fullu sem tekjur. Nýtt ákvæði sem ekki hefur tekið gildi.

Bretland.
    Meginreglan er sú að söluhagnaður er skattlagður sem tekjur ef hagnaðurinn er umfram 7.100 pund. Er söluhagnaður því skattfrjáls ef hann er undir frítekjumarkinu. Söluhagnaður er fundinn út frá uppreiknuðu kaupverði samkvæmt stöðlum skattyfirvalda.