Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 48  —  48. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir,
Svanfríður Jónasdóttir, Jóhann Ársælsson.


1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 4. mgr. og orðast svo:
    Veita ber útlendingi, sem er maki íslensks ríkisborgara, atvinnuleyfi samkvæmt þessari grein.

2. gr.

    Síðari málsliður a-liðar 13. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á 125. löggjafarþingi voru samþykkt lög nr. 41/2000, um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Með 1. gr. þeirra laga var mökum Íslendinga veitt undanþága frá því að þurfa að sækja um atvinnuleyfi. Þrátt fyrir þá réttarbót sem í þessu fólst er staða erlendra maka íslenskra ríkisborgara eftir sem áður sú að ef hjúskap lýkur af einhverjum orsökum stendur erlendi makinn eftir án atvinnuleyfis. Þar sem atvinnuleyfið er háð hjúskap útlendingsins með Íslendingi þarf hann að sækja um atvinnuleyfi eins og hver annar erlendur starfskraftur sem sækir um slíkt leyfi í fyrsta sinn ef hjúskapnum lýkur. Hér er því um nokkurs konar þvingun að ræða sem hefur þau áhrif að útlendingur stendur ekki jafnfætis íslenskum maka sínum og leggur jafnvel ekki út í skilnað af hættu við að missa atvinnuleyfið og verða hugsanlega vísað úr landi. Einnig setur þetta ákvæði útlending í mjög erfiða stöðu við fráfall íslensks maka.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að veita erlendum mökum íslenskra ríkisborgara óbundið atvinnuleyfi í stað þess að þeim verði veitt undanþága sem félli niður við lok hjúskapar. Þannig þarf erlendur maki ekki að uppfylla skilyrðin í 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna um að hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár, að áður hafi verið veitt tímabundið atvinnuleyfi til að ráða hann til vinnu og að hann hafi öðlast ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi. Atvinnuleyfið verður óbundið og ekki háð hjúskap útlendingsins með Íslendingi til frambúðar.
    Jafnframt er lagt til að ákvæðið sem sett var inn í lögin á 125. löggjafarþingi um undanþágu frá því að sækja um atvinnuleyfi verði fellt brott þar sem það verður óþarft nái frumvarpið fram að ganga.