Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 51  —  51. mál.




Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl.

Frá Guðrúnu Ögmundsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur,


Jóhanni Ársælssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Kristjáni L. Möller,


Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með:
     a.      klámi,
     b.      vændi,
     c.      fylgdarþjónustu,
     d.      símavændi,
     e.      klámi á netinu.

Greinargerð.


    Beiðni þessi var lögð fram á síðasta löggjafarþingi og er nú endurflutt.
    Mikilvægt er að skoða hvernig þau lönd sem næst okkur standa haga löggjöf sinni á þessu sviði, hvernig hún hefur reynst og hvaða breytingum hún hefur tekið á síðustu árum. Við búum að mörgu leyti við gamla löggjöf og getur verið nauðsynlegt að taka hana til endurskoðunar þannig að hún verði í samræmi við þróun þessara mála hér á landi.
    Hliðstæð skýrsla var gerð á vegum umboðsmanns barna, „Heggur sá er hlífa skyldi“, um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum (1997). Þar er gerður samanburður á ýmsum lagabálkum á Norðurlöndum og gerð grein fyrir hvaða breytinga er þörf í íslenskri löggjöf í þeim málum. Skýrsla þessi hefur verið ómetanleg í allri vinnu barnaverndarnefnda og þeirra sem sinna málefnum barna á einhvern hátt.
    Með því að taka saman skýrslu af þeim toga sem hér er farið fram á er hægt að nýta þá þróun sem orðið hefur annars staðar á Norðurlöndum og vinna að endurskoðun og stefnumörkun í þessum málum hér á landi.