Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 75  —  75. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    3. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

2. gr.

    4. gr. laganna, er verður 3. gr., orðast svo:
    Ráðherra skipar forstjóra Landmælinga Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa þekkingu á starfssviði stofnunarinnar og reynslu af stjórnun.
    Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna, er verður 4. gr.:
     a.      4. tölul. orðast svo: Fjarkönnun. Í því felst öflun, úrvinnsla og miðlun gagna á sviði loft- og gervitunglamynda.
     b.      6. tölul. orðast svo: Kortlagning og miðlun upplýsinga um örnefni í samráði við Örnefnastofnun Íslands.
     c.      7. tölul. orðast svo: Skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi sem eru í eigu íslenska ríkisins, þ.m.t. mælingar, punktalýsingar, prentuð kort, stafræn kort, hæðarlíkön, loftmyndir og gervitunglamyndir.
     d.      8. tölul. orðast svo: Önnur verkefni sem tengjast landmælingum og kortagerð eftir því sem ráðherra ákveður í reglugerð.

4. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Ráðherra setur að fengnum tillögum Landmælinga Íslands og að höfðu samráði við Fasteignamat ríkisins reglugerð um vottun mælingamanna sem sjá um að mæla eignamörk landa og lóða. Til að öðlast vottun sem mælingamaður skal viðkomandi hafa mælingafræðilega menntun eða reynslu af störfum við landmælingar. Í reglugerðinni skal kveðið á um menntun, réttindi og skyldur mælingamanna og um eftirlit Landmælinga Íslands með vottun þeirra og störfum.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „5. gr.“ í 6. gr. laganna kemur: 4. gr.

6. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Landmælingar Íslands afla sér tekna á eftirfarandi hátt:
     1.      Með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins.
     2.      Með sölu á sérhæfðri þjónustu á sviði landupplýsinga, loftmynda og fjarkönnunar, landmælinga og kortagerðar sem viðskiptavinir stofnunarinnar óska sérstaklega eftir.
     3.      Með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna, svo sem ljósritunar.
    Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skv. 2. og 3. tölul. skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sem nemur þeim kostnaði. Sé um að ræða gjaldtöku þar sem Landmælingar Íslands eru í samkeppnisrekstri skal stofnunin setja gjaldskrána og gefa hana út.
    Kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands skal að öðru leyti greiðast af framlögum sem ákvörðuð eru í fjárlögum.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, var í fyrsta skipti í íslenskum lögum tekið á málaflokknum í heild. Áður höfðu verið sett lög um starfsemi Landmælinga Íslands og verkefni stofnunarinnar en að öðru leyti var ekki að finna löggjöf um efnið. Í lögunum eru m.a. ákvæði um starfsemi Landmælinga Íslands, um hlutverk stofnunarinnar í tengslum við höfunda- og afnotarétt, miðlun upplýsinga og aðgang að gögnum í vörslu stofnunarinnar og um fjármögnun starfseminnar. Frá því að lögin öðluðust gildi 1. júlí 1997 hefur mikið vatn runnið til sjávar í tengslum við starfsemi Landmælinga Íslands. Stofnunin hefur verið flutt um set og henni verið sett sérstök stefnuskrá sem stjórn stofnunarinnar samþykkti 1998 og hefur uppbygging stofnunarinnar verið hröð. Helstu verkefni stofnunarinnar á næstu árum tengjast landmælingum og stafrænni kortagerð í mælikvarðanum 1:50.000 auk þess sem stofnuninni hefur verið falið að byggja upp fjarkönnunarstarfsemi.
    Landmælingar á vegum stofnunarinnar höfðu legið niðri um árabil, enda starfaði þar enginn með menntun á því sviði. Til stofnunarinnar hafa verið ráðnir landmælingaverkfræðingar til að sinna landmælingum. Ríkisstjórnin ákvað árið 1999 að á næstu fjórum árum yrði unninn stafrænn kortagrunnur af Íslandi í mælikvarðanum 1:50.000 sem er viðamikið og fjárfrekt verkefni. Auk þess var ákveðið í tengslum við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2000 að stofnunin byggði upp þjónustu á sviði fjarkönnunar í samráði við hlutaðeigandi stofnanir og samtök. Með fjarkönnun er átt við mælingar á rafgeislun frá lofthjúpi og yfirborði jarðar, annaðhvort úr flugvélum eða gervitunglum, úrvinnslu mæligagna og myndræna framsetningu þeirra.
    Verkefni sem tengjast fyrirhugaðri Landskrá fasteigna hafa verið til umfjöllunar hjá hlutaðeigandi ráðuneytum en henni er ætlað að vera samhæft gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Með endurskoðun á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, og lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, var lagður grunnur að Landskrá fasteigna. Tilgangur laga um skráningu og mat fasteigna er m.a. að leggja fyrsta grunn að skráningu eignamarka lands á tölvutæku formi sem nýtist t.d. til rekstrar landupplýsingakerfa.
    Komið hefur fram að nauðsynlegt sé að fagaðili hafi umsjón með vottun mælingamanna sem sjái um að mæla eignamörk landa og lóða. Landmælingar Íslands eru best til þess fallnar að sinna þessu verkefni vegna þess hlutverks sem stofnuninni hefur verið falið lögum samkvæmt en stofnuninni er ætlað að sjá um gerð leiðbeininga um landmælingar og kortagerð og notkun staðla á því sviði.
    Lagt er til að stjórn Landmælinga Íslands verði lögð niður og að forstjóri stofnunarinnar fari með stjórn hennar og beri þær skyldur sem stjórn stofnunarinnar hefur haft samkvæmt gildandi lögum. Forstjóri ber eftir sem áður ábyrgð gagnvart ráðherra.
    Að lokum þarf að gera fjármögnunarleiðir stofnunarinnar skýrari og eru lagðar til nokkrar breytingar sem ætlað er að styrkja starfsemi Landmælinga Íslands til að takast á við þau verkefni sem stofnuninni er falið að sinna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með gildistöku laga nr. 95/1997 var sett þriggja manna stjórn yfir Landmælingar Íslands sem skipuð var af ráðherra. Í 3. gr. gildandi laga segir að hlutverk stjórnarinnar sé að móta stefnu stofnunarinnar og hafa eftirlit með því að hún gegni hlutverki sínu í samræmi við markmið laganna. Jafnframt ber stjórninni skv. 4. gr. laganna að gera tillögu til ráðherra um forstjóra Landmælinga Íslands.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til á stjórn stofnunarinnar eru í samræmi við stefnu umhverfisráðuneytisins varðandi rekstur stofnana þess. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið unnið markvisst að því að undirstrika ábyrgð forstöðumanna gagnvart ráðherra þannig að forstjórum stofnana sem heyra undir ráðuneytið hefur verið falin sú ábyrgð sem stjórnir viðkomandi stofnana höfðu áður. Sem dæmi má nefna að með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, var stjórn Hollustuverndar ríkisins lögð niður en hún hafði æðsta vald í málefnum stofnunarinnar og var forstjóra falið það vald sem stjórnin hafði haft og með lögum nr. 169/1998, um breytingu á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, var stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands lögð niður og forstjóra fengin þau verkefni sem henni höfðu verið falin.

Um 2. gr.


    Þar sem í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ekki verði starfandi stjórn yfir stofnuninni er það hlutverk hennar að gera tillögur til ráðherra um skipan forstjóra ekki lengur fyrir hendi. Lagðar eru til breytingar á greininni til samræmis við þetta.

Um 3. gr.


    Í 5. gr. laganna er fjallað um verkefni Landmælinga Íslands og er gerð tillaga um breytingar á henni sem hér segir:
    Í a-lið er að finna nýmæli en lagt er til að eitt af verkefnum Landmælinga Íslands verði fjarkönnun og skilgreint hvað felst í því, þ.e. öflun, úrvinnsla og miðlun gagna á sviði loft- og gervitunglamynda af landinu. Með fjarkönnun er átt við mælingu á rafsegulgeislun frá lofthjúpi og yfirborði jarðar annaðhvort úr flugvélum eða gervitunglum, úrvinnslu mæligagna og myndræna framsetningu þeirra. Í fjárlögum fyrir árið 2000 var samþykkt að veita 4,5 millj. kr. til Landmælinga Íslands vegna fjarkönnunar og hefur nú þegar verið ráðið í eina stöðu hjá stofnuninni til að sinna þessu verkefni. Við starf Landmælinga Íslands sem tengist fjarkönnun ber stofnuninni að hafa samráð við hlutaðeigandi opinbera aðila sem að þessum málum koma í samræmi við tillögur stjórnskipaðrar nefndar um framkvæmd fjarkönnunar sem skilað var til umhverfisráðherra 1997. Stofnunin mundi fyrst og fremst sinna því hlutverki að vera sameiginlegur vettvangur ríkisstofnana og sveitarfélaga sem nota eða hyggjast nota fjarkönnunargögn og hefði að leiðarljósi að stuðla að umhverfisvöktun með reglubundinni loftmyndatöku og notkun gervitunglagagna.
    Í b-lið er lagt til að það sé ekki eingöngu hlutverk Landmælinga Íslands að annast kortlagningu örnefna heldur og að miðla upplýsingum um þau og að það sé gert í samráði við Örnefnastofnun Íslands sem starfar á vegum menntamálaráðuneytisins í samræmi við lög nr. 14/1998, um Örnefnastofnun Íslands.
    Í c-lið er að finna það nýmæli að skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi sem eru í eigu íslenska ríksins verði eitt af verkefnum Landmælinga Íslands. Hér er fyrst og fremst átt við mælingar, punktlýsingar, prentuð kort, stafræn kort, hæðarlíkön, loftmyndir og gervitunglamyndir. Mikilvægt er að skráning og miðlun þessara upplýsinga sé á einni hendi svo að þær séu aðgengilegri fyrir notendur og fer vel á því að Landmælingum Íslands verði falið það hlutverk. Þau gögn sem hér um ræðir er að finna hjá mörgum aðilum, svo sem Landsvirkjun, Náttúrurfræðistofnun Íslands og Vegagerðinni, og hafa Landmælingar Íslands, í samvinnu við LÍSU — Samtök um samræmd landfræðileg upplýsingakerfi á Íslandi, þegar hafið slíka skráningu og miðlun upplýsinga á vefnum. Hlutverk Landmælinga Íslands er því að veita upplýsingar um hvar framangreind gögn er að finna og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um þau. Slíkar upplýsingar eru veittar án gjalds enda eingöngu um miðlun upplýsinga að ræða.
    

Um 4. gr.


    Í tengslum við rekstur Landskrár fasteigna er lagt til að mælingamenn sem sjá eiga um mælingar eignamarka landa og lóða fái vottun til að starfa sem mælingamenn. Landmælingamenn skulu hnitasetja eignamörk landa og lóða en fyrirhugað er að allt landið verði hnitasett. Þetta er mjög mikilvægt starf og á að tryggja að upplýsingar um eignamörk landa og lóða sem skráðar verða í Landskrá fasteigna verði réttar. Þetta er nýmæli þar sem engin slík vottun fer fram en mikilvægt er að mælingamenn uppfylli ákveðnar hæfniskröfur.
    Í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Landmælinga Íslands og að höfðu samráði við Fasteignamat ríkisins skal setja ákvæði um menntun, réttindi og skyldur mælingamanna og um eftirlit Landmælinga Íslands með vottun þeirra og störfum. Þar sem lagt er til að Landmælingar Íslands hafi eftirlit með starfsemi mælingamanna og vottun þeirra geta starfsmenn stofnunarinnar ekki tekið að sér störf vegna mælingar eignamarka landa og lóða.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Í greininni er lagt til að ákvæði um fjármögnun Landmælinga Íslands verði gerð skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hafi heimild til að taka gjald. Undir efni falla allar upplýsingar, þ.m.t. öll gögn og annað efni frá Landmælingum Íslands sem nýtur höfundaréttar ríkisins, sbr. skilgreiningu í 2. gr. gjaldskrár Landmælinga Íslands nr. 323/1999. Heimilt er að taka gjald fyrir afnot af gögnum í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins, svo sem kortum og stafrænum upplýsingum sem unnar eru úr upplýsingagrunni stofnunarinnar. Einnig er heimilt að taka gjald fyrir sölu á sérhæfðri þjónustu á sviði landupplýsinga, loftmynda og fjarkönnunar, landmælinga og kortagerðar sem viðskiptavinir óska sérstaklega eftir að fá að nota. Undir slíka þjónustu mundu falla landmælingar, kortagerð og vinnsla gervitunglamynda. Undir gjöld vegna afgreiðslu gagna fellur kostnaður við ljósritun og afritun á segulmiðla, svo og annar sambærilegur kostnaður. Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru svokölluð þjónustugjöld og taka því mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og mega gjöld ekki vera hærri en sem nemur þeim kostnaði. Gjald skv. 1. tölul. er hins vegar ekki þjónustugjald heldur gjald fyrir höfundarétt sem Landmælingum Íslands hefur verið falið að gæta fyrir hönd ríkisins, sbr. 8. gr. gildandi laga. Við slíka gjaldtöku ber að taka mið af því sem greitt er fyrir sambærileg réttindi á almennum markaði. Lagt er til að stofnunin setji sér sjálf gjaldskrá um efni og þjónustu þar sem hún er í samkeppnisrekstri. Ekki er gerð krafa um að ráðherra staðfesti viðkomandi gjaldskrá heldur kæmi það í hlut Landmælinga Íslands gefa hana út. Ekki þykir viðeigandi að samþykki ráðherra þurfi fyrir slíkri gjaldskrá, enda mundi það teljast samkeppnishamlandi. Slíkar gjaldskrár mundu lúta eftirliti samkvæmt samkeppnislögum og lýtur gjaldtaka fyrir samkeppnisrekstur stofnunarinnar sömu lögmálum og tíðkast vegna sambærilegar starfsemi á markaði. Þær gjaldskrár sem Landmælingar Íslands gefa út þarf ekki að birta í B-deild Stjórnartíðinda, enda tíðkast það ekki hjá samkeppnisaðilum stofnunarinnar.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina betur starfssvið Landmælinga Íslands og kveða á um ný verkefni sem stofnuninni verða falin varðandi fjarkönnun og skráningu og miðlun upplýsinga um landafræðileg gagnasöfn.
    Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er áætlað að fyrstu tvö árin muni kostnaður ríkissjóð nema 6 m.kr., en eftir það muni framkvæmdin kosta 3 m.kr. Kostnaður af uppbyggingu fjarkönnunar er áætlaður 3 m.kr. í tvö ár og af auknu vinnuframlagi við skráningu og miðlun upplýsinga sem er talið hálft stöðugildi. Einnig munu Landmælingar Íslands hafa eftirlit með vottun mælingamanna og starfsemi þeirra, og er sá kostnaður um 1 m.kr. á ári. Á móti kemur að stjórn stofnunarinnar er lögð niður og sparast því árlega um 0,5 m.kr.