Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 90  —  90. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á fyrri málsgrein 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sbr. lög nr. 19/1989“ í d-lið kemur: sbr. lög nr. 123/1993.
     b.      Orðin „eða hærri fjárhæð en 1.500.000 kr.“ í e-lið falla brott.
     c.      F-liður orðast svo: Lánssamningar sem Íbúðalánasjóður gerir eða aðrir sambærilegir fasteignaveðlánasamningar sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis.
     d.      G- og h-liður falla brott.

2. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Á starfsstöð lánveitanda, svo og í auglýsingum og tilboðum, er skylt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar við lánssamninga sem lög þessi taka til. Ef lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal einnig gefa upp staðgreiðsluverð hins selda. Um framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt þessari grein skal nánar mælt fyrir í reglugerð er ráðherra setur.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 28. gr., svohljóðandi:
    Lög þessi eru sett í samræmi við ákvæði í XIX. viðauka EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins nr. 102 frá 22. desember 1986, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, ásamt síðari breytingum.

4 . gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í viðskiptaráðuneytinu og miðar að því að gera nokkrar breytingar á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, á grundvelli fenginnar reynslu af lögunum. Frá því að lögin voru sett fyrir sex árum hefur framboð á lánum til neytenda farið vaxandi. Jafnframt hefur heildarfjárhæð einstakra lána til neytenda hækkað. Af þeirri ástæðu þykir nú nauðsynlegt að fella brott það ákvæði laganna sem kveður á um að ekki sé skylt að veita þær upplýsingar sem lögin kveða á um fari lánsfjárhæð yfir 1.500.000 kr., sbr. e-lið 2. gr. laganna. Með aukinni tölvuvæðingu hefur einnig orðið einfaldara og aðgengilegra fyrir alla seljendur vöru og þjónustu að veita nákvæmar upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar sem kveðið er á um í lögunum. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar smávægilegar breytingar sem eru til þess fallnar að styrkja framkvæmd laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, felldu úr gildi lög nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi. Í a-lið greinarinnar er því lagt til að tilvísunum verði breytt til samræmis við það. Í b-lið greinarinnar er lagt til að fellt verði á brott ákvæði sem undanþiggur lánveitanda frá upplýsingaskyldu þeirri sem í lögunum felst ef lánsfjárhæðin er hærri en 1.500.000 kr. Ljóst er að lánsfjárhæðir til neytenda yfir þessum mörkum eru orðnar mjög algengar og mikilvægt að þau atriði sem lögin kveða á um taki jafnt til lána óháð fjárhæð þeirra. Í dönskum lögum um sama efni eru ekki sett nein hámörk hvað þetta varðar og hefur það reynst vel. Í Svíþjóð er ekki heldur nein hámörk að finna í lögum um þetta efni. Í d-lið er lagt til að fellt verði brott ákvæði sem undanþiggur ákvæðum laganna lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar af tékkareikningum. Ljóst er að slíkir samningar eru nú orðnir mun algengari en áður og mikilvægt að neytendur fái upplýsingar í samræmi við lögin um hlutfallslegan kostnað við slíkar lántökur. Jafnframt er í 2. gr. frumvarpsins að finna heimild til þess að setja nánari reglur með reglugerð um framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt lögunum. Í þeirri reglugerð verði að finna ákvæði sem kveða nánar á um framkvæmd við veitingu upplýsinga samkvæmt lögunum en að öðru leyti vísast til athugasemda við þá grein um það efni.

Um 2. gr.


    Hér eru lagðar til lagfæringar á orðalagi 13. gr. laganna og auk þess er bætt við heimild til ráðherra að setja nánari reglur í reglugerð um upplýsingaskyldu þeirra sem veita neytendalán og falla undir ákvæði laganna. Í Danmörku hefur verið farin sú leið að setja skýrar reglur um hvernig upplýsingaskyldu samkvæmt lögunum sé fullnægt, t.d. á starfsstöð seljenda vöru eða þjónustu. Í reglugerð sem sett yrði á grundvelli ákvæðisins væru því settar nánari reglur um framkvæmdaatriði við veitingu upplýsinga til neytenda um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þannig yrði t.d. seljendum vöru ekki gert skylt að setja upp skilti við hverja vörutegund sem þeir bjóða til sölu. Skyldan tæki aðeins til þess að þeim bæri að gefa upp dæmi um lán sem neytendum stæðu til boða við kaup á vörum eða þjónustu í viðkomandi verslun. Í auglýsingum eða sölubæklingum þar sem auglýst eru ákveðin tilboð er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að taka fram hina árlegu hlutfallstölu kostnaðar. Framangreindar breytingar miða því að því að gera ákvæði laganna virkari í reynd þannig að neytendur hafi ávallt aðgang að þeim upplýsingum sem kveðið er á um í lögunum. Við kaup á vörum og þjónustu leggja neytendur ávallt mat á verð og gæði þess sem keypt er. Auk þess er mikilvægt við það mat að þeir hafi greinargóðar upplýsingar um allan kostnað við lántöku þegar um er að ræða kaup með greiðslufresti og ákvæði þessara laga eiga við. Ráðuneytið telur að með framangreindum breytingum kunni samkeppni auk þess að verða virkari en verið hefur þegar veitt eru lán er lög þessi taka til og notkun hinnar árlegu hlutfallstölu kostnaðar í viðskiptalífinu muni aukast.

Um 3. gr.


    Þegar innleidd eru í íslenskan rétt ákvæði tilskipana skal koma fram í lögunum tilvísun til þeirrar tilskipunar sem lagasetningin tekur mið af. Rétt þykir nú þegar frumvarp er flutt um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, að bæta slíkri tilvísun í lögin, enda er það afar gagnlegt fyrir almenning, svo og aðra sem þurfa að vinna eftir lögunum, að hafa slíkar upplýsingar í texta laganna. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á
lögum nr. 121/1994, um neytendalán.

    Frumvarpið er sett fram í þeim tilgangi að auðvelda framkvæmd laganna og auka upplýsingaskyldu seljenda um neytendalán í því skyni að auka samkeppni á þessum sviði. Frumvarpið er ekki talið hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.