Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 102  —  102. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta Möller, Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson,


Guðmundur Hallvarðsson, Katrín Fjeldsted.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
       a.      A-liður 1. mgr. orðast svo: hafa verið búsettir á Íslandi í a.m.k. þrjú almanaksár eftir 16 ára aldur, þar af a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en umsókn er lögð fram.
       b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo: Þeir sem eru á aldrinum 16–18 ára og uppfylla því ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. eiga rétt til örorkulífeyris hafi þeir verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 12. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að rétt til örorkulífeyris hafi þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi og eru á aldrinum 16 til 67 ára. Jafnframt er gert að skilyrði að viðkomandi hafi verið búsettur á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir settust hér að. Þá verður viðkomandi að vera metinn til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.
    Þeir sem hafa búið í löndum Evrópska efnahagssvæðisins flytja réttindi sín milli landa í samræmi við milliríkjasamninga. Skilyrðið um þriggja ára búsetu á Íslandi á því við um þá sem hafa verið búsettir í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru öryrkjar þegar þeir flytjast til landsins, en miðað er við sex mánuði ef starfsorka þeirra er óskert er þeir tóku sér búsetu hér á landi.
    Til samanburðar má nefna að skv. 11. gr. laganna, sbr. I. kafla A laganna, hafa rétt til ellilífeyris þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi a.m.k. í þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur réttur miðast við 40 ára búsetu hér á landi á þessu aldursbili en skerðist í hlutfalli við skemmra búsetutímabil.
    Samkvæmt lögum nr. 40/1963, um almannatryggingar, var það skilyrði fyrir rétti til örorkubóta að viðkomandi væri íslenskur ríkisborgari og hefði haft hér lögheimili í a.m.k. tíu ár eftir 16 ára aldur eða fimm síðustu árin áður en umsókn var lögð fram. Lögheimilisreglan gilti þó ekki ef viðkomandi hafði óskerta starfsorku þegar hann eignaðist hér lögheimili. Jafnframt var tryggingaráði heimilt að að víkja frá tímaákvæðunum ef sérstaklega stóð á. Með lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, sem tóku við af lögum nr. 40/1963, var skilyrðið um íslenskan ríkisborgararétt fellt brott en í stað þess gerð krafa um að viðkomandi hefði átt lögheimili á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða haft óskerta starfsorku er hann eignaðist hér lögheimili. Í greinargerð með frumvarpinu segir það eitt um breytinguna að hún sé æskileg vegna þess að hún auðveldi Íslendingum samskipti við aðrar þjóðir í tryggingamálum. Í frumvarpi til gildandi laga um almannatryggingar var ákvæðið tekið óbreytt upp að því undanskildu að lagt var til að sett yrði skilyrði um eins árs lögheimili hér á landi með óskerta starfsorku. Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis lagði til breytingu á biðtímanum úr einu ári í sex mánuði á grundvelli sanngirnissjónarmiða og var greinin samþykkt þannig. Í nefndaráliti kemur fram sú skoðun að nefndin telji eins árs biðtíma of langan, t.d. þegar Íslendingur sem lengi hefur verið búsettur erlendis ákveður að flytjast á ný til landsins. Nefndin taldi að sex mánaða biðtími teldist nægjanlega langur til að girða fyrir hugsanlega misnotkun. Með lögum nr. 60/1999, sem breyttu almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð, var ákvæðinu breytt og í stað lögheimilis er nú miðað við búsetu. Var talið að ekki síst yrði að gera þá breytingu til að tryggja nauðsynlegan sveigjanleika í þeim margvíslegu tilvikum sem upp geta komið vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Almannatryggingalöggjöf annars staðar á Norðurlöndum er mismunandi milli landa varðandi rétt til örorkulífeyris.
    Í Danmörku er krafist þriggja ára búsetu milli 15 og 67 ára aldurs, sbr. skilyrði til réttar til ellilífeyris hér á landi. Hins vegar setja Danir sem skilyrði fyrir örorkulífeyri að erlendir ríkisborgarar hafi búið í tíu ár samtals í landinu, þar af fimm síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Taka verður þó tillit til réttar ESB-borgara og EES-samningsins í þessu sambandi.
    Í Finnlandi er skilyrði um þriggja ára búsetu eftir 16 ára aldur.
    Búsetuskilyrði eru einnig í sænskum lögum og er miðað við þriggja ára búsetu í landinu milli 16 og 64 ára aldurs og að viðkomandi sé í launaðri vinnu sem gefur lífeyrisrétt í sænska tryggingakerfinu.
    Í Noregi er lágmarksskilyrði laganna búseta þrjú síðustu árin áður en til örorku kom. Þó getur viðkomandi öðlast rétt til örorkulífeyris eftir ár hafi hann ekki verið lengur en fimm ár utan norska tryggingakerfisins eftir 16 ára aldur. Skilyrðið um þriggja ára búsetu á þó ekki við um þá sem verða öryrkjar fyrir 26 ára aldur, né tekur það til réttar til grunntryggingar o.fl.
    Af framangreindu má sjá að öryrki sem flyst til landsins frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur í ýmsu lakari rétt hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Í Noregi eru skilyrði einna líkust ákvæðum í íslenskri löggjöf, en þó er réttur viðkomandi betri, því að sá sem hefur verið utan norska tryggingakerfisins skemur en fimm ár eða verður öryrki fyrir 26 ára aldur hefur óskertan rétt. Þá hafa öryrkjar sem uppfylla ekki þriggja ára skilyrðið ákveðinn grunnrétt sem tryggir þeim tiltekinn fjárhagslegan stuðning þar til fullum rétti er náð.
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hefur einungis í örfá skipti reynt á ákvæði 12. gr. laga um almannatryggingar um búsetutíma þeirra sem eru öryrkjar þegar þeir flytjast til landsins. Hins vegar eru mjög erfið þau tilvik þegar viðkomandi þarf að bíða í þrjú ár eftir að öðlast rétt til örorkulífeyris. Eðli málsins samkvæmt getur viðkomandi ekki framfleytt sér með launaðri vinnu og þarf því fjárhagslega hjálp frá samfélaginu á þessu tímabili. Ákvæðið um að öryrki þurfi að eiga búsetu hér í þrjú ár eftir heimkomu frá ríki utan EES áður en hann öðlast rétt til örorkulífeyris er nú orðið um þriggja áratuga gamalt. Áður var ríkisborgararéttur skilyrði fyrir slíkum rétti. Þegar ákvæðið var sett var það til samræmis við reglur þeirra þjóða sem Íslendingar hafa mest samskipti við en slíkt samræmi er ekki lengur til staðar. Einnig er líklegt að hugsanleg misnotkun á almannatryggingakerfinu hafi haft áhrif á breytinguna. Reynslan sýnir að tilvik sem ákvæðið tekur til eru ekki þess eðlis eða í þeim mæli að hætta sé á misnotkun. Hið sama á við þó að til framkvæmda komi breytingin sem hér er lögð til, þ.e. að viðkomandi hafi verið búsettur á Íslandi í a.m.k. þrjú almanaksár eftir 16 ára aldur og að tilskilin verði sex mánaða búseta áður en umsókn er lögð fram í stað þriggja ára eins og nú er. Ljóst er að þessi breyting mun ekki varða marga einstaklinga en hún getur hins vegar stytt biðtíma viðkomandi til réttar til örorkulífeyris frá því sem nú er.
    Þegar hugað var að breytingu á þessu ákvæði almannatryggingalaga var ákveðið að fara þá leið sem farin er annars staðar á Norðurlöndum og setja skilyrði um þriggja ára búsetu í landinu á tímabilinu frá 15/16 ára aldri til 64/67 ára aldurs, sbr. skilyrði fyrir ellilífeyri og skilyrði laganna fyrir örorkulífeyri eins og þau eru núna. Ætla má að flestir Íslendingar sem á annað borð kjósa að snúa aftur til landsins og njóta réttinda sem fullgildir borgarar þess á ný uppfylli það skilyrði. Telja má einnig að það sé nægilega langur tími til koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun annarra er vildu nýta sér þetta ákvæði. Þá þykir flutningsmönnum rétt að miða við að viðkomandi hafi búið a.m.k. sex mánuði hér á landi áður en umsókn er lögð fram og er það í samræmi við önnur ákvæði í lögum, sbr. rétt til sjúkratrygginga sem fæst eftir sex mánaða búsetu, sbr. 32. gr. laga um almannatryggingar. Í núgildandi lögum hafa þeir sem eru á aldrinum 16–18 ára fullan rétt til örorkulífeyris. Til að tryggja rétt þeirra til lífeyris er lagt til að um þessa einstaklinga gildi sú regla að þeir hafi búið á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn um örorkulífeyri er lögð fram.
    Grundvallarhugmynd almannatryggingalaga er samhjálp og aðstoð við þá sem hafa farið halloka í lífinu og hafa ekki tækifæri til að nýta hæfileika sína til fullnustu sökum heilsubrests, skertrar hæfni til að ná fullum þroska eða vegna fátæktar. Verði þessi breyting á 12. gr. laga um almannatryggingar samþykkt er þeim sem ákvæðið nær til gefnir auknir möguleikar á að spjara sig þrátt fyrir fötlun sína.