Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 106  —  106. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðarleikvanga.

Flm.: Páll Magnússon.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir setningu laga um byggingu þjóðarleikvanga.

Greinargerð.


    Í desember árið 1997 skilaði nefnd, sem menntamálaráðherra hafði skipað, af sér tillögum. Nefnd þessi var skipuð á grundvelli samþykktar Alþingis þess efnis að ríkisstjórnin skipaði sjö manna nefnd sem m.a. hefði það hlutverk að gera tillögur um að efla íþróttahreyfinguna og efla árangur íslensks afreksfólks á alþjóðavettvangi. Ein helsta niðurstaða nefndarinnar varð þessi: „Í öðru lagi þarf að vera til staðar öflug afreksmannastefna með þátttöku ríkisins til að skapa þá umgjörð sem þarf fyrir afreksíþróttafólk í landinu. Mikilvægt er að ríkið komi aftur inn í mannvirkjaþáttinn með því að styrkja sveitarfélög og sérsambönd í byggingu þjóðarleikvanga. Skilgreining nefndar á orðinu þjóðarleikvangur er eftirfarandi: „Þjóðarleikvangur er íþróttaaðstaða sem tengist sérstaklega ákveðinni íþróttagrein. Hér er um íþróttamannvirki að ræða, sem þegar er til staðar eða á eftir að reisa. Hver íþróttagrein sem hér á landi er stunduð fær því „fastan samastað“ eða þjóðarleikvang. Einkenni þessa staðar væri, að þar væru fullkomnar aðstæður til keppni og æfinga viðkomandi greinar. Hér er því um löglegar aðstæður að ræða sem nota má til keppni á landsmótum eða mótum landa á milli, Evrópukeppni, heimsmeistarakeppni o.s.frv.““
    Nefndin gerir því tillögu um að ríkið taki þátt í byggingu þjóðarleikvanga í ýmsum íþróttagreinum. Um yrði að ræða samstarfsverkefni íþróttahreyfingarinnar, sveitarfélaga og ríkissjóðs. Markmiðið væri að hver íþróttagrein eignaðist a.m.k. einn þjóðarleikvang með fullkominni aðstöðu. Þessi tillaga nefndarinnar er ein af nokkrum sem nefndin setur fram til eflingar árangurs íslensks afreksfólks á alþjóðavettvangi.
    Í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn um þetta efni á 125. löggjafarþingi 1999–2000 (þskj. 294–154. mál) kom fram að tillögur nefndarinnar um þjóðarleikvanga hafa fengið umsögn íþróttanefndar ríkisins, sem ekki virðist gera beinar tillögur um útfærslu þeirra. Í svari menntamálaráðherra kemur einnig fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um sérstakar fjárveitingar til nýrra þjóðarleikvanga.
    Það yrði íþróttastarfi í landinu mikil lyftistöng ef tillögur nefndar um eflingu íþróttastarfs er varða byggingu þjóðarleikvanga næðu fram að ganga. Víst má telja að þátttaka ríkisins í byggingu þeirra mannvirkja myndi ráða miklu um það hvort sveitarfélög treystu sér til að reisa mannvirki, sem uppfylltu alþjóðakröfur einstakra og ólíkra íþróttagreina. Því er lagt til með þessari þingsályktun að menntamálaráðherra verði falið að hrinda í framkvæmd hugmyndum nefndar um eflingu íþróttastarfs, frá árinu 1997, er varða byggingu þjóðarleikvanga.


Prentað upp.