Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 118  —  118. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Heimilt er að skrá kaupskip þurrleiguskráningu þegar aðilar skv. 1. mgr. hafa aðeins umráð skipsins með samningi og skilyrðum 1. mgr. um eignarhald er ekki fullnægt. Heimilt er að skrá skip með slíkum hætti til allt að fimm ára og framlengja skráningu í framhaldi af því um eitt ár í senn. Áður en óskað er slíkrar skráningar skal leggja fram upplýsingar um skipið, skráðan eiganda í frumskráningarríki og fulltrúa hans, leigutaka og leigutíma, ásamt upplýsingum um hvar skipið er frumskráð og kenninúmer skipsins (IMO-númer). Með umsókn um þurrleiguskráningu skal fylgja afrit þurrleigusamnings á íslensku eða ensku, staðfesting frá skipaskrá frumskráningarríkis um að skipið megi sigla undir fána annars ríkis á leigutímanum og útskrift úr skipaskrá frumskráningarríkis sem sýnir hver er skráður eigandi skipsins. Skip sem skráð er þurrleiguskráningu skal sigla undir íslenskum fána og skal uppfylla ákvæði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum, þ.m.t. ákvæði um búnað skipa og mönnun þeirra. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð í frumskráningarríki. Skip skráð þurrleiguskráningu skal afmáð af skipaskrá þegar:
     a.      þurrleigusamningur fellur úr gildi;
     b.      skilyrðum skráningar er ekki lengur fullnægt;
     c.      leigutaki óskar afskráningar;
     d.      skip hefur ekki lengur heimild frumskráningarríkis til að sigla undir fána annars ríkis og
     e.      2.–5. tölul. 15. gr. á við um skipið.
    Heimilt er að skrá kaupskip sem frumskráð er á íslenska skipaskrá þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá þegar skilyrðum 1. mgr. um eignarhald er fullnægt. Siglingastofnun er þó heimilt að ákveða að heimild þessi sé bundin við skipaskrár tiltekinna ríkja. Heimilt er að skrá skip með slíkum hætti til allt að fimm ára og framlengja skráningu í framhaldi af því um eitt ár í senn. Áður en óskað er slíkrar skráningar skal leggja fram upplýsingar um leigutaka og fulltrúa hans, ásamt upplýsingum um hvar eigi að skrá skipið þurrleiguskráningu. Með umsókn um slíka skráningu skal fylgja afrit þurrleigusamnings á íslensku eða ensku, staðfesting frá erlendri skipaskrá um að heimilt sé að skrá skipið þar þurrleiguskráningu og skriflegt samþykki frá veðhöfum um að skipið megi sigla undir erlendum fána. Skip, sem frumskráð er á íslenska skipaskrá og þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá, siglir undir fána erlenda ríkisins og skal fylgja ákvæðum laga og reglna þess ríkis um eftirlit með skipum, þ.m.t. ákvæðum um búnað skipa og mönnun þeirra. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð hjá þinglýsingarstjórum hér á landi.

2. gr.


    1. málsl. 10. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Fullt nafn og heimilisfang eigenda eða leigutaka samkvæmt 1. gr.

3. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Heimahöfn skráðs skips skal vera þar sem eigandi eða leigutaki samkvæmt 1. gr. ætlar því heimilisfang.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Tilgangur þess er að rýmka heimildir til að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá. Þegar lög um skráningu skipa voru sett árið 1985 var ákvæði í 2. mgr. 1. gr. laganna sem heimilaði nokkurs konar þurrleiguskráningu. Þetta ákvæði var fellt brott með 24. gr. laga nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl. Í lögskýringargögnum verður hins vegar ekki á nokkurn hátt séð að það hafi verið vilji löggjafans eða að þar væri greint á nokkurn hátt frá því hver tilgangur þess væri. Því verður að ætla að mistök hafi orðið við framlagningu frumvarps sem varð að lögum nr. 23/1991 þegar litið er til þess að óbreytt standa ákvæði í 10. tölul. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, sem vísa til „leigutaka samkvæmt 2. mgr. 1. gr.“. 2. og 3. mgr. 1. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, voru svohljóðandi:
    „Samgönguráðherra er heimilt að leyfa þegar sérstakar ástæður mæla með því að kaupskip, sem íslensk útgerð rekur samkvæmt samningi, megi skrá hér á landi, enda þótt skilyrðum þeim um eignarhald, sem um getur í 1. mgr., sé ekki fullnægt.
    Skilyrði leyfisveitingar eru:
     a.      Að útgerð skips hafi lögheimili og varnarþing hér á landi.
     b.      Að skip uppfylli ákvæði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum.
     c.      Að áhöfn skips sé íslensk. Veita má undanþágu frá skilyrði þessa stafliðar enda liggi fyrir samþykki viðkomandi samtaka sjómanna.
     d.      Að skip hafi verið fellt af skipaskrá fyrra skráningarlands.
     e.      Að veðbönd, sem hvíla á skipi þegar skráning þess fer fram hérlendis eða stofnast í því eftir að það er skráð, séu skráð hjá viðkomandi þinglýsingarstjórum hér á landi.“
    Samkvæmt 1. gr. gildandi laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum, er það skilyrði skráningar skips á íslenska skipaskrá að það sé í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskra lögaðila sem eiga heimili hér á landi. Ríkisborgarar á Evrópska efnahagssvæðinu hafa sama rétt að þessu leyti.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá þegar skilyrðum 1. mgr. um eignarhald er ekki fullnægt og aðilar skv. 1. mgr. hafa aðeins umráð skipsins með þurrleigusamningi, þ.e. þegar gerður er samningur um leigu á skipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja. Tekið hefur verið mið af ákvæðum danskra laga sem fjalla um skráningu kaupskipa.
    Annars vegar er um að ræða þurrleiguskráningu á íslenska skipaskrá og skipið er þá frumskráð erlendis, sbr. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, og hins vegar að skip sé frumskráð á íslenska skipaskrá og þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá, sbr. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í fyrra tilvikinu er skipið áfram skráð á erlenda skipaskrá, þ.e. í heimalandi eiganda skipsins eða leigusalans. Hafi eigandinn veðsett skipið með samningsveðum er haldið utan um þau í landi eigandans. Leigutaki tekur þá við skipinu og þurrleiguskráir það á íslenska skipaskrá. Við það færist skipið undir íslenska lögsögu og íslensk lög gilda um allan rekstur skipsins, þ.m.t. um öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi, og það siglir undir íslenskum fána. Farið er með skipið eins og það sé eign leigutaka að því er sjóveð varðar. Leigusali og samningsveðhafar taka því nokkra áhættu varðandi sjóveð. Safni skipið t.d. hafnagjöldum á Íslandi er sú hætta ávallt fyrir hendi fyrir leigusala og samningsveðhafa að skipið verði boðið upp til fullnustu sjóveðskrafna. Leigutaki hefur hins vegar hagsmuni af því að gæta þess að ekki hvíli sjóveðskrafa á skipinu áður en hann tekur við því til þurrleiguskráningar á Íslandi.
    Í seinna tilvikinu er skipið áfram frumskráð hér á landi og eigendum þess gefinn kostur á að leigja skipið til erlendra aðila og að það verði þurrleiguskráð erlendis. Þá gilda lög hins erlenda ríkis um allan rekstur skipsins og það siglir undir fána þess ríkis. Hins vegar verða veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti áfram skráð hjá þinglýsingarstjórum hér á landi.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa,
nr. 115/1985, með síðari breytingum.

    Tilgangur með frumvarpinu er að rýmka heimildir til að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá. Samkvæmt núgildandi lögum er það skilyrði fyrir skráningu skips að það sé í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskra lögaðila sem eiga hér heimili. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá þegar aðilar hafa skipið aðeins á leigu, þ.e. þegar gerður er samningur um leigu á kaupskipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.