Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 119  —  119. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Telji Fiskistofa að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess. Þegar veiðieftirlitsmaður hefur verið um borð í skipi í sjö daga skal Fiskistofa ákveða hvort veiðieftirlitsmaður verði áfram um borð í því. Skal útgerð skipsins tilkynnt ákvörðun Fiskistofu. Verði eftirlitsmaður áfram um borð í skipinu skal útgerð skipsins greiða allan kostnað, þar með talinn launakostnað, af veru hans um borð frá og með áttunda degi.


2. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er leitað nýrra leiða til að kanna brottkast á afla og jafnframt til að koma í veg fyrir það. Er lagt til að Fiskistofa nýti upplýsingar um landaðan afla til að hafa eftirlit með ákveðnum fiskiskipum og jafnframt er lagt til að útgerð skips standi straum af kostnaði við eftirlit í ákveðnum tilvikum. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, segir að skylt sé að hirða og koma með allan afla að landi. Fiskistofa hefur eftirlit með því að þessu ákvæði sé fylgt og hefur í sinni þjónustu veiðieftirlitsmenn sem m.a. fara í veiðiferðir með fiskiskipum. Slíku veiðieftirliti verður ekki við komið nema í litlum hluta fiskiskipaflotans hverju sinni. Nauðsynlegt er að unnt sé að beina eftirlitinu þangað sem mest þörf er fyrir það hverju sinni. Ástæðan fyrir brottkasti er sú að fyrirtæki eða áhöfn telja ekki fjárhagslega hagkvæmt að koma með tiltekinn afla að landi. Hér getur verið um að ræða verðlítinn fisk eða fisk sem hlutaðeigandi telur óhagkvæmt að hirða vegna aflaheimildastöðu skipsins. Samkvæmt gildandi reglum er allur afli sundurgreindur og veginn eftir tegundum við löndun. Í undirbúningi eru nú reglur sem eiga að tryggja að upplýsingar liggi fyrir um stærðardreifingu fisks við löndun. Liggi fyrir að afli skips sé frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar setur Fiskistofa eftirlitsmann um borð í skipið. Fyrstu sjö dagana er hann um borð í skipinu á kostnað Fiskistofu og að jafnaði ætti sá tími að duga til að fá skýringu á því hvers vegna afli skipsins var frábrugðinn afla annarra skipa. Telji Fiskistofa hins vegar ástæðu til að fylgjast með veiðum báts lengur greiðir útgerð skipsins allan kostnað við veru eftirlitsmannsins um borð í skipinu frá þeim tíma.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996,
um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila Fiskistofu í ákveðnum tilvikum að setja eftirlitsmenn um borð í skip á kostnað útgerðar. Er miðað við að afli tiltekins skips skeri sig að einhverju leyti úr afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar og því sé ástæða til að ætla að fiski hafi verið hent fyrir borð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þegar veiðieftirlitsmaður hafi verið um borð í skipi í sjö daga skuli Fiskistofa ákveða hvort eftirlitsmaðurinn verði áfram um borð í skipinu og skal þá útgerð greiða kostnað af veru hans frá áttunda degi. Samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, rennur veiðieftirlitsgjald til reksturs veiðieftirlits Fiskistofu og verður kostnaður vegna fyrstu sjö daganna áfram greiddur af veiðieftirlitsgjaldinu.
    Verði frumvarpið að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.