Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 120  —  120. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að veiða umfram aflamark í einstökum botnfisktegundum, enda skerðist aflamark annarra botnfisktegunda hlutfallslega í samræmi við verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald. Heimild þessi takmarkast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks en umframafli í hverri botnfisktegund má þó ekki vera meiri en sem nemur 2% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Heimild þessarar málsgreinar nær þó ekki til veiða umfram aflamark í þorski.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hér er lagt til að þrengd verði nokkuð heimild sú er nefnd hefur verið tegundartilfærsla. Tegundartilfærsla felst í því að heimilt er að veiða yfir aflamarki í tiltekinni tegund botnfisks, enda skerðist aflamark í öðrum tegundum botnfisks hlutfallslega miðað við reiknað verðmæti tegundanna ( þorskígildisstuðla). Heimild þessi til tegundartilfærslu hefur verið óbreytt allt frá 1. janúar 1991 er lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, tóku gildi og miðast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Tilgangurinn með þessu ákvæði var fyrst og fremst að skapa sveigjanleika í kerfinu þannig að síður kæmi til brottkasts þegar fisktegund fengist sem viðkomandi bátur hefði ekki aflamark í. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú að þessi heimild hefur fyrst og fremst verið nýtt til þess að auka afla í eftirsóknarverðari tegundum og draga úr veiði á öðrum. Ef litið er til sex síðustu fiskveiðiára sést að tegundartilfærsla hefur aukið karfaveiðina samtals um tæplega fimmtíu þúsund lestir. Til samanburðar skal nefnt að karfakvóti á yfirstandandi fiskveiðiári er 57 þús. lestir. Hér er því lagt til að sú takmörkun verði sett á heimildina að aldrei verði heimilt að breyta meira en sem nemur 2% af heildarbotnfiskkvótanum í hverria tegund. Með þessu móti væri komið í veg fyrir tegundarbreytingar í þeim mæli sem verið hafa án þess að horfið væri frá upphaflegum tilgangi ákvæðisins.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða.

    Tilgangur frumvarpsins er að þrengja heimild til tegundartilfærslu. Tegundartilfærsla felst í að heimilt er að veiða yfir aflamarki í tiltekinni tegund botnfisks enda skerðist aflamark í öðrum tegundum hlutfallslega miðað við þorskígildisstuðla. Heimild þessi hefur verið 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks, en nú er lagt til að aldrei verði heimilt að breyta meira en sem nemur 2% af heildarbotnfiskkvótanum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.