Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 124 — 124. mál.
Frumvarp til laga
um tímareikning á Íslandi.
Flm.: Vilhjálmur Egilsson, Kristján L. Möller, Jón Kristjánsson,
Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Drífa Hjartardóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Gunnar Birgisson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason.
1. gr.
Í lögum þessum merkir sumartími það tímabil ársins þegar klukkan er færð fram um 60 mínútur frá miðtíma Greenwich.
2. gr.
Sumartími skal hvarvetna á Íslandi hefjast kl. 01.00 að miðtíma Greenwich síðasta sunnudag í mars og ljúka kl. 01.00 að miðtíma Greenwich síðasta sunnudag í október.3. gr.
Utan sumartíma skal hvarvetna á Íslandi telja stundir eftir miðtíma Greenwich.4. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 6/1968, um tímareikning á Íslandi.Greinargerð.
Frumvarp þetta var lagt fram á þremur löggjafarþingum, 120., 122. og 125., en varð ekki útrætt.
Evrópusambandið hefur gefið út tilskipun um samræmdan sumartíma í aðildarríkjunum. Er þar miðað við að sumartími hefjist klukkan eitt eftir miðnætti síðasta sunnudag í marsmánuði og er klukkan þá færð fram um eina klukkustund. Honum ljúki síðan klukkan eitt eftir miðnætti síðasta sunnudag í október þegar klukkan er færð til baka um eina klukkustund.
Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til Evrópuþingsins og ráðherraráðsins frá 25. apríl 1996 er fjallað um áhrif sumartíma, meðal annars á orkunotkun, heilbrigði, vinnuaðstæður og lífsstíl, landbúnað, umhverfisvernd, umferðaröryggi, ferðamennsku og afþreyingariðnað. Athuganir framkvæmdastjórnarinnar leiddu í ljós að engin meiri háttar vandamál væru því samfara að viðhalda sumartíma í Evrópusambandinu þó að til séu þeir sem telja breytingar hafa óþægindi í för með sér.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru í fyrsta lagi hvað snertir orkunotkun að sumartíminn leiðir almennt til nokkurs sparnaðar, í öðru lagi að sumartími og tímabreytingar honum tengdar hafa engin varanleg eða alvarleg áhrif á heilsu manna, í þriðja lagi hefur sumartíminn engin neikvæð áhrif á vinnuaðstæður, í fjórða lagi hvað varðar lífsstíl þá hafa betri birtuskilyrði áhrif á möguleika fólks til að stunda útivist, í fimmta lagi hefur sumartíminn engin neikvæð áhrif á flesta þætti landbúnaðar og í sjötta lagi lagi leiddi rannsókn á umferðaröryggi, sem gerð var í Bretlandi, í ljós að á sumartíma er slysatíðni almennt lægri en á vetrartíma og er það fyrst og fremst rakið til aukinnar birtu á kvöldin. Þá kom og í ljós að aukin birta síðla dags hefur jákvæð áhrif á ferðamannaþjónustu. Þá er í skýrslunni lögð áhersla á samræmingu sumartíma í Evrópusambandinu og bent á að hún sé sérstaklega brýn varðandi samgöngur, fjarskipti og ferðamennsku.
Allar ályktanir sem dregnar verða af skýrslunni benda til þess að kostir þess að viðhalda sumartíma í Evrópusambandinu og nágrannalöndum þess séu yfirgnæfandi.
Algengt er að forráðamenn íslenskra fyrirtækja og aðrir sem þurfa að hafa samskipti við Vestur-Evrópu yfir sumartímann kvarti undan því að samskiptatíminn styttist mjög verulega við að tímamismunurinn eykst úr einni klukkustund í tvær. Mjög erfitt getur verið fyrir fólk að ná saman í síma á þessum tíma. Fullyrða má að mikill tími og fyrirhöfn mundi sparast í viðskiptum við helstu viðskiptalöndin, eins og Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Þýskaland, Belgíu, Holland og Frakkland, ef tímamismunurinn væri ávallt ein klukkustund. Tveir þriðju hlutar vöruútflutnings fara til ríkja ESB og EFTA og þaðan koma um þrír fjórðu af öllum vöruinnflutningi. Jafnframt koma um þrír fjórðu erlendra ferðamanna til Íslands frá þessum ríkjum. Til viðbótar öllum þeim samskiptum sem fylgja viðskiptum með vörur og þjónustu við þessi helstu viðskiptalönd okkar eru margvísleg önnur samskipti við þau, m.a. á sviði menningarmála. Eins tíma munur allt árið milli Íslands og meginlands Evrópu gerir samskiptin auðveldari og markvissari sem hefur afar mikla þýðingu fyrir alla sem að þeim koma.
Einnig er mikilvægt fyrir flugsamgöngur milli Íslands og Evrópu að hér á landi verði tekinn upp sumartími til samræmis við önnur Evrópulönd. Þá þarf ekki að breyta flugáætlunum þegar tímabreytingar verða en því fylgir jafnan töluverð fyrirhöfn og kostnaður. Enn fremur leiðir sumartími til þess að flug til Evrópu frá Keflavíkurflugvelli klukkan sjö á morgnana yrði einum tíma síðar eins og á vetrum. Þetta kemur sér vel fyrir farþega í morgunflugi til Evrópu en nú er algengt umkvörtunarefni hversu snemma brottfarir eru enda skapar það oft óþægindi fyrir farþega. Ekki er óeðlilegt að ætla að farþegar í Reykjavík þurfi að fara á fætur tveimur og hálfum til þremur tímum fyrir brottför frá Keflavík.
Upptaka sumartíma með þeim hætti sem hér er lýst leiðir til þess að á sumrin verður sólin hæst á lofti um klukkan hálfþrjú á daginn á vesturhluta landsins. Þetta þýðir að dagurinn er tekinn fyrr og vinnutíma lýkur fyrr en á vetrum. Með þessu móti hefur almenningur meiri möguleika á að njóta sólar og góðviðrisdaga á sumrin. Þannig eru líkur til þess að hér gæti skapast sérstök sumarstemning eins og gerist í nágrannalöndum í Evrópu. Fólk hefði mun betri tækifæri til þess að njóta útiveru eftir að vinnudegi lýkur og þannig yrðu lifnaðarhættir almennings heilbrigðari. Þetta hefur tvímælalaust hvetjandi áhrif á viðskiptalíf, götulíf og allt mannlíf á Íslandi á sumrin og ferðaþjónustan nyti góðs af. Íþróttafólk hefði einnig hag af sumartíma, jafnt keppnisfólk sem áhugamenn, þar sem birtu nyti lengur fram á kvöld síðsumars og snemma hausts. Sumartíminn kæmi sér t.d. vel fyrir skipulagningu knattspyrnuleikja og golfáhugamenn gætu betur stundað íþrótt sína. Ekki síst hefði sumartími góð áhrif á mannlífið á hinum fjölmörgu stöðum á landsbyggðinni sem eru undir eða milli hárra fjalla. Þar hafa margir takmarkaða möguleika til að njóta sumarsins því að sólin hefur horfið af sjóndeildarhringnum þegar vinnudeginum lýkur.
Því hefur stundum verið haldið fram að fólk ætti sjálft að geta skipulagt vinnu sína, hafið vinnu fyrr á morgnana og hætt fyrr á daginn, til þess að bæta samskiptin við Evrópu eða til þess að njóta sumarblíðunnar að loknum vinnudegi. Þetta er hins vegar ekki svo einfalt þar sem atvinnulífið er allt samtengt og hvert fyrirtæki miðar opnunartíma sinn við önnur fyrirtæki. Enn fremur er margvísleg þjónusta veitt á þeim tíma sem miðast við almennan vinnudag, svo sem á dagheimilum og leikskólum. Grunnskóli hefst líka víðast hvar um áttaleytið á morgnana. Það kostar því í flestum tilvikum of mikla röskun að breyta vinnutíma einstaklinga, svo ekki sé talað um heilla fyrirtækja.
Sumartími tíðkast eins og fyrr sagði í öllum helstu viðskiptalöndum okkar í austri og vestri. Ísland er sér á báti hvað þetta varðar og því hlýtur sú spurning að vakna af hverju Íslendingar vilja skera sig úr einmitt að þessu leyti. Rökin sem færð hafa verið gegn sumartímanum hafa fyrst og fremst falist í að draga fram kostnaðinn og fyrirhöfnina við að breyta klukkunni tvisvar á ári. Vissulega kostar það ákveðna fyrirhöfn en nágrannar okkar hafa talið hana léttvæga miðað við ávinninginn af sumartímanum. Því er einkennilegt að Íslendingar skuli búa við þessa sérstöðu og mál hlýtur að vera að linni í því efni.
Eins og að framan er greint var samhljóða frumvarp lagt fram á 120. löggjafarþingi. Frumvarpið var sent fjölmörgum aðilum til umsagnar, m.a. einstökum sveitarfélögum og samböndum sveitarfélaga sem öll lýstu yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið eða gerðu engar athugasemdir við efni þess. Í umsögn frá Íslenskri verslun kemur fram að það væri til mikilla hagsbóta fyrir þann mikla fjölda inn- og útflytjenda sem á dagleg viðskipti við helstu viðskiptalönd okkar á meginlandi Evrópu ef klukkan yrði færð fram um eina klukkustund eins og lagt er til í frumvarpinu. Þá segir í umsögn Samskipa að meginhluti viðskipta fyrirtækisins sé tengdur löndum innan EES og því væri það fyrirtækinu til mikils hagræðis ef tímamismunur milli Íslands og EES yrði sá sami allt árið um kring. Sömu sjónarmið koma fram í umsögnum Eimskipafélagsins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og í umsögn Verslunarráðs segir að með þeirri breytingu sem frumvarpið felur í sér megi með lítilli fyrirhöfn bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á alþjóðavettvangi. Samband íslenskra veitingahúsa og Flugleiðir lýsa einnig yfir stuðningi við frumvarpið og vísa til þeirra röksemda sem fram koma í greinargerð. Þá koma loks fram þær röksemdir frá Knattspyrnusambandi Íslands að í fyrsta lagi sé keppnistímabil íslenskra knattspyrnumanna það stutt að það verði æ erfiðara að koma fyrir öllum þeim leikjum sem þarf í öllum aldursflokkum frá kl. 17–19, en tíminn takmarkist við lok vinnudags annars vegar og hins vegar við birtuskilyrði, í öðru lagi væri það tvímælalaust til bóta ef beinar sjónvarpsútsendingar frá knattspyrnuleikjum gætu hafist klukkustund síðar á deginum, í þriðja lagi væri til bóta, vegna fjölda ferðalaga íslenskra knattspyrnuliða, ef flug frá Íslandi væri klukkustund síðar á morgnana og í fjórða lagi væri sambandið í miklum samskiptum við önnur knattspyrnusambönd í Evrópu, sem og UEFA og FIFA sem eru í Sviss, og væri það til mikilla hagsbóta ef tími til samskipta við þessa aðila ykist. Sambærileg sjónarmið varðandi skipulag móta og æfinga koma fram í umsögn Íþróttasambands Íslands.
Þegar samhljóða frumvarp var lagt fram á 122. löggjafarþingi barst afar neikvæð afstaða með bréfi frá geðdeild Landspítalans, undirrituð af Júlíusi K. Björnssyni sálfræðingi en meðfylgjandi var enn fremur umsögn sem hann hafði unnið ásamt Björgu Þorleifsdóttur líffræðingi og Helga Kristbjarnarsyni lækni. Er í umsögn þessari mælt gegn frumvarpinu fyrst og fremst af þeim ástæðum að það hafi slæm áhrif á svefn fólks og enn fremur er í ítarlegu máli andmælt þeim rökum sem sett eru fram í greinargerð frumvarpsins. Niðurstaða umsagnarinnar er sú að það væri mikið glapræði ef þessi breyting yrði samþykkt og að það gæti verið heilsufarslegt stórslys þegar til langs tíma er litið. Nú er það svo að ekki fylgja þessari umsögn sérfræðinga á geðdeild Landspítalans neinar samanburðarrannsóknir sem sýna að geðheilsa þeirra sem búa við sumartíma sé almennt lakari en Íslendinga sem búa ekki við sumartíma. Enda hefur ekki frést af því að sú sé reyndin. Þvert á móti má halda því fram að auknir möguleikar almennings til að nýta sér betur birtuna um vor og fram á haust séu til þess fallnir að skapa betra mótvægi gegn áhrifum skammdegisins sem ríkir hér á norðurslóðum. Í þessu sambandi er rétt að huga að því að vesturströnd Írlands liggur á milli 9. og 11. gráðu vestlægrar lengdar en austurströnd Íslands er á 14. lengdargráðu. Írar hafa sumartíma og þeir sem búa á vesturströndinni eru því í mjög svipaðri stöðu gagnvart nýtingu birtunnar og Austfirðingar væru ef Ísland fylgdi sama tímareikningi og Írland. Ekki hafa borist neinar spurnir af því að geðheilsa íbúa vesturstrandar Írlands sé sérstaklega slæm eða að þar séu svefntruflanir meðal almennings meiri eða heilsufar almennt verra en gengur og gerist. Þvert á móti er mikill efnahagslegur uppgangur á vesturströnd Írlands og þar hefur tekist mun betur að skapa ný störf og laða að fólk en á Austurlandi, þrátt fyrir sumartímann. Umsögn sérfræðinga geðdeildar Landspítalans uppfyllir ekki þær kröfur sem gera verður til þess sem sagt er í nafni vísindalegrar þekkingar.
Upptaka sumartíma með þeim hætti sem lýst er í frumvarpinu er því mikið hagsmunamál almennings í landinu. Málið hefur víðtækan stuðning meðal félagasamtaka og sveitarfélaga og víst að mannlífið á Íslandi yrði stórum betra ef það nær fram að ganga.