Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 154  —  154. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað liðarins „Búfjárræktarnefnd“ kemur í réttri stafrófsröð nýr liður er orðast svo:
         Fagráð: Nefnd sem mótar stefnu í kynbótum, rannsóknum, fræðslumálum og þróunarstarfi búgreinar samkvæmt ákvæðum búnaðarlaga, nr. 70/1998.
     b.      Liðurinn „Einangrunarstöð“ orðast svo: Sóttvarnaraðstaða fyrir loðdýr, gæludýr, fugla og fiska.
     c.      Liðurinn „Sóttvarnardýralæknir“ orðast svo: Faglegur opinber eftirlitsaðili sóttvarnastöðvar þar sem dýr hafa verið flutt inn samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „búfjárræktarnefndar“ og „hún“ í 1. málsl. kemur: fagráðs, og: það.
     b.      Í stað orðsins „nefndin“ í 2. málsl. kemur: fagráð.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skal annast og bera ábyrgð á“ í 1. málsl. kemur: hefur eftirlit með og ber ábyrgð á.
     b.      Í stað orðanna „Á sama hátt annast það“ í upphafi 2. málsl. kemur: Á sama hátt hefur það eftirlit með.
     c.      Í stað orðsins „búgreinasamtökum“ í 2. málsl. kemur: búgreinasamböndum.
     d.      Í stað orðsins „búfjárræktarnefnd“ í 2. málsl. kemur: fagráð.

5. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvaða kröfur eru gerðar um útbúnað sóttvarna- og einangrunarstöðva. Ráðherra getur falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur stöðvanna.

6. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Sóttvarnardýralæknir sóttvarnastöðvar getur verið viðkomandi héraðsdýralæknir eða dýralæknir sem yfirdýralæknir ræður sérstaklega til þeirra verka. Yfirdýralæknir setur sóttvarnardýralækni erindisbréf með ákvæðum um skyldur hans varðandi smitgát vegna starfa við sóttvarnastöðina.

7. gr.

    Í stað orðanna „búfjárræktarnefnda sem starfa“ í 11. gr. laganna kemur: fagráðs sem starfar.

8. gr.

    Í stað orðsins „búfjárræktarnefnd“ í 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: fagráð.

9. gr.

    Í stað orðsins „búfjárræktarnefndar“ í 13., 16. og 18. gr. laganna kemur: fagráðs.

10. gr.

    17. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, er kveðið á um að landbúnaðarráðuneytið annist og beri ábyrgð á innflutningi búfjár sem heimilaður kann að verða samkvæmt lögunum. Einnig kveða lögin á um að vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögunum skuli vera til staðar eða byggð sóttvarnastöð. Í samræmi við ákvæði þessi hafa verið reistar sóttvarnastöðvar fyrir nautgripi og svín og einangrunarstöð fyrir gæludýr í Hrísey. Hvað varðar innflutning annarra búfjárkynja, loðdýra og alifugla, er innflutningi þannig háttað að dýrunum er komið fyrir á völdum einangrunarbúum í eigu einstaklinga eða viðkomandi búgreinafélaga þar sem þau eru höfð í sóttkví tilskilinn tíma samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis og undir eftirliti sérfræðinga á vegum embættisins.
    Landbúnaðarráðuneytið stofnsetti sóttvarnastöð fyrir nautgripi í Hrísey árið 1973 og sá embætti yfirdýralæknis um rekstur hennar í umboði ráðuneytisins. Sóttvarnastöðin var leigð Landssambandi kúabænda l. janúar 1994 sem síðan hefur annast rekstur hennar undir eftirliti yfirdýralæknis. Árið 1993 var Svínaræktarfélagi Íslands heimilað að reisa sóttvarnastöð fyrir svín í Hrísey og hefur félagið sjálft annast rekstur stöðvarinnar undir eftirliti yfirdýralæknis. Árið 1990 stofnsetti landbúnaðarráðuneytið einangrunarstöð fyrir gæludýr, hunda og ketti, í Hrísey. Fyrstu árin annaðist embætti yfirdýralæknis rekstur stöðvarinnar í umboði ráðuneytisins en hin síðari ár hefur reksturinn verið í höndum einkaaðila undir eftirliti yfirdýralæknis samkvæmt sérstökum samningi.
    Á undanförnum árum hefur verið heimilaður umtalsverður innflutningur á lifandi dýrum og erfðaefni þeirra. Fluttir hafa verið til landsins nýir stofnar alifugla og endurnýjun þeirra tryggð með reglubundnum innflutningi erfðaefnis. Nýir stofnar svína og holdanauta hafa verið fluttir inn, svo og loðdýr til kynbóta á þeim stofnum sem fyrir eru í landinu. Þá fer innflutningur á gæludýrum vaxandi. Þessi innflutningur hefur í meginatriðum gengið áfallalaust. Ekki hafa komið upp sjúkdómar sem tengja má innflutningnum enda eru mjög strangar kröfur gerðar um heilbrigði innfluttra dýra og erfðaefnis og sóttvarnir þegar til landsins kemur. Þung áhersla er lögð á það af hálfu landbúnaðarráðuneytisins að tryggja heilbrigði dýrastofna sem fyrir eru í landinu og viðhalda þeirri gæðaímynd sem Ísland og íslensk matvælaframleiðsla hefur. Því er með frumvarpi þessu ekki lagt til að breyta núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra. Hins vegar er lagt til að ákvæði laganna verði aðlöguð þeirri framkvæmd á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem þróast hefur og að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis. Áhersla er lögð á að með þeirri breytingu er á engan hátt slakað á kröfum um sóttvarnir sem gildandi lög kveða á um.
    Að öðru leyti fela ákvæði frumvarpsins í sér aðlögun laganna um innflutning dýra að þeirri þróun löggjafar á þessu sviði sem orðið hefur frá því að lögin voru sett árið l990.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Í 2. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra skuli skipa nefnd þriggja dýralækna yfirdýralækni til ráðuneytis þegar óskað er heimildar til innflutnings á búfé. Í 4. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/l998, eru ákvæði um að landbúnaðarráðherra skipi dýralæknaráð til fimm ára í senn er sé yfirdýralækni til ráðuneytis. Skal ráðið ávallt fjalla um innflutning búfjár og erfðaefnis þess, berist umsóknir þar um. Litið er svo á að hið nýja dýralæknaráð leysi af hólmi ráðgjafarnefnd þá sem kveðið er á um í 2. mgr. 3. gr. laga um innflutning dýra og er því lagt til að ákvæðið falli brott.

Um 3. gr.


    Í júní 1998 voru samþykkt á Alþingi búnaðarlög, nr. 70/1998, og koma þau í stað jarðræktarlaga, nr. 56/1987, og laga um búfjárrækt, nr. 48/1989.
    Með búnaðarlögum er kveðið á um að fagráð leysi búfjárræktarnefndir af hólmi og er eðlilegt að tilvísanir til þeirra nefnda séu lagaðar að breyttu umhverfi.

Um 4. gr.


    Ákvæði greinarinnar fela í sér að ekki verði lengur skylda landbúnaðarráðuneytisins að annast sjálft innflutning búfjár sem heimilaður kann að verða og framræktun kynja sem inn verða flutt heldur verði hlutverk þess fyrst og fremst fólgið í eftirliti með framkvæmdinni. Er það í samræmi við það verklag sem þróast hefur á undanförnum árum, að viðkomandi búgreinasambönd annist framkvæmdina.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um að starfrækja skuli sóttvarna- og einangrunarstöðvar vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni úr þeim og að landbúnaðarráðherra setji reglugerð um útbúnað slíkra stöðva að fengnum tillögum yfirdýralæknis. Þá er kveðið á um að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðvanna. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem þróast hefur.

Um 6. gr.


    Með nýjum lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, er gert ráð fyrir að á þremur stöðum á landinu, þ.e. á Reykjavíkursvæði, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsvæði og Suðurlandssvæði, verði héraðsdýralæknar sem eingöngu sinni embættisstörfum. Verkefni sóttvarnardýralæknis mun falla vel að starfsemi slíks héraðsdýralæknis. Ákvæði laganna þurfa hins vegar að vera sveigjanleg þannig að hægt sé að ráða sérstakan dýralækni sem sóttvarnardýralækni ef hentugt þykir. Til að gæta fyllsta öryggis varðandi hugsanlega smitdreifingu frá sóttvarnastöð er gert ráð fyrir að settar verði reglur um smitgát þeirra dýralækna sem fara inn á sóttvarnastöðvar. Mun erindisbréf sóttvarnardýralækna taka mið af þeim reglum.

Um 7.–9. gr,


    Sjá athugasemdir um 3. gr.

Um 10. gr.


    Innflutningi á Galloway-kyninu er lokið og hefur flutningur á erfðaefni úr Hrísey til lands fyrir löngu verið heimilaður. 17. gr. laganna er því óþörf.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990,
um innflutning dýra, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er aðlögun gildandi laga um innflutning dýra þar sem hlutverk landbúnaðarráðuneytis verður eftirlit með innflutningi í stað þess að það sjái um innflutninginn sjálft.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.