Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000-2001.
Þskj. 155  —  155. mál.




Beiðni um skýrslu



frá viðskiptaráðherra um iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Margréti Frímannsdóttur, Ögmundi Jónassyni,
Guðjóni A. Kristjánssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Jóni Bjarnasyni,
Guðrúnu Ögmundsdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Kristjáni L. Möller.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna árin 1999 og 2000, helstu ástæður þeirra og áhrif á efnahagsumhverfi og neytendur. Þess er jafnframt óskað að í skýrslunni komi fram svör við eftirfarandi spurningum:
     1.      Hafa tryggingafélögin gert úttektir á áhrifum skaðabótalaga og sé svo, hverjar eru niðurstöður þeirra?
     2.      Er í skaðabótalögum gengið of langt á einhverjum sviðum miðað við tilefni í að bæta tjónþola tjón sem hefur haft veruleg áhrif á iðgjaldahækkun?
     3.      Hvernig hefur skattgreiðslum af hagnaði tryggingafélaganna verið háttað árlega á undanförnum árum með tilliti til framlaga í bótasjóðina?
     4.      Hvernig eru bótasjóðir tryggingafélaganna ávaxtaðir og með hvaða kjörum og hve stór hluti fjármagnstekna af framlögum í bótasjóðina rennur í sjóðina til að mæta tjónaskuld? Hvernig hefur þessi þróun verið árlega frá 1995?
     5.      Er þörf á að breyta reglum um mat á tjónaskuld?
     6.      Gáfu breytingar á mati á tjónaskuld tilefni til breytinga á iðgjöldum bifreiðatrygginga á árunum 1999 og 2000?
     7.      Hvernig hefur eigið fé, hagnaður, sjóðir og bankainnstæður tryggingafélaganna vaxið samanborið við vátryggingarskuld?
     8.      Hvaða áhrif hafa afkoma og afkomuhorfur á iðgjaldaákvarðanir tryggingafélaganna?
     9.      Nota tryggingafélögin góða afkomu í einni grein trygginga til að halda niðri iðgjöldum í annarri grein?
     10.      Nota tryggingafélögin slaka afkomu í einni grein trygginga til að halda iðgjöldum of háum í annarri grein?
     11.      Var ekki eðlilegt að líta til bæði heildarafkomu tryggingafélaganna við iðgjaldaákvörðun á þessu og síðasta ári, sem og mats á tjónaskuld í bílatryggingum? Voru 2 milljarðar króna sem losnuðu úr tjónaskuld áranna 1991–1996 dregnir frá og höfðu þar með áhrif til lækkunar á iðgjaldaþörf þessa og síðasta árs?
     12.      Hafði slakur kaupmáttur á fyrri hluta síðasta áratugar áhrif á iðgjaldaákvarðanir tryggingafélaganna og hefur vaxandi kaupmáttur á undanförnum árum haft áhrif?
     13.      Hver hefur árleg aukning tekna af iðgjöldum bifreiðatrygginga með vaxandi bílaflota landsmanna verið frá árinu 1995?
     14.      Hver hefur orðið aukning á iðgjaldatekjum vegna fjölgunar bíla samanborið við aukningu á bótagreiðslum?
     15.      Hvernig sundurliðast iðgjaldaþörf þessa og síðasta árs hjá tryggingafélögunum eftir einstökum áhættuþáttum?
     16.      Hvernig hafa iðgjöld vegna bifhjólatrygginga þróast síðastliðin fimm ár og hvernig hefur slysatíðni og tjónaútgjöldum vegna þeirra verið háttað á sama tíma?
     17.      Hve mikla afslætti veita tryggingafélögin af öðrum tryggingum en bílatryggingum þegar allar tryggingar viðskiptavinanna falla til eins og sama tryggingafélags?
     18.      Hve mikla afslætti veita tryggingafélögin af bílatryggingum og hvert er hlutfall viðskiptavina í hverjum afsláttarflokki fyrir sig, skipt eftir aldri og kyni?
     19.      Hvert er hlutfall 17–18 ára ökumanna í bifreiðatryggingum hjá tryggingafélögunum?
     20.      Hver hefur verið þróun í bílalánum tryggingafélaganna síðustu 10 árin í upphæðum, fjölda og hlutfalli af heildareignum?
     21.      Hafa tryggingafélögin markaða stefnu um bílalán til ungra ökumanna eða þeirra sem ítrekað hafa valdið miklum tjónum í umferðinni og hvernig skiptast bílalán milli aldurshópa?
     22.      Hvert er hlutfall 17–20 ára í bílalánum og hvert er hlutfall þess aldurshóps í tjónum og slysabótum? Eiga tjónvaldar kost á nýjum lánum til endurnýjaðra bifreiðakaupa?
     23.      Hve hátt er hlutfall til hvers lántakanda miðað við heildarverðmæti bíls?
     24.      Eru 17–20 ára lántakendur bílalána hjá tryggingafélögunum frekar í vanskilum en aðrir lántakendur?
     25.      Hvernig stóðu tryggingafélögin að útreikningum við skiptingu í áhættusvæði? Óskað er eftir dæmum um útreikninga áhættusvæðaskiptingar tryggingafélaganna úr hverju kjördæmi fyrir sig.
     26.      Hvaða aðgerðir hafa tryggingafélögin gert eða tekið þátt í til að fyrirbyggja tjón í umferðinni?
    Óskað er eftir að svör við framangreindum spurningum verði sundurliðuð eftir tryggingafélögum.
    Óskað er eftir að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi eins fljótt og auðið er eftir að henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

G r e i n a r g e r ð.

    Á undanförnum tveimur árum hafa orðið gífurlegar hækkanir á bifreiðatryggingum eða um 70–80%. Ekki eru nein augljós rök fyrir þessum miklu hækkunum sem eru úr samhengi við allar aðrar verðlagshækkanir í þjóðfélaginu og hafa haft í för með sér verulega útgjaldaaukningu fyrir bifreiðaeigendur.
    Tryggingafélögin hafa m.a. teflt fram sem rökum áhrifum breytinga á skaðabótalögum og auknum tjónum og slysatíðni. Mikilvægt er að málið komi til kasta Alþingis, enda er hér um gífurlega hækkun á lögboðinni skyldutryggingu bifreiða að ræða og jafnframt beita tryggingafélögin fyrir sig lögum sem Alþingi hefur sett sem rökum fyrir mikilli þörf á iðgjaldahækkunum.
    Þegar Alþingi fjallaði um skaðabótalögin á sínum tíma fengust engar haldbærar upplýsingar frá tryggingafélögunum um hvaða áhrif breytingar á skaðabótalögunum gætu haft á iðgjöld bifreiðatrygginga. Með sama hætti reynist nú erfiðleikum bundið fyrir alþingismenn að fá nauðsynlegar upplýsingar frá tryggingafélögunum til að geta skoðað ítarlega áhrif gífurlegra iðgjaldahækkana síðastliðin tvö ár og meta réttmæti þeirra.
    Í ljósi framangreinds og þess að hér er verið að fjalla um hækkanir á lögboðnum skyldutryggingum er óskað eftir að viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um málið og afli nauðsynlegra upplýsinga hjá hverju tryggingafélagi um iðgjaldahækkanirnar í samræmi við efni skýrslubeiðninnar til að Alþingi geti fjallað eðlilega um málið.