Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 181  —  174. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum.

Flm.: Kristján Pálsson, Drífa Hjartardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason,
Lúðvík Bergvinsson, Kjartan Ólafsson.


    Alþingi ályktar að beina því til landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum.
    Starfshópurinn skili tillögum sínum nógu tímanlega til að verkefnið geti hafist eigi síðar en árið 2002.

Greinargerð.


    Endurheimt gróðurs sem þakti Ísland við landnám er markmið sem stefnt hefur verið að síðustu áratugi. Ráðist hefur verið í mörg verkefni til að ná því og er árangur víða góður. Þekktust þeirra eru Hallormsstaðarskógur og nú á síðari árum landshlutabundin skógræktarverkefni eins og Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar o.fl. Uppgræðsla Landgræðslu ríkisins hefur einnig verið mjög árangursrík eins og sést á Suðurlandi og víðar. Með öflugu starfi stofnana og einstakra skógræktarfélaga víðs vegar um landið hefur verið sýnt fram á að mögulegt er að græða landið og rækta skóga við mjög erfiðar aðstæður nánast hvar sem er.
    Vantrú á möguleika okkar að þessu leyti heyrir því sögunni til, enda er ekki aðeins stefnt að ræktun hávaxinna trjáa heldur miðað við aðstæður á hverjum stað. Á Suðurnesjum hefur gróðureyðing verið mjög mikil frá landnámi. Heimildir segja frá því að kotbændur á Suðurnesjum voru látnir greiða hrístoll til Bessastaða. Eflaust hefur sú iðja að rífa hrís verið stunduð frá landnámi. Þegar binding jarðvegsins er horfin er auðvelt fyrir sterka vinda, sem oft blása um Suðurnesin, að feykja jarðveginum burt. Fá láglendissvæði á landinu eru því jafnilla leikin og Suðurnesin og Reykjanesið, þrátt fyrir friðun síðustu ár. Þetta háir mjög allri landgræðslu og skógrækt sem gengur hægt þrátt fyrir öflugt starf Suðurnesjamanna og Reyknesinga allra. Aðstæðurnar kalla því á sérstakt átak ef skila á landinu í líkingu við það sem var þegar landnámsmenn settust hér að. Margar sagnir eru um hvernig landið hafi verið gróið á þessum tíma. Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands, þeir Eyþór Einarsson og Einar Gíslason, hafa tekið saman gróðurkort þar sem fram kemur hvernig þeim sýnist heimildir lýsa gróðri á Íslandi við landnám. Útdráttur af Reykjaneshluta þess er útbýtt með tillögunni með góðfúslegu leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Samkvæmt kortinu hafa landnámsmenn á Reykjanesi og Suðurnesjum numið eitt gróðursælasta svæði landsins með kjarri og skógi frá ystu nesjum upp á fjallsbrúnir. Veðurfarið hefur því ekki hamlað því að kjarr og skógur næði að vaxa á Suðurnesjum.
    Drög að áætlun fyrir Suðurnesjaskóga unnin af Landgræðslu ríkisins o.fl. eru birt í fylgiskjali. Tveimur gróðurkortum af Reykjanesi frá Náttúrufræðistofnun Íslands er útbýtt með tillögunni. Þau sýna gróðurfar á svæðinu við landnám, svo sem fyrr er getið, og gróðurinn eins og hann er nú. Öllum þessum aðilum eru færðar sérstakar þakkir fyrir hjálpina.
    Þessi þingsályktunartillaga er endurflutt frá síðasta þingi aðeins breytt, m.a. eru fyrrnefnd gróðurkort önnur en þá og nú birt í fyrsta sinn opinberlega. Þess ber að geta að landbúnaðarnefnd bárust margar mjög gagnlegar umsagnir um málið frá fagaðilum. Landvernd skilaði ítarlegu áliti þar sem bent var á ýmislegt athyglisvert. Meðal annars telur Landvernd eðlilegt að fjölga mönnum í stjórn verkefnisins og bæta við fulltrúum framkvæmdaraðila á svæðinu og fulltrúum landverndarsamtaka á landsvísu. Landvernd bendir einnig á mikilvægi vatnsverndar á svæðinu og að skýra þurfi hver hafi með höndum ábyrgð á framkvæmd verkefnisins. Skógræktarfélag Íslands var einnig með ábendingar um faglega ráðgjöf og skipulagsvinnu.
    Lagt er til að skipuð verði nefnd sem undirbúi verkefnið Suðurnesjaskóga. Meðal þess sem slík nefnd þarf að gera er að fara yfir meðfylgjandi áætlun fyrir Suðurnesjaskóga og gera sér grein fyrir framkvæmd verkefnisins. Þar ber m.a. að huga að fjölda stjórnarmanna, hvernig eign á landinu er háttað og hverjir á svæðinu væru best fallnir til að sjá um framkvæmd Suðurnesjaskógaverkefnisins. Framkvæmdaraðilar gætu orðið margir og má þar nefna Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, sveitarfélög á svæðinu, skógræktarfélög, bændur, félagasamtök og fyrirtæki. Gróðursetning og landgræðsla á vatnsverndarsvæðum verði samkvæmt vatnsverndarskipulagi fyrir Suðurnesin.



Fylgiskjal.


Drög að áætlun fyrir Suðurnesjaskóga.
Landshlutaverkefni í landgræðslu og skógrækt.


Skýringar á hugtökum.
    Þar sem enn hefur ekki skapast skýr hefð í íslenskri tungu fyrir hugtakanotkun í skógrækt þykir rétt að skýra þau hugtök sem hér eru notuð:
          Landgræðsla. Samheiti yfir aðgerðir til að vernda og bæta gróður og jarðveg, svo sem dreifingu lífræns og ólífræns áburðar, sáningu, gróðursetningu og stjórnun á beit.
          Nytjaskógrækt. Timburskógrækt. Þetta mega teljast samheiti. Öll skógrækt hefur notagildi. Því hefur í þessari skýrslu verið gripið til orðsins timburskógrækt fyrir þá ræktun sem hefur hvers kyns viðarframleiðslu að höfuðmarkmiði.
          Landbótaskógrækt. Skógrækt sem hefur ekki timburframleiðslu að höfuðmarkmiði heldur landbætur af ýmsu tagi, svo sem jarðvegsvernd, aukið beitarþol lands og skjól fyrir búpening, sem og aukið útivistargildi (m.a. vegna betra skjóls). Skógrækt til landbóta getur einnig gefið af sér viðarnytjar. Landbótaskógur getur verið hvort tveggja, ræktaður eða sjálfsprottinn skógur sem stuðlað er að með beitarstjórnun.
          Skjólbeltarækt. Ræktun tiltölulega mjórra trjábelta, þar sem leitast er við að skapa skjól á skemmri tíma en gert er með hefðbundinni skógrækt. Í þessu skyni er jörðin að jafnaði þaulunnin, leitast við að halda illgresi í skefjum og valdar hraðvaxta tegundir.
          Sjálfbær nýting. Nýting sem hagað er á þann veg að ekki gangi á auðlindina til lengri tíma litið.
          Algjör friðun. Friðun gagnvart hvers kyns inngripi manna og húsdýra, nema hugsanlegri stígagerð.
          Skógræktaráætlun. Ræktunaráætlun. Um er að ræða samheiti, sé átt við áætlun, sem tekur til einnar eða fárra jarða. Hún felur í sér kort af áætluðu ræktunarsvæði þar sem sýndir eru fyrirhugaðir vegarslóðar, girðingar o.fl. þess háttar, auk þess sem landinu er skipt upp í reiti á grundvelli gróðurfars, jarðvegsskilyrða, landhalla o.fl. þátta í náttúrufari sem fagmenn telja skipta máli við ákvarðanir um skógræktarframkvæmdir. Einnig geta fylgt kort af fyrirhugaðri tegundasamsetningu skógarins, jarðvinnsluaðferðum o.fl. sem tengist sjálfum framkvæmdunum. Kortunum fylgja ítarlegar skýringar og aðrar nauðsynlegar leiðbeiningar fyrir bóndann. Við gerð skógræktaráætlana er leitast við að laga skóginn að landinu, tekið tillit til þjóðminja og lagt mat á verndargildi sérkenna í náttúrufari.
          Landgræðsluáætlun. Felur í megindráttum í sér það sama og skógræktaráætlun, þ.e. að skilgreina markmið, leiðir og vinnubrögð við áformuð verkefni.
          Héraðsáætlun. Landshlutaáætlun. Áætlun um umfang ríkisstyrktrar landgræðslu og skógræktar í heilum landshluta. Þar eru settar reglur um tilhögun við ólíkar aðstæður.

Tilgangur og markmið.
    Í skýrslu þessari er lagt til að á grundvelli laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni, og fyrirhugaða landgræðsluáætlun fyrir árin 2000–2012, verði stofnað til landshlutaverkefnis í skógrækt á Suðurnesjum. Verkefnið hljóti heitið Suðurnesjaskógar.
    Megintilgangur Suðurnesjaskóga verður að stuðla að aukinni landgræðslu og skóg- og skjólbeltarækt á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að flestir sem umráð hafa yfir landi, og hafa áhuga, geti orðið þátttakendur í verkefninu.
    Stóraukin landgræðsla og skógrækt í landshlutanum mun stuðla að betra umhverfi fyrir alla íbúa svæðisins.
    Suðurnesjaskógar munu hafa jákvæð áhrif á
          umhverfisskilyrði fyrir alla íbúa Suðurnesja,
          byggðaþróun,
          auðlindasköpun,
          bindingu kolefnis,
          landgæði,
          landnýtingu,
          atvinnulíf,
          veðurfar,
          ferðaþjónustu.

Undirbúningur Suðurnesjaskóga.
    Hugmyndin að Suðurnesjaskógum hefur þróast að undanförnu í kjölfar landshlutabundinna skógræktarverkefna í flestum kjördæmum landsins. Þekkingu á leiðum til að bæta landkosti á þessum slóðum hefur einnig fleygt fram. Umræða um mikilvægi landgræðslu og skógræktar við bindingu koltvísýrings hefur vakið vonir um að unnt verði að fá fjármagn til slíks átaks á Suðurnesjum. En málið á sér lengri aðdraganda.

Núverandi staða.
    Á síðustu tíu árum hefur skógrækt aukist hraðar á Íslandi en áður eru dæmi um. Sama gildir um landgræðslustarfið. Sú aukning hefur ekki orðið sem skyldi á Suðurnesjum. Árið 1991 voru lög um Héraðsskóga samþykkt. Héraðsskógaverkefnið er gott dæmi um vel heppnað skógræktar- og byggðaþróunarverkefni. Með setningu laga um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997, opnuðust nýjar leiðir þar sem viðurkennt var að skógrækt mætti stunda í fleiri en einum tilgangi, þ.e. með fleira en timburframleiðslu að markmiði. Því munu fleiri fá aðgang að verkefninu en þeir einir sem búa á allra bestu skógræktarsvæðunum.
    Landgræðsla á sér langa sögu á Suðurnesjum og reynslan sýnir að skilyrði til uppgræðslu eru þar víða góð.

Starfshópur til að vinna að undirbúningi Suðurnesjaskóga.
    Æskilegt er að skipaður verði starfshópur til að vinna að undirbúningi Suðurnesjaskóga og við skipan hans veiti landbúnaðarráðherra 1 millj. kr. til þessarar vinnu. Sú upphæð er ætluð til að kosta störf nefndarinnar og dugar ekki til að gera fullburða áætlun um Suðurnesjaskóga heldur skýrslu sem verði minni í sniðum. Henni væri ætlað að koma verkefninu af stað og er hugmyndin sú að hluti þess fjár sem veitt verður til verkefnisins fyrstu árin verði notaður til að fullgera áætlun um Suðurnesjaskóga.

Stjórnskipulag.
    Suðurnesjaskógar verða sjálfstætt landgræðslu- og skógræktarverkefni með eigin stjórn, sem landbúnaðarráðherra mun skipa til tveggja ára í senn. Skipurit fyrir Suðurnesjaskóga er sýnt hér á eftir. Stjórnin verður fimm manna, einn tilnefndur af Landgræðslu ríkisins, einn af

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skógrækt ríkisins, einn af Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS), einn af skógræktarfélögum á verkefnissvæðinu og einn án tilnefningar. Tímasetning ráðningar starfsmanna og skipulag starfseminnar fer eftir því hver framvinda verkefnisins verður. Æskilegt er að gerðir
verði þjónustusamningar við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins eða aðra sem sérhæft hafa sig í verkefnum um faglega ráðgjöf og skipulagsvinnu. Gera þarf ráð fyrir framkvæmdastjóra og hugsanlega svæðisstjórum vegna verkefnisins, með aðsetur á Suðurnesjum.

Flokkun lands á Suðurnesjum.
    Land á Suðurnesjum verður flokkað eftir loftmyndum eins og lagt er til hér á eftir. Land verður einnig flokkað eftir skilyrðum til uppgræðslu og fyrir ýmsar tegundir runna og trjáa sem helst kemur til greina að rækta á Suðurnesjum.
    Láglendi á Suðurnesjum skiptist þannig eftir landflokkum:
          Mólendi, graslendi og ræktað land.
          Votlendi.
          Bersvæðisgróður, hálfgróið eða minna.
          Birkiskógur og kjarr.
          Mosagróður.
          Vötn.
          Ár.


Framkvæmdaþættir.
    Verkefni Suðurnesjaskóga er skipt í fimm meginflokka. Flokkunum og helstu hugtökum tengdum þeim er lýst stuttlega. Í héraðsáætlunum verða hugtökin og aðferðafræðin skýrð betur, en byggt verður á sama grunni og gert er í áætlunum um Héraðsskóga, Norðurlandsskóga, Skjólskóga og Vesturlandsskóga.

Verkefni Suðurnesjaskóga.

















Ræktun nýrra skóga.
    Í 3. gr. laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni, er fjölnytjaskógrækt skipt í tvo flokka eftir markmiðum skógræktarinnar. Hér er þeirri skiptingu haldið. Í lögunum er héraðsáætlunum sett það markmið að rækta skóg á að minnsta kosti 5% láglendis undir 400 metra hæð yfir sjávarmáli.
     Landbótaskógrækt hefur viðarframleiðslu ekki að meginmarkmiði heldur aðrar skógarnytjar, svo sem skjól, jarðvegsvernd, útivist og yndi. Þó mun skógurinn í flestum tilvikum bjóða upp á einhverjar viðarnytjar í framtíðinni.
    Landbótaskógræktinni er skipt í tvo meginþætti:
     Sjálfgræðsluskógur er land sem friðað er fyrir beit a.m.k. uns nýliðun birkis og annarra tegunda hefur átt sér stað. Þetta tekur vitaskuld langan tíma, en mögulegt er að flýta þróuninni með takmörkuðum aðgerðum.
     Ræktaður landbótaskógur er skógur sem ræktaður er með önnur meginmarkmið en timburframleiðslu. Ræktunaraðferðir, og þar af leiðandi kostnaður, ráðast af markmiðum.

Skjólbeltarækt.
     Skjólbeltarækt verður eitt af verkefnum Suðurnesjaskóga.
    Í lögunum er skjólbeltum skipt í tvo flokka. Annars vegar belti sem ræktuð eru í því skyni að skýla ræktun, búfé og mannvirkjum. Hins vegar belti sem eru undanfari skógræktar. Stefnt er að verulegri ræktun skjólbelta á fyrstu 25 árum verkefnisins.

Önnur verkefni.
    Undir þessum lið eru þau verkefni Suðurnesjaskóga sem ekki miða beinlínis að aukinni skógarþekju. Meðal markmiða laga um landshlutabundin skógræktarverkefni er að stuðla að „verndun og umhirðu þess skóglendis sem fyrir er“ (1. gr.). Þessum markmiðum á að ná ýmist með stýrðri sjálfbærri nýtingu náttúrulegra skóga eða með algjörri friðun þeirra.
    Mikilvægt er að það sé ljóst að þótt talsverð reynsla sé komin á ræktun skóga við margvíslegar aðstæður vantar enn mikið á að bestu aðferðir og réttur efniviður séu fundin. Hér er því lagt til að Suðurnesjaskógar hafi fjárhagslegt svigrúm til að styrkja rannsóknir á því sviði eða kaupa þær af hæfum aðilum.

Sjálfbær nýting birkiskóga.
    Birkiskógar eru auðlind. Ágóði af hvers konar nýtingu, sem ekki gengur á gæði skógarins, er besta trygging þess að skógurinn verði ekki eyðilagður.

Þróun nýrra aðferða við ræktun.
    Suðurnesjaskógar munu leggja fjármuni í þróun aðferða við landgræðslu og ræktun og nýtingu skóga og skjólbelta sem sérstaklega henta aðstæðum á svæðinu. Þeir peningar verða aðallega notaðir til að styrkja eða kaupa hagnýtar rannsóknir sem líklegt er að nýtist verkefninu.

Fræðsla.
    
Suðurnesjaskógar munu, ásamt skógræktarfélögum og fleiri aðilum á svæðinu, standa fyrir námskeiðum og fræðslu um ýmislegt tengt skógrækt og landgræðslu. Þessi námskeið verða haldin í samvinnu við þá aðila sem hafa kunnáttu að miðla á þessu sviði, svo sem Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins o.fl.

Girðingar.
    Á nokkrum svæðum, sem fjölnytjaskógrækt verður stunduð á, er jafnframt einhver búfjárrækt. Er því nauðsynlegt að friða verðandi skógarsvæði fyrir beit. Reynt verði að haga girðingaframkvæmdum þannig að af hljótist sem minnstur kostnaður.

Áætlanagerð.
    Vanda skal áætlanagerð fyrir allar framkvæmdir á vegum Suðurnesjaskóga. Ef rétt er á málum haldið mun landgræðsla, skógrækt og skjólbeltarækt bæta umhverfisskilyrði fyrir íbúa svæðisins og auka verðgildi lands.

Skógræktaráætlanir.
    Fyrir aðila sem þátt tekur í verkefninu verður gerð skógræktaráætlun (ræktunaráætlun) áður en framkvæmdir hefjast. Markmið hennar er að tryggja að ræktunin sé hagkvæm og í sátt við umhverfið.

Skjólbeltaáætlanir.
    Markmið skjólbeltaáætlana er að tryggja að skjólbelti falli vel að umhverfinu og geri fullt gagn með sem minnstum tilkostnaði. Gera skal skjólbeltaáætlun fyrir allt land þar sem Suðurnesjaskógar styrkja skjólbeltarækt.

Auðlindasköpun og kolefnisbinding.
    Þegar ógrónu landi er breytt í frjósamt vistkerfi eða skóglaust land breytist í skóg myndast ný auðlind. Hún mun leggja grunn að fjölbreyttara mannlífi, bæði í sveitum og í þéttbýli. Eins er víst að skógi vaxið land eykur tækifæri til útivistar og lengir verulega þann tíma sem hægt er að stunda útivist án óþæginda vegna veðurfars.
    Ljóst er að binding CO 2 með ræktun skóga er viðurkennd leið til að standa við skuldbindingar sem felast í undirritun Kyoto-bókunarinnar. Þótt Íslendingar hafi ekki undirritað og staðfest Kyoto-bókunina enn þá hefur ríkisstjórnin kynnt þá stefnu sína að slíkt verði gert. Því er ljóst að öll landgræðsla og skógrækt eftir 1990 verður síðar meir talin okkur til tekna í þessu sambandi. Binding CO 2 er því raunveruleg verðmæti. Það er svo ríkisvaldsins að ákveða hvort, og þá hvernig, innheimt verði losunargjald af jarðefnaeldsneyti og annarri losun gróðurhúsalofttegunda. Búast má við um 7,9 tonna bindingu CO 2 á hektara á ári í íslenskum timburskógi (Arnór Snorrason, munnleg heimild). Samsvarandi tala fyrir uppgræðslu er um 4,5 tonn CO 2 á hektara. Ljóst má vera að hér er á ferðinni afar hagkvæmur kostur fyrir ríkisvaldið þegar ákvörðun er tekin um fjárframlög í því skyni að draga úr búferlaflutningum úr dreifbýli.

Framkvæmdaáætlun.
    Gerð er tillaga um eftirfarandi framkvæmdaáætlun landshlutaverkefnis í landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum:
     1.      Suðurnesjaskógar verði formlega stofnaðir haustið 2001. Stjórn verkefnisins taki þá til starfa og annist nauðsynlegan undirbúning, svo sem að tryggja fjármagn og ráða framkvæmdastjóra.
     2.      Unnið verði að áætlun í þremur áföngum.
     3.      Samhliða gerð áætlana verði hafist handa við landgræðslu og skógrækt og skjólbeltagerð, jafnóðum og áætlanirnar verða tilbúnar. Stefnt verði að því að verkefnið verði komið á fullan skrið árið 2009 og verður fjárþörf þess þá um 34 millj. kr. á ári.

Röð framkvæmda.
Árið 2002.
          Verkefnið hefst.
          Unnið að gerð áætlana.
          Landgræðsla, skógrækt og skjólbeltagerð hafin.

Árið 2003.
          Áætlanagerð haldið áfram.
          Verkefnum fram haldið og unnið að fjölgun þátttakenda.

Árin 2003 og 2004.
          Starfið enn aukið.
          Mikil áhersla á gerð áætlana.

Árið 2005.
          Áætlun um Suðurnesjaskóga endurskoðuð.
          Ræktunin aukin.

Árin 2006–2008.
          Unnið eftir endurskoðaðri áætlun.

Árin 2008–2039.
          Verkefnið er að fullu komið til framkvæmda.
          Áætlanir endurskoðaðar reglulega.


Sundurliðuð fjárþörf 2002–2006.


Árið 2002
Framkvæmdastjórn          3.500.000 kr.
Aðrir starfsmenn ( 1/ 3)          750.000 kr.
Rekstur og fjárfestingar          2.400.000 kr.
Þróun og fræðsla          500.000 kr.
Hönnun framkvæmda          1.850.000 kr.
Framkvæmdir          8.000.000 kr.
     Samtals:          17.000.000 kr.
Árið 2003
Framkvæmdastjórn          3.500.000 kr.
Aðrir starfsmenn          1.000.000 kr.
Rekstur og fjárfestingar          4.000.000 kr.
Þróun og fræðsla          2.000.000 kr.
Framkvæmdir          10.000.000 kr.
     Samtals:           20.500.000 kr.

Árið 2004
Framkvæmdastjórn          3.500.000 kr.
Aðrir starfsmenn          2.700.000 kr.
Rekstur og fjárfestingar          3.000.000 kr.
Þróun og fræðsla          2.000.000 kr.
Framkvæmdir          14.900.000 kr.
     Samtals:           26.100.000 kr.

Árið 2005
Framkvæmdastjórn          3.500.000 kr.
Aðrir starfsmenn          3.900.000 kr.
Rekstur og fjárfestingar          3.000.000 kr.
Þróun og fræðsla          3.000.000 kr.
Framkvæmdir          20.500.000 kr.
     Samtals:           33.900.000 kr.

Árið 2006 og áfram:           35.000.000 kr.