Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 184  —  177. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.

    2. gr. laganna hljóðar svo:
    Blindrabókasafn Íslands miðlar skáldverkum, fræðiritum og öðru efni, þar á meðal námsgögnum, til blindra og til þeirra sem eiga við lestrarörðugleika að etja í sem bestu samræmi við óskir og þarfir lesandans.
    Blindrabókasafn fylgist með nýjungum á sínu sviði og kynnir þær. Safnið skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnsmála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins.

2. gr.

    5. gr. laganna hljóðar svo:
    Blindrabókasafn skiptist í þrjár deildir, útláns- og upplýsingadeild, námsbókadeild og tæknideild. Að öðru leyti skal starfsskipting stofnunarinnar ákveðin í reglugerð, sbr. 10. gr. Verkefni deilda eru í megindráttum þessi:
     a.      Útláns- og upplýsingadeild. Þar fer fram flokkun og skráning safnkosts, upplýsingaþjónusta, útlán og kynning á þjónustu Blindrabókasafnsins í heild.
     b.      Námsbókadeild. Aflar og gefur út námsefni við hæfi blindra, sjónskertra og annarra sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt.
     c.      Tæknideild: Sér um framleiðslu útlánsefnis, varðveislu frumgagna og viðhald safnkosts.

3. gr.

    6. gr. laganna hljóðar svo:
    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Blindrabókasafns Íslands til fimm ára að fenginni umsögn stjórnar safnsins. Forstöðumaðurinn annast yfirstjórn safnsins, er í fyrirsvari fyrir safnið út á við, ber ábyrgð á rekstri þess og stjórnar daglegum rekstri. Jafnframt annast hann ráðningar annarra starfsmanna.

4. gr.

    7. gr. laganna hljóðar svo:
    Stjórn Blindrabókasafns skipar þriggja manna bókvalsnefnd til tveggja ára í senn. Hlutverk hennar er að móta stefnu í bókvali og gæta jafnvægis milli fræðslu- og skemmtiefnis. Í henni skulu sitja einn bókmenntafræðingur, einn sérkennari og einn fulltrúi Blindrafélagsins.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við samþykkt stjórnar Blindrabókasafns Íslands frá því í febrúar 2000. Byggjast tillögur stjórnarinnar á þeirri reynslu sem fengist hefur af lögum, nr. 35/1982, um Blindrabókasafn Íslands, og breytingum sem óhjákvæmilega hafa orðið á starfsumhverfi safnsins.
    Samkvæmt gildandi lögum er hlutverk Blindrabókasafns Íslands að sjá blindum, sjónskertum og öðrum þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir alhliða bókasafnsþjónustu. Samkvæmt lögunum skiptist starfsemi Blindrabókasafns Íslands í þrjár deildir: Útláns- og upplýsingadeild annast útlán hljóðbóka, í tæknideild er hljóðbókakostur safnsins hljóðritaður og í námsbókadeild er nemendum framhaldsskóla og háskóla þjónað. Þykir rétt að gera grein fyrir starfsemi einstakra deilda.
    Útláns- og upplýsingadeild sér um útlán almenns efnis, þ.e. bókmennta og almenns fræðsluefnis. Hér hefur eingöngu verið um hljóðbækur að ræða. Deildin þjónar beint rúmlega 1.300 einstaklingum á ári og óþekktum fjölda óbeint í gegnum 130 stofnanir, svo sem bókasöfn og sjúkrastofnanir. Lánþegar sem koma á safnið fyrir milligöngu Sjónstöðvar Íslands eða Blindrafélagsins og aldraðir, 80 ára og eldri, þurfa ekki að framvísa vottorði. Aðrir sem eiga við lestrarörðugleika að stríða þurfa að hafa í höndunum skriflega staðfestingu frá læknum eða öðrum meðferðaraðilum en lestrarörðugleikar geta orsakast af fjölmörgu öðru en blindu.
    Á fyrsta starfsári safnsins, 1984, voru útlán rúmlega 23 þúsund en 1998 voru þau 46 þúsund. Stöðum í safninu hefur fjölgað frá sjö í tíu.
    Námsbókadeild sér um þjónustu við nemendur framhaldsskóla og háskóla sem fá námsefni sitt ýmist á hljóðbók eða blindraletri. Deildin þjónar aðallega tveimur hópum, þ.e. blindum og sjónskertum annars vegar og hins vegar nemendum með sértæka lestrarörðugleika, þ.e. lesblindu. Blindir og sjónskertir eru forgangshópur í deildinni að því leyti að námsgagnagerð fyrir þá er látin ganga fyrir öðrum verkefnum. Starfsmaður safnsins sérfróður um blindraletur annast þann þátt ásamt öðru starfsfólki deildarinnar. Lesblindir nemendur þurfa að framvísa vottorði. Fram til skólaársins 1998–99 var námsefni fyrir blinda grunnskólanemendur búið til í blindradeild Álftamýrarskóla. Samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga stunda blindir nemendur í auknum mæli nám í heimaskóla sínum. Það hefur í för með sér að þeir þurfa sama námsefni og aðrir nemendur og að efnið verður að vera til á blindraletri. Nýtt námsefni er myndrænna og flóknara í umbroti en áður tíðkaðist og meiri tækni þarf við vinnslu þess. Undanfarin tvö skólaár hefur Blindrabókasafnið séð um að færa á blindraletur efni frá Námsgagnastofnun gegn greiðslu frá stofnuninni. Eins og framan greinir hefur útlit og framsetning námsefnis grunnskóla breyst mikið og færsla þess á blindraletur krefst nú bæði sérþekkingar og sérhæfðs tækjabúnaðar. Ekki þykir hæfa að blindir grunnskólanemendur fái ekki bestu fáanlegu þjónustu.
    Tæknideild er stoðdeild hinna deildanna tveggja. Í hljóðverum hennar eru hljóðbækur framleiddar. Til þessa hafa þær verið teknar upp á stór segulbönd og afritaðar á hljóðsnældur fyrir notandann. Framtíðarmiðill hljóðbóka hefur verið til umfjöllunar víða um lönd og hefur Blindrabókasafnið fylgst grannt með þeirri umræðu. Svokallaðar rafbækur geta hentað tölvunotendum vel. Hér er um að ræða texta í tölvutæku formi sem ætlaður er til lestrar með tölvu. Textinn er ýmist lesinn í ritvinnsluforriti í tölvunni eða sérhönnuðu lestrarforriti með hjálp talgervils eða af blindraletursskjá sem tengdur er tölvunni. Rafbækur búa yfir miklum uppfletti- og leitarmöguleikum og eiga hugsanlega eftir að verða vinsælasta bókarformið fyrir blinda námsmenn enda hefur eftirspurn eftir námsbókum í tölvutæku formi aukist síðustu ár. Í Blindrabókasafninu hafa verið gerðar tilraunir með tölvuvæddar hljóðritanir í svokölluðu Daisy-kerfi en það er sænskt að uppruna. Er þá hljóðið tekið beint inn á tölvu, bútað niður í setningar og kafla og tengt við efnisyfirlit sem hefur verið skrifað inn í tölvuna. Upptakan er svo skrifuð á geisladisk og lesandinn les bókina af diskinum með hjálp tölvu eða með hjálp sérstaks afspilunartækis. Daisy-kerfið hentar því sérstaklega vel þegar um námsefni er að ræða og er mikil framför frá hljóðsnældunni en enn sem komið er hentar það tæpast almennum notendum safnsins. Hugsanlega verður Daisy-kerfið síðar miðill safnsins fyrir almennt útlánsefni en margt annað kemur líka til greina og þróunin er ör á þessu sviði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með breytingunni sem hér er lögð til er miðað við að starfsemi Blindrabókasafnsins taki til miðlunar hugverka til tiltekinna hópa án tillits til þeirrar tækni sem notuð er til að koma verkunum á framfæri. Með því er verið að laga starfsemi safnsins að nútímanum og raunverulegu umhverfi. Enn fremur er opnað fyrir möguleika á samstarfi við aðra hópa en Blindrafélagið, en Blindrabókasafnið þjónar líka fötluðum, veikum og öldruðum sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að starfsemi námsbókadeildar geti einnig þjónað grunnskólanemendum og setningarhlutinn „einkum fyrir nemendur utan grunnskólastigs“ felldur brott úr lögunum. Reynsla, tækni og kunnátta eru til staðar á Blindrabókasafni til þess að framleiða efni fyrir blinda og sjónskerta. Þar af leiðandi hefur safnið tekið að sér að framleiða einnig efni fyrir grunnskólanemendur að beiðni Námsgagnastofnunar enda hafa kröfur um gæði námsefnis aukist og verða þeir að fá jafngóða þjónustu og aðrir.
    Ný tækni gerir kleift að veita fjölbreyttari þjónustu en áður og þykir því ekki rétt að geta sérstaklega um hljóðbækur og blindraletursbækur. Vegna mikillar tölvuvæðingar allra þátta starfseminnar hefur viðhald tækjakosts færst út úr safninu.

Um 3. gr.


    Stjórn Blindrabókasafns Íslands telur að ákvæði núgildandi laga um að ráðherra skipi einn deildarstjóranna forstöðumann stofnunarinnar sé úrelt. Starfsemi Blindrabókasafns Íslands hefur eflst og er stjórnun stofnunarinnar orðið nóg verkefni fyrir forstöðumanninn. Ákvæðið er orðið úrelt með tilliti til stjórnunar.

Um 4. gr.


    Í daglegu starfi velja starfsmenn safnsins bækur, t.d. í nóvember og desember. Eðlilega sitja þeir sem velja bækurnar fundi bókvalsnefndar. Starfsemi nefndarinnar hefur þróast þannig að hún heldur fundi einu sinni til tvisvar á ári.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 35/1982,
um Blindrabókasafn Íslands, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á verkefnum og stjórn Blindrabókasafns Íslands. Í gildandi lögum er safninu ætlað að annast framleiðslu, útgáfu og miðlun hljóðbóka og blindraletursbóka með áherslu á blinda og sjónskerta sem ekki stunda nám í grunnskólum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að safnið þjóni öllum sem eru lesfatlaðir og noti þá tækni sem er til á hverjum tíma til að koma hugverkum á framfæri við þá. Verði frumvarpið samþykkt mun safnið væntanlega leggja aukna áherslu á þjónustu við grunnskóla, fólk með sértæka lestrarörðugleika og aðra sem eiga erfitt með lestur.
    Samkvæmt grunnskólalögum, nr. 66/1995, er ríkinu skylt að leggja til og kosta kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár. Frumvarpið breytir ekki þeirri lagaskyldu Námsgagnastofnunar að tryggja að í grunnskólum sé ætíð völ á námsbókum og öðrum námsgögnum sem standast kröfur gildandi laga og aðalnámskrár. Að mati fjármálaráðuneytisins hafa breytingar á verkefnum Blindrabókasafnsins því ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Blindrabókasafninu er skipt í þrjár deildir og samkvæmt núgildandi lögum skipar ráðherra einn deildarstjóranna forstöðumann til fimm ára í senn. Í frumvarpinu er lagt til að forstöðumaður komi ekki úr hópi deildarstjóranna og má ætla að það auki kostnað safnsins um 4 m.kr. á ári.
    Að öllu samanlögðu er áætlað að útgjöld Blindrabókasafnsins aukist um 4 m.kr. á ári verði frumvarpið að lögum.