Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 188  —  180. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um lagabreytingar til að fullnægja ákvæðum Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagasetningu um viðurlög við stríðsglæpum í samræmi við ákvæði Genfarsáttmálans frá 1949 um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum og viðauka við hann frá árinu 1977.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd. Hún er nú endurflutt óbreytt.
    Genfarsáttmálarnir frá árinu 1949 um vernd óbreyttra borgara, sjúkra og fanga við hernaðarátök og hernám eru meðal mikilvægustu alþjóðasáttmála sem gerðir hafa verið um mannréttindi. Í sáttmála um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum er kveðið skýrt á um það í 146. gr. að aðildarríki hans skuldbindi sig til að lögleiða viðeigandi refsingar við alvarlegum brotum gegn ákvæðum sáttmálans. Sáttmálinn var undirritaður 12. ágúst 1949 og tók gildi 21. október 1950, fyrir hálfri öld. Ísland fullgilti sáttmálann 1965 og tók hann gildi hvað Ísland snertir ári síðar. Með þingsályktunartillögu þessari er skorað á ríkisstjórnina að beita sér fyrir lagasetningu sem fullnægi ákvæðum 146. gr. sáttmálans.