Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 198  —  189. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætta stöðu námsmanna.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að bæta stöðu námsmanna. Sérstaklega verði hugað að hækkun á grunnframfærslu LÍN, afnámi skattlagningar á húsaleigubætur, að húsaleigubætur skerði ekki námslán og barnabætur og að hámark húsaleigubóta verði hækkað. Á meðan skattlagning á húsaleigubætur hefur ekki verið afnumin verði því jafnframt beint til stjórnar LÍN að bæturnar skerði ekki námslán. Einnig verði tryggt að byggingaraðilar félagslegs húsnæðis, á borð við Félagsstofnun stúdenta, þurfi ekki að fjármagna uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir námsmenn með lántökum á almennum markaði.

Greinargerð.


    Brýnt er að bæta stöðu námsmanna verulega. Mikið óréttlæti felst í því að skattleggja húsaleigubætur á meðan vaxtabætur eru skattfrjálsar og hefur Jóhanna Sigurðardóttir lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem skattlagning húsaleigubóta er afnumin. Ástandið á húsaleigumarkaði snertir fjölmarga námsmenn, hvort heldur er skortur á félagslegu húsnæði, húsnæðisekla á almennum leigumarkaði eða skattlagning húsaleigubóta og skerðing þeirra á námslánum og barnabótum. Námsmenn eru fjórðungur þeirra sem fá húsaleigubætur og ljóst er að enn fleiri fengju bætur ef þeir sem leigja herbergi ættu rétt á húsaleigubótum. Margir námsmenn líða fyrir að húsaleigubætur skerða námslán og barnabætur og torveldar þeim að stunda nám.
    Flutningsmenn telja afar brýnt að breyta þessu þar sem núverandi fyrirkomulag bitnar mjög harkalega á námsmönnum utan af landi, einstæðum foreldrum, námsmönnum með börn og efnaminni námsmönnum sem eiga ekki annarra kosta völ en leigja og framfleyta sér á námslánum.
    Íbúðir á stúdentagörðum og námsmannaíbúðir eru ákjósanlegur kostur fyrir námsmenn, enda er hér um ódýrt húsnæði að ræða í nágrenni við Háskólann. Því er mikilvægt að Garðahverfið við Háskóla Íslands haldi áfram að vaxa, ekki síst í ljósi mjög erfiðs ástands á almennum leigumarkaði sem gerir það að verkum að námsmenn utan af landi og þeir efnaminni hrekjast frá námi. Einnig er mikill sparnaður fólginn í því fyrir námsmenn og samfélagið allt að námsmenn eigi heima í nágrenni við skóla sína og þurfi ekki að nota ökutæki til að sækja skóla.
    Í ágúst 1998 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að vinna að úttekt á leigumarkaði og kanna þörf fyrir leiguíbúðir. Nefndin skilaði skýrslu snemma á þessu ári og er hún nú til athugunar innan ráðuneytisins og í viðræðum ríkis og sveitarfélaga. Í skýrslunni er m.a. lagt til að hætta beri vaxtaniðurgreiðslum til byggingaraðila, en í staðinn komi stofnstyrkir til þessara aðila, hækkun húsaleigubóta eða hugsanlega hvort tveggja. Hinn neikvæði hluti þessara tillagna hefur þegar komið til framkvæmda, þ.e. vextir hafa hækkað og er áhrifa þess þegar farið að gæta hjá Félagsstofnun stúdenta. Hins vegar hefur því fjármagni sem hið opinbera sparar með þessu ekki verið komið aftur til byggingaraðila félagslegs húsnæðis þar sem enn er verið að ræða þessi mál. Þetta kemur byggingaraðilum félagslegs húsnæðis auðvitað afar illa, enda er þeim með þessu gert mjög erfitt fyrir á meðan þörf fyrir húsnæði eykst stöðugt.
    Flutningsmenn telja það aðför að þeim námsmönnum sem þurfa að vera á leigumarkaði að hækka vexti af lánum til leiguíbúða. Árum saman hafa þeir verið 1% og stuðlað að uppbyggingu námsmannaíbúða og hóflegri leigu námsmanna. Ljóst er að ef hækka á vextina hækkar annaðhvort leigan hjá námsmönnum eða dregur verulega úr uppbyggingu leiguíbúða. Flutningsmenn leggja því áherslu á að vextir af leiguíbúðum hækki ekki. Verði hins vegar um hækkun að ræða er brýnt að mæta henni með sambærilegri hækkun húsaleigubóta og byggingarstyrks til félagasamtaka sem standa að byggingu leiguíbúða. Ástandið var slæmt í fyrra og mörgum nemendum tókst ekki að finna sér fast húsnæði áður en skóli hófst. Allt bendir til þess að ástandið verði enn verra í ár. Ljóst er að Alþingi verður að grípa til markvissra aðgerða til að snúa við þessari þróun sem stefnir í óefni.
    Aldrei hafa jafnmargir stúdentar sótt um vist á stúdentagörðum og í ár, en alls bárust 835 umsóknir. Aðeins verður mögulegt að úthluta um 60% þeirra sem sóttu um íbúðum. Talið er að helstu ástæður fyrir fjölgun umsókna um vist á Görðum í ár sé lítið framboð og hátt leiguverð á almennum markaði. Leiguverð á stúdentagörðum virðist mun lægra en á almennum markaði og því eru Garðarnir góður kostur fyrir stúdenta. Til að þessi góði kostur dafni áfram er mikilvægt að markviss uppbygging stúdentagarða haldi áfram, en til þess þarf að skapa Félagsstofnun stúdenta skilyrði til að svo megi verða.
    Stúdentar hafa oft lýst áhyggjum af því að leiga á stúdentagörðum hækki vegna aukins fjármögnunarkostnaðar. Það er því mikilvægt að eigið fé Félagsstofnunar stúdenta til uppbyggingar byggist ekki á lántöku á almennum markaði. Ef Félagsstofnun þarf að leita fjármögnunarleiða með lántöku á almennum markaðsvöxtum mun það óhjákvæmilega leiða til verulegrar hækkunar húsaleigu á stúdentagörðum.
    Öflugir stúdentagarðar og uppbygging námsmannaíbúða eru ein af forsendum þess að allir hafi jafnan aðgang að námi. Landsbyggðarfólk, fjölskyldufólk og fólk sem býr við bágan fjárhag á æ erfiðara með að stunda nám vegna hækkandi framfærslukostnaðar.
    Flutningsmenn telja brýnt að tekið sé á þessum málum hið fyrsta til að tryggja jafnan aðgang allra að námi. Núverandi ástand mismunar fólki eftir efnahag og búsetu og við það verður ekki unað. Framfærslugrunnur námslána er úreltur og endurspeglar ekki raunverulega þörf námsmanna til framfærslu. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að reglulega séu gerðar kannanir á framfærsluþörf námsmanna og námslán taki mið af því. Námslán sem duga til framfærslu námsmanna eru lykilatriði til að tryggja og koma á jafnrétti til náms.