Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 200  —  191. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir,


Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján L. Möller, Sigríður Jóhannesdóttir,
Jóhann Ársælsson.


1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 33. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að fresta því að veita manni lausn frá embætti allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri ef hann óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laga þessara eru því ekki til fyrirstöðu. Mat um það hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er í höndum hlutaðeigandi ráðherra. Ákvæði þetta á ekki við um þá sem skipaðir eru tímabundið, sbr. 2. mgr. og 23. gr.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 43. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef starfsmaður óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laga þessara eru því ekki til fyrirstöðu, er heimilt að fresta uppsögn hans allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri. Mat um það hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er í höndum viðkomandi forstöðumanns.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Næstu ár og áratugi mun hlutfall fólks sem komið er á eftirlaunaaldur hækka. Á sama tíma má gera ráð fyrir því að meðalaldur manna hækki og heilbrigði aukist, ekki síst hjá þeim sem eldri eru. Í núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er mönnum gert að hætta störfum í síðasta lagi þegar þeir ná 70 ára aldri. Rökin fyrir þessum reglum voru einkum þau að skapa svigrúm fyrir yngra fólk á vinnumarkaði og draga úr atvinnuleysi. Þessi rök eiga síður við nú og munu missa gildi sitt enn frekar þegar hlutfall eldra fólks í þjóðfélaginu vex. Þetta mun leiða til þess að meiri þörf verður fyrir starfskrafta þessa fólks. Heilsufar þjóðarinnar hefur farið stigbatnandi undanfarin ár og má ætla að sú þróun haldi áfram. Margir eru við fulla heilsu og með óskerta starfsorku þegar áttræðisaldri er náð og kysu að vinna áfram ef þeir hefðu færi á, en eins og reglurnar eru nú er þessu fólki oft nauðugur einn kostur að setjast í helgan stein, þvert gegn vilja sínum. Engin haldbær rök eru fyrir svo stífum reglum. Af þessum sökum er lagt til í þessu frumvarpi að aldursmörk þau sem í lögunum greinir verði rýmkuð á þann hátt að ef starfsmaður óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laganna, t.d. skilyrði 3. tölul. 6. gr. um nauðsynlega heilbrigði, andlega og líkamlega, standa því ekki í vegi skuli heimilt að fresta því að segja starfsmanni upp störfum allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri.
    Hugsanlega mætti rýmka aldursmörkin enn frekar, en áður en það er gert er heppilegt og gagnlegt að sjá hvernig þeirri rýmkun á aldursmörkum sem hér er lögð til verður tekið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lögð til sú breyting að heimilt verði að fresta því að veita embættismönnum lausn frá starfi þegar þeir hafa náð 70 ára aldri. Ákvæði þetta gildir aðeins um þá embættismenn sem ráðnir eru ótímabundið. Þetta ákvæði felur ekki í sér að heimilt sé að skipa mann í embætti eftir að hann hefur náð 70 ára aldri, enda er hér einungis um að ræða heimild til að fresta því að veita embættismanni sem þegar hefur verið skipaður lausn frá starfi. Ef vafi leikur á um hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er gert ráð fyrir að mat um það efni verði í höndum viðkomandi ráðherra.

Um 2. gr.

    Hér er lögð til sú breyting að heimilt verði að fresta uppsögn starfsmanns allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri ef hann óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laganna eru því ekki til fyrirstöðu. Ef vafi leikur á um hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er gert ráð fyrir því að mat um það efni verði í höndum forstöðumanns viðkomandi stofnunar.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.