Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 202  —  143. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Árna Gunnarssonar um endurskoðun á lögum um fjáröflun til vegagerðar og álögur á landflutninga.

     1.      Hvenær var skipuð sú nefnd sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til að ráðherra skipaði til að taka lögin um fjáröflun til vegagerðar til heildarendurskoðunar, sbr. þskj. 973, 223. mál á 125. löggjafarþingi? Hvað líður störfum nefndarinnar?
    Með erindisbréfi, dags. 28. ágúst 2000, skipaði fjármálaráðherra nefnd til að endurskoða lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, einkum þau ákvæði þeirra er varða álagningu þungaskatts. Er nefndinni sérstaklega ætlað að kanna möguleika á upptöku olíugjalds í stað þungaskatts. Samkvæmt erindisbréfinu skulu tillögur nefndarinnar liggja fyrir í lok mars 2001. Vegna ófyrirséðra breytinga í starfsmannamálum innan fjármálaráðuneytisins hefur dregist að nefndin hefji störf en hún mun formlega taka til starfa í byrjun desember 2000.

     2.      Hver er skýringin á því að áætlað er að tekjur af þungaskatti aukist á árinu 2001 þrátt fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir auknum álögum á landflutninga við síðustu breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar?
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2001 er talið að þungaskattur geti skilað 4.227 millj. kr. á árinu 2001. Það er 282 millj. kr. meira en áætlað er fyrir árið 2000, sbr. eftirfarandi töflu. Til grundvallar þessum tölum liggja forsendur um fjölgun dísilbíla milli ára og fleiri ekna kílómetra.
    Eftirfarandi er nánari sundurgreining vegna tekna af þungaskatti samkvæmt fjárlögum 2000 og frumvarpi til fjárlaga 2001:

Í millj. kr. Fjárlög 2000 Frumvarp 2001 Aukning
Fast árgjald 1.698 1.810 112
Kílómetragjald 2.247 2.417 170
Samtals: 3.945 4.227 282

    Helstu ástæður aukinna tekna af þungaskatti er að finna í fjölgun dísilbíla. Í ársbyrjun 1999 var greitt fast árgjald þungaskatts af 10.472 bílum. Við álagningu í júní 2000 voru bílarnir orðnir 14.572, tæpum 40% fleiri. Mest var fjölgun bíla á bilinu 2–3 tonn, rúm 60%.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að við endurskoðun á lögunum verði dregið úr áhrifum stórfelldra olíuverðshækkana á flutningskostnað með því að lækka álögur á landflutninga?
    Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi breytingar á heildarskattheimtu af landflutningum en málið verður m.a. skoðað í framangreindri nefnd.