Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 206  —  196. mál.




Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „26,41%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 26,08%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2002 vegna tekna ársins 2001 og við staðgreiðslu á því ári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á skatthlutfalli tekjuskatts einstaklinga. Efni frumvarpsins er í samræmi við tillögur nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði í júní 1999 til að endurskoða ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Megintillaga nefndarinnar laut að því að hækka heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar. Til að milda áhrif framangreindrar heimildar sveitarfélaga til hækkunar á útsvari er lagt til að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga lækki um 0,33%. Áhrif þessarar breytingar eru metin 1.250 m.kr. til lækkunar á tekjum ríkissjóðs.
    Lagt er til að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga lækki úr 26,41% í 26,08%. Þessi breyting kemur til framkvæmda 1. janúar 2001 vegna staðgreiðslu á árinu 2001 og við álagningu tekjuskatts á árinu 2002.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga lækki um 0,33% þann 1. janúar 2001. Áhrif þessarar breytingar eru metin 1.250 m.kr. til lækkunar á tekjum ríkissjóðs.