Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 207  —  197. mál.




Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 69. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: skv. 3. og 4. mgr.
     b.      Í stað 3. og 4. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Barnabætur skulu árlega nema 33.470 kr. með öllum börnum yngri en sjö ára á tekjuárinu.
             Til viðbótar barnabótum skv. 3. mgr. skal greiðar tekjutengdar barnabætur með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem árlega skulu nema 113.622 kr. með fyrsta barni en 135.247 kr. með hverju barni umfram eitt. Tekjutengdar barnabætur með börnum einstæðra foreldra skulu vera 189.244 kr. með fyrsta barni, en 194.125 kr. með hverju barni umfram eitt. Barnabætur samkvæmt þessari málsgrein skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 1.290.216 kr. hjá hjónum og umfram 645.109 kr. hjá einstæðu foreldri. Með tekjuskattsstofni í þessu sambandi er átt við tekjur skv. II. kafla laganna, þó ekki tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. Skerðingarhlutfallið skal vera 5% með einu barni, 9% með tveimur börnum og 11% með þremur börnum eða fleiri.
     c.      5. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2001 og fyrirframgreiðslu á því ári.
    Hækka skal fjárhæðir barnabóta sem um ræðir í 3. mgr. og 1. og 2. málsl. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laganna sem hér segir:
     a.      1. janúar 2002 skulu fjárhæðirnar hækka um 3% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2002 og fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
     b.      1. janúar 2003 skulu fjárhæðirnar hækka um 2,75% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 og fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
    Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 3. málsl. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laganna sem hér segir:
     a.      1. janúar 2002 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2002 og fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
     b.      1. janúar 2003 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 4% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 og við fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
    Skerðingarhlutföll í 5. málsl. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laganna lækka sem hér segir:
     a.      1. janúar 2002 skal skerðingarhlutfallið vera 4% með einu barni, 8% með tveimur börnum og 10% með þremur börnum eða fleiri og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu 2002 og við fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.
     b.      Frá 1. janúar 2003 skal skerðingarhlutfallið vera 3% með einu barni, 7% með tveimur börnum og 9% með þremur börnum eða fleiri og kemur breytingin fyrst til framkvæmda við álagningu 2003 og við fyrirframgreiðslu barnabóta á því ári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á barnabótakerfinu í samræmi við stefnu- yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingu hennar frá 10. mars 2000 í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor. Meginmarkmið þessara breytinga er að draga úr tekjutengingu barnabótakerfisins með upptöku ótekjutengdra barnabóta og með nálægt þriðjungs lækkun á tekjuskerðingarhlutföllum. Enn fremur er eignaskerðing barnabóta afnumin. Þá hækka bótafjárhæðir í takt við umsamdar, almennar launahækkanir á árunum 2001–2003. Skerðingarmörk tekna hækka hins vegar nokkru meira. Miðað er við að þessar breytingar komi til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 2001, 2002 og 2003.
    Nánar tiltekið felast breytingarnar í eftirfarandi:
    Bótafjárhæðir hækka í takt við persónuafslátt á tímabilinu 2001–2003, þ.e. um 3% árið 2001, 3% árið 2002 og 2,75% árið 2003. Auk þess hækka fjárhæðir barnabóta um 2,5% við álagningu næsta árs samkvæmt ákvæði VI til bráðabirgða í lögum nr. 65/1997. Heildarhækkun á næstu þremur árum nemur því 11,7%.
    Skerðingarmörk tekna hækka um 5% árið 2001, 5% árið 2002 og um 4% árið 2003. Auk þess hækka skerðingarmörkin um 2,5% við álagningu næsta árs samkvæmt gildandi lögum. Heildarhækkun á skerðingarmörkum barnabóta á næstu þremur árum nemur því 17,5%.
    Þegar á næsta ári verða teknar upp ótekjutengdar barnabætur fyrir börn undir 7 ára aldri, að fjárhæð 33.470 krónur á ári.
    Skerðingarhlutföll tekna lækka um tvö prósentustig, eða um 1% hvort ár 2002 og 2003, þ.e. úr 5% í 3% með einu barni, úr 9% í 7% með tveimur börnum og úr 11% í 9% með þremur börnum eða fleiri. Þetta jafngildir um þriðjungs lækkun á skerðingarhlutföllum tekna.
    Eignatenging barnabótakerfisins verður afnumin í ársbyrjun 2001.
    Áætlað er að kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessara breytinga nemi rúmlega 2 milljörðum króna árlega þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda á árinu 2003.
    Í fyrstu grein frumvarpsins er lagt til að tvær nýjar málsgreinar komi í stað 3. og 4. mgr. núgildandi laga. Í 3. mgr. er lagt til að með hverju barni innan sjö ára aldurs á tekjuárinu skuli greiða 33.470 kr. í ótekjutengdar barnabætur. Lagt er til að öll ákvæði stafliðarins gildi um ótekjutengdar barnabætur, þ.á m. reglur um fyrirframgreiðslu barnabóta og skerðingar vegna dvalartíma, sbr. 2. mgr. Í 4. mgr. er fjallað um tekjutengdar barnabætur vegna barna sem eru yngri en 16 ára á tekjuárinu og fjárhæðir barnabóta hækkaðar til samræmis við það sem segir hér að ofan.

Samanlögð hækkun ráðstöfunartekna vegna hækkunar barnabóta til ársins 2003
– Fjölda foreldra skipt á tekjubil eftir hæð tekna

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Breytingar fjárhæða barnabótaákvæðis tekjuskattslaganna:

Álagningarár     2000      2001     2002     2003

Hjón og barnafólk                    
Barnabætur með fyrsta barni     107.622      113.622     x 3.0%     x 2.75%
Barnabætur með börnum umfr. eitt     128.105      135.247     x 3.0%     x 2.75%
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára     31.703      fellur út     fellur út     fellur út
Ótekjut. barnab. m. b. yngri en 7 ára     á ekki við      33.470     x 3.0%     x 2.75%
Skerðingarmörk tekna     1.198.807      1.290.216     5%     4%
Skerðingarmörk eigna     8,771.598      fellur út     fellur út     fellur út
Skerðingarhlutf. eigna     1.50%      fellur út     fellur út     fellur út

Einstæðir foreldrar                    
Barnabætur með fyrsta barni     179.251      189.244     x 3.0%     x 2.75%
Barnabætur með börnum umfr. eitt     183.874      194.125     x 3.0%     x 2.75%
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára     31.703      fellur út     fellur út     fellur út
Ótekjut. barnab. m. b. yngri en 7 ára     á ekki við      33.470     x 3.0%     x 2.75%
Skerðingarmörk tekna     599.404      645.109     5%     4%
Skerðingarmörk eigna     6.579.243      fellur út     fellur út     fellur út
Skerðingarhlutfall eigna     3.00%      fellur út     fellur út     fellur út

Skerðingarhlutfall tekna                    
Með einu barni     5%      5%     4%     3%
Með tveimur börnum     9%      9%     8%     7%
Með þremur börnum og fleiri     11%      11%     10%     9%

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fjárhæðir barnabóta hækki um 3% árið 2001, 3% árið 2002 og 2,75% árið 2003. Auk þess hækkar fjárhæð barnabóta um 2,5% við álagningu næsta árs samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 65/1997. Heildarhækkun fjárhæða barnabóta á næstu þremur árum nemur því 11,7%.
    Þá er lagt til að skerðingarmörk tekna hækki um 5% árið 2001, 5% árið 2002 og 4% árið 2003. Auk þess hækka skerðingarmörkin um 2,5% við álagningu næsta árs samkvæmt gildandi lögum. Heildarhækkun skerðingarmarka tekna á næstu þremur árum nemur því 17,5%.
    Enn fremur er lagt til í frumvarpi þessu að þegar á næsta ári verði teknar upp ótekjutengdar barnabætur fyrir börn undir 7 ára aldri, að fjárhæð 33.470 kr. á ári.
    Jafnframt er með frumvarpi þessu lagt til að skerðingarhlutföll tekna lækki um tvö prósentustig, eða um 1% hvort ár 2002 og 2003, þ.e. úr 5% í 3% með einu barni, úr 9% í 7% með tveimur börnum og úr 11% í 9% með þremur börnum eða fleiri. Þetta jafngildir um þriðjungs lækkun.
    Að lokum er lagt til að eignatenging barnabótakerfisins verði afnumin í ársbyrjun 2001.
    Áætlað er að kostnaðarauki ríkissjóðs af framangreindum breytingum geti numið um 2 milljörðum kr. á ári þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2003. Reiknað er með að sá útgjaldaauki dreifist nokkuð jafnt niður á tímabilið og að aukningin verði um 700 m.kr. á árinu 2001. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2001 hefur þegar verið gert ráð fyrir 600 m.kr. hækkun á fjárveitingu til greiðslu barnabóta í samræmi við áform um að draga úr skerðingum vegna tekna og eigna bótaþega sem sett voru fram í tengslum við kjarasamninga sl. vor. Er því gert ráð fyrir að gerð verði tillaga um hækkun á fjárveitingunni sem nemi um 100 m.kr. við 2. umræðu um frumvarpið. Sú fjárhæð verður þó endurskoðuð í ljósi nánari útreikninga sem Þjóðhagsstofnun mun framkvæma á næstunni til að meta áætlaða hækkun bótagreiðslnanna á hverju ári fyrir sig á tímabilinu 2001–2003.