Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 220  —  209. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Flm.: Pétur H. Blöndal.



1. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Sú lagagrein sem hér er lagt til að felld verði brott er í tveimur málsgreinum og á rætur sínar að rekja til laga nr. 29/1976, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og laga nr. 62/1985, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Í 1. mgr. segir:
    „Starfsmaður, sem lög þessi taka til, á rétt til þátttöku í stéttarfélagi sem fer með samningsumboð samkvæmt lögum þessum eftir því sem samþykktir viðkomandi félags segja. Aðeins eitt félag fer með umboð til samninga fyrir hann.“
    Þetta ákvæði er óþarft þar sem engin löggjöf bannar opinberum starfsmanni þátttöku í stéttarfélagi, enda félagafrelsi tryggt í stjórnarskrá. Ákvæðið segir aðeins það sem augljóst er og er því óþarft og getur jafnvel leitt til gagnályktana. Af þeim sökum er lagt til að það verði fellt úr lögunum.
    Í 2. mgr. 7. gr. segir svo:
    „Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi.“
    Þetta er í raun dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi. Það væri mjög óskynsamlegt fyrir starfsmann að njóta ekki allrar þjónustu stéttarfélags með því að gerast félagi, þótt honum væri það þvert um geð. Þannig brýtur þetta ákvæði hugsanlega gegn ákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um félagafrelsi, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995.
    Skilyrði þess að skylda starfsmann til að greiða félagsgjald til stéttarfélags án þess að skylda hann formlega til þátttöku er að um laun hans og önnur starfskjör fari samkvæmt samningum viðkomandi stéttarfélags. Eini ágóði starfsmanns af því að greiða til stéttarfélags sem hann er ekki félagi í er sá að hann nýtur þeirra kjarasamninga sem félagið hefur gert. Þar sem starfsmaðurinn er ekki félagi í stéttarfélaginu nýtur hann ekki annarrar þjónustu félagsins, þótt hann greiði félagsgjald. Því er ekki hægt að líta svo á að hér sé um þjónustugjald að ræða.
    Í þessu sambandi verður að hafa í huga að aðalefni kjarasamninga opinberra starfsmanna eru laun þeirra. Um réttindi þeirra og skyldur, svo sem rétt til orlofs og launa í veikindaforföllum, er að öðru leyti kveðið á í sérlögum sem taka að sjálfsögðu til allra opinberra starfsmanna, hvort sem þeir standa innan eða utan stéttarfélaga. Enn fremur má benda á að með þeirri stefnu að heimila forstöðumönnum ríkisstofnana að gera persónulega samninga við starfsmenn um launakjör njóti starfsmaður utan stéttarfélags ekki þjónustu stéttarfélagsins nema í samningum um lágmarkslaun. Sjálfur þarf hann að semja um hærri laun. Eðlilegra er því að telja gjaldtökuna skattlagningu, en skv. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar er framsal skattlagningarvalds óheimilt, sbr. 15. gr. laga nr. 97/1995. Í því ákvæði sem hér er lagt til að fellt verði brott er skattlagningarvaldið framselt til stéttarfélags sem getur breytt gjaldi sem starfsmanni er skylt að inna af hendi fyrirvaralaust án þess að hann fái rönd við reist eða haft nokkur áhrif á þá ákvörðun. Þar sem ákvæðið um bann við framsali skattlagningarvalds kom ekki inn í stjórnarskrána fyrr en árið 1995 virðist hafa láðst að aðlaga lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, að því. Frumvarpinu er ætlað að lagfæra þessa annmarka á löggjöfinni svo að hún samræmist stjórnarskránni. Því er lagt til að ákvæðið verði fellt brott úr lögunum.