Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 227  —  216. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Eigendur skipa skulu greiða 424 kr. fyrir hvert þorskígildistonn úthlutaðs eða landaðs afla, sbr. 3 mgr.
     b.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Þegar um er að ræða tegundir sem úthlutað er til einstakra skipa á grundvelli hlutdeilda skal gjaldið miðast við hlutdeildir viðkomandi skips í þeim tegundum og úthlutað heildaraflamark þegar gjaldið er lagt á, en miðist úthlutun ekki við hlutdeild skal miða gjaldið við úthlutað aflamagn.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „14.200“ í 3. mgr. kemur: 16.500.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sama gildir sé veiðieftirlitsmaður Fiskistofu um borð í fiskiskipi á kostnað útgerðar samkvæmt sérstakri heimild í lögum.
     c.      Í stað tölunnar „15.000“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 19.500.

3. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um veiðieftirlitsgjald. Í fyrsta lagi er lagt til að fjárhæð gjalds vegna veiðiheimilda innan og utan lögsögu verði breytt til samræmis við áætlaðan kostnað Fiskistofu af veiðieftirliti. Í öðru lagi er lagt til að þegar skipi er úthlutað tilteknu aflamagni sem byggist ekki á hlutdeild taki gjaldið mið af úthlutuðu aflamagni en ekki lönduðum afla eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Þá er lagt til að gjald fyrir veru eftirlitsmanna um borð í veiðiskipum verði hækkað og að það verði einnig innheimt fyrir veru veiðieftirlitsmanns um borð í fiskiskipi samkvæmt sérstakri heimild í lögum.
    Veiðieftirlitsgjald sem lagt verður á 1. desember nk. á að standa undir kostnaði af hefðbundnu veiðieftirliti Fiskistofu fiskveiðiárið 1. september 2000 til 31. ágúst 2001. Í fjárlögum ársins 2000 er gert ráð fyrir að innheimtan nemi 150,3 millj. kr. Gjaldið skiptist þannig að vegna veiðileyfa eru innheimtar um 38,8 millj. kr. og með gjaldi á aflaheimildir um 111,5 millj. kr. Sjávarútvegsráðherra ákvað sl. sumar að bregðast við mikilli umræðu um brottkast afla um borð í fiskiskipum og styrkja eftirlit með því. Af þeim sökum hefur Fiskistofa fengið heimild til að ráða nú þegar fimm veiðieftirlitsmenn. Jafnframt ákvað ráðherra að aðrir fimm yrðu ráðnir frá og með næstu áramótum. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður Fiskistofu hækki um 50 millj. kr. á ári við þetta. Í frumvarpi til fjáraukalaga ársins 2000, sem og frumvarpi til fjárlaga ársins 2001, er áætluð hækkun á veiðieftirlitsgjaldi vegna ráðningar fimm eftirlitsmanna. Til að standa undir kostnaði Fiskistofu af veiðieftirliti þarf innheimta vegna gjalds á aflaheimildir að nema samtals 161,5 millj. kr. Á nýhöfnu fiskveiðiári er gert ráð fyrir að úthluta 381.577 þorskígildistonnum til útgerða fiskiskipa og hefur þeim fækkað um 78.600 þorskígildistonn frá síðasta fiskveiðiári. Kemur þar tvennt til, annars vegar hefur orðið hlutfallslega meiri hækkun á verði þorsks en annarra tegunda og hins vegar var leyfilegur heildarafli þorsks minnkaður um 30 þús. tonn. Gjald á aflaheimildir er miðað við þorskígildistonn og er hér lagt til að það verði 424 kr. á hvert þorskígildistonn. Þá er lagt til að gjald vegna tegunda sem veiðast alfarið utan lögsögu Íslands verði samræmt almennu gjaldi á aflaheimildir og hækki úr 300 kr. í 424 kr. á hvert þorskígildistonn. Með því er enginn greinarmunur gerður á gjaldtöku eftir fiskstofnum eða veiðislóð þeirra.
    Breyting sú sem lögð er til á orðalagi 1. málsl. 3. mgr. 2. gr. laga um veiðieftirlitsgjald felur í sér að þegar úthlutað er tilgreindu magni sem ekki miðast við fasta aflahlutdeild skuli gjaldið miðast við úthlutað magn en ekki landaðan afla. Þetta þykir heppilegra með tilliti til úthlutunar aflaheimilda sem ekki byggist á hlutdeild skips heldur öðrum forsendum eins og t.d. úthlutun norsk-íslensku síldarinnar og sérstakra uppbóta. Orðið hlutdeild í málsgreininni tekur einnig til krókaaflahlutdeildar.
    Gjald fyrir veru eftirlitsmanna um borð í fullvinnsluskipum hefur ekki staðið undir kostnaði. Til að mæta því er hér lagt til að gjaldið hækki úr 14.200 kr. á sólarhring í 16.500 kr. Gjaldið hefur verið óbreytt síðan 1996. Frumvarp hefur komið fram þar sem gert er ráð fyrir að í ákveðnum tilfellum sé Fiskistofu heimilt að setja eftirlitsmenn um borð í fiskiskip á kostnað útgerðar í því skyni að koma í veg fyrir brottkast. Nauðsynlegt þykir að kveða á um hvaða upphæð útgerð beri að greiða í þessum tilvikum. Er lagt til að sama gjald verði greitt fyrir það og fyrir veru eftirlitsmanna um borð í frystiskipum. Þá er lagt til að gjald vegna veru eftirlitsmanna um borð í veiðiskipum sem stunda veiðar á grundvelli milliríkjasamnings úr stofni sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands hækki úr 15.000 kr. í 19.500 kr. Gjaldið hefur ekki breyst síðan 1996 og hefur ekki staðið undir kostnaði af veru eftirlitsmanna um borð.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000,
um veiðieftirlitsgjald.

    Með frumvarpinu eru gerðar fimm breytingar á gjaldtöku vegna veiðieftirlits. Í fyrsta lagi er lagt til að fjárhæð gjalds vegna veiðiheimilda innan lögsögu Íslands, og vegna deilistofna, verði breytt úr 242 kr. í 424 kr. fyrir hvert þorskígildistonn. Í öðru lagi er lagt til að gjald vegna veru eftirlitsmanna um borð í fullvinnsluskipum verði hækkað. Í þriðja lagi er lagt til að gjald verði innheimt beint af útgerðum vegna veru veiðieftirlitsmanns um borð í fiskiskipum samkvæmt sérstökum skilyrðum. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á gjaldtöku vegna veiða utan lögsögu. Loks er lagt til að þegar skipi er úthlutað tilteknu aflamagni sem byggist ekki á hlutdeild taki gjaldið mið af því en ekki lönduðum afla.
    1. Gjald á aflaheimildir, sem lagt verður á 1. desember nk., stendur ásamt gjaldi fyrir leyfi til veiða í atvinnuskyni undir kostnaði af hefðbundnu veiðieftirliti Fiskistofu fiskveiðiárið 1. september 2000 til 31. ágúst 2001. Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegsráðuneytinu er áætlað að innheimta gjalds á aflaheimildir þurfi að vera 161,5 m.kr. á ári til þess að standa undir kostnaði Fiskistofu af veiðieftirliti. Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir að veiðieftirlitsmönnum um borð í fiskiskipum verði fjölgað um fimm frá 1. september sl. Í frumvarpi til fjárlaga 2001 er einnig gert ráð fyrir þessari fjölgun og er áætlaður kostnaður 25 m.kr. á ári. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að gjaldtakan miðist við að ráðnir verið tíu nýir eftirlitsmenn og miðað við að gjaldið skili 50 m.kr. á ári.
    2. Lagt er til að gjald vegna veru eftirlitsmanna um borð í fullvinnsluskipum verði hækkað úr 14.200 kr. á sólarhring í 16.500 kr. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2001 er áætlað að gjaldið skili 20 m.kr. en hér er gert ráð fyrir að gjaldið skili samtals 22 m.kr. á ári.
    3. Einnig er lagt til að sama gjald verði greitt vegna veru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum á kostnað útgerðar samkvæmt sérstökum skilyrðum. Ekki er forsenda til að áætla tekjur vegna þessa gjalds þar sem óvíst er hvort og/eða í hve miklum mæli gjaldtökuheimildin verður nýtt.
    4. Loks er lagt til að gjald vegna veru eftirlitsmanna um borð í veiðiskipum sem stunda veiðar alfarið utan lögsögu Íslands hækki úr 15.000 kr. í 19.500 kr. á sólarhring. Einnig er lagt til að gjald fyrir hvert þorskígildistonn úthlutaðs eða landaðs afla vegna tegunda sem veiðast utan lögsögu verði hækkað úr 300 kr. í 424 kr. fyrir hvert þorskígildistonn. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2001 er áætlað að þetta gjald skili 32,5 m.kr. í tekjur, en nú er gert ráð fyrir að gjaldið skili 38,8 m.kr. í tekjur.
    5. Ekki er gert ráð fyrir auknum tekjum við breytingu sem felur í sér að þegar úthlutað er tilteknu aflamagni sem ekki miðast við fasta aflahlutdeild skuli gjaldið miðast við úthlutað magn, en ekki landaðan afla.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna þess hækki um 32,5 m.kr. á ári, úr 229,8 m.kr. í 260,3 m.kr., og fjárhæðin renni til Fiskistofu.