Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 231  —  217. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kosningar til Alþingis.

Flm.: Sverrir Hermannsson, Pétur Bjarnason.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa fulltrúa allra þingflokka, er sæti eiga á Alþingi, í nefnd sem endurskoði kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin skal hafa að markmiði að jafna atkvæðisrétt landsmanna þar sem landið verði allt eitt kjördæmi og þingmenn 52 talsins. Skal helmingur alþingismanna kosinn af landslista og hinn helmingur kosinn persónubundinni kosningu, þar sem 200 manna listi liggi til grundvallar. Þá skal nefndin sérstaklega huga að því hvort ekki eigi að leggja bann við tíðkuðum prófkjörum. Enn fremur skal leggja bann við birtingu skoðanakannana viku fyrir kosningar. Þá skal upp tekið ákvæði um að taki þingmaður sæti ráðherra skuli hann víkja úr þingsæti fyrir varamanni sínum.

Greinargerð.


    Við afgreiðslu allsherjarnefndar á síðasta þingi um frumvarp til laga um kosningar til Alþingis skilaði Sverrir Hermannsson svohljóðandi nefndaráliti:
    ,,Mál þetta gefur vissulega tilefni til að rifjuð væri upp saga kjördæmaskipunar og kosningaréttar á Íslandi á þeirri öld sem senn er á enda runnin. Það verður þó látið hjá líða. Aðeins minnt á sleitulausa baráttu lýðræðisflokkanna fyrir réttlátara kerfi og jöfnun kosningaréttar allar götur frá því að sérgæsluflokkur Framsóknar nam hér land.
    Í skjóli hróplegs ranglætis í þeim efnum deildi sá flokkur og drottnaði áratugum saman til óheilla fyrir land og lýð, þar sem flokkslegir sérhagsmunir sátu ávallt í fyrirrúmi, að ekki sé minnst á Hriflungaöld.
    Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hófu í öndverðu atlögu að hinu rangláta kerfi og seinna bættust sósíalistar í þann hóp.
    Á árum áður þótti mönnum sem rök lægju til þess að strjálar byggðir ættu meira afl í atkvæði sínu en þéttbýlisfólk og þó einkum íbúar höfuðborgarinnar. Auðvitað reyndust þetta falsrök ein, enda verður í engu séð að misvægi atkvæða hafi nokkurs manns hagsmuni varið né byggðarlaga. Heldur þvert á móti, þar sem fulltrúar þéttbýlisins hafa hrammsað til sín að kalla allt framkvæmdarvaldið með beinni vísan til þess að með því móti væri verið að jafna atkvæðisréttinn. Á því lagi hefur a.m.k. flokksstjórn Sjálfstæðisflokksins legið. Til þess að geta skotið þeim skildi fyrir sig hefur enginn áhugi verið hjá forystu þess flokks á jöfnun atkvæðisréttar hina síðari áratugina, svo sem staðfest er rækilega með þeim óbermilega málatilbúnaði sem hér liggur fyrir afgreiðslu.
    Árið 2000 liggur fyrir tillaga á Alþingi Íslendinga, og virðist njóta mikils meirihlutafylgis, um að misvægi atkvæða skuli vera allt að einn á móti tveimur, sem gerir hinn helga undirstöðurétt í lýðræðisríki að skrípi. Og örþjóðinni, sem er ekki fjölmennari en meðalþorp á öðrum löndum, skal skipt upp í kjördæmi, sem eiga sér enga stoð aðra en að innan þeirra búi sem jafnastur fjöldi fólks. Sem leiðir til þess að höfuðborginni þarf að skipta þvers og kruss eða hvorutveggja og hallvika kjördæmamörkum þar eftir stærð fjölbýlishúsa og fjölda íbúa þeirra.
    Þetta illa strokkaða tilberasmjör úr strokki þingflokka síðasta kjörtímabils hlýtur, ef að lögum verður, að opna augu þings og þjóðar fljótlega fyrir þeirri nauðsyn að landið verði allt eitt kjördæmi og hinn dýrmæti lýðræðislegi frumburðarréttur einstaklinganna, atkvæðisrétturinn, jafn og óskertur. Það má heita með ólíkindum ákvæðið, sem kveður svo á að skilyrði til að fá úthlutað jöfnunarþingsæti sé að framboð fái á landsvísu 5% atkvæða, enda þótt slíkt framboð hafi fengið kjördæmakjörinn mann.
    Af sjálfu leiðir að Frjálslyndi flokkurinn á enga aðild að málatilbúnaði þessum og ætlar sér ekki að hafa, enda sýnist siglt fyrir öll sker um framgang málsins. Þingmenn flokksins áskilja sér rétt til að fylgja breytingartillögum ef fram koma. Þeir munu sitja hjá við lokaafgreiðslu þess og vísa með því frá sér allri ábyrgð á því. Þeir munu hins vegar beita sér fyrir endurupptöku málsins þegar á næsta þingi.“
    Það er augljóst mál að ekki verður búið við hina nýju kjördæmaskipan. Þess vegna er fyrsti tíminn bestur til að breyta um skipan þessa undirstöðumáls lýðræðisins.