Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 238  —  224. mál.
Frumvarp til safnalaga.(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)I. KAFLI

Yfirstjórn og skipulag.

1. gr.

    Í lögum þessum er kveðið á um skipulag lista- og minjasafna í þeim tilgangi að varðveita menningarsögu íslensku þjóðarinnar.

2. gr.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn minja- og listasafna. Til minjasafna teljast menningarminjasöfn og náttúrugripasöfn.
    Menntamálaráðherra skipar safnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa, Félag íslenskra safnamanna einn og þrír skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.

3. gr.

    Hlutverk safnaráðs er að vinna að mörkun stefnu og gera langtímaáætlun um starfsemi lista- og minjasafna. Safnaráð hefur eftirlit með söfnum í eigu ríkisins og söfnum sem hljóta ríkisstyrki. Safnaráð úthlutar úr safnasjóði, sbr. 10. gr.

II. KAFLI

Safnastarfsemi.

4. gr.

    Safn samkvæmt lögum þessum er stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum sem snerta manninn, sögu hans og umhverfi, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.

5. gr.

    Höfuðsöfn eru í eigu íslenska ríkisins og eru miðstöð safnastarfsemi hvert á sínu verksviði. Höfuðsöfn skal stofna með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra. Höfuðsöfn eru öðrum söfnum til ráðgjafar og stuðla þau að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.
    Höfuðsöfn kalla eftir safnastefnu þeirra safna sem starfa á þeirra sviði. Á fjögurra ára fresti skulu höfuðsöfn semja sameiginlega stefnuyfirlýsingu fyrir það safnasvið sem þau veita forstöðu og skal stefnuyfirlýsingin ásamt verkáætlun send safnaráði til staðfestingar.
    Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu. Þjóðminjasafn Íslands annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar og kynningu þeirra, innan lands og utan.
    Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar. Listasafn Íslands annast heimildasöfnun, kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.
    Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Náttúruminjasafn Íslands annast heimildasöfnun, kynningu og rannsóknir á íslenskri náttúru.

6. gr.

    Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja, en þó getur menntamálaráðherra veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því. Gjafir og fjárframlög til safna eru frádráttarbær til skatts, sbr. ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með áorðnum breytingum.

7. gr.

    Heimilt er að lána gripi eða verk úr söfnum til sýningar, en þó eigi til útlanda nema með samþykki menntamálaráðherra að fenginni umsögn safnaráðs og þjóðminjavarðar ef um er að ræða gripi sem falla undir ákvæði laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Höfuðsöfnum er heimilt að lána um lengri eða skemmri tíma einstaka gripi eða verk til annarra safna eða opinberra stofnana, en tryggilega skal gengið frá varðveislu þeirra og þeir tryggðir eftir því sem forstöðumaður ákveður. Sama regla gildir um söfn sem hljóta styrki á grundvelli laga þessara. Nánari reglur um útlán muna og verka skal setja í reglugerð.

8. gr.

    Ekki má nota myndir af gripum eða verkum höfuðsafna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni og ekki heldur gera af þeim myndir eða eftirlíkingar nema með leyfi viðkomandi forstöðumanns enda sé gætt réttar rétthafa samkvæmt höfundalögum. Sama regla gildir um söfn sem hljóta styrki á grundvelli laga þessara.

9. gr.

    Hvert höfuðsafn hefur sjálfstæða fjárveitingu í fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar hvers höfuðsafns til fimm ára.

III. KAFLI

10. gr.

    Hlutverk safnasjóðs er að styrkja starfsemi safna sem heyra undir lög þessi. Safnaráð úthlutar úr sjóðnum styrkjum til safna samkvæmt sérstökum úthlutunarreglum sem ráðið setur og menntamálaráðherra staðfestir.
    Tekjur sjóðsins eru:
     a.      framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
     b.      frjáls framlög.
    Öll söfn sem undir lög þessi falla geta sótt um verkefnatengda styrki til safnasjóðs. Til þess að geta sótt um rekstrarstyrki þarf safn að uppfylla eftirtalin skilyrði:
     1.      Safnið skal hafa sjálfstæðan fjárhag og vera stjórnað af forstöðumanni í a.m.k. hálfu starfi.
     2.      Safnið skal starfa eftir stofnskrá sem hlotið hefur staðfestingu safnaráðs og skal starfa eftir stefnu sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti.
     3.      Safnið skal rekið óaðfinnanlega að mati safnaráðs og fjárhagsgrundvöllur þess skal vera tryggður.
     4.      Safnið skal vera opið almenningi daglega á auglýstum tíma a.m.k. þrjá mánuði á ári.
     5.      Safnið skal bjóða upp á safnfræðslu eftir því sem við verður komið.
     6.      Safnið skal skrá safngripi eftir viðurkenndu skráningarkerfi.
     7.      Safnið skal fylgja viðurkenndum alþjóðlegum siðareglum safna.

11. gr.

    Nú vilja stjórnendur safns sem uppfyllir skilyrði laga þessara um rekstrarstyrk, sbr. 10. gr., afla sér húsnæðis fyrir safnið, hvort heldur með kaupum eða nýsmíði, og eiga þeir þá kost á að fá styrk til þess úr ríkissjóði, allt að einum þriðja hluta kostnaðar, eftir því sem fé kann að vera veitt til þess í fjárlögum enda samþykki safnaráð húsnæðið og stofnkostnað. Framlag ríkissjóðs skal innt af hendi samkvæmt sérstökum samningi og greiðsluáætlun sem stjórnendur safns gera við menntamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti áður en framkvæmdir hefjast.

12. gr.

    Nú telur safnaráð að safni sem hlýtur ríkisstyrk sé hætta búin sökum vanhirðu eða af öðrum orsökum og ekki hefur fengist úr bætt þrátt fyrir endurteknar áskoranir og getur þá menntamálaráðherra svipt safnið ríkisstyrk.

IV. KAFLI

Almenn ákvæði.

13. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið eru numin úr gildi ákvæði II. kafla þjóðminjalaga, nr. 88/1989, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Söfn sem nú starfa samkvæmt sérstökum lögum skulu laga starfsemi sína að lögum þessum innan tveggja ára frá gildistökudegi þeirra. Á þeim tíma skal lokið við að endurskoða löggjöf um starfsemi þeirra.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 5. gr. þar sem lagt er til að sett verði á laggirnar Náttúruminjasafn Íslands er hafi stöðu höfuðsafns kemur það ekki til framkvæmda fyrr en endurskoðun er lokið á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, er miðar að því að aðgreina safnastarfsemi Náttúrufræðistofnunar frá öðrum skilgreindum verkefnum stofnunarinnar. Sett verði sérlög um Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við lög þessi. Endurskoðun laga nr. 60/1992 ber að ljúka innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara. Náttúruminjasöfn eiga eftir sem áður rétt á styrkjum úr safnasjóði á grundvelli 10. gr. með sama hætti og önnur minjasöfn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta er samið af nefnd er Björn Bjarnason menntamálaráðherra skipaði 10. mars 1999. Hlutverk nefndarinnar var samkvæmt skipunarbréfi að undirbúa rammalöggjöf um safnamál. Í nefndinni sátu Gunnar Jóhann Birgisson hrl., formaður, Inga Lára Baldvinsdóttir, deildarstjóri á Þjóðminjasafni Íslands, Jósef H. Þorgeirsson lögfræðingur, Sigurður Á. Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, og Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Samkvæmt skipunarbréfi voru verkefni nefndarinnar þessi: 1. Að skilgreina þá safnastarfsemi sem nú er rekin. 2. Að skilgreina hlut ríkis, sveitarfélaga og stofnana að því er varðar stofnun og rekstur safna af mismunandi tegundum. 3. Að gera tillögur um breytingar á gildandi löggjöf. Fljótlega eftir að nefndin hóf störf var tekin ákvörðun um að hún ætti fyrst og fremst að fjalla um starfsemi minja- og listasafna en ekki um starfsemi skjala- og bókasafna enda er starfsemi slíkra safna nokkuð frábrugðin starfsemi annarra safna og um skjalasöfn gilda sérstakar reglur. Hugtakið minjasafn tekur bæði til menningarminjasafna og náttúruminjasafna. Víða um land starfa slík söfn hlið við hlið í sama safnahúsi. Í báðum þessum flokkum safna eru gerðar sömu faglegu kröfur til skráningar, varðveislu og sýningarhalds. Á Norðurlöndunum er farið að nota hugtakið „kulturmiljö“ sem samheiti yfir alla þætti sem snerta búsetu fólks á tilteknu svæði og vinna þannig heildstætt að minjavörslu, menningarmálum o.s.frv. Slíkar hugmyndir renna enn frekari stoðum undir þá skoðun að náttúruminjasöfn séu felld undir þessa löggjöf með sama hætti og önnur minjasöfn.
    Safnastarfsemi í nágrannalöndum okkar hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og víða hefur verið sett rammalöggjöf um safnastarfsemi. Í Finnlandi voru sett slík lög árið 1992 og í Noregi hefur safnalöggjöf verið til endurskoðunar. Í Danmörku voru sett lög um söfn árið 1984 og hefur þeim lögum nokkrum sinnum verið breytt á undanförnum árum. Dönsku lögin eru rammalög. Nefndin hefur í störfum sínum um margt haft hliðsjón af þeirri löggjöf. Jafnframt hefur verið tekið tillit til siðareglna ICOM, Alþjóðaráðs safna.
    Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja og efla almenna safnastarfsemi. Jafnframt því er nauðsynlegt að tryggja að opinberum fjármunum sem veittir eru til safnamála sé vel varið og að fjárveitingar til safna grundvallist á rökstuddu mati og heildstæðri stefnu í safnamálum. Til þess að ná fram þessum markmiðum er í frumvarpi þessu lagt til:
     1.      Að hugtakið safn sé skilgreint í lögunum.
     2.      Að sett verði á laggirnar safnaráð er hafi það hlutverk að marka heildarstefnu um safnastarfsemi.
     3.      Að stofnaður verði sérstakur safnasjóður er sjái um styrkveitingar til safna. Safnaráð fari með stjórn sjóðsins og umsækjendur verði að uppfylla ákveðin lögbundin skilyrði til þess að fá rekstrarstyrk.
     4.      Að stefnt sé að því á hverju safnasviði að koma á fót höfuðsafni sem sé miðstöð safnastarfsemi á sínu sviði með ákveðnar lögbundnar skyldur gagnvart öðrum söfnum.
     5.      Að Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands verði skilgreind sem höfuðsöfn.
     6.      Að menntamálaráðherra skipi forstöðumenn höfuðsafna.
    Við undirbúning frumvarps þessa var leitað umsagnar eftirtalinna aðila: Félags íslenskra fornleifafræðinga, Félags íslenskra safnamanna, fornleifanefndar, Fornleifastofnunar Íslands, Húsafriðunarnefndar ríkisins, Kvikmyndasafns Íslands, Listasafns Íslands, safnaráðs Listasafns Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, stjórnar Kvikmyndasjóðs Íslands, þjóðminjaráðs og þjóðminjavarðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í þessum kafla er lýst skipulagi og yfirstjórn safnastarfseminnar.

Um 1. gr.


    Í greininni er fjallað um tilgang laganna og starfsemi lista- og minjasafna. Lögin taka til allra listasafna og allra minjasafna hvort sem um er að ræða menningarminjasöfn eða náttúruminjasöfn. Þau taka því til byggðasafna og allra safna sem varðveita menningarsögulegar minjar þjóðarinnar og náttúruminjar. Lögin taka ekki til bóka- og skjalasafna.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Jafnframt er kveðið á um skipun safnaráðs og tilnefningaraðila.

Um 3. gr.


    Hér er greint frá hlutverki safnaráðs en ráðinu er ætlað að vinna að mörkun stefnu og gera langtímaáætlun um safnastarfsemi í heild. Jafnframt skal safnaráð hafa eftirlit með safnastarfseminni og fara með yfirstjórn safnasjóðs.
    Safnaráð er fimm manna nefnd, en ekki stofnun, sem hefur afmörkuð verkefni. Ekki er ætlast til umfangsmikillar starfsemi af hálfu ráðsins. Þannig er miðað við að eftirlit ráðsins með söfnum í eigu ríkisins felist í því að meta skýrslur sem söfnum er gert að senda ráðinu og styrkhæfni safna vegna úthlutana úr safnasjóði. Eingöngu er miðað við að fjárveitingar til ráðsins miðist við funda- og þóknunarkostnað.

Um II. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um helstu þætti í starfsemi safna. Hugtakið safn er skilgreint og fjallað er um hlutverk höfuðsafna og skipulag þeirra. Jafnframt er fjallað um ýmis önnur atriði er varða safnastarfsemina og nauðsynlegt er talið að lögbinda.

Um 4. gr.


    Í greininni er hugtakið safn skilgreint. Skilgreiningin er m.a. byggð á þeirri skilgreiningu sem fram kemur í siðareglum ICOM, Alþjóðaráðs safna.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að á hverju safnasviði skuli stefnt að því að koma á fót höfuðsafni er sé miðstöð safnastarfsemi á sínu sviði og hafi tilgreindar skyldur gagnvart öðrum söfnum. Jafnframt er lagt til að Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands verði höfuðsöfn enda miðast starfsemi þeirra við það nú og því er ekki um efnislega breytingu að ræða. Í greininni er fjallað um stjórnskipulag höfuðsafna og helstu skyldur forstöðumanna.
    Lagt er til að höfuðsöfn móti stefnu á því sviði sem þau starfa. Þannig mun Þjóðminjasafn Íslands móta stefnu fyrir minjasöfn og Listasafn Íslands fyrir listasöfn.
    Í 5. mgr. er lagt til að sett verði á laggirnar höfuðsafn er beri heitið Náttúruminjasafn Íslands. Þessi skipan krefst þess að gerðar verði breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 60/1992, en í þeim lögum er safnastarfsemi skilgreind sem hluti af verkefnum Náttúrufræðistofnunar. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skal endurskoðun laga nr. 60/1992 lokið á næstu tveimur árum frá gildistöku þessara laga verði frumvarp þetta að lögum og kemur þetta ákvæði þá fyrst til framkvæmda að þeirri endurskoðun lokinni. Hér er því fyrst og fremst um mikilvæga stefnumörkun að ræða. Við gerð sérlaga um Náttúruminjasafn Íslands er nauðsynlegt að tryggja aðild fulltrúa umhverfisráðuneytis eða stofnana á þess vegum að starfi safnsins.

Um 6.–8. gr.


    Sambærileg ákvæði er að finna í lögum nr. 88/1989, um Þjóðminjasafn Íslands, og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 9. gr.


    Hér er fjallað um fjárveitingar til höfuðsafna.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um safnasjóð, hlutverk hans og skipulag.

Um 10. gr.


    Lagt er til að stofnaður verði sérstakur sjóður er beri heitið safnasjóður sem hafi það hlutverk að sjá um styrkveitingar til safna. Með stofnun slíks sjóðs er tryggð aukin samkvæmni í styrkveitingum og aukið eftirlit með þeim söfnum sem fá styrki. Vakin er athygli á því að lagt er til að safn geti ekki fengið rekstrarstyrk nema stofnskrá þess hafi verið samþykkt af safnaráði. Hér er um mikilvæga nýbreytni að ræða. Jafnframt er gerður skýr greinarmunur á rekstrarstyrkjum annars vegar og verkefnatengdum styrkjum hins vegar.
    Safnasjóður skal m.a. hafa til ráðstöfunar þá fjármuni sem hingað til hafa verið veittir til byggða- og minjasafna af fjárlagalið Þjóðminjasafns Íslands og af fjárlagaliðnum söfn, ýmis framlög, sbr. fjárlagalið 02-919-1.90.
    Að meginstefnu til er ekki gert ráð fyrir að höfuðsöfn geti sótt um verkefnatengda styrki úr sjóðnum. Höfuðsöfn geta alls ekki sótt um rekstrarstyrki úr sjóðnum enda hafi þau sérgreinda fjárveitingu í fjárlögum.

Um 11.–12. gr.


    Sambærileg ákvæði um byggðasöfn er að finna í lögum nr. 88/1989 og þarfnast þau ekki frekari skýringa.

Um 13.–14. gr.


    Hér er finna ákvæði sem ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Sjá athugasemdir við 5. gr.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til safnalaga.

    Tilgangur frumvarpsins er að kveða á um skipulag lista- og minjasafna. Í því er í fyrsta lagi lagt til að skipað verði fimm manna safnaráð til þess að vinna að stefnumótun og langtímaáætlun fyrir safnastarfsemi, úthluta úr safnasjóði og hafa eftirlit með söfnum í eigu ríkisins og söfnum sem hljóta ríkisstyrki. Af frumvarpinu má ráða að stefnumótun og eftirlit safnaráðs muni í reynd beinast mest að úthlutun úr safnasjóði og eftirliti með notkun þess fjár. Safnaráð mun að einhverju leyti fást við hluti sem menntamálaráðuneytið hefur sinnt hingað til. Að þessu virtu áætlar fjármálaráðuneytið að útgjöld ríkisins aukist um 1 m.kr. vegna stofnunar safnaráðs. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ákveðin söfn í landinu verði gerð að miðstöðvum safnastarfsemi, hvert á sínu sviði. Lagt er til að Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands verði slíkar miðstöðvar og telur fjármálaráðuneytið að það hafi óverulegar breytingar á útgjöldum í för með sér. Þá er gert ráð fyrir að stofnað verði Náttúruminjasafn Íslands og mun stofnun slíks safns hafa í för með sér töluverð útgjöld, sem of snemmt er að áætla. Setja þarf sérstök lög um Náttúruminjasafn Íslands þegar þar að kemur. Í þriðja og síðasta lagi er gert ráð fyrir að stofnaður verði safnasjóður með því að sameina fjármuni sem veitt hefur verið til byggða- og minjasafna af fjárlagalið Þjóðminjasafns Íslands, 24,4 m.kr. í fjárlagafrumvarpi 2001, og af óskiptu viðfangsefni á fjárlagaliðnum söfn, ýmis framlög, 7,5 m.kr. í fjárlagafrumvarpinu. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur þessi breyting ekki í för með sér aukin útgjöld ríkissjóðs.
    Samkvæmt framangreindu telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið leiði til 1 m.kr. útgjaldaauka verði það að lögum.