Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 241  —  163. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um bótagreiðslur vegna rekstrarstöðvana fyrirtækja af völdum náttúruhamfara.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á tryggingalöggjöfinni svo að hægt sé að tryggja fyrirtæki fyrir rekstrarstöðvunum af völdum náttúruhamfara?

    Í svari þessu er við það miðað að með breytingu á „tryggingalöggjöfinni“ sé átt við lög um Viðlagatryggingu Íslands.
    Sem kunnugt er hefur hlutverk Viðlagatryggingar Íslands verið lögum samkvæmt að vátryggja fyrst og fremst eignir gegn beinu tjóni af völdum náttúruhamfara. Hér er því um hreina eignatryggingu að ræða, þannig að tjón vegna tapaðra leigutekna almennra húseigenda eða tjón vegna rekstrarstöðvunar fyrirtækja er ekki bætt.
    Í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn á þingskjali 164 (162. mál) er gerð grein fyrir því að ráðherra hefur í hyggju að setja á laggirnar nefnd sem geri tillögur um það sem betur megi fara í framkvæmd og rekstri viðlagatryggingarinnar þegar lokið verður uppgjöri þeirra tjóna sem urðu á Suðurlandi síðastliðið sumar og þegar fyrir liggja upplýsingar um allar afleiðingar jarðskjálftanna. Meðal þeirra atriða sem þá kunna að koma til athugunar er hvort rétt kunni að vera að skylda atvinnurekendur til að kaupa rekstrarstöðvunartryggingu vegna náttúruhamfara. Mun þá væntanlega verða tekin afstaða til þess hvort rekstrarstöðvunartryggingar henti sem skyldutryggingar.
    Hvað varðar vátryggingarskylduna er meginreglan í íslenskum vátryggingarétti sú að vátryggingar eru frjálsar. Með öðrum orðum, einstaklingum og fyrirtækjum á að vera í sjálfsvald sett hvort og þá að hversu miklu leyti þessir aðilar vátryggja hagsmuni sína. Skyldutryggingum er fyrst og fremst til að dreifa þegar hagsmunir annarra aðila gera slíkt nauðsynlegt, sbr. lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja sem bæta ætíð tjón sem ökumaður bifreiðar veldur. Á vissan hátt má segja að lögboðnar vátryggingar eins og ökutækjatryggingar, brunatryggingar húseigna og viðlagatrygging eigna séu að nokkru liður í því að viðhalda allsherjarreglu. Almennt hefur þó það viðhorf verið uppi að vátryggingarskylda eigi að vera undantekning en ekki regla. Sérstaklega eigi þetta við um atvinnurekstur þar sem ætla verði að rekstraraðilar sjálfir eigi að geta metið vátryggingarþörf sína eða eftir atvikum borið áhættuna sjálfir.
    Rekstrarstöðvunartrygging er fremur flókin vátryggingargrein og er eins og nafnið ber með sér fyrst og fremst ætluð atvinnurekendum og fyrirtækjum. Umfang vátryggingarinnar, bótasvið, bótatími, vátryggingarfjárhæðir o.s.frv., er á hinn bóginn afar mismunandi og ræðst m.a. af stærð fyrirtækis og eðli rekstrar. Vátryggingin tekur til tjóns sem vátryggingartaki verður fyrir vegna samdráttar í vörusölu eða þjónustu af völdum tjóns sem orðið hefur á lausafé eða á þeim húsum sem lausafé er varðveitt í. Að auki bætir vátryggingin þann nauðsynlega og sannanlega aukakostnað sem er bein afleiðing af því að húsnæði vátryggingartaka er að nokkru eða öllu leyti ónothæft af völdum tjóns. Rekstrarstöðvunartryggingu er þannig almennt ætlað að bæta vátryggingartaka það rekstrartjón sem hann verður fyrir á þeim tíma sem rekstur hans stöðvast. Bótatíminn er oft 12 mánuðir en getur þó verið 6, 18 eða 24 mánuðir. Fer það eftir aðstæðum og eðli fyrirtækisins. Vátryggingarfjárhæðin er grundvölluð á framlegðarútreikningum. Það er álitamál hvort sértæk og breytileg vátrygging eins og rekstrarstöðvunartrygging er, sem eingöngu er til hagsbóta rekstraraðilanum sjálfum, henti sem skylduvátrygging.