Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 243  —  196. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá Guðmundi Árna Stefánssyni, Össuri Skarphéðinssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur,
Margréti Frímannsdóttur, Sighvati Björgvinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur,
Gísla S. Einarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur,
Lúðvík Bergvinssyni, Sigríði Jóhannesdóttur, Svanfríði Jónasdóttur,
Einari Má Sigurðarsyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Jóhanni Ársælssyni,
Kristjáni L. Möller og Þórunni Sveinbjarnardóttur.


     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
              Í stað hlutfallstölunnar „26,41%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 25,42%.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
             Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001. Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna skal hlutfallstalan vegna tekna ársins 2001 og við staðgreiðslu á því ári vera 25,75% og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2002.

G r e i n a r g e r ð.

    Af hálfu þingmanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem og fulltrúa sveitarfélaga, er yfirlýst og óumdeilt að stóraukin tekjuþörf sveitarfélaga er til staðar vegna langvarandi hallareksturs þeirra. Þá liggur það fyrir að erfið fjárhagsstaða sveitarfélaga er að stórum hluta vegna skattalagabreytinga sem hafa orðið að frumkvæði ríkisvaldsins og vegna nýrra verkefna sveitarfélaga sem nægir tekjustofnar hafa ekki fylgt. Af þessum sökum er fjárþörf sveitarfélaganna viðurkennd. Ríkisstjórnin leggur til að þessari auknu fjárþörf sveitarfélaganna verði mætt að talsverðu leyti með almennri skattahækkun á gjaldendur. Eðlilegt er hins vegar að hér sé fyrst og síðast um tekjutilfærslu að ræða milli þessara opinberu aðila, ríkisvalds og sveitarfélaga.
    Hér eru gerðar breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar, 196. mál, þskj. 206, en þar er gert ráð fyrir lækkun skatthlutfalls tekjuskatts einstaklinga um 0,33 prósentustig sem er helmingur af auknum heimildum sveitarfélaga til hækkunar útsvars fyrir árið 2001 um 0,66 prósentustig. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, 199. máli á þskj. 209, er einnig gert ráð fyrir heimildum til frekari hækkunar útsvars, um 0,33 prósentustig, á árinu 2002 án þess að ríkissjóður hyggist lækka skatthlutfall tekjuskatts á móti. Í breytingartillögunum er hins vegar lagt til að skatthlutfall tekjuskatts verði lækkað jafnmikið og heimildir til hækkunar útsvars gera ráð fyrir eða um samtals 0,99 prósentustig, þ.e. 0,66 prósentustig árið 2001 og 0,33 prósentustig árið 2002.
    Fjölmargar samþykktir sveitarstjórna og samtaka þeirra hafa verið gerðar þar sem áformum ríkisstjórnarinnar er mótmælt og þess farið á leit að álögur verði lækkaðar til jafns við auknar heimildir sveitarsjóða. Með þessum breytingartillögum er komið til móts við þau sjónarmið, enda eru þau eðlileg og sanngjörn. Vísast hér til fylgiskjals III, bókunar fyrsta flutningsmanns, Guðmundar Árna Stefánssonar, í 199. máli, þskj. 209, um tillögur og skýrslu tekjustofnanefndar.