Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 258  —  150. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Stefaníu Óskarsdóttur um atvinnuleyfi útlendinga.

     1.      Í hve mörgum tilvikum hafa atvinnurekendur á hendi atvinnuleyfi erlendra starfsmanna?
    Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, er atvinnuleyfum skipt í eftirtalda flokka:
          tímabundið atvinnuleyfi,
          óbundið atvinnuleyfi,
          atvinnuleyfi vegna námsdvalar og vistráðningar,
          atvinnurekstrarleyfi.
Skv. 7. gr. laganna er tímabundið atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Heimilt er að veita slíkt leyfi til eins árs en jafnframt er heimilt að framlengja það um tvö ár.
    Þegar útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi er atvinnurekanda veitt slíkt tímabundið atvinnuleyfi. Einu undantekningarnar frá því eru þegar útlendingur kemur til náms en þá getur hann sótt um „námsmannaleyfi“ sem er veitt útlendingi sjálfum. Erlendir makar Íslendinga eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Árið 1999 voru atvinnurekendum veitt 1.732 slík leyfi og 933 leyfi voru framlengd.

     2.      Hvert er árlegt hlutfall þeirra af heildarfjölda útlendinga sem fengið hafa atvinnuleyfi frá 1994?

Tímabundin atvinnuleyfi 1994–1999.


1994* 1995 1996 1997 1998 1999
Ný tímabundin atvinnuleyfi 324 361 691 875 1.307 1.732
Framlenging 377 325 465 662 933
Samtals 1.062 738 1.016 1.340 1.969 2.665
*Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda framlenginga árið 1994 (í gildistíð eldri laga). Í samtölu ársins 1994 eru allar tegundir atvinnuleyfa og því er samanburður við árin 1995–1999 ekki marktækur.

    Athygli er vakin á því að þegar útlendingur skiptir um vinnustað telst það nýtt atvinnuleyfi (ekki framlenging). Því er um að ræða nokkuð mörg tilvik þar sem nýtt atvinnuleyfi er gefið út tvisvar fyrir sama einstakling.


Prentað upp.

Óbundin atvinnuleyfi 1995–1999.


1995 1996 1997 1998 1999
401 154 162 193 275

    Óbundin atvinnuleyfi voru fyrst gefin út í gildistíð núgildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, sem tóku gildi í ársbyrjun 1995. Er það ástæða mikils fjölda óbundinna leyfa á því ári.

     3.      Hver eru rökin fyrir því að atvinnurekandi hafi atvinnuleyfi útlendinga á sinni hendi?
    Með því að veita atvinnurekanda tímabundna atvinnuleyfið er honum gert að undirgangast ákveðnar kvaðir og bera nokkra ábyrgð á erlendum starfsmanni sínum. Skilyrði þess að veita megi tímabundið atvinnuleyfi eru m.a. að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í ráðningarsamningi skal einnig vera ákvæði um flutning hlutaðeigandi frá Íslandi að starfstíma loknum, svo og um greiðslur ferðakostnaðar og heimflutning í veikindum eða við óvænt ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á.

     4.      Eftir hve langan tíma geta útlendingar í vinnu hér á landi sótt um óskorað atvinnuleyfi?
    Heimilt er að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi hafi hann samfellt átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár, hafi öðlast ótímabundið dvalarleyfi og að áður hafi verið veitt leyfi skv. 7. gr. laga nr. 133/1994, þ.e. tímabundið atvinnuleyfi.