Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 261  —  219. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning byggðamála frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis.

     1.      Hvað er áætlað að útgjöld forsætisráðuneytisins lækki mikið á árunum 2000 og 2001 eftir flutning byggðamála frá ráðuneytinu til iðnaðarráðuneytis um síðustu áramót?
    Lækkun útgjalda forsætisráðuneytis vegna flutnings byggðamála frá ráðuneytinu hefur ekki verið metin sérstaklega af ráðuneytinu. Forsætisráðuneytið hafði ekki önnur útgjöld af málaflokknum en þau sem sneru að yfirstjórn ráðuneytisins auk þess tíma sem til málaflokksins var varið og stöku ferðalaga. Samtímis því sem byggðamál fluttust til iðnaðarráðuneytis fluttust málefni Seðlabanka Íslands frá viðskiptaráðuneyti til forsætisráðuneytisins. Kostnaður við það hefur ekki heldur verið metinn sérstaklega af forsætisráðuneytinu. Hvað forsætisráðuneytinu viðvíkur hefur verið við það miðað að ráðuneytið yrði eins sett eftir þessi skipti og áður og er sú skoðun staðfest í kostnaðarmati fjármálaráðuneytis með frumvarpi um flutning þessara tveggja stofnana.

     2.      Hverjar eru ástæður þess að iðnaðarráðuneytið fær ekki aukið fjármagn samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2001 eftir að byggðamál voru flutt undir ráðuneytið?
    Forsætisráðuneytið hefur ekki fengið sérstakar fjárveitingar til að sinna byggðamálum, nema til afmarkaðra, tímabundinna og tilfallandi verkefna, en afar fá dæmi eru um slík verkefni á síðari árum. Fjárveitingar til byggðamála hafa runnið til Byggðastofnunar sem hefur jafnframt annast ráðstöfun þessara fjárveitinga án atbeina forsætisráðuneytisins. Þetta skýrir að ekki er um tilflutning fjárveitinga að ræða frá aðalskrifstofu forsætisráðuneytis til aðalskrifstofu iðnaðarráðuneytis við flutning Byggðastofnunar, enda heldur stofnunin sínum fjárveitingum.