Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 263  —  152. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Stefaníu Óskarsdóttur um konur í lögreglunni.

1.    Hvert er hlutfall kvenna í lögreglunni?
    Í október 2000 var hlutfall kvenna í lögreglunni 8,02%.

2.    Hvert hefur það verið síðustu fimm ár og hvernig hefur það verið í öðrum ríkjum Norðurlanda á sama tíma?
    Á árinu 1997 gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út skýrslu nefndar um bætta stöðu kvenna innan lögreglunnar. Samkvæmt skýrslunni var hlutfall kvenna í lögreglu á Íslandi árið 1996 4,3%. Síðustu fimm ár hefur hlutfall kvenna í lögreglu á Íslandi aukist jafnt og þétt og er nú komið í 8,02% eins og áður segir. Hér er því um að ræða 86,51% aukningu á hlutfalli kvenna í lögreglu frá því fyrir fimm árum. Til þess að skoða þróunina er best að líta á tölur um útskriftarnema í Lögregluskóla ríkisins. Á árinu 1997 var hlutfall kvenna sem útskrifuðust úr lögregluskólanum 7,14%, árið 1998 var hlutfallið 18,75%, árið 1999 var hlutfallið 26,67% og í vor var hlutfall kvenna sem útskrifuðust 16,13%. 31 nemi er nú við nám í lögregluskólanum sem útskrifast í desember nk. og er hlutfall kvenna í þessum áfanga 19,35%.
    Samkvæmt skýrslu um bætta stöðu kvenna sem vísað er í hér að framan var hlutfall lögreglukvenna í Danmörku árið 1996 5,6%, 13% í Noregi og 16% í Svíþjóð. Staðan í þessum löndum er nú sú að í Danmörku er hlutfall lögreglukvenna 6,1%, í Svíþjóð 16% og í Finnlandi 8,06%. Því miður tókst ekki að fá nýjustu upplýsingar frá Noregi í tæka tíð.

3.    Hvert er hlutfall kvenna meðal yfirmanna í lögreglunni og hvert hefur það verið síðustu fimm ár?
    Í svari þessu er fjallað um eftirfarandi yfirmenn: yfirlögregluþjón, aðstoðaryfirlögregluþjón, aðalvarðstjóra, lögreglufulltrúa og varðstjóra. Samkvæmt nefndri skýrslu um bætta stöðu kvenna innan lögreglunnar var hlutfall kvenna meðal þessara yfirmanna á árinu 1996 1,49%. Í dag er hlutfall kvenna í þessum stöðum 2,36%. Þó ekki sé hér um margar stöður að ræða nemur aukningin á tímabilinu 58,39%. Í þessu sambandi skal þess getið að árið 1996 var engin kona yfirlögregluþjónn, aðstoðaryfirlögregluþjónn né aðalvarðstjóri og ein kona lögreglufulltrúi. Nú er ein kona aðstoðaryfirlögregluþjónn, ein kona aðalvarðstjóri og tvær konur lögreglufulltrúar. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að þrátt fyrir hvatningu ríkislögreglustjóra til kvenna, í öllum auglýsingum, um að sækja um lausar stöður yfirmanna er mjög fátítt að þær sæki um. Sem dæmi má nefna að það sem af er þessu ári hafa verið auglýstar 34 stöður yfirmanna, sbr. upptalningu hér að framan. Um þær sóttu 5 konur og 106 karlar. 4 af þeim 5 konum sem sóttu um hlutu viðkomandi stöður en 29 karlar af 106.

4.    Hvernig standa núverandi stjórnvöld að því að fjölga konum í lögreglunni?
    Stærsta skrefið sem stigið hefur verið í þessum efnum var tekið með breytingum sem urðu á Lögregluskóla ríkisins árið 1997. Þá var reglum um inntöku nýnema breytt þannig að allir sem uppfylla ákveðin skilyrði 38. gr. lögreglulaga geta sótt um inngöngu í skólann. Áður höfðu lögreglustjórar hver um sig ákvörðunarvald um hverjir settust á skólabekk og hæfu lögreglunám. Sérstök valnefnd sér um að velja hæfustu umsækjendurna og hefur hún í störfum sínum tekið sérstakt tillit til ákvæða jafnréttislaga með hliðsjón af lágu hlutfalli kvenna í lögreglu. Fyrsta inntaka nýnema eftir að þessi breyting átti sér stað var haustið 1997 og útskrifuðust fyrstu nemendur sem valdir voru eftir þessu kerfi vorið 1999. Í auglýsingum um inntöku nýnema hafa konur sérstaklega verið hvattar til að sækja um. Allar konur sem sótt hafa um skólavist frá 1997, og uppfyllt hafa ákvæði 38. gr. lögreglulaga, hafa fengið inngöngu í skólann. Til samanburðar má nefna að frá árinu 1975 til 1998 útskrifuðust úr Lögregluskóla ríkisins, samkvæmt eldra kerfinu, 628 nemendur. Hlutfall kvenna á þessu tímabili var 6,85%. Frá því að breytingin tók gildi haustið 1997 hafa tvær útskriftir farið fram, sú fyrri árið 1999 og hin síðari nú í vor. Í desember nk. útskrifast síðan einn bekkur til viðbótar. Hlutfall kvenna í þessum þremur hópum er 20,65%. Aukningin á hlutfalli kvenna sem útskrifast frá Lögregluskóla ríkisins við þessa breytingu er því 201,46%. Samkvæmt þessu má ljóst vera að stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á að auðvelda konum inngöngu í lögregluskólann og með því tekist að auka hlutfall þeirra í lögreglu. Eins og fram kemur hér að framan hafa konur verið sérstaklega hvattar til að sækja um og allar, sem uppfyllt hafa tilsett skilyrði, fengið skólavist. Í öllum auglýsingum um lausar stöður í lögreglu eru konur sérstaklega hvattar til að sækja um.