Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 290  —  263. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mennta- og fjarkennslumiðstöðvar til að jafna aðstöðu til náms.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Lúðvík Bergvinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi áætlun um uppbyggingu mennta- og fjarkennslumiðstöðva um land allt til að jafna aðstöðu til náms. Markmiðið sé að gera nám á framhaldsskólastigi aðgengilegt fyrir fleiri en nú er, að skapa sem víðast farveg fyrir háskólamenntun og hvers konar sí- og endurmenntun.
    Fyrsta áfanga slíkrar áætlunar verði hrundið í framkvæmd þegar á næsta skólaári, 2001– 2002. Gert verði ráð fyrir kostnaði við verkefnið í fjárlögum ársins 2001.

Greinargerð.


    Fjarkennsla og fjarnám ýmiss konar á framhalds- og háskólastigi hefur þróast mikið á undanförnum árum, einkum fyrir dugnað og framsýni fólks í skólakerfinu. Nú hefur fengist mikil og dýrmæt reynsla sem framsækin stjórnvöld geta byggt á þegar hugað er að því að auka tækifæri þeirra sem eiga óhægt um vik að afla sér grunn- eða endurmenntunar sökum búsetu, atvinnu eða annarra aðstæðna. Til að auðvelda fólki um land allt að bregðast við breyttum aðstæðum þarf að stórbæta aðgengi þess að menntun. Endurskipuleggja þarf skólakerfið og fjölga tækifærum fólks með því að nýta nýja þekkingu og tækni. Endurskipulagning og fjárfesting í menntun eykur samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðamarkaði og bætir lífskjör og mannlíf á Íslandi. Það er byggðamál fyrir Ísland – og það er byggðamál á Íslandi.
    Í fábýli er ekki unnt að halda úti hefðbundnum framhaldsskóla, hvað þá skapa vettvang fyrir háskólanám eða aðstöðu fyrir nauðsynlega símenntun. Flutningsmenn sjá fyrir sér að þessir þættir og aðrir sem lúta að menntun og þekkingu verði, þar sem það á við, sameinaðir í mennta- og fjarkennslumiðstöðvar sem verði farvegur fyrir framhaldsnám og eftir atvikum háskólanám og sí- og endurmenntun. Framhaldsskólar, sem nú þegar eru starfræktir, gætu orðið miðja í slíku starfi, annars staðar gætu símenntunarmiðstöðvar gegnt slíku hlutverki. Miðstöð af þessu tagi hefði frumkvæði að því að afla þekkingar og fá sérmenntað fólk til starfa og tæki þar mið af þörfum íbúanna og atvinnulífsins. Einkum er mikilvægt að þeir sem minnstrar skólagöngu hafa notið fái tækifæri til frekara náms. Aðalatriðið er að mennta- og fjarkennslumiðstöðvar verði víðs vegar á landinu og að litið verði á menntun og kost á henni sem sjálfsagðan og snaran þátt í lífi hvers manns, alla ævina. Reynsla af fjarkennslu á framhalds- og háskólastigi, tilraun með skipulagt fjarkennslunám á framhaldsskólastigi í Grundarfirði, starf símenntunarmiðstöðva um land allt og reynsla af starfsnámi á vegum verkalýðshreyfingarinnar getur allt varðað leiðina að því marki að menntun við hæfi sem flestra verði í boði sem víðast.
    Skólarnir í landinu, bæði á framhalds- og háskólastigi, verða sér úti um margvíslega reynslu með því að hafa nemendur í fjarnámi, ýmist með kennslu í námshópum á ákveðnum stöðum eða með einkakennslu. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem hafa stundað framhaldsnám en ekki lokið því og eins þá sem áttu þess ekki kost á sínum tíma að fara í framhaldsskóla. Fjarnám hentar líka þeim sem vilja hefja háskólanám en búa við aðstæður sem leyfa ekki slíkt nema veruleg röskun verði á persónulegum högum, jafnvel búsetu. Margir nemendur í fjarnámi eiga heima á stöðum þar sem fjölbreytt námstækifæri eru í boði, t.d. í kvöldskólum, en kjósa frekar þessa leið. Fjarnám virðist vera hentug leið fyrir marga sem geta ekki nýtt sér reglubundið nám, svo sem vegna fjölskylduábyrgðar, vinnutíma eða annars. Fjarnám getur veitt þeim annað tækifæri.
    Breytingar á atvinnuháttum kalla á meiri menntun: sérmenntun, endurmenntun og símenntun ýmiss konar sem fólk og fyrirtæki vilja og þurfa að geta nýtt sér. Hinn mikli hagvöxtur undanfarinna ára stafar fyrst og fremst af fjárfestingum og mikilli vinnu. Hið svonefnda nýja hagkerfi hefur verið þar sorglega fjarri og frá 1998 hefur lítil framleiðniaukning orðið í atvinnulífinu. Þar vegur ugglaust þungt sú staðreynd að eftir 1995 fækkar þeim sem sótt hafa sérskóla eða framhaldsskóla. Skortur á viðeigandi menntunartækifærum er því að verða efnahagsvandamál.
    Viðurkennt er að menntun og þekking eru þau vopn sem munu duga best í lífsbaráttu einstaklinga og samfélaga á nýrri öld. Sjómenn hafa nýtt sér kosti fjarnámsins og rætt hefur verið um að þróa skipulegt fjarnám fyrir þá í sjávarútvegs- og skipstjórnarfræðum. Möguleikar á því að nýta fjarkennslu við endur- og símenntun eru nær ótæmandi. Þeir nýtast hins vegar ekki sem skyldi verði fjarkennslan ekki skipulögð, stefnan mörkuð, samstarfsaðilar og eðlilegir farvegir fundnir og framboð kynnt. Sífellt fleiri átta sig á því að nám þarf ekki að stunda í tilteknu húsi.
    Það ræður miklu um búsetuval fólks að ungmenni eigi þess kost að njóta góðrar menntunar á framhaldsskólastigi. Á stöðum þar sem ekki hefur verið talið hægt að bjóða upp á framhaldsskólanám er ekki óalgengt að fjölskyldur hugsi til búferlaflutninga þegar börn komast á unglingsár, bæði til að halda fjölskyldunni lengur saman og vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir því að senda ungling að heiman eða halda tvö heimili. Eins ræður líka miklu um þróun atvinnulífs um land allt hvernig staðið er að menntamálum. Til að takast á við atvinnuháttabreytingar þarf fólk að eiga þess kost að mennta sig til nýrra starfa. Skipulag menntamála er því eitt mikilvægasta byggðamálið. Fjarkennsla hefur þróast ört hjá skólum úti á landi og í þjónustu við fólk á landsbyggðinni. Það er ekki tilviljun heldur sýnir fram á hve mikilvæg tölvusamskiptatæknin er fyrir dreifbýlið. Með markvissri notkun þeirrar tækni má jafna og bæta möguleika fólks til menntunar, til að njóta menningar og til að efla atvinnulíf.
    Með þessari tillögu er, auk þess sem bent er á færar leiðir til að efla menntunarkosti fólks um land allt, verið að ýta á eftir því að menntamálayfirvöld taki frumkvæði við skipulagningu nýrra menntunarleiða um land allt. Það væri í fullu samræmi við 9. lið stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999.