Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 292  —  264. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., sem orðast svo:
7.    Vextir af stofnsjóðseign í félögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. skulu teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar eða ráðstöfunar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. B:
     a.      Við 1. tölul. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hlutabréfum og hlutum starfsmanna skulu fylgja sömu réttindi og öðrum hlutabréfum eða hlutum félags.
     b.      4. tölul. orðast svo: Kaupverð sé eigi lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hluti/hlutabréf félags tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag ef slík viðskipti hafa verið skráð í kauphöll. Ef slík skráning hefur ekki átt sér stað skal miða við gangverð eins og það er skilgreint í 8. gr. A.
     c.      Í stað „kaupréttar“ í 7. tölul. kemur: kaupa.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Ríkisskattstjóri skal birta með aðgengilegum hætti jöfnunarstuðul fyrir hlutabréf eða hluti í félögum, þ.e. hlutfall jöfnunarverðmætis, sem skattstjóri hefur staðfest samkvæmt þessari grein, og nafnverðs hlutabréfa eða hluta í félögum.
     b.      7. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „reikningsár“ í 2. málsl. 5. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. kemur: sem endurskoðaður hefur verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga.
     b.      Í stað fjárhæðanna „22.368.780“ og „44.737.560“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 27.000.000, og: 54.000.000.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Fjárhæðir samkvæmt þessari málsgrein skulu hækka árlega með verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr.

5. gr.

    Við 41. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæðir samkvæmt þessari grein skulu hækka árlega með verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr.

6. gr.

    Orðin „kaupleigu eða“ í 4. tölul. 52. gr. falla brott.

7. gr.

    Við 1. mgr. 60. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Hafni skattstjóri ósk aðila um breytt reikningsár sætir sú ákvörðun kæru til ríkisskattstjóra og skal úrskurður ríkisskattstjóra vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.

8. gr.

    3. mgr. 64. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „83.933“ í 2. mgr., sbr. c-lið í ákvæði til bráðabirgða VI. með lögum nr. 65/1997, kemur: 86.451.
     b.      3. og 4. málsl. 3. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „Sama gildir“ í 5. málsl. 3. mgr. kemur: Þó skal ákvæði 1. mgr. þessarar greinar gilda.

10. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „671“ í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna kemur: 691.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
     a.      7. mgr. A-liðar orðast svo:
             Komi í ljós að maður hefur fengið greiddar barnabætur án þess að eiga rétt á þeim skal honum gert að endurgreiða þær að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein ef maður færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um þá annmarka á framtali er leiddu til ákvörðunar skattstjóra.
     b.      Við 9. mgr. A-liðar bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslu barnabóta er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra berst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.
     c.      Á eftir orðinu „fyrirframgreiðsluna“ í 12. mgr. B-liðar kemur: til skattstjóra.
     d.      Við 12. mgr. B-liðar bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslu vaxtabóta er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra berst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.

12. gr.

    2. málsl. 4. tölul. 71. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 93. gr. laganna:
     a.      Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Í upphafi hvers árs skal fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra ákveða með auglýsingu hvenær álagningu skuli vera lokið. Álagningu skal þó vera lokið eigi síðar en tíu mánuðum eftir lok tekjuárs, sbr. 60. gr.
             Ríkisskattstjóri skal í upphafi hvers árs ákveða fresti skattaðila til að skila framtali, sbr. 91., gr. og þeim gögnum sem um ræðir í 92. gr. Heimilt er að breyta þeim frestum ef nauðsyn krefur.
     b.      5. mgr. fellur brott.

14. gr.

    Í stað orðanna „Eigi síðar en 30. júní ár hvert skulu skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skv. 95. gr. og eftir því sem við á skv. 3. mgr. 96. gr. og skulu skattstjórar þᔠí 1. málsl. 1. mgr. 98. gr. laganna kemur: Þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skulu þeir.

15. gr.

    Á eftir 3. mgr. 101. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóri getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni leiðrétt álagningu á skattaðila eða falið það skattstjóra ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattstjóra var byggð á. Breyting af þessu tilefni getur tekið til skattstofns eða skatts frá og með því tekjuári sem um var fjallað í máli því sem hliðstætt er talið, þó lengst sex ár aftur í tímann, talið frá því ári þegar úrskurður eða dómur var kveðinn upp. Beiðni um endurupptöku skal borin fram innan eins árs frá því skattaðila var eða mátti vera kunnugt um tilefni hennar. Skattaðila er heimilt að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992, svo og má bera synjun um breytingu á skattákvörðun samkvæmt þessari málsgrein undir yfirskattanefnd.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 117. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ríkisskattstjóra“ kemur: skattstjóra.
     b.      Orðin „eða ábendingu skattstjóra“ falla brott.

17. gr.

    118. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að breyta tímaákvörðunum og frestum skv. 99. gr. ef nauðsyn krefur.

18. gr.

    Á eftir orðinu „fjármagnstekjur“ í 1. málsl. 1. mgr. 121. gr. laganna kemur: og við mismun sem í ljós kemur við álagningu fjármagnstekjuskatts lögaðila, sbr. 4. mgr. 72. gr.

19. gr.

     a.      Ákvæði 1., 2., 3., 4., 6., 7., 8., b- og c- liðar 9. gr., 11. gr., 12. gr., 13. gr., 14., gr. 15. gr., 16. gr., 17. gr. og ákvæði til bráðabirgða öðlast þegar gildi.
     b.      Ákvæði a-liðar 9. gr. og 10. gr. öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á því ári.
     c.      Ákvæði 5. gr., og 18. gr. öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2002 vegna tekna og eigna á árinu 2001.
     d.      Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 2. mgr. 67. gr. og B-lið 68. gr. laganna sem hér segir: 1. janúar 2002 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 3,0% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 vegna tekna á árinu 2002 og eigna í lok þess árs. 1. janúar 2003 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,25% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna á árinu 2003.

Ákvæði til bráðabirgða I.


    Um skattlagningu söluhagnaðar manna sem fengið hafa frestun skattlagningar söluhagnaðar skv. 7. mgr. 17. gr. laganna vegna sölu hlutabréfa og hluta á árunum 1998 og 1999 og nýta ekki heimildir til fjárfestinga í öðrum hlutabréfum innan frests skv. 7. mgr. 17. gr. laganna eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara skal fara skv. 3. mgr. 67. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í þessu frumvarpi eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en meginbreytingin lýtur að reglunum um frestun á skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa og skattalegri meðferð söluhagnaðar.
    Auk þess eru lagðar til breytingar sem lúta að rétti borgaranna til að fá mál sín endurupptekin hjá skattyfirvöldum þegar yfirskattanefnd eða dómstólar hafa með úrskurði eða dómi breytt skattframkvæmd.
    Þá eru lagðar til breytingar á skattleysismörkum barna og sjómannaafslætti með hliðsjón af þeim breytingum sem voru gerðar á persónuafslætti síðastliðið vor með lögum nr. 9/2000 í tengslum við gerð kjarasamninga. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta, vaxtabóta eða eignarskatta þar sem verið er að endurskoða þessa þætti. Er gert ráð fyrir að lagt verði fram sérstakt frumvarp þar að lútandi. Að lokum eru lagðar til ýmsar breytingar sem lúta að lagatæknilegum atriðum við skattframkvæmd.

Frestun á skattlagningu söluhagnaðar.
    Með lögum nr. 97/1996, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var samþykkt að heimila frestun skattlagningar á söluhagnaði hlutabréfa hjá einstaklingum um tvenn áramót. Í greinargerð með lögunum kemur fram að markmið hennar sé að auka aðlögunarhæfni atvinnulífsins að breyttum aðstæðum, auðvelda skipulagsbreytingar í atvinnulífinu og stuðla að því að fjármagn haldist í íslensku atvinnulífi, jafnframt því að auka sparnað hjá almenningi.
    Á undanförnum árum hefur íslenskt fjármálakerfi verið að opnast og samhliða því hafa fjárfestingar Íslendinga erlendis aukist til mikilla muna. Í boði hafa verið ýmsir fjárfestingakostir sem íslenskir skattgreiðendur hafa tileinkað sér. Þannig hafa einstaklingar getað nýtt þá fjármuni sem verða til ráðstöfunar vegna frestunar skattlagningar á söluhagnaði til að fjárfesta erlendis. Þessar fjárfestingar eru ekki einungis bundnar í erlendum félögum, heldur hafa einstaklingar í vaxandi mæli notað fjármuni sína til þess að kaupa í eða jafnvel stofna hlutafélög erlendis sem hafa þann tilgang að fjárfesta í öðrum félögum. Við lagasetninguna 1996 ríktu því allt aðrar aðstæður á hlutabréfamarkaði en nú.
    Samkvæmt gildandi reglum er söluhagnaður einstaklinga af hlutabréfum umfram 3,2 milljónir króna og 6,4 milljónir hjá hjónum skattlagður eins og hverjar aðrar tekjur ef heimildir skv. 7. mgr. 17. gr. eru ekki nýttar. Kaupi einstaklingur hins vegar önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan tveggja ára færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði nýju bréfanna. Skattur á aðrar fjármagnstekjur er aftur á móti 10% án takmörkunar.
    Ýmislegt bendir til þess að þeir sem hafa hagnast vel á sölu hlutabréfa á undanförnum árum hafi í vaxandi mæli nýtt sér umrædda frestunarheimild. Þá virðast sífellt fleiri telja að hagstæðara sé að ávaxta það fé í hlutafélögum, sem eru annars staðar en á Íslandi, vegna hagstæðari skattareglna og í ýmsum tilvikum í skjóli bankaleyndar. Leiða má líkur að því að í mörgum tilvikum falli skattlagningin jafnvel niður vegna skorts á upplýsingum. Þetta tvennt, frestun skattgreiðslna og hagstætt skattaumhverfi, eru án efa helstu ástæður þess að stærri fjárfestar hafa kosið að stofna eigin hlutafélög erlendis. Þannig má halda því fram að í gildandi reglum felist ákveðin hvatning fyrir einstaklinga til þess að fjárfesta í félögum erlendis fremur en hér á landi. Íslenskir fjárfestar hafa því getað takmarkað skatta sína með því að greiða sér arð frá hinu erlenda félagi sem er skattlagður með 10% skatti hér á landi. Þetta er gert þar sem hagstæðara er að fá fjármagnstekjur í formi arðs en söluhagnaðar þegar fjárhæðirnar eru orðnar háar.
    Af framansögðu má álykta að gildandi ákvæði um skattalega meðferð á söluhagnaði hafi aðeins að hluta til náð tilgangi sínum um eflingu íslensks atvinnulífs með aukinni þátttöku almennings. Niðurstaðan virðist helst sú að fjármagnið leiti frekar úr landi í stað þess að skila sér inn í íslensk atvinnufyrirtæki eins og til stóð með lagabreytingunni 1996. Er því lagt til að heimild til frestunar á söluhagnaði hlutabréfa verði afnumin, jafnframt því sem allur söluhagnaður einstaklinga af hlutabréfum verði skattlagður með 10% án takmörkunar, eins og gildir um aðrar fjármagnstekjur.

Um endurupptöku skattákvarðana í tilefni af úrskurði yfirskattanefndar og dómstóla.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum sem lúta að heimild ríkisskattstjóra til að breyta ákvörðun skattstjóra af sjálfsdáðum eða samkvæmt beiðni skattaðila hafi yfirskattanefnd eða dómstólar með úrskurði eða dómi kveðið upp úr með það að skattframkvæmd hafi ekki samrýmst lögum. Í ákvæðinu, sem er að mestu sniðið eftir danskri fyrirmynd, er skattaðila tryggður ákveðinn réttur til að fá mál sín upptekin að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að endurupptaka skattframtöl allt að sex ár aftur í tilefni af breytingu á skattframkvæmd. Er sú regla í samræmi við það að skattyfirvöldum er með lögum veitt heimild til að endurákvarða skatta til hækkunar vegna tekna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. mgr. 8. gr. er að finna hina almennu skilgreiningu á vaxtahugtaki laganna, en í 2. mgr. sömu greinar er sérstaklega fjallað um tímamark skattskyldu vaxta utan atvinnurekstrar. Í 2. tölul. 1. mgr. er tekið fram um skattskyldu vaxta af stofnsjóðseign í samvinnufélögum, en ekki er nánar fjallað um ákvörðun þeirra tekna í 2. mgr. greinarinnar. Í 2. tölul. 4. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, er kveðið á um að vextir af stofnsjóðseign myndi stofn til staðgreiðslu. Samkvæmt 1. tölul. 5. gr. sömu laga skal afdráttur staðgreiðslu fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi. Til þess að samræmi sé á milli þessara ákvæða í lögum nr. 94/1996 og laganna um tekjuskatt og eignarskatt er hér lagt til að um þetta sé sérstaklega kveðið í 2. mgr. 8. gr. og tímamörk skattskyldu vaxta af stofnsjóðseign verði þannig skýrt afmörkuð fyrir einstaklinga utan atvinnurekstrar.

Um 2. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 8. gr. B-liðar sem fjallar um kaup starfsmanna í hlutabréfum samkvæmt kauprétti.
    Breytingu þeirri sem lögð er til í a-lið er ætlað að undirstrika það sjónarmið að eðlilegt sé að þeim hlutabréfum, sem boðin eru starfsmönnum á grundvelli kaupréttarsamninga, fylgi þau almennu réttindi, sem einkenna eiga slík viðskiptabréf. Þannig er komið í veg fyrir að hlutabréf starfsmanna séu sett í sérflokk, sem bundinn sé skilyrðum umfram það sem almennt gerist svo sem varðandi arðgreiðslur og framsal.
    Í b-lið er lögð til sú breyting að ef um er að ræða félag þar sem viðskipti með hlutabréf eru skráð í kauphöll, taki áætlað kaupverð ekki mið af gangverði á samningsdegi heldur meðalverði viðskipta síðustu tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag. Verðbréfamarkaður hér á landi er enn í þróun og því ákveðin hætta á verðsveiflum milli einstakra viðskiptadaga allt eftir vægi viðskipta. Til að auka líkur á því að áætlað kaupverð hlutabréfa á samningsdegi sé í takt við raunverulegt verðmæti hlutabréfanna og til að koma í veg fyrir spákaupmennsku í þeim tilgangi að hafa áhrif á stofnverð er lagt til að miðað verði við meðalviðskiptaverð síðustu tíu heila daga. Með viðskiptadögum er átt við þá daga sem kauphöll er opin óháð því hvort viðskipti með bréfin fara fram. Ef lokað hefur verið fyrir viðskipti með hlutabréf tiltekinn dag, þá telst sá dagur ekki með.
    Breytingin sem er að finna í c-lið greinarinnar felur í sér að tekin verði af öll tvímæli um að einungis megi kaupa fyrir 600 þúsund krónur á ári. Upp hafa komið spurningar hvernig túlka beri ákvæðið, þ.e. hvort í því fælist að áunninn kaupréttur á ári mætti mestur vera 600 þúsund krónur á ári eða hvort að innleysa þyrfti kaupréttinn á hverju ári. Þykir rétt að taka af öll tvímæli hvað þetta varðar.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að felld verði niður sú kvöð á fyrirtæki að tilgreina jöfnunarverðmæti hlutabréfa á skattframtali hlutafélags og hlutafjármiðum. Í stað þess er gengið út frá því að ríkisskattstjóri haldi skrá yfir jöfnunarstuðul félaga og birti þann stuðul á aðgengilegan hátt, t.d. á heimasíðu ríkisskattstjóra. Jöfnunarstuðull þessi er hlutfallið á milli jöfnunarverðmætis í árslok 1996 annars vegar og nafnverðs hluta eða hlutabréfa hins vegar. Við ákvörðun á söluhagnaði af hlutabréfum, sem keypt eru fyrir árslok 1996, skal stofnverð bréfanna vera nafnverð þeirra margfaldað með framangreindum jöfnunarstuðli.
    Í b-lið er lagt til að felld verði niður heimild til að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót eins og verið hefur frá árinu 1996. Samhliða þessari breytingu er lagt til að skattlagning söluhagnaðar verði samræmd annarri skattlagningu fjármagnstekna þannig að allur söluhagnaður verði í 10% skatti, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Helstu rökin fyrir þessari breytingu eru þau að frestunarheimildin hefur í mörgum tilvikum verið notuð til málamynda, þ.e. að liðnum tveggja ára frestinum hafa verið keypt ný bréf og þau seld um leið aftur og sótt um frestun á nýjan leik. Með því hafa menn getað náð því marki að söluhagnaður verði á endanum allur skattlagður í 10% skatti.

Um 4. gr.

    Lagðar eru til þrjár breytingar á 30. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að gerð verði sú krafa að félög þau er sækja um staðfestingu ríkisskattstjóra samkvæmt B-lið 1. mgr. 30. gr. leggi fram endurskoðaðan ársreikning, en í dag er ekki kveðið á um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður. Í þessu felst að löggiltur endurskoðandi þarf að hafa endurskoðað ársreikning og gengið úr skugga um að hann hafi verið gerður í samræmi við lög og venjur og gefi glögga og rétta mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þykir þetta eðlileg krafa í ljósi þess að þeir sem vilja fá hlutabréfafrádrátt eiga að geta treyst því að ársreikningar þeirra félaga er hlotið hafi staðfestingu ríkisskattstjóra hafi verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á fjárhæðum 2. mgr. ákvæðisins. Þróun á fasteignamarkaði á undanförnum árum hefur leitt til þess að íbúðarhúsnæði sem er í útleigu án þess að um eiginlega atvinnustarfsemi sé að ræða hefur fallið undir þá skilgreiningu laganna að teljast atvinnurekstur vegna þess hversu lág viðmiðunarmörkin eru. Hér er því lögð til nokkur hækkun á viðmiðunarmörkunum. Að lokum er gert ráð fyrir að fjárhæðir þessar séu hækkaðar með verðbreytingarstuðli sem á að tryggja að samhengi sé á milli fjárhæða ákvæðisins og verðbreytinga í atvinnurekstri.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að sú fjárhæð sem tilgreind er í greininni hækki með verðbreytingarstuðli til að tryggja samhengi á milli fjárhæða ákvæðisins og verðbreytinga í atvinnurekstri.

Um 6. gr.

    Hér er lögð til breyting á 52. gr. laganna sem kveður á um hvað falli ekki undir rekstrarkostnað.
    Samkvæmt lögum nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, er gerður greinarmunur á kaupleigu og fjármögnunarleigu. Þegar um fjármögnunarleigu er að ræða helst eignarrétturinn hjá leigusalanum, en þegar um kaupleigu er að ræða eignast leigutakinn sjálfkrafa rétt til að eignast hið leigða í lok leigutímans. Þetta þýðir að samningur um fjármögnunarleigu verður aldrei eignfærður hjá leigutaka, en kaupleigusamningar eru eignfærðir hjá leigutaka og mynda stofn til fyrningar. Þessi framkvæmd hefur verið staðfest með úrskurðum ríkisskattanefndar og yfirskattanefndar. Tilvísun til kaupleigu á því ekki heima í þessu ákvæði og er lagt til að það falli brott.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði skýrt á um að heimilt sé að kæra synjun skattstjóra á ósk um breytt reikningsár til ríkisskattstjóra og að úrskurður ríkisskattstjóra verði endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi. Er sú kæruleið sem hér er lögð til í samræmi við ríkjandi framkvæmd.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laganna verði fellt brott. Ástæðan er sú að ákvæðið stangast á við 1. mgr. A-liðar 69. gr. laganna um barnabætur.
    Með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru barnabætur aflagðar. Jafnframt var heiti barnabótaauka breytt í barnabætur. Við þessar lagabreytingar láðist að fella brott 3. mgr. 64. gr. laganna, sem vísar til barnabóta í því kerfi sem var við lýði fyrir gildistöku laga nr. 65/1997, þ.e. annars vegar ótekjutengdar barnabætur og hins vegar tekju- og eignatengdur barnabótaauki er greiddist þeim sem skráður var framfærandi í árslok.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að söluhagnaður einstaklinga af hlutabréfum verði allur í 10% fjármagnstekjuskatti, en samkvæmt gildandi lögum er söluhagnaður yfir tilteknum fjárhæðarmörkum skattlagður í almennum tekjuskatti. Breyting þessi er lögð til í tengslum við breytingar þær sem lagðar eru til í b-lið 3. gr. frumvarpsins. Breytingin felur í sér að tekjur í formi söluhagnaðar verða skattlagðar með sama hætti og gildir um aðrar fjármagnstekjur. Um nánari athugasemdir vísast til almennra athugasemda við lagafrumvarp þetta og athugasemda við 3. gr. frumvarpsins. Auk þess eru hér lagðar til breytingar á fjárhæð persónuafsláttar barna í samræmi við þær hækkanir sem gerðar voru á persónuafslætti sl. vor með lögum nr. 9/2000.

Um 10. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á fjárhæð sjómannaafsláttar í samræmi við þær hækkanir sem gerðar voru á persónuafslætti sl. vor með lögum nr. 9/2000.

Um 11. gr.

    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um kæruleiðir vegna ágreinings um fyrirframgreiðslu barnabóta og vaxtabóta. Um þetta eru ekki ákvæði í gildandi lögum og hafa verið áhöld um hvert skuli skjóta deilumálum um fyrirframgreiðslur. Hér er lagt til að ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslu bóta sé kæranleg til ríkisskattstjóra sem taki endanlega ákvörðun í málinu. Fyrirframgreiðsla er í eðli sínu bráðabirgðagreiðsla og því þörf á skjótri kærumeðferð. Síðan eru vaxtabætur og barnabætur endanlega ákveðnar af skattstjóra við álagningu og sæta úrskurðir skattstjóra í kjölfar álagningar kæru til yfirskattanefndar. Þá er og lagt til að í ákvæði laganna um barnabætur verði sett sambærileg heimild til álagsbeitingar vegna ofgreiddra bóta og gildir um vaxtabætur.

Um 12. gr.

    Hér er lögð til breyting til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 9. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Á síðustu árum hafa verið gerðar breytingar á fyrirkomulagi og vinnubrögðum við skil á skattframtölum. Ný tækni við skattskil, rafræn miðlun upplýsinga og forskráning upplýsinga á framtöl krefst meiri sveigjanleika í álagningartíma og ýmsum skilafrestum. Í samræmi við það er lagt til að fjármálaráðherra auglýsi að fengnum tillögum ríkisskattstjóra álagningarfresti en ríkisskattstjóri ákveði skilafresti í samræmi við það og með hliðsjón af öðrum atriðum sem máli skipta í því sambandi. Sérstaklega er bent á að gert er ráð fyrir að sérstakir frestir verði ákveðnir fyrir lögaðila sem hafa annað reikningsár en almanaksárið þannig að álagning á þá fari fram að liðnum jafnlöngum tíma frá lokum reikningsárs og hjá öðrum lögaðilum.

Um 14. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 98. gr. laganna í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á 93. gr. laganna í 13. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Litið hefur verið svo á að ríkisskattstjóri geti á grundvelli heimildar í 3. mgr. 101. gr. tekið upp að nýju fyrri skattákvarðanir, meðal annars í þeim tilvikum þegar dómstólar hafa hnekkt þeirri framkvæmd sem almennt hefur verið byggt á við álagningu. Finna má ýmis dæmi um þetta á liðnum árum. Í tilefni af ábendingu frá umboðsmanni Alþingis þykir rétt að taka sérstaklega fram í lögum um rétt skattaðila til slíkra leiðréttinga og framkvæmd þeirra, enda hafa komið upp ýmis álitamál um það hvernig standa beri að slíkum leiðréttingum.
    Gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri geti bæði af sjálfsdáðum eða samkvæmt beiðni skattaðila breytt ákvörðun skattstjóra hafi yfirskattanefnd eða dómstólar með úrskurði eða dómi kveðið upp úr með það að skattframkvæmd standist ekki lög. Ríkisskattstjóra er heimilt að leggja fyrir skattstjóra að annast slíkar leiðréttingar í samræmi við verklagsreglur. Frumkvæði ríkisskattstjóra að leiðréttingum af þessum toga á einkum við þegar fyrir liggur hvaða skattaðilar eiga í hlut. Í öðrum tilvikum verður að ætlast til þess að skattaðilar leiti eftir endurupptöku.
    Samkvæmt tillögugreininni er ekki gert að skilyrði fyrir leiðréttingu af hálfu ríkisskattstjóra að skattaðili hafi mótmælt skilningi skattyfirvalda á skattframkvæmd, t.d. gert kröfu á skattframtölum sínum um frádrátt vegna útgjalda sem þau hafa talið ófrádráttarbær. Þá er heimild ríkisskattstjóra til endurupptöku, sem leiðir af niðurstöðu dómstóla, óháð því að yfirskattanefnd hafi áður fjallað um ágreiningsefnið í máli viðkomandi skattaðila.
    Óframkvæmanlegt er og í andstöðu við almenn tómlætissjónarmið að réttur aðila til að fá skattálagningu á sig tekna til nýrrar meðferðar vari endalaust þótt í ljós komi að fyrri ákvörðun um skatta hans hafi byggst á röngum lagagrundvelli. Er lagt til að almennt verði miðað við þá reglu að endurupptaka sé heimil frá og með því tekjuári sem til umfjöllunar var í viðkomandi dómi eða úrskurði. Þó verði endurupptaka aldrei heimil lengra aftur í tímann en sex ár, talið frá því ári þegar úrskurður eða dómur um ólögmæti skattframkvæmdar var kveðinn upp. Miða ber við fyrstu úrlausn æðra stjórnvalds eða dómstóls þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að skattframkvæmd standist ekki lög. Því hefur ekki áhrif á þennan frest þótt úrskurði yfirskattanefndar, sem fellur á þennan veg, sé skotið til dómstóla eða dómi héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar. Hins vegar er ekki tilefni til að endurupptaka álagningu nema endanleg úrlausn liggi fyrir um ágreiningsefnið, m.a. úrskurður yfirskattanefndar sem fjármálaráðherra hefur ekki borið undir dómstóla innan þess frests sem greinir í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992. Áskilið er að beiðni um endurupptöku komi fram innan eins árs frá því skattaðila var eða mátti vera kunnugt um tilefni til hennar.
    Að öðru leyti er sex ára fresturinn í samræmi við það að skattyfirvöldum er með lögum veitt heimild til að endurákvarða skatta til hækkunar vegna tekna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981.
    Lagt er til að kæra megi til yfirskattanefndar synjun ríkisskattstjóra eða eftir atvikum skattstjóra um breytingu á skattákvörðun samkvæmt þessari málsgrein, t.d. ef ríkisskattstjóri telur að mál skattaðila sé af einhverjum ástæðum ekki sambærilegt máli því sem um var dæmt eða úrskurðað eða skilyrði endurupptöku að öðru leyti ekki til staðar. Yfirskattanefnd ber þá einungis að taka afstöðu til forsendna synjunarinnar, en kæmist hún að annarri niðurstöðu en ríkisskattstjóri um það atriði bæri að vísa málinu til nýrrar meðferðar hjá honum. Breyting ríkisskattstjóra sætir hins vegar kæru eftir venjulegum reglum, sbr. lokamálslið 3. mgr. 101. gr.

Um 16. gr.

    Hér er lagt til að skattstjóri geti tekið afstöðu til umsóknar skattaðila um lækkun álagðra skatta vegna tvísköttunar. Framkvæmdin hefur verið sú að erindi af þessu tagi hafa verið afgreidd af ríkisskattstjóra eftir álagningu. Ríkisskattstjóri hefur þá þurft að afla framtalsgagna frá viðkomandi skattstjóra og hefur framkvæmdin því verið tafsamari en þyrfti. Breytingin felur í sér hagræði fyrir þá er greitt hafa skatta í öðru landi, þar sem gert er ráð fyrir að skattstjóri muni geta tekið afstöðu til beiðni af þessum toga um leið og álagning fer fram.
    Heimildir ríkisskattstjóra til að taka afstöðu til skatterinda af þessu tagi eru hins vegar óbreyttar, þar sem heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laganna munu einnig ná til slíkra erinda.

Um 17. gr.

    Lögð er til breyting á heimildum til breytingar á tímaákvörðunum skv. 99. gr. laganna til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á 93. gr. laganna.

Um 18. gr.

    Lagt er til að heimild til álagsbeitingar vegna mismunar í staðgreiðslu taki einnig til lögaðila eins og annarra skattaðila. Ákvæðið eins og það er í dag tekur samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til “manna”, en ætti samkvæmt eðli málsins einnig að taka með sama hætti til mismunar sem til verður á staðgreiðslu og álagningu lögaðila sem fjármagnstekjuskatt eiga að bera.

Um 19. gr.

    Lagt er til að fjárhæðir skv. 2. mgr. 67. gr. um persónuafslátt barna og skv. B-lið 68. gr. um sjómannaafslátt verði hækkaðar um 5,5% á tímabilinu 1. janúar 2002 til 1. janúar 2003 með hliðsjón af þeim hækkunum sem gerðar voru á persónuafslætti sl. vor með lögum nr. 9/2000. Fjárhæðir þessar munu hækka um 3,0% 1. janúar 2002 og 2,25% 1. janúar 2003. Í frumvarpi þessu eru ekki lagðar til breytingar á fjárhæðum barnabóta, vaxtabóta og viðmiðunarfjárhæðum við ákvörðun á eignarskatti þar sem gert er ráð fyrir að lagt verði fram sérstakt frumvarp þar að lútandi. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um bráðabirgðaákvæði.

    Hér er gert ráð fyrir að þeir aðilar sem nýtt hafa sér skattfrestun samkvæmt 7. mgr. 17. gr. laganna geti gert upp ógreiddan fjármagnstekjuskatt með greiðslu 10% fjármagnstekjuskatts, sbr. 3. mgr. 67. gr. laganna.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á framkvæmd skattlagningar og felast meginbreytingarnar í ákvæðum um frestun skattlagninar á söluhagnaði hlutabréfa og skattalegri meðferð söluhagnaðar. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.