Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 311  —  283. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    2. mgr. B-liðar 4. gr. laganna orðast svo:
    Kílómetragjald ökutækja skv. 1. mgr. þessa stafliðar skal vera sem hér segir:     

Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg

Kílómetragjald,
kr.
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald,
kr.

4.000–4.999

6,40

18.000–18.999

15,38

5.000–5.999

6,80

19.000–19.999

16,56

6.000–6.999

7,35

20.000–20.999

17,44

7.000–7.999

7,72

21.000–21.999

18,45

8.000–8.999

8,06

22.000–22.999

19,61

9.000–9.999

8,42

23.000–23.999

20,55

10.000–10.999

8,94

24.000–24.999

21,47

11.000–11.999

9,27

25.000–25.999

22,52

12.000–12.999

10,08

26.000–26.999

23,52

13.000–13.999

10,80

27.000–27.999

24,57

14.000–14.999

11,64

28.000–28.999

25,61

15.000–15.999

12,53

29.000–29.999

26,66

16.000–16.999

13,53

30.000–30.999

27,70

17.000–17.999

14,51

31.000 og yfir

28,75

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 5. gr. eru bifreiðar, sem nota í tilraunaskyni annan orkugjafa en bensín, díselolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu, undanþegnar greiðslu þungaskatts frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2002.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskilinni 1. gr. laganna sem öðlast gildi 11. febrúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum mánuðum hefur útsöluverð á díselolíu hækkað verulega vegna hækkaðs heimsmarkaðsverðs. Þannig var útsöluverð díselolíu í október 1999 um 38 kr. en um 50 kr. í október 2000, eða rúmum 30% hærra. Þessi hækkun hefur leitt til umtalsverðs kostnaðarauka fyrir fyrirtæki sem gera út díselbifreiðar. Á sama tíma hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögum um þungaskatt með lögum nr. 31/2000. Þær fólust meðal annars í því að svokallað afsláttarkerfi var afnumið í kjölfar álits samkeppnisráðs. Breytingarnar fólust í því að fast 100.000 kr. árgjald á bifreiðar yfir 14 tonnum af leyfðri heildarþyngd var afnumið svo og heimild til að velja í upphafi gjaldárs um að greiða fast gjald sem miðaðist við 95.000 km akstur í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra. Samhliða því var gjald fyrir hvern ekinn kílómetra hækkað til að vega upp tekjutap af afnámi 100.000 kr. fasts árgjalds. Breytingarnar höfðu það óhjákvæmilega í för með sér að gjaldbyrði þungra díselbifreiða sem mikið er ekið hækkaði en á móti kom að gjaldbyrði bifreiða sem ekið er minna lækkaði. Við undirbúning breytinganna var gengið út frá því að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti héldust óbreyttar, að teknu tilliti til áætlaðrar aukningar á akstri. Samkvæmt úttekt ráðuneytisins á áhrifum breytinganna hafa þær leitt til þess að tekjur ríkissjóðs eru um það bil 150 millj. kr. meiri en verið hefði að óbreyttum lögum, miðað við síðastliðið gjaldaár. Sú aukning skýrist að mestu leyti af meiri akstri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Tekjuáhrif.
    Áætlað er að 10% lækkun á kílómetragjaldi þungaskatts leiði til um 300 millj. kr. tekjulækkunar fyrir ríkissjóð á ársgrundvelli miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um akstur á þessu ári og áætlun fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að þessi breyting komi til framkvæmda á næsta gjaldtímabili sem hefst í febrúar 2001.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hefur reyndin orðið sú að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti bifreiða sem greiða gjald samkvæmt mæli hafa hækkað nokkuð í kjölfar breytinga á lögum um fjáröflun til vegagerðar, sbr. lög nr. 31/2000. Sú hækkun á þó einkum rætur að rekja til aukins aksturs. Þessar breytingar juku hins vegar nokkuð gjaldbyrði þungra atvinnubifreiða sem ekið er mikið og greiða gjald í samræmi við ekna kílómetra á sama tíma og annar rekstrarkostnaður hefur aukist umtalsvert. Í ljósi þess er lögð til 10% lækkun á kílómetragjaldi þungaskatts frá og með næsta gjaldtímabili 11. febrúar 2001.

Um 2. gr.

    Lagt er til að tímabundin heimild til undanþágu frá greiðslu þungaskatts fyrir bifreiðar, sem í tilraunaskyni nota annan orkugjafa en bensín, díselolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu, verði framlengd til 31. desember 2002. Það er gert með hliðsjón af því að enn eru tilraunir með aðra orkugjafa en þá sem unnir eru úr olíu skammt á veg komnar. Því er eðlilegt að veita þeim sem stunda slíkar rannsóknir áfram undanþágu frá greiðslu þungaskatts af ökutækjum sem knúin eru með öðrum orkugjöfum en þeim sem unnir eru úr olíu. Samkvæmt gildandi ákvæði er undanþágan takmörkuð við innlendan orkugjafa. Ekki er ástæða til slíkrar takmörkunar þar sem nauðsynlegt kann að vera í tilraunaskyni að nýta orkugjafa sem framleiddur er erlendis.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 23/1997,
um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að kílómetragjald þungaskatts lækki um 10% til að vega á móti kostnaðaráhrifum af verulegri hækkun sem orðið hefur á útsöluverði dísilolíu. Einnig er lagt til að tímabundið ákvæði um undanþágu til greiðslu kílómetragjalds af ökutækjum sem í tilraunaskyni nota nýja orkugjafa verði framlengt og hefur sú breyting óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Áætlað er að lækkun kílómetragjalds um 10% leiði til 300 m.kr. árlegrar lækkunar á tekjum ríkissjóðs.