Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 314  —  285. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.

    51. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Með því er lagt til að fellt verði úr lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997, ákvæði 51. gr. um að Þingvallaprestakalli gegni prestur er ráðherra skipar til fimm ára í senn að fenginni tillögu biskups og Þingvallanefndar. Með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna felur þetta ákvæði í sér tvenns konar frávik frá almennum reglum þeirra um skipan prestakalla og veitingu prestsembætta.
    Annars vegar virðist meginefni 51. gr. fólgið í þeirri sérreglu um veitingu prestsembættis í Þingvallaprestakalli að Þingvallanefnd er tryggð aðkoma að vali í embættið sem hún ætti að öðrum kosti ekki. Þessi aðkoma nefndarinnar að vali í þetta embætti á sér þær skýringar að áður var það bundið í lög að skipaður prestur á Þingvöllum skyldi jafnframt því embætti gegna starfi þjóðgarðsvarðar. Sú tenging var hins vegar rofin með 2. gr. laga nr. 150/1996, um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og fellt úr lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og starfsmenn þjóðkirkju Íslands, að sami maður skyldi gegna báðum þessum störfum. Samhliða var gerð sú breyting á lögum nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, að Þingvallanefnd var falið að ráða framkvæmdastjóra í stað umsjónarmanns áður. Fyrir þessum breytingum voru færð þau rök að eðlilegra væri að veitingarvaldshafar væru ekki hvor af öðrum bundnir við ráðstöfun starfa í þjóðgarðinum, enda mætti færa fyrir því gild rök að framangreind skipan stríddi gegn grundvallarreglum stjórnskipunarinnar um skiptingu starfa og valdmörk ráðherra. Jafnframt þótti eðlilegra og í betra samræmi við þá stefnu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að völd og ábyrgð fari saman að það stjórnvald, sem færi með málefni þjóðgarðsins og væri að mestu leyti í höndum þingkjörinnar stjórnar, Þingvallanefndar, réði ferðinni um hvaða starfslið væri nauðsynlegt að halda í þjóðgarðinum á hverjum tíma.
    Hins vegar er til þess að líta að kirkjuþingi var með 50. gr. laganna falið að setja starfsreglur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Sú skipan er með öðrum orðum almennt ekki lögákveðin. Þessar valdheimildir kirkjuþings eru aftur á móti takmarkaðar af því að í 51. gr. er augljóslega gert ráð fyrir að til skuli vera prestakall er nefnist Þingvallaprestakall.
    Þegar þetta er virt í ljósi þeirrar stefnu sem mörkuð var með lögum nr. 78/1997 hljóta þau frávik, sem 51. gr. laganna felur í sér, að teljast börn síns tíma. Skýrt hefur nú verið skilið á milli þeirra tveggja starfa sem áður var bundið í lög að sami maður skyldi gegna á Þingvöllum. Engin haldbær rök standa því til að setja veitingu prestsembættis á þeim stað í annan farveg en almennt gildir. Þá gerir 4. gr. reglna nr. 731/1998, um skipan sókna, ráð fyrir að biskupafundur kanni árlega hvort þörf sé á breytingum á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, með hliðsjón af hagkvæmni, breytingum á mannfjölda í sóknum, samgöngum, staðháttum og aðstæðum að öðru leyti, og búi tillögur um breytingar þar á til kirkjuþings. Þrátt fyrir sögulega sérstöðu staðarins verður ekki séð að ástæða sé til að undanskilja Þingvallasókn, eina sókna, slíku mati, sér í lagi þegar til þess er litið að þar er sjálfsagt um eina fámennustu sókn landsins að ræða.
    Í samræmi við 4. mgr. 23. gr. laganna hefur kirkjuþing fjallað um efni frumvarpsins. Á 32. kirkjuþingi í október 2000 var samþykkt að 51. gr. laganna skyldi felld brott.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu,
stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.

    Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott úr lögum ákvæði um að dóms- og kirkjumálaráðherra skipi prest í Þingvallaprestakalli. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.