Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 315  —  286. mál.




Frumvarp til laga



um bann við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur ökutækja.

Flm.: Sigríður Jóhannesdóttir, Katrín Fjeldsted,     Jón Bjarnason,


Guðjón A. Kristjánsson, Ólafur Örn Haraldsson,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.



I. KAFLI

Breytingar á umferðarlögum, nr. 50/1987,

með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 47. gr. laganna kemur ný grein, 48. gr., svohljóðandi:

Notkun farsíma við akstur.


    Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.
    Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um notkun annars fjarskiptabúnaðar við akstur.

II. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 55/1987,

með síðari breytingum.

2. gr.

    7,5% tollur á handfrjálsum búnaði fyrir farsímanotkun í ökutækjum, samkvæmt tollskrárnúmeri 8518.3000 í viðauka I við tollalög, fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald, nr. 97/1987,

með síðari breytingum.

3. gr.

    25% vörugjald á handfrjálsum búnaði fyrir farsímanotkun í ökutækjum, samkvæmt tollskrárnúmeri 8518.3000 í E-lið viðauka I við lögin, fellur brott.

IV. KAFLI

Gildistaka.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, að undanskilinni 1. gr. sem öðlast gildi þegar sex mánuðir eru liðnir frá birtingu laganna.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að bannað verði að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur vélknúins ökutækis. Einnig er lagt til að dómsmálaráðherra fái heimild til að setja nánari reglur um notkun annars fjarskiptabúnaðar við akstur. Þannig yrði tryggt að samfara tæknilegri þróun verði unnt að setja reglur um notkun slíks búnaðar við akstur með hliðsjón af umferðaröryggi.
    Í umferðarlögum er ekki ákvæði sem fjallar beinlínis um notkun farsíma við akstur. Almennt varúðarákvæði laganna er í 1. mgr. 4. gr. þar sem mælt er fyrir um að vegfarandi sýni tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Hann skal og sýna þeim, sem búa eða staddir eru við veg, tillitssemi. Telja verður að þetta ákvæði nái til notkunar farsíma.
    Hinn 15. júní 1998 fól þáverandi dómsmálaráðherra starfshópi að kanna áhrif og afleiðingar símanotkunar ökumanna við akstur á umferðaröryggi og til hvaða úrræða ætti að grípa til að tryggja sem best umferðaröryggi hvað þetta varðar. Hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í nóvember 1999. Þar er gerð grein fyrir helstu erlendum rannsóknum á áhrifum farsímanotkunar við akstur á slysatíðni. Ekki hafa komið fram óyggjandi upplýsingar um að notkun farsíma án handfrjáls búnaðar í akstri hafi leitt til umferðaróhappa en niðurstöður margra rannsókna benda til þess að notkun farsíma í akstri leiði til hærri slysatíðni. Þannig hefur m.a. verið bent á að aksturshæfni ökumanns minnki samhliða notkun farsímans, þar sem aðeins önnur hönd er á stýri, og viðbragðstími lengist. Þá er jafnframt bent á augljósa kosti farsímanotkunar við akstur, t.d. við tilkynningar um umferðaróhöpp, yfirvofandi hættur í umferðinni o.s.frv. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir íslenskri könnun sem gerð var af tveimur nemendum við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Þar kemur fram að 81,5% þeirra sem svöruðu vilja annaðhvort banna með öllu notkun farsíma við akstur eða leyfa eingöngu notkun handfrjáls búnaðar. Skýrsluhöfundar telja þannig greinilegt að fólk vilji sjá breytingar á þessu sviði.
    Hinn 1. júlí 1998 gekk í gildi í Danmörku bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar og er það fyrirmynd þess ákvæðis sem hér er lagt til að verði lögfest. Á Ítalíu, Spáni, í Sviss, Portúgal, Austurríki og Noregi hafa ákvæði verið sett í lög sem banna notkun farsíma við akstur ef ekki er notaður handfrjáls búnaður.
    Í framangreindri skýrslu er bent á mikla fjölgun farsímanotenda undanfarin ár og er þar lýst áhyggjum af farsímanotkun ungra ökumanna við akstur. Ljóst sé að slysahætta af akstri ökumanna á aldrinum 17–20 ára hafi verið mun meiri en annarra aldurshópa undanfarin ár og nú bætist þessi áhættuþáttur við. Niðurstöður starfshópsins eru þær að leggja til að ákvæði verði sett í umferðarlög sem banni notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Þá leggur hópurinn jafnframt til að ekki verði lagður tollur eða vörugjald á handfrjálsan búnað fyrir farsíma til notkunar í bifreiðum.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögin taki strax gildi að undanskilinni 1. gr. Ákvæði 1. gr. öðlist þannig ekki gildi fyrr en sex mánuðum eftir birtingu laganna svo að svigrúm gefist til að kynna almenningi umrætt bann og til undirbúnings þess að handfrjáls búnaður verði fáanlegur í ágætu úrvali hér á landi.
    Þá eru í frumvarpinu jafnframt lagðar til breytingar á viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, og E-lið viðauka I við lög um vörugjald, nr. 97/1987, þannig að handfrjáls búnaður farsíma í bifreiðum verði undanskilinn tolli og vörugjaldi. Með þessu er komið til móts við þarfir almennings og honum gert auðveldara að eignast búnaðinn. Verði frumvarp þetta að lögum þarf að breyta tollskrá, sem lögfest var sem viðauki I við tollalög, þar sem fleira á heima undir tollskrárnúmerinu 8518.3000 en umræddur handfrjáls búnaður.