Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 330  —  188. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um fjölda afbrota og fjölgun lögreglumanna.

     1.      Hvað hefur afbrotum fækkað mikið undanfarin tvö ár, sbr. tilmæli ríkislögreglustjóra í bréfi til lögreglustjóra landsins 9. ágúst 1998 um 20% fækkun afbrota, sundurgreint eftir flokkum: umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, skattsvik, morð, innbrot, þjófnaðir, rán, líkamsárásir, innherjasvik og eignaspjöll?
    Fyrirspurnin er villandi um tilmæli ríkislögreglustjórans þar sem ekki eru sérstaklega tilgreind morð, innherjasvik og skattsvik, en það má ráða af fyrirspurninni. Ríkislögreglustjóri tilgreinir sérstaklega afbrot þar sem löggæslan getur haft veruleg áhrif á þróun afbrota, eins og innbrot, þjófnaði, líkamsárásir, rán og eignaspjöll. Í umburðarbréfi ríkislögreglustjóra, dags. 9. ágúst 1998, til allra lögreglustjóra landsins og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, þar sem sett eru fram tilmæli til þeirra um að setja lögregluliðunum þau markmið að fækka afbrotum segir m.a.: „Ríkislögreglustjórinn vill beina þeim tilmælum til allra lögreglustjóranna að við skipulagningu og stjórnun löggæslunnar verði tekið mið af því markmiði að koma í veg fyrir og draga úr afbrotum í landinu. Í þessu tilefni sendist samantekt yfir fjölda brota sem skráð hafa verið í miðlæga málaskrá lögreglunnar fyrstu 6 mánuði ársins, en frá sl. áramótum eru öll embættin tengd landskerfum lögreglunnar og þar með málaskránni.
    Lögreglunni hafa verið sett markmið varðandi fækkun umferðarslysa í samræmi við þingsályktun um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi sem samþykkt var á Alþingi 28. febrúar 1996. Þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt áætlun í fíkniefnavörnum. Til þess að ná tilætluðum árangri hefur lögreglan fengið tækjabúnað til nota við störf sín að umferðarmálum auk þess sem ýmsar lagabreytingar gera málsmeðferð kærumála vegna umferðarlagabrota öruggari, skilvirkari og hraðari. Áætlun í fíkniefnavörnum byggir á því að fjölgað hefur verið störfum í lögreglunni á sviði forvarna og rannsóknar fíkniefnabrota.
    Fækkun annarra afbrota en að ofan greinir á næsta ári um 20% er markmið sem lögreglustjórar geta sett sér. Þetta á sérstaklega við um innbrot, þjófnaði, líkamsárásir, rán og eignaspjöll. Þessum brotum má fækka með auknu og skilvirkara eftirliti. Það er lagt í vald lögreglustjóra að ákveða hvernig því markmiði verður náð. Í því sambandi vill ríkislögreglustjórinn vekja athygli lögreglustjóra á virkri stjórnun lögreglu svo sem að beina löggæslunni að þeim stöðum og á þann tíma þegar afbrot eru helst framin. Þannig getur hver lögreglustjóri sett lögregluliði sínu skýr markmið og forgangsraðað þeim verkefnum er hann telur brýnust.“
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir vissum staðreyndum þegar meta skal árangur í baráttunni gegn afbrotum. Þannig er ekki einhlítt að líta t.d. á kærufjölda umferðarlagabrota og fíkniefnabrota, bera tölur saman við síðasta ár og draga síðan ályktanir um árangurinn. Kærur í þessum málaflokkum eru að langmestu leyti frumkvæðisverk löggæslumanna. Því er ekki eins auðvelt að gera sambærilegan, tölulegan samanburð varðandi þessa málaflokka eins og t.d. varðandi innbrot, þjófnaði, líkamsárásir, rán og eignaspjöll þar sem tilkynningar eða kærur berast lögreglu frá þeim sem fyrir broti verður. Nauðsynlegt er að líta á heildarþróun afbrota á landinu öllu, en ekki til einstakra lögregluumdæma, eins og t.d. Reykjavíkur. Fjölgað hefur ákveðnum tegundum afbrota og önnur afbrot hafa staðið í stað eða þeim fækkað. Þessi þróun á sér ýmsar skýringar. Auknar áherslur hafa verið lagðar á fækkun afbrota og ber sérstaklega að nefna þróttmikið starf á sviði fíkniefnamála þar sem umtalsverður árangur hefur náðst.
    Mál samkvæmt málaskrá lögreglu fyrstu sex mánuði síðustu þriggja ára fyrir landið allt:

1.1. til 30.6. 1998 1999 2000
Manndráp 0 0 3
Líkamsmeiðingar 685 654 693
Innbrot 1.136 1.201 1.183
Þjófnaðir 2.701 2.951 3.606
Rán 10 19 14
Eignaspjöll 2.325 2.171 2.011
Fíkniefnamál 336 438 380
    Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans barst eitt innherjamál árið 1997. Það var fellt niður enda þótti það sem fram kom ekki nægjanlegt til sakfellis. Ekkert innherjamál barst árin 1998 og 1999. Fjöldi kærðra skattamála hjá efnahagsbrotadeild var 35 (30 ákærur) árið 1999 og 45 (47) ákærur árið 1998.
    Heildarfjöldi sekta vegna umferðarlagabrota (ekki ákærumál) skiptist þannig milli ára:
    1998: 41.733,
    1999: 44.421.
    Það er mat ríkislögreglustjórans að á heildina litið hafi áætlun lögregluyfirvalda frá hausti 1998 um fækkun afbrota skilað árangri og eru því gerð allítarleg skil í ársskýrslu ríkislögreglustjórans vegna ársins 1999 og vísast til hennar um nánari útlistun afbrotaþróunarinnar. Ljóst er að lögreglustjórar verða að tileinka sér skilvísa stjórnun lögregluliðanna og lögreglumenn að haga störfum sínum eftir þeim markmiðum sem þeim eru sett til að frekari árangur náist. Eitt meginmarkmið umburðarbréfs ríkislögreglustjórans var að vekja umræðu og hvatningu um þessi málefni innan lögreglunnar. Fullyrt skal að þar hafi orðið verulegur árangur, en hann verður ekki mældur í prósentustigum.

     2.      Hver er fjöldi afbrota í ofantöldum flokkum síðastliðin 30 ár, sundurgreint eftir árum?
    Tölulegur samanburður 30 ár aftur í tímann eins og um er beðið er ekki til og ekki eru tök á því að vinna slíkan samanburð nema á löngum tíma. Eins og fram kemur í ritinu Hagskinnu, bls. 821–837, sem birtir nokkrar upplýsingar um afbrotatíðni var misbrestur á útgáfu dómsmálaskýrslna á löngum tímabilum, þar á meðal fyrir tímabilið eftir 1977. Í áðurgreindu umburðarbréfi ríkislögreglustjórans frá 9. ágúst 1998 kemur fram að það er fyrsta árið þar sem öll lögregluembættin tengdust landskerfi lögreglunnar og þar með málaskránni. Því má segja að grunnurinn að afbrotatölfræði hafi þá fyrst verið lagður.

     3.      Hver hefur fjölgun einkennisbúinna lögreglumanna við eftirlitsstörf orðið síðan 9. ágúst 1998, sbr. ábendingu ríkislögreglustjóra þess efnis?
    Með setningu reglugerðar um einkennisbúninga, merki og búnað lögreglunnar nr. 528 frá 18. ágúst 1997, með síðari breytingum, er mörkuð sú stefna að meginreglan skuli vera sú að lögreglan í landinu klæðist einkennisfatnaði við dagleg störf sín. Um það vísast til 6. kafla reglugerðarinnar um klæðaburð lögreglunnar. Lögreglumenn skulu klæðast einkennisbúningi við dagleg störf sem og ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórinn í Reykjavík, varalögreglustjórinn í Reykjavík og skólastjóri Lögregluskóla. Sama gildir um fastráðna kennara við Lögregluskóla ríkisins sem skulu að jafnaði vera einkennisklæddir við kennslu og lögreglunemar eru einnig einkennisklæddir.
    Ríkislögreglustjóri telur í áðurnefndu umburðarbréfi að eitt af þeim úrræðum sem komi að gagni við fækkun afbrota sé að auka sýnileika lögreglunnar og því beri meðal annars að fjölga þeim lögreglumönnum sem klæðast einkennisfötum við dagleg störf, að fleiri lögreglumenn verði við störf úti við eftirlit og nýta beri betur en tíðkast hefur þann tækjabúnað, bifhjól, bifreiðar o.fl., sem lögreglan hefur yfir að ráða. Ríkislögreglustjórinn er ekki síst að höfða til þeirra lögreglumanna sem starfað hafa að ýmsum sérverkum óeinkennisklæddir og starfa við rannsóknir sakamála, en til skamms tíma höfðu flestir þeirra starfað óeinkennisklæddir. Þess má geta að 113 rannsóknarlögreglumenn eru nú við störf auk 51 lögreglufulltrúa á landinu öllu. Þessir lögreglumenn þurfa að fara víða er þeir gegna störfum sínum og því er það mat ríkislögreglustjórans að með því að starfa einkennisklæddir muni þeir verða sýnilegri á meðal almennings og hafa þar af leiðandi meira forvarnargildi en ella. Sérstök lögregluverkefni geta þó verið þess eðlis að lögreglumenn starfi að þeim óeinkennisklæddir, sbr. 6.5. gr. reglugerðar nr. 528/1997. Framkvæmdin er hins vegar lögð í hendur lögreglustjóranna í hverju lögregluumdæmi. Ekki liggja fyrir tölur um fjölgun einkennisklæddra lögreglumanna við störf sín, en þeim mun hafa fjölgað talsvert.

     4.      Hvað hefur lögreglumönnum fjölgað mikið í allt undanfarin tvö ár?
    Á árinu 1998 voru stöður lögreglumanna á landinu öllu 622. Heimilaðar stöður eru nú 666. Heildarfjölgun er því 44. Rétt er þó að taka fram í þessu sambandi að við störf í ágúst sl. voru 650 lögreglumenn þannig að 16 stöður voru þá ómannaðar sökum manneklu á þeim tíma.

     5.      Hver er fjölgun lögreglumanna í einstökum deildum lögreglunnar undanfarin tvö ár?
    Ríkislögreglustjóri: 5 í umferðardeild (1 aðalvarðstjóri og 4 varðstjórar), 5 lögreglufulltrúar
vegna Schengen, 1 varðstjóri í bílamiðstöð, 1 lögreglufulltrúi í fíkniefnastofu og 1 lögreglufulltrúi í efnahagsbrotadeild. Samtals 13 stöðugildi.
    Reykjavík: 1 staða yfirlögregluþjóns, 1 staða aðstoðaryfirlögregluþjóns, 7 stöður lögreglumanna, 3 stöður rannsóknarlögreglumanna vegna fíkniefnamála og 5 stöður lögreglumanna vegna fíkniefnamála. Samtals 17 stöðugildi.
    Önnur embætti:
    Borgarnes: 1 lögreglumaður.
    Hólmavík: 1 lögreglumaður.
    Seyðisfjörður: 1 lögreglumaður.
    Eskifjörður: 1 yfirlögregluþjónn.
    Vík: 1 lögreglumaður.
    Selfoss: 1 rannsóknarlögreglumaður (fíkniefnamál).
    Keflavík: 1 lögreglumaður, 1 rannsóknarlögreglumaður (fíkniefnamál).
    Keflavíkurflugvöllur: 3 aðstoðaryfirlögregluþjónar, 2 lögreglumenn.
    Kópavogur: 1 rannsóknarlögreglumaður (fíkniefnamál). Samtals 14 stöðugildi.
     Alls 44 stöðugildi.

     6.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að ná fram frekari fækkun afbrota?
    Í stuttu máli að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að þegar hafa verið hafnar markvissar aðgerðir með það að markmiði að fækka afbrotum. Sérstök áhersla hefur þannig m.a. verið lögð á fíkniefnamálaflokkinn, en það er einn mikilvægasti þáttur þess að hægt sé að fækka öðrum afbrotum, svo sem auðgunarbrotum. Ber fyrst að nefna að embætti ríkislögreglustjóra hefur hafist handa við umfangsmikla upplýsingaöflun til að ná sem bestri yfirsýn yfir fíkniefnavandann og aðgerðir lögreglunnar gegn honum. Í ársskýrslu ríkislögreglustjóra vegna áranna 1997–1998 er sérstakur viðauki um fíkniefnamál (bls. 54–69) þar sem þessu eru gerð skil í stórum dráttum. Þingmönnum var send skýrslan á sínum tíma. Á árinu 1999 var áhersluatriðum þessum fylgt fast eftir með góðum árangri. Í ársskýrslu ríkislögreglustjórans vegna ársins 1999, sem nú er að koma út, er gerð rækileg grein fyrir því sem gert hefur verið af hálfu lögregluyfirvalda, þeim árangri sem náðst hefur og verkáætlun ríkislögreglustjórans vegna ársins 2000 sett fram. Er vísað til þessa, en skýrslan verður send þingmönnum.
    Á þessu ári hafa lögreglustjórar á Suðvesturlandi, í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóra, aukið samstarf sitt í fíkniefnamálaflokknum og tengdum brotum. Þá voru aðgerðir um síðustu verslunarmannahelgi verulega auknar frá því sem áður hefur tíðkast auk þess sem komið var á fót sérstökum teymum lögreglumanna með fíkniefnaleitarhunda og rannsóknarlögreglumenn komu einstökum lögreglustjórum til aðstoðar. Það er mat lögregluyfirvalda að minna magn fíkniefna hafi verið í umferð þessa verslunarmannahelgi en oft áður. Þá hafa sum lögregluembættin, svo sem á Blönduósi og Ísafirði, komið á fót eða átt mikilvægan þátt í að koma á áhugaverðum nýjungum í forvarnamálum. Hjá ríkislögreglustjóra hefur verið aflað upplýsinga og tekin saman skýrsla um forvarnir gegn afbrotum hjá ýmsum stofnunum og samtökum til að hægt sé að koma að þessum mikilvæga þætti mála á heildstæðari og markvissari hátt. Slík samantekt hefur ekki áður verið gerð.
    Þá ber þess að geta að í byrjun þessa árs var komið á stöðu afbrotafræðings hjá embætti ríkislögreglustjóra sem unnið hefur við söfnun tölfræði- og afbrotafræðilegra upplýsinga til að ná sem bestri yfirsýn yfir þróun afbrota með það að markmiði að lögreglan geti frekar gert sér grein fyrir og brugðist við afbrotaþróuninni í landinu. Hjá fíkniefnastofu ríkislögreglustjóra hefur farið fram mikil vinna við úrvinnslu upplýsinga um fíkniefnabrot og vakti skýrsla ársins 1999 um það efni mikla umfjöllun, þ.m.t. í fjölmiðlum. Þá hefur farið fram hjá ríkislögreglustjóra mjög mikil vinna með það að markmiði að sporna við ofbeldi gagnvart börnum. Er embættið t.d. þátttakandi í sérstökum vinnuhópi á vegum Interpol, alþjóðasambands sakamálalögreglu, sem sérstaklega vinnur að þessum mikilvæga málaflokki í alþjóðlegu samstarfi.
    Uppbyggingu verður haldið áfram. Á árinu 2000 hefur sérstök áhersla verið lögð á samstarf við erlend löggæsluyfirvöld með það að markmiði að draga úr afbrotum. Þetta er til viðbótar þeim auknu aðgerðum og nýjungum í starfsháttum lögreglunnar sem skilað hafa miklum árangri í baráttunni gegn afbrotum og má geta um uppljóstrun umfangsmikilla fíkniefna- og peningaþvættismála í því sambandi. Allar þessar aðgerðir lögreglunnar verða þó ekki fyllilega metnar í prósentuhlutföllum.
    Loks er þess að geta að við undirbúning fjárlagagerðar fyrir árið 2001 hefur dómsmálaráðherra lagt fram tillögur um auknar fjárveitingar til að standa straum af fjölgun lögreglumanna, fjölgun leitarhunda hjá lögreglu og um sérstaka fjárveitingu til þess að standa straum af kostnaði við rannsókn stórra sakamála sem upp kunna að koma. Þær tillögur eru nú til frekari útfærslu.