Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 340  —  156. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir 42 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 2.063,7 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

    

00 Æðsta stjórn ríkisins

101
     Embætti forseta Íslands.
        1.01 Yfirstjórn.
Gerð er tillaga um 3,4 m.kr. viðbótarfjárheimild vegna halla sem myndast hefur á árunum 1999–2000 vegna hærri stjórnunarkostnaðar og kostnaðar við opinberar heimsóknir en gert hafði verið ráð fyrir.
         1.81 Opinberar heimsóknir.     Lögð er til 11,6 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna halla sem myndast hefur á árunum 1999–2000 vegna hærri kostnaðar en áætlað var við opinberar heimsóknir til útlanda og hingað til lands. Heimsóknir voru fleiri og lengri en gert hafði verið ráð fyrir.
201     Alþingi.
        1.01 Alþingiskostnaður.
Lagt er til að fjárveiting til þessa viðfangsefnis verði aukin um 13 m.kr. Skýrist það að mestu af auknum ferðakostnaði innan lands í kjölfar stækkunar á kjördæmum.
        1.04 Alþjóðasamstarf. Gerð er tillaga um 4 m.kr. aukaframlag til að mæta útgjöldum af meiri erlendum samskiptum en áður var gert ráð fyrir. Móttökur erlendra gesta, alþjóðlegir fundir og ráðstefnur hafa reynst mun fleiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.
        1.07 Sérverkefni. Lögð er til 13 m.kr. hækkun á fjárheimild til að mæta ófyrirséðum útgjöldum vegna aðstöðu í tengslum við þingfund á kristnihátíð á Þingvöllum.
        6.21 Fasteignir. Gerð er tillaga um 83 m.kr. aukafjárveitingu vegna stofnkostnaðar við húsnæði Alþingis. Í fjárlögum fyrir árið 2000 er 113 m.kr. framlag sem ætlað var til framkvæmda við innréttingar og til kaupa á búnaði á 2.–5. hæð í Austurstræti 8–10 og 2. hæð í Austurstræti 10A. Fyrirhugað er að flytja alla starfsemi fastanefnda þingsins og hluta af skrifstofum alþingismanna í þetta húsnæði.

01 Forsætisráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.14 Ritun sögu Stjórnarráðsins.
Gerð er tillaga um 3,9 m.kr. aukafjárveitingu vegna kostnaðar við ritun á sögu Stjórnarráðsins. Ritnefnd hefur ákveðið tilhögun verksins, ráðið höfunda og áætlað annan kostnað við verkið.
         1.52 Undirbúningur að 1000 ára afmæli kristnitöku. Gerð er tillaga um 16 m.kr. aukaframlag vegna kostnaðar við kristnihátíð, en nú liggja fyrir fyrstu drög að uppgjöri fjármála hátíðarinnar. Skýrist frávikið fyrst og fremst af hærri kostnaði við framkvæmdir en áætlað hafði verið. Hluti af þeim kostnaði er vegna mannvirkja sem upphaflega stóð til að yrðu eingöngu til nota yfir hátíðina, en ákveðið var að þau yrðu varanleg til gagns fyrir þá sem heimsækja þjóðgarðinn. Má þar nefna göngustíga, raf- og vatnslagnir og fleira. Þá var kostnaður við kynningar nokkru meiri en áætlað var.
         1.53 Landafundanefnd. Gerð er tillaga um 4,9 m.kr. fjárveitingu til lokauppgjörs á uppbyggingu Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð á Grænlandi en mannvirkin voru vígð og afhent grænlensku heimastjórninni á landafunda- og kristnitökuhátíð þar um miðjan júlí sl. Gengisþróun undanfarin ár hefur verið verkefnunum óhagstæð miðað við upphaflega áætlun. Umframkostnaður frá upphaflegum verksamningi kom til vegna þess að lengra var gengið í framkvæmdum en upphaflega stóð til.
         1.90 Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 2 m.kr. aukaframlag í samræmi við tillögur nefndar sem forsætisráðherra skipaði 1999 til fjalla um stuðning stjórnvalda við handverksgreinar. Tillögur nefndarinnar voru samþykktar í ríkisstjórn. Ein tillaga nefndarinnar var að fela Heimilisiðnaðarfélagi Íslands að standa fyrir átaki í ráðgjöf um þjóðbúninga sem stæði í tvö ár í þeim tilgangi að fleiri skörtuðu þjóðbúningi árið 2000 en ella. Í því skyni yrði varið 2 m.kr. á ári í tvö ár. Fyrra framlagið var greitt árið 1999.

02 Menntamálaráðuneyti

201     Háskóli Íslands.
        1.01 Kennsla.
Gerð er tillaga um 90 m.kr. hækkun á framlagi til kennslu í Háskóla Íslands. Fjárveiting ársins 2000 miðaðist við 3.888 nemendaígildi á síðasta skólaári en skólinn hefur tilkynnt að þau hafi reynst 4.264 og að samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið vanti um 200 m.kr. til að mæta útgjaldaaukanum. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 229,5 m.kr. á lið 02-299 til að ljúka samningum við háskóla, nemendafjölgun og tilfærslu nemenda á milli reikniflokka náms og er framlagið til viðbótar því.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.10 Byggða- og minjasöfn.
Lagt er til að Minjasafn Egils Ólafssonar, Hnjóti, fái 0,6 m.kr. aukafjárveitingu til reksturs safnsins. Styrkur frá þjóðminjaráði vegna launa safnstjóra og sérverkefna varð um 1,2 m.kr. lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
973     Þjóðleikhús.
        1.01 Þjóðleikhús.
Gerð er tillaga um 66 m.kr. aukafjárveitingu til þess að Þjóðleikhúsið geti gert upp skuld sína við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna hlutdeildar í lífeyrishækkunum fyrrverandi starfsmanna. Í fjárlagafrumvarpi 2001 er lagt til að leikhúsið verði gert að A-hluta stofnun.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands.
        1.01 Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Lagt er til að hljómsveitinni verði bættur 1,5 m.kr. tekjumissir vegna niðurfellingar á skemmtanaskatti á miðju árinu 1998. Tekjur hljómsveitarinnar af skemmtanaskatti á fyrri hluta ársins 1998 voru 4,5 m.kr. og í fjárlögum 1999 voru veittar 6 m.kr. til að mæta tekjumissinum.
985     Alþjóðleg samskipti.
        1.91 Aðildargjöld ESB.
Lagt er til að veitt verði 10,2 m.kr. viðbótarframlag vegna hækkunar á aðildargjöldum. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 242,8 m.kr. til greiðslu á aðildargjöldum vegna þátttöku Íslendinga í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að þau muni nema 267,4 m.kr., sem er 24,6 m.kr. hærra. Ónotuð fjárheimild frá 1999 nemur 14,4 m.kr. þannig að 10,2 m.kr. vantar til að endar nái saman.
999     Ýmislegt.
        1.43 Skriðuklaustur.
Gerð er tillaga um 4,7 m.kr. aukafjárveitingu til Gunnarsstofnunar, sem hóf starfsemi sína að Skriðuklaustri sl. sumar, til að standa straum af ýmsum óvæntum kostnaði sem hefur fallið til við að hefja starfsemi stofnunarinnar. Hann kemur einkum til vegna kaupa á innanstokksmunum.

03 Utanríkisráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.14 Heimssýning í Hannover.
Lagt er til að veitt verði 18 m.kr. aukaframlag vegna umframkostnaðar við heimssýninguna í Hannover. Í fjáraukalagafrumvarpi 2000 er tillaga um 20 m.kr. fjárveitingu sem sett var fram með fyrirvara um breytingar þegar endanlegt uppgjör lægi fyrir, m.a. með tilliti til sölu á íslenska skálanum. Tekist hefur að selja íslenska skálann til danska fyrirtækisins Danfoss fyrir samtals 45,7 m.kr. en samkvæmt fyrirliggjandi tölum um kostnað af heimssýningunni stefnir í að hann verði 38 m.kr. umfram það sem áætlað var.
320     Sendiráð, almennt.
        6.21 Sendiráð Íslands í Berlín.
Lögð er til 23 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna uppgjörs á byggingarkostnaði sendiráðs Íslands í Berlín. Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins er hér um lokagreiðslu að ræða með þeim fyrirvara þó að enn er ekki kominn lokareikningur frá einum verktaka, auk þess sem enn er deilt um endanlegt uppgjör í tveimur málum.

04 Landbúnaðarráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.31 Skógræktarfélag Íslands.
Gerð er tillaga um 7,2 m.kr. fjárveitingu til Skógræktarfélags Íslands vegna framkvæmdarsamnings við landbúnaðar- og fjármálaráðuneyti um Landgræðsluskóga og átaks um aldamótaskóga.
233     Yfirdýralæknir.
        6.21 Fasteignir.
Gerð er tillaga um 5,5 m.kr. fjárveitingu til að standa straum af endurbótum á húsnæði yfirdýralæknis til dýrasjúkdómarannsókna. Rannsóknadeild dýrasjúkdóma, áður sauðfjárveikivarnir, hefur um langt skeið haft aðstöðu til rannsókna í húsnæði Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum. Embættið hefur gert kröfur um endurbætur og stækkun á aðstöðunni og stjórn Keldna hefur á móti krafist greiðslu fyrir aðstöðuna sem ekki hefur verið unnt að greiða þar sem fjárveiting hefur ekki verið fyrir hendi.
261     Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði.
        1.01 Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði.
Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. fjárveiting til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla skólans í trausti þess að áfram verði unnið að varanlegri lausn á fjárhagsvanda stofnunarinnar. Á yfirstandandi ári hefur verið gripið til nokkurra hagræðingaraðgerða, svo sem breytinga á búrekstri og minni eignakaupa. Gert er ráð fyrir að áfram verði haldið á þeirri braut.
343     Landshlutabundin skógrækt.
        1.10 Suðurlandsskógar.
Gerð er tillaga um 5,7 m.kr. aukafjárveitingu til Suðurlandsskóga til að mæta kostnaði við skógræktaráætlanir. Ákveðið var á síðasta ári að slíkur kostnaður skyldi ekki greiddur af Skógrækt ríkisins eins og verið hafði og varð þá ljóst að ekkert fjármagn yrði til að greiða hann en bindandi trjáplöntusamningar höfðu þá þegar verið gerðir.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

202     Hafrannsóknastofnunin.
        1.30 Rannsóknaskip.
Gerð er tillaga um 7,7 m.kr. aukafjárveitingu vegna reksturs skipa stofnunarinnar. Í rekstraráætlun var gert ráð fyrir að olíukostnaður í rekstri skipanna yrði 20 m.kr. á árinu 2000. Vegna hækkana á olíuverði var kostnaðurinn fyrstu átta mánuði ársins orðinn um 22 m.kr. og til áramóta má búast við að kostnaðurinn verði 7,7 m.kr. hærri á árinu en áætlanir gerðu ráð fyrir.
901     Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna.
        1.30 Keldnaholt.
Gerð er tillaga um 6 m.kr. aukafjárveitingu vegna hækkana á gjöldum umfram forsendur fjárlaga vegna reksturs á húseignum í Keldnaholti. Um er að ræða kostnað vegna rafmagns, hita og ræstinga, svo og fasteignagjöld og opinber gjöld.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

251     Persónuvernd.
        1.01 Persónuvernd.
Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. aukafjárveiting til að mæta kostnaði við að setja reglur um öryggi persónuupplýsinga í lífsýnasöfnum. Ekki var gert ráð fyrir þessu verkefni í frumvarpi til laga um persónuvernd en sú breyting var gerð á frumvarpinu í meðförum Alþingis. Að mati stjórnar Persónuverndar er óhjákvæmilegt að fá erlenda sérfræðinga til að vinna verkið til að tryggja sérþekkingu á þeim staðli sem notaður verður. Samkvæmt verðkönnun hjá erlendu ráðgjafarfyrirtæki má ætla að kostnaðurinn geti numið um 5 m.kr.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta.
        1.63 Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins.
Lagt er til að framlag til tölvumiðstöðvar ráðuneytisins verði aukið um 2,5 m.kr. í kjölfar samnings sem gerður var í október við Skráningarstofuna hf. um rekstur miðstöðvarinnar. Í samningnum er kveðið á um viðbót við gildandi samning um upplýsingakerfi fyrir Schengen-samstarfið, Útlendingaeftirlitið o.fl., auk bakvakta vegna Schengen. Aukin fjárþörf á næsta ári vegna þessa er hins vegar áætluð 26,2 m.kr. og verður gerð tillaga um framlag til að mæta henni við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2001.

07 Félagsmálaráðuneyti

302     Ríkissáttasemjari.
        1.01 Ríkissáttasemjari.
Gerð er tillaga um 8 m.kr. viðbótarfjárveitingu vegna aukins kostnaðar í tengslum við umfangsmikla kjarasamningagerð á árinu.
400     Barnaverndarstofa.
        1.20 Heimili fyrir börn og unglinga.
Lögð er til 5,3 m.kr. hækkun á fjárveitingu til meðferðarheimilisins að Torfastöðum í kjölfar skattkröfu sem rekstraraðila meðferðarheimilisins hefur verið úrskurðað að greiða vegna áranna 1992–1996 og ekki var áætlað fyrir.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
Í kjölfar samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga og tillagna tekjustofnanefndar er gerð tillaga um 700 m.kr. tímabundna viðbótarfjárveitingu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem ráðstafað verði með líkum hætti og sambærilegt framlag árið 1999. Framlaginu er ætlað að koma til móts við vanda sveitarfélaga sem hafa ekki möguleika á að draga úr rekstri og þjónustu til samræmis við fækkun íbúa og samdrátt í tekjum.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.10 Kostnaður skv. 15. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Lögð er til 7,6 m.kr. viðbótarfjárveiting til að endurgreiða sveitarfélögum uppsafnaða skuld vegna félagsþjónustu við erlenda ríkisborgara, sbr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og myndast hefur á árinu 1999. Í lögunum er kveðið á um að ríkissjóður endurgreiði sveitarfélagi veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu eða hafa átt lögheimili skemur en í tvö ár. Aðstoðin skal veitt af dvalarsveitarfélagi að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið, enda hafi áður verið leitað eftir aðstoð frá heimalandi.
         1.11 Meðlög samkvæmt lögum nr. 20/1992. Gerð er tillaga um 57,2 m.kr. fjárveitingu til greiðslu skuldar við Tryggingastofnun ríkisins vegna lögbundinnar skyldu félagsmálaráðuneytisins til að greiða meðlög, sbr. 25. gr. barnalaga, nr. 20/1992. Þar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða foreldri barns, sem á framfærslurétt hér á landi, framfærslueyri (meðlag) með barni samkvæmt lögmætum úrskurði eða staðfestum samningi, þó innan þeirra marka er greinir í almannatryggingalögum. Hafi foreldrar barns fengið skilnað erlendis og svo háttar til að því foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, hefur verið gert að greiða lægra meðlag með því en nemur barnalífeyri almannatrygginga eða hefur ekki verið gert að greiða meðlag með því getur sýslumaður úrskurðað meðlag til forsjárforeldris á hendur Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli erlends skilnaðarleyfis, skilnaðardóms eða úrskurðar. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir þær eftir því sem fært reynist.
         1.31 Félagasamtök, styrkir. Gerð er tillaga um að veita Foreldra- og styrktarfélagi Öskjuhlíðarskóla 4 m.kr. framlag til rekstrar félagsins á sumardvöl fyrir nemendur skólans, en halli hefur verið á rekstrinum síðustu ár. Eftir reksturinn sl. sumar er enn halli sem nemur um 4 m.kr.
         1.44 Byrgið, líknarfélag. Lagt er til að Byrgið, kristilegt líknarfélag, fái 9,5 m.kr. aukafjárveitingu. Gerður var samningur um að Byrgið fengi til afnota aflagða ratsjárstöð á Miðnesheiði sem gengið hefur undir nafninu Rockville. Húsin þar voru illa farin og enn hefur ekki tekist að ganga þannig frá að unnt sé að reka þá starfsemi á staðnum sem ætlað er en til stóð að taka húsin í notkun sl. haust. Meðal annars þurfti miklar lagfæringar við lagnir sem talið hafði verið að væru í lagi, sömuleiðis þurfti endurbætur á frárennsli og rafmagni. Þá hefur verið gerð krafa um að öll hús verði teiknuð upp og málsett samkvæmt íslenskum stöðlum.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

206     Sjúkratryggingar.
        1.15 Lyf.
Gerð er tillaga um 175 m.kr. hækkun á framlagi til lyfjamála. Endurmat á útgjöldum til lyfjamála eftir tíu mánuði bendir til þess að útgjöld málaflokksins verði 4.765 m.kr. á árinu 2000. Útgjaldaspáin hefur hækkað um 175 m.kr. frá því í sumar vegna hærri útgjalda á haustmánuðum en ráð var fyrir gert.
        1.31 Þjálfun. Gerð er tillaga um 30 m.kr. lækkun framlags í ljósi endurmats á útgjöldum við þjálfun.
         1.35 Tannlækningar. Lögð er til 25 m.kr. lækkun framlags í ljósi endurmats á útgjöldum við tannlækningar.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        6.50 Nýbygging.
Lagt er til að veitt verði 35 m.kr. aukaframlag til að mæta umframkostnaði við verklok á nýrri barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem fyrirhugað er að opna í nóvember á þessu ári.
371     Ríkisspítalar.
        1.01 Ríkisspítalar.
Lagt er til að millifærð verði 20,6 m.kr. fjárheimild frá Landspítala til Heilsuverndarstöðvarinnar vegna flutnings verkefna. Mæðravernd Landspítalans við Hringbraut var sameinuð mæðravernd Heilsuverndarstöðvarinnar 1. október 1999. Launakostnaður frá 1. október 1999 til 31. desember 2000 nemur 20,6 m.kr.
373     Sjúkrahús í Reykjavík.
        1.01 Ýmis skipulags- og rekstrarverkefni.
Lagt er til að 6,7 m.kr. af ónýttri fjárveitingu til reksturs hjúkrunarheimilisins Sóltúns árið 2000 verði millifærðar á þennan lið til reksturs tímabundinnar hjúkrunardeildar og sjúkrahústengdrar heimahlynningar fyrir aldraða. Sú starfsemi verður lögð niður í árslok 2001 þegar Sóltún tekur til starfa.
412     Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
        1.01 Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
Lagt er til að 5,1 m.kr. hluti af ónýttri fjárveitingu til reksturs hjúkrunarheimilisins Sóltúns árið 2000 verði millifærður til reksturs tveggja nýrra hjúkrunarrýma í Skógarbæ til að mæta brýnni þörf á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu.
495     Daggjaldastofnanir.
        1.12 Nýtt hjúkrunarheimili í Reykjavík.
Gerð er tillaga um 23,6 m.kr. lækkun á þessum lið. Um er að ræða fjárveitingu sem ætluð var til reksturs hjúkrunarheimilisins Sóltúns árið 2000 en starfsemi þess mun ekki hefjast fyrr en í lok árs 2001. Eins og fyrr greinir er lagt til að hluti fjárhæðarinnar, 5,1 m.kr., verði millifærður til reksturs tveggja nýrra hjúkrunarrýma í Skógarbæ til að mæta brýnni þörf á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu. Á sama hátt verði 6,7 m.kr. af þessari ónýttu fjárveitingu til reksturs Sóltúns árið 2000 millifærðar á liðinn 08-373 Sjúkrahús í Reykjavík til reksturs tímabundinnar hjúkrunardeildar og sjúkrahústengdrar heimahlynningar fyrir aldraða. Starfsemin verður lögð niður í árslok 2001 samhliða því að Sóltún tekur til starfa. Fjárhæðin sem eftir stendur, 11,8 m.kr., fellur niður. Í frumvarpinu láðist að fella fjárveitinguna niður á móti samsvarandi framlagi til aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins vegna undirbúningskostnaðar við útboð hjúkrunarheimilisins.
510     Heilsuverndarstöðin í Reykjavík.
        1.01 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík.
Lagt er til að millifærð verði 20,6 m.kr. fjárheimild frá Landspítala til Heilsuverndarstöðvarinnar vegna flutnings verkefna. Mæðravernd Landspítalans við Hringbraut var sameinuð mæðravernd heilsuverndarstöðvarinnar 1. október 1999. Launakostnaður frá 1. október 1999 til 31. desember 2000 nemur 20,6 m.kr.
621    Forvarnasjóður.
        1.10 Áfengis- og vímuvarnaráð.
Gerð er tillaga um 1,3 m.kr. aukaframlag til Forvarnasjóðs til greiðslu biðlauna til fyrrverandi starfsmanna áfengisvarnaráðs. Í fjáraukalögum 1999 fengust 8,5 m.kr. til að mæta þessum kostnaði en greiðslur vegna umræddra biðlauna urðu 9,8 m.kr. Farið er fram á framangreinda fjárhæð til að mæta þessum viðbótarkostnaði.
         1.90 Forvarnasjóður. Gerð er tillaga um að Gamla apótekið, menningar- og kaffihús ungs fólks á Vestfjörðum, fái 2,5 m.kr. framlag á fjáraukalögum fyrsta rekstrarár sitt. Markmiðið með starfsemi hússins er að reyna að auka skilning og vitund ungs fólks á því að hægt sé að skemmta sér og stunda menningar- og listalíf án neyslu áfengis og annarra vímuefna.

10 Samgönguráðuneyti

101     Samgönguráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn.
Samgönguráðuneytið innheimtir, á grundvelli reglna um bókhald, reikningsskil og upplýsingagjöf ferðaskrifstofa nr. 530/1998, gjald að upphæð 30 þús. kr. af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum til að standa straum af kostnaði við eftirlit með starfsemi þeirra. Gjaldið rennur í ríkissjóð og er farið fram á ráðstöfun þess á móti áföllnum kostnaði í samræmi við lög. Fjármögnun tillögunnar er sett fram í fyrirliggjandi frumvarpi sem viðskiptahreyfing en á að vera greiðsla úr ríkissjóði og er gerð tillaga um það til leiðréttingar. Fjárveiting er hins vegar óbreytt.
190     Ýmis verkefni.
        1.23 Slysavarnaskóli sjómanna.
Gerð er tillaga um að Slysavarnafélagið Landsbjörg fái 7,4 m.kr. fjárveitingu til að standa straum af kostnaði við notkun þyrlna við æfingar Slysavarnaskóla sjómanna. Reikningar hafa safnast upp vegna þessara æfinga. Landhelgisgæslan hóf árið 1994 að innheimta hjá skólanum greiðslur fyrir notkun þyrlna við æfingar skólans en ekki hafði verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum vegna æfinganna.
211     Vegagerðin.
        6.10 Nýframkvæmdir.
Lögð er til 100 m.kr. hækkun á fjárveitingu til nýframkvæmda vegna verðhækkana á olíu. Um nokkurra ára skeið hefur gilt sú regla við útboð hjá Vegagerðinni að ekki eru greiddar verðbætur á verk sem taka styttri tíma en tvö ár. Verðsveiflur á aðföngum verktaka hafa ekki verið miklar og hefur þessi tilhögun því ekki sætt gagnrýni. Í júní sl. kom til framkvæmda breyting á þungaskattskerfinu sem leiddi til hækkunar á gjaldi vegna hluta þungra bíla. Miðað við notkun hjá verktökum almennt má reikna með að breytingin hafi leitt til hækkunar. Aðföng verktaka hafa einnig hækkað nokkuð á þessu ári en olían þó allra mest. Verð dísilolíu hækkaði um 77% frá júní 1999 til október 2000. Mjög veigamiklar ástæður þarf til að réttlæta breytingu á ákvæðum útboðsgagna, t.d. varðandi verðlagsákvæði, eftir að samningar eru gerðir en vegna þessara hækkana sem eru langt umfram það sem vænta mátti telst ekki hjá því komist að taka tillit til þeirra og hefur Vegagerðin sett nánari reglur um hvernig að útreikningi bóta skuli staðið.
335     Siglingastofnun Íslands.
        6.70 Hafnamannvirki.
Gerð er tillaga um 8 m.kr. aukafjárveitingu til að gera upp 8 m.kr. skuld Grenivíkurhafnar við Grýtubakkahrepp. Þegar Hafnasamlag Norðurlands var stofnað fyrir tæpum fjórum árum tók samgönguráðuneytið þátt í undirbúningsvinnu við það. Kom þá fljótlega í ljós að Grenivíkurhöfn skuldaði Grýtubakkahreppi rúmar 12 m.kr. og ákvað ráðuneytið að greiða . hluta skuldarinnar, eða 8 m.kr., til að liðka fyrir sameiningu og er þetta sú greiðsla.
512     Póst- og fjarskiptastofnunin.
        1.01 Póst- og fjarskiptastofnunin.
Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. aukafjárveiting þar sem álagning jöfnunargjalds vegna alþjónustu hófst ekki fyrr en um mitt ár 2000. Í frumvarpi til laga um jöfnunargjald á alþjónustu sem samþykkt var sem lög á vorþingi 2000 var áætlað að álagning jöfnunargjalds skilaði 20 m.kr. í tekjur á ári. Hins vegar öðluðust lögin ekki gildi fyrr en um mitt ár 2000 og því er ekki gert ráð fyrir nema 10 m.kr. í tekjur á árinu 2000. Neyðarlínan hf. hefur gert samning við dómsmálaráðuneytið um að veita alþjónustu og gerir ráð fyrir 20 m.kr. kostnaði við þjónustuna. Því er farið fram á 10 m.kr. fjárveitingu til verkefnisins í þetta eina skipti.
651     Ferðamálaráð.
        1.11 Ferðamálasamtök landshluta.
Gerð er tillaga um 3 m.kr. fjárveitingu til Upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Leifsstöð en hún hefur síðan 1997 fengið 3 m.kr. framlag af fjárlögum. Þessi fjárveiting féll niður á fjárlögum 2000. Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa séð um rekstur stöðvarinnar með samningi við Ferðamálaráð.

12 Viðskiptaráðuneyti

302     Löggildingarstofa.
        6.01 Tæki og búnaður.
Gerð er tillaga um 20,3 m.kr. aukafjárveitingu vegna stofnbúnaðar og innréttinga í nýju húsnæði Löggildingarstofunnar við Borgartún. Þá hefur kostnaður við sameign reynst meiri en gert var ráð fyrir í upphaflegri húslýsingu. Framlag þetta er til að mæta útgjöldum við breytingar á húsnæðinu sem framkvæmdar eru á vegum Fasteigna ríkissjóðs.

13 Hagstofa Íslands

101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa.
        1.50 Þjóðskráin.
Lagt er til að veitt verði 35 m.kr. viðbótarframlag til að mæta ófyrirséðum kostnaðarauka í rekstri Hagstofunnar sem er í fyrsta lagi tilkominn vegna gerðar nýs tölvukerfis þjóðskrár og fyrirtækjaskrár og breytinga eldri kerfa. Þessar breytingar reyndust flóknari og tímafrekari en áætlað var. Einnig hefur verið talið nauðsynlegt að vinna áfram að þróun og endurbótum á gerð nýs kjörskrárkerfis. Kostnaður af framantöldu umfram áætlanir nemur um 15 m.kr. á árunum 1999 og 2000. Í öðru lagi hefur breytingin valdið því að ráðgerð hagræðing af rekstri nýs kerfis skilaði sér ekki fyrr en á seinni hluta þessa árs. Við það urðu útgjöld Hagstofunnar um 10 m.kr. meiri en áætlað var. Í þriðja lagi hafa tekjur Hagstofunnar af afnota- og vinnslugjöldum þjóðskrár dregist saman og eru horfur á að þar muni um 10 m.kr. frá áætlun fjárlaga.

14 Umhverfisráðuneyti

101     Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn.
Gerð er tillaga um 3 m.kr. fjárveitingu vegna ýmissa ófyrirséðra útgjalda, svo sem lögfræðikostnaðar við héraðsdómsmál tveggja starfsmanna Landmælinga Íslands gegn íslenska ríkinu, öryggismála og sérfræðikostnaðar við umhverfismat.
210     Veiðistjóri.
        1.01 Veiðistjóri.
Lagt er til að embætti veiðistjóra verði veitt alls 10 m.kr. aukafjárveiting. Af fjárhæðinni er gert ráð fyrir að 4 m.kr. fari til þess að leysa uppsafnaðan vanda hundabús frá árunum 1998 og 1999, 3 m.kr. til endurgreiðslu vegna refaveiða og 3 m.kr. til endurgreiðslu vegna veiða á mink. Breyting var gerð á gjaldskrá þannig að verðlaun fyrir veidda minka vega meira en akstur og tímakaup. Þetta hafði þau áhrif að fleiri minkar voru veiddir en áður og er endurgreiðsla þegar komin um 2 m.kr. fram úr fjárveitingum og áætlað að rúmlega 1 m.kr. bætist við.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10 Vaxtagjöld ríkissjóðs.
Lagt er til að fjárheimild vegna gjaldfærðra vaxta verði aukin um 500 m.kr. til viðbótar við það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu og að greiðsluheimild verði aukin um 580 m.kr. Helsta breytingin frá fyrri áætlun er að við endurmat er nú talið að bæði gjaldfærðir og greiddir vextir af erlendum skammtímalánum verði um 330 m.kr. hærri á árinu. Stafar það af því að annars vegar hefur gengi helstu gjaldmiðla hækkað talsvert gagnvart íslensku krónunni og hins vegar hefur ekki reynst unnt að lækka stöðu á þessum skammtímalánum í eins miklum mæli og áformað var. Þá er af sömu ástæðum reiknað með að vextir af erlendum langtímalánum aukist um 130 m.kr. Breytingar á vaxtagjöldum af öðrum lánum eru minni og vega hver aðra upp.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 24. nóv. 2000.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.



Hjálmar Jónsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristján Pálsson.