Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 351  —  216. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald.

Frá sjávarútvegsnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Ástbjartsson og Árna Múla Jónasson frá Fiskistofu, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
     Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um veiðieftirlitsgjald. Í fyrsta lagi er lagt til að fjárhæð gjalds vegna veiðiheimilda innan og utan lögsögu verði breytt til samræmis við áætlaðan kostnað Fiskistofu af veiðieftirliti. Í öðru lagi er lagt til að þegar skipi er úthlutað tilteknu aflamagni sem byggist ekki á hlutdeild taki gjaldið mið af úthlutuðu aflamagni en ekki lönduðum afla eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Einnig er í frumvarpinu lagt til að gjald fyrir veru eftirlitsmanna um borð í veiðiskipum verði hækkað og það verði einnig innheimt fyrir veru veiðieftirlitsmanns um borð í fiskiskipi samkvæmt sérstakri heimild í lögum.
    Nefndin hefur fengið upplýsingar frá Fiskistofu um þær forsendur sem liggja til grundvallar gjaldtökunni og hvaða áhrif breytingar á henni munu hafa á einstaka skipaflokka. Hefur nefndin fjallað ítarlega um þann þátt málsins.
    Til að bregðast við mikilli umræðu um brottkast afla hefur Fiskistofa fengið heimild ráðherra til að ráða fimm nýja veiðieftirlitsmenn og einnig verða fimm veiðieftirlitsmenn ráðnir frá og með næstu áramótum. Að mati nefndarinnar eru forsendur hækkunar veiðieftirlitsgjalds aukið veiðieftirlit eins og að framan greinir. Að öðru leyti hækkar gjaldið ekki í heild. Ljóst er þó að gjaldið mun hækka í einstökum skipaflokkum, en lækkar í öðrum. Breytingar á þorskígildisstuðlum valda því einnig að gjaldið dreifist með öðrum hætti á þessu ári en í fyrra.
    Fram hefur komið að til er óformlegur samráðsvettvangur útvegsmanna og Fiskistofu þar sem rædd eru ýmis framkvæmdaratriði veiðieftirlits. Nefndin telur eðlilegt að á þeim vettvangi séu enn fremur ræddar þær forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðun veiðieftirlitsgjalds hverju sinni. Slíkt samráð ætti að öðru jöfnu að tryggja að innheimta þess sé í samræmi við kostnað sem því er ætlað að mæta. Má þá hafa hliðsjón af því fyrirkomulagi varðandi álitsgjöf eftirlitsskyldra aðila og Fjármálaeftirlitsins sem mælt er fyrir um í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 7. og 17. gr. laga nr. 87/ 1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Talsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna eru hlynntir slíkri tilhögun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Svanfríður Jónasdóttir, Jóhann Ársælsson og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 23. nóv. 2000.Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.Hjálmar Árnason.


Vilhjálmur Egilsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.Svanfríður Jónasdóttir,


með fyrirvara.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.


Fylgiskjal I.


Fiskistofa.

Skipting veiðieftirlitsgjalds milli skipaflokka.


(23. nóvember 2000.)


    Á fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis sl. þriðjudag var óskað eftir minnisblaði frá Fiskistofu um skiptingu veiðieftirlitsgjalds milli skipaflokka og upplýsingum um hvernig gjaldið breytist milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2000/2001. Þessar upplýsingar hafa nú verið teknar saman.
    Hér á eftir fer tafla þar sem borið er saman gjald á aflamark milli fiskveiðiáranna 1999/ 2000 og 2000/2001 eftir skipaflokkum og sýnd hlutfallsleg hækkun milli áranna. Rétt er að taka fram að samanburður milli ára skekkist nokkuð vegna millifærslna aflahlutdeilda milli skipaflokka. Allar fjárhæðir eru í millj. kr.

1999/2000 2000/2001 Hækkun, %
Togarar
52,9 83,9 58,6
Bátar (yfir 15 m)
42,0 62,6 49,0
Smábátar (undir 15 m)
5,6 8,4 50,0
Króka- /þorskaflahámarksbátar
8,2 15,3 86,6
Sóknardagabátar
1,5 3,2 113,3
Samtals
110,2 173,4 57,3

    Tekið skal fram að inni í þessum tölum eru áætlanir fyrir tegundir sem hefur ekki endanlega verið úthlutað og eru þær sérmerktar í yfirliti yfir tegundir hér á eftir.
    Í ljós kemur að hlutfallsleg hækkun er mest í sóknardagabátum og skýrist hækkunin að miklu leyti af auknum afla þeirra á síðasta fiskveiðiári, en gjaldstofn sóknardagabáta er afli þessara báta á tímabilinu 1. ágúst 1999 til 31. júlí 2000.
    Enn fremur var óskað eftir að skoðuð yrðu sérstaklega áhrif fyrirhugaðrar breytingar á veiðieftirlitsgjaldi á nótaveiðiflotann. Ákveðið var að skoða aflaheimildir og afla í þeim tegundum sem þessi skip veiða helst þar sem mörg skip sem stunda þessar veiðar eru fjölveiðiskip og stunda einnig aðrar veiðar. Niðurstaða þeirrar skoðunar sést í töflunni hér á eftir, allar fjárhæðir í krónum.

1999/2000 2000/2001 Hækkun, %
Síld
2.904.000 2.798.400 -3,6
Loðna
10.787.150 9.819.840 -8,9
Norsk-íslensk síld
1.950.400 -
Kolmunni
3.083.328 -
Samtals
13.691.150 17.651.968 28,9

    Heildarhækkun á aflamark ofangreindra tegunda er 28,9% sem er mun lægra en 57,3% hækkun heildargjaldsins á aflamark. Skýring þessa er sú að þorskígildisstuðull síldar og loðnu lækkaði verulega milli fiskveiðiáranna.
    Segja má að fyrirhuguð hækkun á gjaldi á aflamark komi samkvæmt þessu betur út fyrir nótaveiðiflotann en aðra flokka flotans jafnvel þótt til komi ný gjaldtaka á norsk-íslenskri síld og á kolmunna.
    Eftir fundinn barst ósk um yfirlit yfir skiptingu úthlutunar eftir tegundum, þ.e. bæði í magni og þorskígildistonnum og einnig hverjir væru þorskígildisstuðlar hverrar tegundar. Í eftirfarandi töflu birtast þessar upplýsingar.

Úthlutun Stuðull Þorskígildi
Þorskur
154.538.352 1,00 154.538.352
Ýsa
22.379.938 1,15 25.736.928
Ufsi
24.059.457 0,50 12.029.729
Karfi
56.999.902 0,55 31.349.946
Úthafskarfi **
30.000.000 0,55 16.500.000
Steinbítur
8.869.411 0,65 5.765.117
Grálúða
18.399.997 1,65 30.359.995
Skarkoli
3.679.993 1,25 4.599.991
Þykkvalúra
1.287.994 1,20 1.545.593
Langlúra
1.012.000 0,70 708.400
Sandkoli
5.060.000 0,50 2.530.000
Skrápflúra
4.600.000 0,50 2.300.000
Síld
110.000.001 0,06 6.600.000
Loðna **
772.000.000 0,03 23.160.000
NÍ síld **
115.000.000 0,04 4.600.000
Kolmunni *
242.400.000 0,03 7.272.000
Humar
369.230 6,85 2.529.226
Úthafsrækja
20.000.000 0,90 18.000.000
Innfjarðarækja **
2.300.000 0,90 2.070.000
Hörpudiskur
9.300.000 0,30 2.790.000
* Ath. Ekki er til þorskígildisstuðull fyrir kolmunna og því er notaður sami stuðull og fyrir loðnu.
** Um er að ræða áætlaða úthlutun

    Inn í þessar tölur vantar afla þorskaflahámarksbáta og sóknardagabáta, en afli þeirra á síðasta ári sem innheimt verður eftir nemur um 23.000 þorskígildistonnum.

Fylgiskjal II.


Fiskistofa:

Minnisblað vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000,


um veiðieftirlitsgjald.


(20. nóvember 2000.)


    Við ákvörðun veiðieftirlitsgjalds hefur Fiskistofa skilgreint hvað hún telji að sé veiðieftirlit og hvað tengist því og komist að eftirfarandi niðurstöðu:
    Allt eftirlit með veiðum, veiðarfærum, löndun, vigtun, samsetningu, skráningu og flutningi afla. Enn fremur eftirfylgni brotamála, eftirlit með umframafla, álagning gjalds vegna ólögmæts sjávarafla og veiðileyfissviptingar. Þessu tengist síðan stjórnun eftirlitsmanna, yfirstjórn Fiskistofu, innheimta veiðieftirlitsgjalds, greiðsla launa og annar kostnaður sem af eftirlitinu leiðir, starfsmannamál vegna þeirra starfsmanna sem eftirlitinu tengjast, svo sem orlofsmál, fræðslumál og starfsmannasamtöl, útgáfa upplýsinga sem eftirlitið varðar og almenn upplýsingagjöf, rekstur og nýsmíði tölvukerfa vegna eftirlitsins og umsjón með tölvum og tölvubúnaði.
    Því hefur kostnaður vegna veiðieftirlits einstakra sviða Fiskistofu verið skilgreindur sem hér segir:
    Sjóeftirlitssvið: Kostnaður við almennt sjóeftirlit er tekinn inn að fullu, en ekki vegna eftirlits með fullvinnsluskipum eða veiðum skipa utan lögsögu.
    Landeftirlitssvið: Landeftirlitssvið sinnir veiðieftirliti á landi og er kostnaður við það tekinn inn að fullu. Enn fremur hefur hér verið tekið tillit til rekstrarkostnaðar þeirra bifreiða sem veiðieftirlitið hefur til ráðstöfunar.
     Fjármála- og rekstrarsvið: Fjármála- og rekstrarsvið sér um launaafgreiðslu og önnur mál sem að veiðieftirlitsmönnum sem og öðrum starfsmönnum snúa. Enn fremur sér sviðið um innheimtu veiðieftirlitsgjalds, greiðslu reikninga og bókhald vegna rekstrar. Eftir fjölgun veiðieftirlitsmanna verða þeir tæpur helmingur starfsmanna Fiskistofu. Því eru reiknuð 50% launakostnaðar sviðsins auk 30% annars kostnaðar inn í veiðieftirlitsgjald.
     Rekstur húsnæðis: Við útreikning kostnaðar við rekstur húsnæðis vegna veiðieftirlits hefur verið miðað við 24% af heildarkostnaði við húsnæði Fiskistofu og er það áætlað út frá notkun eftirlitsins og tengdra verkefna.
     Fiskveiðistjórnunarsvið: Í maí 1999 var nokkuð af verkefnum sem tengjast veiðieftirliti flutt af fiskveiðistjórnunarsviði yfir á lögfræðisvið, svo sem eftirfylgni brotamála og verkefni vegna afladagbóka. Það sem eftir stendur af verkefnum á fiskveiðistjórnunarsviði sem tengjast veiðieftirliti er eftirlit með skráningu afla. Í ljósi þessa er hlutfall kostnaðar vegna fiskveiðistjórnunarsviðs sem fellur undir veiðieftirlit lækkað frá síðasta ári úr 40% í 15%.
     Lögfræðisvið: Við útreikning veiðieftirlitsgjalds er lögfræðisviði skipt í tvennt, rannsóknardeild annars vegar og aðrar deildir innan sviðsins hins vegar. Kostnaður við rannsóknardeild, sem sinnir svokölluðum bakreikningum fiskvinnsluhúsa til að finna „svartan afla“, hefur verið tekinn að fullu inn í veiðieftirlitsgjaldið. Kostnaður vegna annarra deilda hefur ekki verið inni í útreikningum áður. Þær sinna ýmsum verkefnum sem tengjast veiðieftirliti og má þar nefna brotamál, eftirlit með umframafla og veiðileyfissviptingar. Í ljósi þessa hafa verið tekin 50% af kostnaði annarra deilda lögfræðisviðs inn í útreikning veiðieftirlitsgjalds.
     Tölvusvið: Við útreikning á veiðieftirlitsgjaldi hafa verið tekin 20% af kostnaði tölvusviðs. Þar er um að ræða þjónustu við þær tölvur sem veiðieftirlit hefur til ráðstöfunar og viðhald og skrif á nýjum kerfum vegna símakróks, útflutnings á afla, nýtingarkerfis fyrir fullvinnsluskip, afladagbókaeftirlits o.fl.
    Ef tekið er tillit til þeirra þátta sem taldir eru upp hér að ofan lítur dæmið svona út:

Útreikningur veiðieftirlitsgjalds


(Allar fjárhæðir í millj. kr.)Heiti

Áætlun
2001

% vegna
veiðieftirlits
2001
Sjóeftirlitssvið
– almennt sjóeftirlit
82,0 100 82,0
Landeftirlitssvið
– almennt landeftirlit
61,2 100 61,2
– rekstur bifreiða
4,5 100 4,5
Fjármála- og rekstrarsvið
– laun
32,0 50 16,0
– annað
11,1 30 3,3
Rekstur húsnæðis
18,0 24 4,3
Fiskveiðistjórnunarsvið
36,0 15 5,4
Lögfræðisvið
– almennt
13,1 50 6,5
– rannsóknardeild
3,9 100 3,9
Tölvusvið
66,0 20 13,2
Samtals
200,3

    Til að reikna gjald vegna úthlutaðra aflaheimilda þarf að draga frá þessari tölu tekjur af veiðileyfagjaldi, en það er áætlað um 38,8 millj. kr. Þá standa eftir um 161,5 millj. kr. sem gjald vegna aflaheimilda þarf að standa undir. Á yfirstandandi fiskveiðiári er áætlað að úthlutað verði 381.577 þorskígildistonnum. Ef þessum 381.577 tonnum er deilt upp í 161,5 millj. kr. fæst að gjald vegna aflaheimilda þarf að vera 424 kr. á hvert þorskígildistonn.

F.h. Fiskistofu,


Gylfi Ástbjartsson.
Fylgiskjal III.


Nefndarritari
sjávarútvegsnefndar
:

Minnisblað til sjávarútvegsnefndar.


(Nóvember 2000.)


    Úttekt á samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila samkvæmt ákvæðum laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og ákvæðum laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Í umræðum sjávarútvegsnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, hafa þær hugmyndir komið upp að hagsmunaaðilar hefðu vettvang til að koma sjónarmiðum sínum um grundvöll veiðieftirlitsgjalds á framfæri. Í því sambandi hefur verið nefnt að hafa mætti hliðsjón af ákvæðum laga nr. 87/1998 og lögum nr. 99/1999. Þar er tilhögunin sú að þeir sem eftirlitið beinist að, eftirlitsskyldir aðilar, greiða allan kostnað við eftirlitið. Jafnframt er gert ráð fyrir því að eftirlitsskyldir aðilar hafi vettvang til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, m.a. vegna greiðslu kostnaðarins. Sjávarútvegsnefnd til kynningar verður hér á eftir vikið að helstu ákvæðum laga nr. 87/1998 og laga nr. 99/1999 þar að lútandi.
    Í 7. gr. laga nr. 87/1998 segir:
    „Sérstök samráðsnefnd sem skipuð er fulltrúum eftirlitsskyldra aðila skal starfa í tengslum við stofnunina [Fjármálaeftirlitið].
    Stjórnendur Fjármálaeftirlitsins skulu eiga reglulega fundi með samráðsnefndinni. Samráðsnefndin hefur ekki ákvörðunarvald í málefnum Fjármálaeftirlitsins.
    Nánar skal kveðið á um samráðsnefndina í reglugerð, meðal annars um skipan hennar.“
    Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 87/1998 segir í athugasemdum við 7. gr.:
    „Eðlilegt þykir að hinir eftirlitsskyldu aðilar eigi formlegan vettvang til þess að geta komið á framfæri viðhorfum sínum til starfshátta og reksturs stofnunarinnar. Því er kveðið á um að fulltrúar eftirlitsskyldra aðila skipi sérstaka samráðsnefnd í þessu skyni. Í 16. gr. er gert ráð fyrir að nefndin gefi umsögn sína um kostnaðaráætlun stofnunarinnar og geti þannig komið sjónarmiðum sínum að. Rétt er að leggja áherslu á að þessari nefnd er ekki ætlað neitt ákvörðunarvald í málefnum stofnunarinnar.
    Ekki er kveðið á um hvernig nefndin skuli skipuð en gengið út frá því að fulltrúar allra samtaka eftirlitsskyldra aðila eigi fulltrúa í nefndinni. Þar sem slík samtök eru breytingum háð er gert ráð fyrir að kveðið verði nánar á um skipan nefndarinnar í reglugerð.“
    Með lögum nr. 99/1999 var 16. gr. laga nr. 87/1998, sem vitnað er til hér að framan, breytt á þann veg að þau ákvæði 16. gr. sem fjölluðu um greiðslu eftirlitskostnaðar, m.a. álit samráðsnefndar, voru tekin upp í lög nr. 99/1999. Lögum nr. 87/1998 var jafnframt breytt með lögum nr. 11/2000 og varð 16. gr. þá að 17. gr.
    Í 17. gr. laga nr. 87/1998 segir eftir framangreindar breytingar:
    „Eftirlitsskyldir aðilar skulu standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Um greiðslu kostnaðar fer samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.“
    Í 2. gr. laga nr. 99/1999 segir:
    „Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 99/1999 segir í athugasemdum við 2. gr.:
    „Í þessari grein er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið áætli kostnað við rekstur næsta árs og áætli jafnframt á miðju ári rekstrarniðurstöðu yfirstandandi árs. Við álagningu næsta árs verði síðan tekið tillit til áætlaðrar niðurstöðu fyrir yfirstandandi ár.
    Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið sendi viðskiptaráðherra rekstraráætlun og rökstuðning fyrir henni í sérstakri skýrslu. Þar verði jafnframt að finna umfjöllun um hvernig eftirlitsstarfsemin skiptist á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila þannig að lagt verði mat á það hvort hver flokkur eftirlitsskyldra aðila beri sanngjarnan hlut í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Gert er ráð fyrir að mat þetta taki mið af reynslu liðinna ára, en ekki verkáætlunum eftirlitsins fyrir næsta ár.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta gjaldsins er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra leggi til við Alþingi breytingar á lögunum. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.“