Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 365  —  196. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bolla Þór Bollason, Björn Rúnar Guðmundsson, Ragnheiði Snorradóttur og Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Halldór Björnsson og Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands. Jafnframt bárust minnisblöð frá fjármálaráðuneyti og umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Reykjanesbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalagi Íslands, Djúpavogshreppi, Alþýðusambandi Íslands, Seðlabanka Íslands, bæjarráði Siglufjarðar, Sveitarfélaginu Skagafirði, Búðahreppi, Eyþingi, Íbúðalánasjóði, Holta- og Landsveit, Skútustaðahreppi, Grindavíkurbæ, Austur-Héraði, bæjarráði Húsavíkur, Þjóðhagsstofnun, bæjarstjórn Seltjarnarness, Vopnafjarðarhreppi, Mosfellsbæ, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Dalvíkurbyggð.
    Meiri hlutinn telur eðlilegt að skatthlutfall einstaklinga verði lækkað til að koma til móts við þá fyrirætlan að hækka heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar. Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á því að á sama tíma og skatthlutfall einstaklinga er lækkað vegna fyrirhugaðrar hækkunar á útsvarsheimild sveitarfélaga eru áform um hækkun barnabóta og lækkun fasteignaskatta. Þá kemur að auki til hækkun persónuafsláttar sem gerð var með lögum nr. 9/2000, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Sé litið á þessar breytingar á skattkerfinu í heild sinni er ljóst að þær munu hafa þau áhrif að skattar lækka umtalsvert hjá töluverðum hópi skattgreiðenda.
    Meiri hlutinn bendir á að þeir sem reka sveitarfélögin í landinu eru kjörnir fulltrúar íbúanna og bera ábyrgð gagnvart kjósendum sínum. Eðlilegt er að sem slíkir fái þeir svigrúm til að afla þeirra tekna sem þeir telja sig þurfa til að standa undir rekstri sveitarfélaganna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 27. nóv. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.





Prentað upp.