Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 374  —  1. mál.
Nefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 21. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 9. október sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 36 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 3.778 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2.
    Meiri hluti nefndarinnar þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa einnig veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umræðu afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 7. gr. Auk þess bíða 3. umræðu ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

201
     Alþingi.
        1.01 Alþingiskostnaður.
Gerð er tillaga um 13 m.kr. hækkun vegna aukinna útgjalda sem stafa einkum af hækkun ferðakostnaðar í kjölfar kjördæmabreytinga.
         1.06 Almennur rekstur. Lögð er til 23 m.kr. hækkun fjárveitinga vegna aukins kostnaðar í almennum rekstri. Hann stafar m.a. af launaskriði vegna starfsaldurshækkana, auknu samstarfi við erlend þjóðþing, hækkun á áskriftum að hugbúnaðarkerfum og tölvuleigu og hærri síma- og póstkostnaði.
         1.07 Sérverkefni. Lögð er til 1 m.kr. hækkun á fjárveitingum til skýrslugerðar um samfélagsþróun á norðurskautssvæðinu.

01 Forsætisráðuneyti

101     Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn.
Gerð er tillaga um 7 m.kr. framlag til forsætisráðuneytisins. Fjárveitingin er ætluð til að efla yfirstjórn ráðuneytisins vegna aukins umfangs í starfsemi þess og fjölgunar verkefna sem það hefur með höndum. Gert er ráð fyrir að bætt verði við einu stöðugildi í yfirstjórn ráðuneytisins.
190     Ýmis verkefni.
        1.14 Ritun sögu Stjórnarráðsins.
Lagt er til 3,2 m.kr. aukaframlag til ritunar á sögu Stjórnarráðsins. Samningar hafa verið gerðir við ritnefnd sem hefur ákveðið tilhögun verksins, ráðið höfunda og áætlað kostnað við verkið, sem er áætlaður 13,2 m.kr. fyrir árið 2001, en áður var hann áætlaður 10 m.kr. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir árið 2002 verði 12,4 m.kr., 11,5 m.kr. fyrir árið 2003 og 0,6 m.kr. í verklok árið 2004.

02 Menntamálaráðuneyti

201     Háskóli Íslands.
        1.02 Rannsóknir og önnur verkefni.
Gerð er tillaga um að veita matvælaskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands 9,5 m.kr. fjárveitingu til næringarfræðilegra rannsókna á kúamjólk og lágu nýgengi sykursýki af gerð 1 hérlendis. Fjárveitingin samsvarar einu og hálfu stöðugildi sérfræðinga og rekstrarkostnaði sem svarar 40% launakostnaðar. Reiknað er með að verkefnið taki 2–3 ár hið minnsta og að svipaða fjárveitingu þurfi í þrjú ár. Að auki er sótt um styrki til rannsóknasjóða.
                  Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands fái 61 m.kr. tekjur af sóknargjöldum á lið 06-735 sem er 9 m.kr. hækkun frá fjárlögum 2000. Lagt er til að áætlað verði fyrir tekjum þessum á fjárlagalið skólans og jafnháum útgjöldum á móti.
         5.50 Fasteignir. Lagt er til að Raunvísindastofnun Háskóla Íslands verði veitt 15 m.kr. tímabundin fjárveiting til viðhalds á húsnæði sem er orðið brýnt.
269     Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        
5.21 Viðhald og 6.21 Stofnkostnaður. Leiðrétt er framsetning á fjárlagaliðnum til samræmis við greinargerð með frumvarpinu. Þannig hækkar viðfangsefnið 5.21 Viðhald um 8 m.kr. og 6.21 Stofnkostnaður lækkar um sömu fjárhæð.
299     Háskóla- og rannsóknastarfsemi.
        1.73 Reykjavíkurakademían.
Gerð er tillaga um að veita Reykjavíkurakademíunni sérstakt tímabundið þróunarfé, 10 m.kr., til að byggja svo upp rekstrarform, stjórnsýslu og starfsmannahald hennar að hún standist þær kröfur sem gerðar eru til sjálfseignarstofnana sem gera samninga um rekstrarverkefni við einstaka ráðherra skv. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.
         1.90 Háskóla- og rannsóknastarfsemi. Gerð er tillaga um að veita Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða 0,8 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að kosta hönnun og gerð kostnaðaráætlunar um stækkun aðstöðu til funda, kennslu og námskeiðahalds. Slík aðstaða yrði einnig nýtt til að fá fleiri aðila til samstarfs í setrinu og til uppbyggingar frumkvöðlaseturs í samstarfi við Atvinnuþróunarfélagið.
         1.91 Háskólar, óskipt. Gerð er tillaga um 90 m.kr. hækkun á þessum lið vegna fjölgunar nemenda umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlagafrumvarpsins. Í frumvarpinu er áætlað fyrir útgjöldum vegna 7.342 nemendaígilda, en í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að þau verði 200 fleiri.
318     Framhaldsskólar, stofnkostnaður.
        6.90 Byggingarframkvæmdir, óskipt.
Leiðrétt er framsetning á fjárlagaliðnum til samræmis við greinargerð með frumvarpinu. Þannig lækkar þetta viðfangsefni um 13 m.kr. og viðfangsefnið 6.95 Tæki og búnaður, óskipt hækkar um sömu fjárhæð.
         6.95 Tæki og búnaður, óskipt. Hér er lögð er til 28 m.kr. hækkun. Annars vegar er um að ræða fyrrgreinda 13 m.kr. hækkun til leiðréttingar og hins vegar er gerð tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja tilraunaverkefni með fartölvur og þráðlaus net í þremur framhaldsskólum, sem eru þróunarskólar í upplýsingatækni, vegna kostnaðar við öryggisskápa, tengingar á sendum og kaup á skjávörpum.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.34 Myndlistarskólinn í Reykjavík.
Gerð er tillaga um sérstakt 4,6 m.kr. tímabundið framlag til Myndlistarskólans í Reykjavík vegna framkvæmda sem varða viðhald og öryggi í skólahúsnæðinu.
         1.35 Myndlistarskólinn í Kópavogi. Vegna vaxandi aðsóknar að skólanum er lagt til að framlög til hans hækki um 0,5 m.kr.
354     Fjölbrautaskóli Vesturlands.
        1.01 Almennur rekstur.
Gerð er tillaga um 3,9 m.kr. hækkun á greiðsluheimild liðarins til leiðréttingar á skekkju sem gerð var við framsetningu innritunargjalda sem ríkistekna í stað sértekna við undirbúning frumvarpsins. Fjárveiting verður óbreytt eftir sem áður.
725     Námsgagnastofnun.
        1.01 Námsgagnastofnun.
Lögð er til 20 m.kr. hækkun framlags til að mæta kostnaði sem hlýst af breytingum á námsefni og gerð nýs námsefnis í framhaldi af nýrri aðalnámskrá grunnskóla.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.01 Þjóðminjasafn Íslands.
Hér er gerð tillaga um 29,5 m.kr. hækkun vegna fimm verkefna. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 15 m.kr. tímabundna fjárveitingu til átaks í fjarvinnsluskrám safnsins í gagnagrunninn Sarp. Mikilvægt þykir að gera nokkurra ára átak í því að koma sem mestum upplýsingum í Sarp sem fyrst svo að grunnurinn geti farið að gegna hlutverki sínu eins og til er ætlast. Nú vinna þrír starfsmenn að skráningu í grunninn. Í öðru lagi er lögð til 7 m.kr. tímabundin fjárveiting til áframhaldandi Reykholtsrannsókna. Í þriðja lagi er gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundna hækkun fjárveitinga til safnsins til að gera því unnt að taka til varðveislu og skráningar málverkasafn Bjarna Jónssonar um íslenska sjávarhætti ef verður af kaupum á því. Safnið er til marks um viðamiklar athuganir Bjarna á sjóminjum og sögu fiskveiða. Í fjórða lagi er gerð tillaga um 2 m.kr. tímabundna fjárveitingu til safnsins til kaupa á sérfræðiþjónustu af Fornleifastofnun Íslands. Samningur er milli safnsins og Fornleifastofnunar um úrvinnslu rannsóknar á Stóru-Borg og ber safninu að leggja fram 2 m.kr. árið 2001. Loks er í fimmta lagi gerð tillaga um tímabundna 1,5 m.kr. fjárveitingu til að ljúka fornleifarannsóknum í Hólmi í Austur-Skaftafellssýslu en þar er talið að hafi verið blótstaður bænda.
         1.10 Byggða- og minjasöfn. Lagt er til að framlög til byggða- og minjasafna hækki alls um 31,3 m.kr. Í fyrsta lagi er þar um 15,6 m.kr. hækkun til safnanna að ræða en engin raunhækkun á fjárveitingum er á milli ára í frumvarpinu. Haft verði að leiðarljósi að fjárveiting nýtist vel í öllum landsfjórðungum. Þá er í öðru lagi gerð tillaga um 10 m.kr. tímabundna fjárveitingu til uppbyggingar Vatneyrarbúðar á Patreksfirði. Vatneyrarhúsið á Patreksfirði var starfsstöð athafnamannsins Ólafs Jóhannssonar, Ó. Jóhannsson, en hann var einn af mestu athafnamönnum landsins á fyrri hluta 20. aldar. Í Vatneyrarbúðinni eru minjar um merka sögu, en miðað er við endurgerð eins og var þegar stöðin stóð í mestum blóma. Í þriðja lagi er gerð tillaga um 3,7 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að hefja rannsóknir á hinum forna verslunarstað á Gásum í Eyjafirði. Gerð og framkvæmd rannsóknaáætlunar munu fara fram undir faglegri yfirstjórn Þjóðminjasafns Íslands sem einnig mun annast forvörslu forngripa. Minjasafninu á Akureyri eða jafngildum aðila verður falin varðveisla gripanna í þeim tilgangi að þeir nýtist í varanlega sýningu um verslun á miðöldum. Loks er gerð tillaga um að veita Byggðasafni Snæfellinga 2 m.kr. tímabundið framlag til endurbyggingar og viðgerða á gömlum breiðfirskum bátum.
         6.41 Samgöngusafn Íslands í Skógum undir Eyjafjöllum. Þetta er nýtt viðfangsefni. Hér er gerð tillaga um að veitt verði 12 m.kr. tímabundið framlag til að koma á fót Samgöngusafni Íslands í Skógum undir Eyjafjöllum. Tilgangur með stofnun þess er að safna til varðveislu tækjum og minjum sem sýna þróun í samgöngum landsmanna frá upphafi aldarinnar.
         6.42 Endurbygging Kútters Sigurfara. Lögð er til 6 m.kr. tímabundin fjárveiting á þessu viðfangsefni sem er nýtt. Kútter Sigurfari er eini kútterinn úr þilskipastóli 19. aldar sem varðveittur er á Íslandi, smíðaður 1885 í Bretlandi og keyptur til Íslands 1897.
903     Þjóðskjalasafn Íslands.
        1.11 Héraðsskjalasöfn.
Gerð er tillaga um 2,1 m.kr. hækkun á þessum safnlið héraðsskjalasafna.
919     Söfn, ýmis framlög. Breytingar sem lagðar er til á þessum lið nema 111,5 m.kr. til hækkunar. Ný viðfangsefni á liðnum eru 1.41 og 6.25–6.37.
         1.11 Nýlistasafn. Lagt er til að fjárveitingar til Nýlistasafnsins hækki um 1 m.kr. Til að bæta rekstur safnsins hefur sú breyting orðið á starfsemi þess að sýningastjórn er í höndum stjórnar safnsins og salir ekki leigðir út en áður var valið úr umsóknum og sýningarsalir leigðir. Stefnt er að því að ráða starfsmann á skrifstofu safnsins til viðbótar við framkvæmdastjóra. Aðkallandi úrbóta er þörf á húsnæði vegna brunavarna.
         1.41 Galdrasýning á Ströndum. Lögð er til 15 m.kr. tímabundin fjárveiting til Galdrasýningar á Ströndum. Fyrsti áfangi hennar hefur verið opnaður á Hólmavík í gömlu pakkhúsi sem var innréttað og lagfært. Áætlað er að byggja frekar upp Galdrasýningu á Ströndum í Hrútafirði, Bjarnarfirði og Árnesi.
         1.90 Söfn. Gerð er tillaga um að safnliðurinn hækki um 12 m.kr. og er sundurliðun fjárveitinga sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hlutans.
         6.22 Sögusetrið á Hvolsvelli. Gerð er tillaga um að veita Sögusetrinu á Hvolsvelli 7 m.kr. tímabundna fjárveitingu næsta ár til stuðnings við framkvæmdir eins og endurbætur á aðstöðu og endurnýjun á gripum sem gestum er boðið að skoða á sýningunni „Á Njáluslóð“. Þá þarf að koma upp nauðsynlegum öryggisbúnaði til að hægt sé að hafa til sýnis upprunalega muni, svo sem Njáluhandrit og muni sem fundist hafa á Njáluslóðum.
         6.23 Hvalamiðstöð á Húsavík. Gerð er tillaga um að veita Hvalamiðstöðinni á Húsavík 6 m.kr. tímabundna fjárveitingu til áframhaldandi endurbóta og uppbyggingar á húsnæði miðstöðvarinnar en gengið hefur verið frá kaupum á húsnæði Kaupfélags Þingeyinga, gamla sláturhúsinu, undir framtíðarstarfsemi.
         6.25 Geysisstofa í Haukadal. Gerð er tillaga um að veita Geysisstofu 7 m.kr. fjárveitingu til þriggja ára vegna stofnkostnaðar. Geysisstofa var formlega opnuð í júlí sl. Þar er að finna fjölþættan fróðleik um jarðfræði Íslands. Heildarkostnaður varð um 80 m.kr.
         6.26 Endurbygging vélbátsins Blátinds, Vestmannaeyjum. Gerð er tillaga um 6 m.kr. tímabundna fjárveitingu til endurbyggingar vélbátsins Blátinds. Blátindur VE er einn af 76 þilfarsvélbátum sem byggðir voru í Vestmannaeyjum á 20. öld, 45 lesta eikarbátur, en við endurbyggingu Skansins í Vestmannaeyjum og Stafkirkjusvæðisins hefur verið gert ráð fyrir Blátindi. Báturinn var smíðaður 1947 en hann er síðasti báturinn sem eftir er úr fyrrgreindum flota, heimasmíðuðum í Eyjum.
         6.27 Endurbygging á Herjólfsbæ, Vestmannaeyjum. Lagt er til að Herjólfsbæjarfélaginu verði veitt 10 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar Herjólfsbæjar. Miðað er við að endurbyggð verði þrjú samtengd hús, íbúðarhús, verkstæði og fjós. Unnið hefur verið að undirbúningi á þessu þekkta bæjarstæði landnámsmannsins Herjólfs, en hugsanlega er þarna um að ræða elsta þekkta bæjarstæði á Íslandi. Aflað hefur verið fjár til undirbúnings varðandi teikningar og grunnvinnu en áætlaður kostnaður við uppbygginguna er 44 m.kr.
         6.28 Sögusafnið í Reykjavík. Lagt er til 18 m.kr. tímabundið framlag til Sögusafnsins í Reykjavík. Með uppbyggingu safnsins sem fengið hefur inni í einum af vatnstönkunum í Öskjuhlíð er markmiðið að bregða upp myndum af mikilvægum atburðum og persónum Íslandssögunnar í eins konar vaxmyndasafnastíl, en safnið er hugsað sem innlegg í sögunám grunnskólanema og jafnt fyrir innlenda ferðamenn sem erlenda.
         6.30 Bátasafn á Suðurnesjum. Gerð er tillaga um 8,5 m.kr. tímabundna fjárveitingu til bátasafns sem sett verður upp á Suðurnesjum. Þar verður safn Gríms Karlssonar skipstjóra í Njarðvíkum sem hefur smíðað einstakt safn líkana af skipum. Þau sýna þróun skipa síðustu 100 ár frá upphafi vélbátaútgerðar á Íslandi.
         6.31 Sjóminja- og smiðjumunasafn. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundna fjárveitingu vegna flutnings Sjóminja- og smiðjumunasafns Jósafats Hinrikssonar frá Reykjavík til Neskaupstaðar. Athafnamaðurinn Jósafat Hinriksson safnaði í áratugi ýmsum merkum hlutum á vettvangi sjávarútvegs og smiðja sem tengjast veiðum og vinnslu. Afkomendur Jósafats buðu Fjarðabyggð safnið að gjöf, en frá árinu 1988 var safnið í verksmiðjuhúsi Jósafats við Súðavog í Reykjavík. Fjárveitingin er ætluð til að koma upp aðstöðu yfir safnið í Neskaupstað.
         6.32 Sjóminjasafn Íslands. Lögð er til 2,5 m.kr. tímabundin fjárveiting til safnsins til að gera upp uppskipunar- og flutningabát frá 1900, Friðþjóf, en hann var síðast notaður fyrir hálfri öld. Ráðgert er að flytja bátinn frá Miðhúsum í Reykhólasveit til Bolungarvíkur og gera hann upp þar.
         6.33 Jöklasafn. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Jöklasafns á Hornafirði sem tengist náttúru Austur-Skaftafellsýslu og jöklabúskap þar.
         6.34 Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Lagt er til að safnið, sem byggist á íslenskri alþýðulist, fái 3 m.kr. tímabundna fjárveitingu.
         6.35 Endurbygging Tryggvaskála á Selfossi. Lögð er til 4 m.kr. tímabundin fjárveiting til uppbyggingar Tryggvaskála á Selfossi sem hefur staðið yfir í nokkur ár.
         6.36 Síldarminjasafnið á Siglufirði. Gerð er tillaga um að veita Síldarminjasafninu 6 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja starfsemi þess.
         6.37 Faktorshúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði. Lagt er til að veitt verði 6 m.kr. tímabundið framlag til endurbóta á húsinu sem er frá 18. öld.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        6.21 Endurbótasjóður menningarstofnana.
Gerð er tillaga um 20 m.kr. hækkun á framlögum til Endurbótasjóðs menningarstofnana og er sundurliðun fjárveitinga sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans. Þar sem liðurinn er fjármagnaður með mörkuðum tekjum af sérstökum eignarskatti verður gerð breytingartillaga við 6. gr. frumvarpsins við 3. umræðu um það.
         6.92 Kaupvangur á Vopnafirði. Gerð er tillaga um 14 m.kr. tímabundið framlag til að ljúka endanlegri hönnun á innviðum Kaupvangs á Vopnafirði og gera endanlega kostnaðaráætlun auk þess að hefjast handa við lagfæringu 1. hæðar hússins. Húsið hefur verulegt gildi fyrir sögu bæjarins og bæjarmyndina í heild en það var sem kunnugt er byggt af sama byggingarmeistara og byggði Alþingishúsið.
         6.93 Duushúsin í Reykjanesbæ. Lagt er til að Reykjanesbæ verði veittur 10 m.kr. tímabundinn styrkur til endurbóta á Duushúsunum í Keflavík með það fyrir augum að menningarmiðstöð bæjarins verði þar til húsa í framtíðinni, til eflingar menningu og ferðaþjónustu. Um er að ræða tvö gömul hús, Gömlu búð og Bryggjuhúsið, sem eru frá síðari hluta 19. aldar. Húsafriðunarnefnd ríkisins styrkti húsin um 500.000 kr. árið 2000. Þær aðgerðir sem nú þegar hafa verið unnar við húsin hafa aðallega beinst að því að koma í veg fyrir frekari skemmdir.
979     Húsafriðunarsjóður.
        6.10 Húsafriðunarsjóður.
Lögð er til 26,5 m.kr. hækkun á liðnum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að framlög til Húsafriðunarsjóðs hækki um 15 m.kr. vegna mikilla verkefna. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir að 5 m.kr. tímabundin fjárveiting fari til viðgerðar og endurbyggingar á svonefndu Syðstabæjarhúsi í Hrísey en það er elsta hús eyjarinnar, reist af Hákarla-Jörundi. Í þriðja lagi er um að ræða 3 m.kr. tímabundið framlag vegna endurbóta á Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Í fjórða lagi er lagt til að Grýtubakkahreppi verði veittur 2 m.kr. tímabundinn styrkur til að endurbæta beituskúr á Grenivík sem er minjar um gamla atvinnuhætti. Skúrinn er í eigu sveitarfélagsins og er Minjasafnið á Akureyri tilbúið að taka að sér rekstur hússins að viðgerðum loknum. Viðgerðir eru hafnar og hefur verið framkvæmt fyrir um 1 m.kr. Styrkur hefur tvisvar fengist frá Húsafriðunarsjóði. Loks er gert ráð fyrir 1,5 m.kr. tímabundnu framlagi til að endurhlaða Hraunsrétt í Aðaldal sem var upprunalega byggð á árunum 1836–38. Hún er með stærstu réttum á landinu og þykir mjög sérstök en efnið í henni er hraungrjót. Á síðastliðnu sumri var hafist handa um uppbyggingu réttarinnar. Minjavörður Þjóðminjasafns Íslands hefur samið álitsgerð um réttina.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.13 Bókaútgáfa Leifs Eiríkssonar.
Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundna fjárveitingu til bókaútgáfunnar til að vinna að útgáfu Íslendingasagnanna á ensku í ritröðinni Penguin Classics. Samræmd heildarþýðing á Íslendingasögunum á ensku kom út árið 1997. Nú hefur verið samið við útgáfufyrirtækið Penguin um útgáfu á stökum sögum til að koma til móts við margvíslegar þarfir markaðarins og var Íslendingum falið að annast allan undirbúning og vinnu við ritstjórn bókanna. Tíu bækur verða gefnar út og hyggst Penguin stórauka útbreiðslu sagnanna og bjóða þær fram í stærra upplagi og í fleiri bókabúðum en áður.
         1.23 Hið íslenska bókmenntafélag. Lögð er til 3 m.kr. tímabundin hækkun á fjárveitingum Hins íslenska bókmenntafélags. Verður fjármununum einkum varið til fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi er gerð staðanafnaskrár, atriðisorðaskrár og ritaskrár yfir Annála 1400–1800, í öðru lagi Laufás I – Staðurinn, í þriðja lagi er um að ræða kaup á lager bókanna Kortasaga Íslands I–II og loks er það vinnsla lærdómsrita Bókmenntafélagsins og ritröðin Íslenzk heimspeki.
985     Alþjóðleg samskipti.
        1.90 Alþjóðleg samskipti.
Gerð er tillaga um 17,1 m.kr. fjárveitingu vegna fyrirhugaðs framboðs Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO. Í kostnaðaráætlun er gert ráð fyrir ferðalögum frambjóðanda, 10 mánaða launum viðbótarstarfsmanns í sendiráði Íslands í París á árinu 2001 til að sinna framboðinu, leigu og rekstri á húsnæði í skrifstofubyggingu UNESCO, risnu og launum starfsmanns í hálfu starfi á Íslandi á framboðstímanum.
         1.91 Aðildargjöld ESB. Lögð er til 15,5 m.kr. hækkun framlags til að greiða aðildargjöld vegna samstarfs við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við endurskoðaða kostnaðaráætlun.
         1.95 Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna. Farið er fram á 3 m.kr. hækkun framlags til Menntastofnunar Íslands og Bandaríkjanna til að mæta óhagstæðri gengisþróun. Framlag til stofnunarinnar er áætlað 11,5 m.kr. í fjárlagafrumvarpinu.
988     Æskulýðsmál.
         1.12 Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun framlaga til félagsins. Það hefur staðið fyrir tveimur stórum viðburðum í ár, samnorrænu verkefni, Kultur og ungdom, og unglingalandsmóti. Næsta ár verður 23. landsmót UMFÍ haldið á Austur-Héraði.
         1.13 Bandalag íslenskra skáta. Lagt er til að rekstrarstyrkur Bandalags íslenskra skáta hækki um 3,5 m.kr. svo að hann fylgi almennum verðhækkunum og komi einnig til móts við stóraukin umsvif landshreyfingarinnar. Meðal verkefna sem lögð er áhersla á hjá bandalaginu eru fræðslumál, útgáfumál og aðstoð við skátafélög um allt land. Þá er skátahreyfingin stærsti formlegi félagsskapur barna og unglinga í heiminum. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi er bandalaginu dýr en samstarf við útlönd er forsenda fyrir tilvist og þróun starfseminnar.
         1.14 Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Lagt er til að Bandalag íslenskra skáta fái 0,5 m.kr. tímabundinn styrk til reksturs útilífsmiðstöðvar skáta og Skátaskólans á Úlfljótsvatni. Þar hefur mikil uppbygging farið fram síðustu tvö ár og er enn unnið að uppbyggingu en hluti húsakosts er kominn til ára sinna.
         1.17 Landssamband KFUM og KFUK. Lagt er til að fjárveiting til Landssambands KFUM og KFUK hækki um 4 m.kr. og verði 11 m.kr. Heildarkostnaður við starfið er um 100 m.kr. og launagreiðslur jafngilda 30 stöðugildum en mikil sjálfboðavinna er unnin í félaginu. Reknar eru fimm sumarbúðir og fer unglingastarf fram vítt og breitt um landið og hefur aukist síðustu ár. Þá fer leiðtogafræðsla fram á vegum KFUM og KFUK.
989     Ýmis íþróttamál.
        1.10 Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
Gerð er tillaga um 16 m.kr. hækkun framlags til sambandsins. Annars vegar er um að ræða 8 m.kr. tímabundið framlag vegna kostnaðar við sumar- og vetrarólympíudaga Evrópuæskunnar sem haldnir verða næsta ár og hins vegar er 8 m.kr. framlag til að styrkja stöðu sérsambanda ÍSÍ.
         1.12 Ólympíunefnd fatlaðra. Lögð er til tímabundin 1,5 m.kr. hækkun fjárveitinga til Ólympíunefndar fatlaðra.
         6.52 Skíðasvæðið í Tungudal við Skutulsfjörð. Á þessu nýja viðfangsefni er gerð tillaga um 10 m.kr. tímabundna fjárveitingu til uppbyggingar á skíðasvæðinu í Tungudal við Skutulsfjörð. Eftir að snjóflóð féllu í Seljalandsdal 1994 var hafist handa við skíðalyftu í Tungudal og endurbyggingu í Seljalandsdal, en eftir snjóflóð 1998 þegar skíðalyftan í Seljalandsdal eyðilagðist aftur var ákveðið að öll uppbygging yrði í Tungudal. Sú uppbygging er styrkt eftir fyrri hrakfarir.
999     Ýmislegt.
        1.90 Ýmis framlög.
Lagt er til að safnliðurinn hækki um 12 m.kr. og er skipting liðarins sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.

03 Utanríkisráðuneyti

201     Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
        1.30 Fíkniefnaeftirlit.
Lagt er til að veitt verði 6 m.kr. framlag til að efla fíkniefnaeftirlit á Keflavíkurflugvelli með fjölgun leitarhunda. Framlagið er ætlað til kaupa á hundaflutningabifreið og til þjálfunar og gæslu leitarhunda.
401     Alþjóðastofnanir.
        1.85 Friðargæsla.
Sótt er um 17 m.kr. fjárveitingu til að fjölga íslenskum starfsmönnum í alþjóðlegu friðargæslu- og uppbyggingarstarfi um fimm á árinu 2001.

04 Landbúnaðarráðuneyti

101
     Landbúnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn.
Lagt er til að 2 m.kr. framlag vegna aksturskostnaðar falli niður.
190     Ýmis verkefni.
        1.90 Ýmis verkefni.
Gerð er tillaga um að safnliðurinn hækki um 7 m.kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
211     Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
        1.01 Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að hluti af tekjum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins af rannsóknastofum yrði innheimtur af Iðntæknistofnun. Þar sem ekki hefur verið gengið endanlega frá málinu er tillagan dregin til baka og verður málið endurskoðað í ljósi niðurstöðunnar á næsta ári.
221     Veiðimálastofnun.
        1.01 Veiðimálastofnun.
Lögð er til 4 m.kr. fjárveiting til að sinna áfram tilraunastarfi, þekkingaröflun og ráðgjöf í ræktun kræklings en gert er ráð fyrir að verkefnið standi yfir a.m.k. næstu þrjú ár. Kynningar hafa farið fram á verkefninu og nú hefur á annan tug aðila hafið tilraunarækt á kræklingi víðs vegar um landið.
261     Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði.
        1.01 Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði.
Lögð er til 2 m.kr. hækkun á framlagi til reksturs háskóladeilda skólans.
283     Garðyrkjuskóli ríkisins.
        1.01 Garðyrkjuskóli ríkisins.
Gerð er tillaga um 3,3 m.kr. fjárveitingu í þrjú ár til uppbyggingar á sérhæfðri rannsóknaraðstöðu til rannsókna á særoki og saltskemmdum á trjágróðri og vegna doktorsverkefna á sviði plöntulífeðlisfræði og plöntunæringarfræði. Aðstöðunni mun verða komið upp við Garðyrkjuskólann og er gert ráð fyrir að hún nýtist vísindamönnum og til kennslu í skólanum.
         6.21 Fasteignir. Lögð er til 15 m.kr. lokagreiðsla til byggingar garðyrkjumiðstöðvar við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Í miðstöðinni verður í sama húsnæði leiðbeiningarþjónusta, tilraunastjórn, kennarar, Samband garðyrkjubænda, endurmenntunarstjóri, móttaka og skólameistari. Um 125 m² hafa þegar verið teknir í notkun með breytingum á núverandi húsnæði skólans en til stendur að hefja byggingu 425 m² viðbyggingar við hann. Verklok eru áætluð í maí 2002.
311     Landgræðsla ríkisins.
        
1.01 Landgræðsla ríkisins. Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. framlag til verkefnisins Bændur græða landið, en verkefnið er liður í átaki stofnunarinnar við bindingu kolefnis.
343     Landshlutabundin skógrækt. Gerðar eru tillögur um 70,6 m.kr. hækkun á framlögum til liðarins og eitt nýtt viðfangsefni sem er Austurlandsskógar.
        1.10 Suðurlandsskógar. Lagt er til að framlög til Suðurlandsskóga hækki um 19,6 m.kr. svo að þau verði í samræmi við áætlanir og fyrri samþykktir og hægt verði að standa við samninga sem gerðir hafa verið við trjáplöntuframleiðendur.
        1.13 Vesturlandsskógar. Lögð er til 13 m.kr. hækkun á framlagi til Vesturlandsskóga sem verða þá 34 m.kr. Fjárþörfin miðast við þann fjölda plantna sem samið hefur verið um framleiðslu á og að gerðar verði nýjar ræktunaráætlanir til 10–20 ára fyrir 30 jarðir og skjólbeltaáætlanir fyrir allt að 50 jarðir.
        1.15 Skjólskógar, Vestfjörðum. Lagt er til að framlag til Skjólskóga á Vestfjörðum hækki um 9 m.kr. og verði alls 30 m.kr. Stígandi verkefnisins verður hraðari en gert var ráð fyrir þar sem undirbúningsvinnan í ár nægir til að taka nýliða hraðar í verkefnið og flýta þannig áætlun um eitt ár.
         1.16 Norðurlandsskógar. Lögð er til 19 m.kr. hækkun á framlagi til Norðurlandsskóga sem verður þannig 50 m.kr. eins og gert er ráð fyrir í 40 ára framkvæmdaáætlun.
        1.17 Austurlandsskógar. Gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu sem varið verði til að kanna áhuga á skógrækt á svæðum á Austurlandi utan Héraðsskóga og til að hefja samninga við skógræktarbændur á því svæði.
801     Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu.
        1.02 Lífeyrissjóður bænda.
Lagt er til að greiðslur í Lífeyrissjóð bænda lækki um 8 m.kr. Ástæða lækkunarinnar er að 6% af beingreiðslum fara til beingreiðsluhafa sem eru eldri en 70 ára, en skv. 5. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, skal ekki greiða iðgjöld í sjóðinn lengur en til 70 ára aldurs.
805     Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu.
        1.02 Lífeyrissjóður bænda.
Lagt er til að greiðslur í Lífeyrissjóð bænda lækki um 7,7 m.kr. Ástæða lækkunarinnar er að 10,4% af beingreiðslum fara til beingreiðsluhafa sem eru eldri en 70 ára, en skv. 5. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, skal ekki greiða iðgjöld í sjóðinn lengur en til 70 ára aldurs.
811     Bændasamtök Íslands. Lögð er til 26,7 m.kr. hækkun á þessum lið vegna samningsbundinnar endurskoðunar á samningi við Bændasamtök Íslands frá 5. mars 1999. Hækkunin verður á eftirfarandi þremur viðfangsefnum:
        1.01 Leiðbeiningastarfsemi, landsþjónusta.
Gerð er tillaga um 12,2 m.kr. hækkun. Þar af eru 5,7 m.kr. vegna vanáætlaðrar greiðslu í lífeyrissjóð og 6,5 m.kr. vegna verðlagsbóta á laun fyrir árin 2000 og 2001.
         1.92 Leiðbeiningastarfsemi, héraðsþjónusta. Gerð er tillaga um 8,1 m.kr. hækkun. Þar af eru 3,8 m.kr. vegna vanáætlaðrar greiðslu í lífeyrissjóð og 4,3 m.kr. vegna verðlagsbóta á laun fyrir árin 2000 og 2001.
         6.95 Búfjárrækt. Gerð er tillaga um 6,4 m.kr. hækkun. Þar af eru 3 m.kr. vegna vanáætlaðrar greiðslu í lífeyrissjóð og 3,4 m.kr. vegna verðlagsbóta á laun fyrir árin 2000 og 2001.
841     Fiskeldisrannsóknir.
        1.01 Fiskeldisrannsóknir.
Lagt er til að framlag til Stofnfisks hf. hækki um 1,1 m.kr. Hækkunin er í samræmi við verðlagsákvæði samnings við fyrirtækið.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.21 Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla.
Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun á þessum lið til sjóvinnukennslu unglinga á vegum Haftinds ehf. Fjárveitingin er háð því að gerður verði þjónustusamningur um verkefnið.
         1.33 Kynning erlendis á nýtingu á auðlindum hafsins. Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. tímabundið framlag til kynningar á málstað og sjónarmiðum Íslendinga varðandi hvalveiðar. Í frumvarpi til fjárlaga 2001 er gert ráð fyrir 15 m.kr. tímabundinni fjárveitingu til sama verkefnis. Gert er ráð fyrir að kynning á málstað og sjónarmiðum Íslendinga verði látin ná til fleiri ríkja, svo sem Bretlands og Þýskalands.
         1.90 Ýmislegt. Lögð er til 38 m.kr. hækkun á liðnum og er hún af þrennum toga. Í fyrsta lagi er lagt til að veitt verði tímabundið framlag að fjárhæð 27 m.kr. til að standa undir kostnaði af ráðstefnu sem haldin verður hér á landi haustið 2001 í samvinnu við Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Yfirskrift ráðstefnunnar er Responsible Fisheries in the Marine Ecosystem. Í heild er búist við 500–650 þátttakendum. Fjármögnun ráðstefnunnar er tvíþætt. Annars vegar er fjármögnun kostnaðar sem verður til hjá FAO. Áætlað er að sá kostnaður verði um 550 þús. Bandaríkjadalir. Ísland, Noregur og FAO munu skipta þessum kostnaði á milli sín og hefur verið áætlað fyrir honum í fjárlagafrumvarpi 2001 hjá utanríkisráðuneytinu á viðfangsefninu 03-190-1.19 Ráðstefnur, samtals 21,6 m.kr. Hins vegar er gert ráð fyrir að innlendur kostnaður verði um 27 m.kr. Heildarkostnaður vegna ráðstefnunnar er því áætlaður 48,6 m.kr.
                  Í öðru lagi er gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að ljúka hagkvæmniathugun á kalkþörungavinnslu í Arnarfirði og í Húnaþingi og til efnagreininga og vinnu að umhverfisrannsóknum. Fjárlaganefnd veitti í fyrra 4 m.kr. tímabundið framlag til könnunar á hagkvæmni kalkþörungavinnslu í Arnarfirði annars vegar og í Húnaflóa hins vegar, 2 m.kr. á hvorn stað. Það varð að samkomulagi milli Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. og sveitarstjórnar Húnaþings vestra að Atvinnuþróunarfélagið fengi alla fjárhæðina gegn því að Húnaþing vestra fengi aðgang að rannsóknarniðurstöðum. Tekist hefur að ljúka endurvarpsmælingum, borunum og sýnatökum og gagnaöflun vegna hagkvæmniathugunar að mestu en ljúka þarf verkinu. Vitað er um áhuga erlendra aðila á þátttöku í uppbyggingu verksmiðju í Arnarfirði ef niðurstöður nákvæmra efnagreininga og hagkvæmniathugunar verða jákvæðar.
                  Í þriðja lagi er gerð tillaga um 1 m.kr. tímabundna fjárveitingu til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða til að safna gögnum og hefja mælingar við innanvert Ísafjarðardjúp með tilliti til nýtingar auðlinda svæðisins.
202     Hafrannsóknastofnunin.
        
1.30 Rannsóknaskip. Hér er lögð til 13,5 m.kr. hækkun sem skýrist af tvennu. Annars vegar er gerð tillaga um 8 m.kr. viðbótarframlag vegna hækkana á olíuverði á heimsmarkaði sem leitt hafa til aukins kostnaðar við útgerð rannsóknaskipa stofnunarinnar. Þá er gerð er tillaga um að veita 5,5 m.kr. tímabundið framlag til hafrannsóknaskipsins Drafnar sem nýtt er sem skólaskip 60 daga á ári. Flestum börnum í 9. og 10. bekk grunnskóla gefst kostur á að fara í kynnisferð með skipinu og um borð er fararstjóri frá Hafrannsóknastofnuninni sem hefur umsjón með fræðslu. Kostnaður við rekstur skipsins er um 11 m.kr. á ári.
204     Fiskistofa.
        1.01 Fiskistofa.
Lögð er til 25 m.kr. fjárveiting til að fjölga veiðieftirlitsmönnum um borð í fiskiskipum um fimm til viðbótar við þá fimm sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu. Áætlað er að hækka veiðieftirlitsgjald sem stendur undir rekstri veiðieftirlitsins um sömu fjárhæð.
901     Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna.
        1.30 Keldnaholt.
Gerð er tillaga um 3,7 m.kr. fjárveitingu vegna hækkana á gjöldum umfram forsendur fjárlaga vegna reksturs á húseignum í Keldnaholti. Um er að ræða kostnað vegna rafmagns, hita og ræstinga, svo og fasteignagjalda og opinberra gjalda.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

232     Opinber réttaraðstoð.
        1.10 Opinber réttaraðstoð.
Lögð er til 25 m.kr. hækkun framlags til að standa straum af opinberri réttaraðstoð en á það viðfangsefni er færður kostnaður vegna gjafsókna. Hann hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og var halli á liðnum í lok síðasta árs rúmar 24 m.kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir 64 m.kr. framlagi vegna halla þessa og síðasta árs.
301     Ríkissaksóknari.
        1.05 Ríkissaksóknari.
Lagt er til að framlag til embættis ríkissaksóknara verði hækkað um 0,7 m.kr. vegna endurskoðunar á húsaleigusamningi sem rennur út um næstu áramót. Viðræður hafa staðið yfir milli fjármálaráðuneytisins og leigusala og hafa nú náðst samningar sem leiða til aukinna útgjalda sem nema tæplega 0,7 m.kr.
303     Ríkislögreglustjóri.
        1.11 Rekstur lögreglubifreiða.
Lagt er til að áætlaðar sértekjur bílabanka ríkislögreglustjóra verði hækkaðar um 2,4 m.kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er framlag til kaupa á tveimur bifreiðum sem aðallega verða ætlaðar til tollgæslu hjá sýslumannsembættunum á Akureyri og í Keflavík. Talið er að fastagjaldið fyrir leigu á bifreiðunum muni nema um 0,6 m.kr. og miðað við reynslutölur af akstri verði kílómetragjaldið um 1,8 m.kr. Gerð er tillaga um að framlag til embættanna hækki um 2,4 m.kr. og verður því ekki nettóútgjaldaauki af þessu fyrirkomulagi.
311     Lögreglustjórinn í Reykjavík.
        1.01 Lögreglustjórinn í Reykjavík.
Lagt er til að sértekjur lögreglunnar í Reykjavík lækki um 3 m.kr. Tekjur embættisins hafa að hluta verið færðar sem sértekjur en eru í reynd skatttekjur og eiga að renna í ríkissjóð en ekki til rekstrar embættisins.
341     Áfengis- og fíkniefnamál.
        1.25 Átak í löggæslu vegna fíkniefnamála.
Tvær tillögur eru til hækkunar á þessu viðfangsefni og nema þær 25 m.kr. Í fyrri tillögunni er lagt til að veitt verði 20 m.kr. fjárheimild til þess að mæta sérstökum kostnaði við rannsóknir meiri háttar fíkniefnamála. Reynsla síðustu ára sýnir að oft hefur komið til óvæntra útgjalda vegna rannsókna stærstu mála. Er þar oft um að ræða beinan útlagðan kostnað vegna aðkeyptrar tæknivinnu en einnig sérstaka álagstíma í vinnu lögreglunnar að rannsókn fíkniefnamála, svo sem þegar fjöldi manna liggur undir grun en það getur kallað á stöðugt eftirlit og símahleranir. Einnig er mikilvægt að rannsókn gangi hratt fyrir sig þegar fjöldi manna sem grunaðir eru um aðild að máli hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lagt er til að fjárheimildin verði á safnlið löggæslu og að henni verði úthlutað árlega af dómsmálaráðuneytinu.
                  Í síðari tillögunni er lagt til að 5 m.kr. verði varið til þess að koma rekstri sporhunda og fíkniefnaleitarhunda á varanlegan grundvöll. Nauðsynlegt þykir að koma á föstum framlögum til þjálfunar sporhunda, annaðhvort á vegum lögregluembætta eða með samningum við björgunarsveitir. Notkun lögreglu á sporhundum hefur sannað gildi sitt, en björgunarsveitir sem annast þjálfun og rekstur hundanna hafa fengið takmarkaða styrki frá ríkinu til þess. Notkun fíkniefnaleitarhunda eykst einnig stöðugt samhliða öflugri fíkniefnalöggæslu. Er mikilvægt að viðhalda þjálfun fíkniefnahunda um allt land á næsta ári en tímabundið framlag var veitt til hennar á þessu ári á lið ríkislögreglustjóra. Lögreglu- og tollyfirvöld annast rekstur fíkniefnaleitarhunda en samkomulag er á milli ríkislögreglustjóra og ríkistollstjóra um samnýtingu fíkniefnahunda.
390     Ýmis löggæslumál.
        1.10 Ýmis löggæslukostnaður.
Gerð er tillaga um 25 m.kr. fjárveitingu sem varið verði til að efla löggæslu með því að fjölga lögreglumönnum, einkum á sviði fíkniefnalöggæslu. Að undanförnu hefur fjölgað verulega stórum og tímafrekum rannsóknum í fíkniefnamálum og er fyrirhugað að bæta við mannafla í fíkniefnalöggæslu til þess að anna miklu og viðvarandi álagi. Fjárhæðin samsvarar launum sex lögreglumanna ásamt tengdum kostnaði. Við það er miðað að fyrir áramót liggi fyrir nánari tillögur um ráðstöfun á fjárhæðinni.
411     Sýslumaðurinn í Reykjavík.
        1.10 Yfirstjórn.
Lagt er til að sértekjur sýslumannsembættisins í Reykjavík verði lækkaðar um 6,9 m.kr. Tekjur embættisins hafa að hluta verið færðar sem sértekjur en þær eru í reynd skatttekjur og eiga að renna í ríkissjóð en ekki til rekstrar embættisins.
414     Sýslumaðurinn í Stykkishólmi.
        1.01 Yfirstjórn.
Lagt er til að framlag til sýslumannsembættisins í Stykkishólmi verði aukið um 0,6 m.kr. vegna aukins kostnaðar við nýtt húsnæði, ræstingar, rafmagn, hita, snjómokstur o.fl. Heildarkostnaðarauki er áætlaður 1,1 m.kr. og voru millifærðar 0,5 m.kr. af safnlið sýslumannsembætta til embættisins við undirbúning fjárlagafrumvarpsins.
424     Sýslumaðurinn á Akureyri.
        1.40 Tollgæsla.
Lagt er til að sértekjur sýslumannsembættisins á Akureyri lækki um 0,4 m.kr. Tekjur embættisins hafa að hluta verið færðar sem sértekjur en þær eru í reynd skatttekjur og eiga að renna í ríkissjóð en ekki til rekstrar embættisins. Lagt er til að veitt verði 1,2 m.kr. framlag til sýslumannsembættisins á Akureyri vegna aukinna leigugjalda til bílabanka ríkislögreglustjóra. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er framlag til kaupa á tveimur bifreiðum sem aðallega verða ætlaðar til tollgæslu hjá sýslumannsembættunum á Akureyri og í Keflavík. Talið er að fastagjaldið fyrir leigu hvorrar bifreiðar muni nema um 0,3 m.kr. og miðað við reynslutölur af akstri verði kílómetragjaldið um 0,9 m.kr. Við það er miðað að tekjur embættis ríkislögreglustjóra aukist að sama skapi þannig að ekki verður nettóútgjaldaauki af þessu fyrirkomulagi.
429     Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði.
        1.20 Löggæsla.
Gerð er tillaga um að sértekjur lækki um 0,2 m.kr. og gjöld hækki um 0,2 m.kr. Með breytingum á lögum nr. 87/2000 var Höfn í Hornafirði gerð að aðaltollhöfn. Við þá breytingu féll niður heimild til að innheimta gjald fyrir tollþjónustu. Tekjur af þessu gjaldi hafa verið um 0,4 m.kr. á ári.
434     Sýslumaðurinn í Keflavík.
        1.40 Tollgæsla.
Lagt er til að veitt verði 1,2 m.kr. fjárframlag til sýslumannsembættisins í Keflavík vegna aukinna leigugjalda til bílabanka ríkislögreglustjóra. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er framlag til kaupa á tveimur bifreiðum sem aðallega verða ætlaðar til tollgæslu hjá sýslumannsembættunum á Akureyri og í Keflavík. Talið er að fastagjaldið af leigu hvorrar bifreiðar muni nema um 0,3 m.kr. og miðað við reynslutölur af akstri verði kílómetragjaldið um 0,9 m.kr. Við það er miðað að tekjur embættis ríkislögreglustjóra aukist að sama skapi þannig að ekki verður nettóútgjaldaauki af þessu fyrirkomulagi.
436     Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.
        1.01 Yfirstjórn.
Lagt er til að sértekjur yfirstjórnar sýslumannsembættisins í Hafnarfirði verði felldar niður en þær nema 1,1 m.kr. samkvæmt frumvarpinu. Tekjur embættisins hafa verið færðar sem sértekjur en þær eru í reynd skatttekjur og eiga að renna í ríkissjóð en ekki til rekstrar embættisins.
         1.01 Tollgæsla. Lagt er til að sértekjur tollgæslu sýslumannsembættisins í Hafnarfirði lækki um 0,3 m.kr. Tekjur embættisins hafa að hluta verið færðar sem sértekjur en þær eru í reynd skatttekjur og eiga að renna í ríkissjóð en ekki til rekstrar embættisins.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta.
        1.63 Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins.
Lagt er til að framlag til miðstöðvarinnar verði hækkað um 26,2 m.kr. í kjölfar endurskoðunar á samningi við Skráningarstofuna hf. um rekstur miðstöðvarinnar frá því í október. Í samningnum er kveðið á um endurmat á gildandi samningi og viðbót vegna Schengen-samningsins, Útlendingaeftirlitsins o.fl. auk bakvakta vegna Schengen-samningsins.
701     Biskup Íslands.
        6.22 Hallgrímskirkja.
Lögð er til 10 m.kr. hækkun fjárveitinga til að vinna að framkvæmdum á lóð Hallgrímskirkju. Stefnt er að því að ljúka þar framkvæmdum árið 2002 og er þörf fyrir sömu fjárhæð næsta ár til að það takist.
         6.25 Dómkirkjan í Reykjavík. Gerð er tillaga um 6 m.kr. fjárveitingu til viðgerða og endurbóta á kirkjunni. Kostnaður við endurbætur er að nálgast 200 m.kr. en kostnaðarauki er einkum vegna ófyrirséðra verka við þakvirki.
         6.26 Auðunarstofa. Gerð er tillaga um 21 m.kr. tímabundna hækkun á framlagi til að ljúka verkefnum í tengslum við móttöku gjafar Norðmanna, Auðunarstofu.
         6.27 Rannsóknarstofnun í helgisiðum í Skálholti. Gerð er tillaga um 8,5 m.kr. tímabundna fjárveitingu til þessa nýja viðfangsefnis. Unnið er að uppbyggingu rannsóknarstofnunar í helgisiðafræðum í Skálholti, en stofnuninni hafa m.a. verið afhent gögn umfangsmikillar rannsóknar Collegium Musicum.
733     Kirkjugarðsgjöld.
        1.11 Kirkjugarðar.
Lagt er til að Kirkjugarðasambandi Íslands verði veitt 3 m.kr. tímabundið framlag til styrktar verkefni sem felst í því að skrá legstaði og söguupplýsingar í eldri kirkjugörðum til framsetningar á netinu. Kirkjugarðasambandið hefur ráðist í tölvuskráningu kirkjugarða og stofnað um það sjálfstætt félag. Markmið þess er að bæta skipulag og stjórn kirkjugarða, gera upplýsingar um kirkjugarða og legstaðaskrár aðgengilegar almenningi og að safna og varðveita menningarlegar heimildir um kirkjugarða og legstaði og gera aðgengilegar á netinu. Stefnt er að því að verkefnið verði unnið á Akureyri og Blönduósi.

07 Félagsmálaráðuneyti

400     Barnaverndarstofa.
        1.20 Heimili fyrir börn og unglinga.
Lagt er til að veitt verði 26 m.kr. framlag til unglingameðferðarheimilisins Götusmiðjunnar til að efla starfsemi heimilisins. Gert er ráð fyrir að Barnaverndarstofa geri samning við heimilið þar sem nánar verði kveðið á um hvernig framlaginu verði varið.
700     Málefni fatlaðra.
        
1.50 Laun vegna forfalla, orlofs o.fl. Gerð er tillaga um tímabundna fjárheimild að fjárhæð 36,9 m.kr. vegna ofmats í frumvarpinu á lækkun útgjalda stofnana ráðuneytisins í kjölfar stofnunar fæðingarorlofssjóðsins. Tillagan miðar að því að leiðrétta framlög til stofnana sem til þessa hafa ekki greitt, eða aðeins greitt að hluta, laun í barnsburðarleyfum og til rekstrarverkefna samkvæmt þjónustusamningum.
711     Styrktarfélag vangefinna.
        1.01 Styrktarfélag vangefinna.
Lögð er til 8 m.kr. viðbótarfjárveiting til að gera þjónustusamning við Styrktarfélag vangefinna.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
Gerð er tillaga um 1.800 m.kr. hækkun á liðnum og er hún tvíþætt. Annars vegar er lagt til að veitt verði 1.100 m.kr. framlag í sjóðinn til að jafna tekjutap einstakra sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna í kjölfar breytinga á álagningarstofni mannvirkja. Framlagið er ákvarðað í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og er framlagið reiknað sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum sem innheimtir eru í ríkissjóð.
                  Hins vegar er farið fram á 700 m.kr. tímabundið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í kjölfar samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga og í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar sem skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra í október 2000. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði ráðstafað til sveitarfélaga eftir reglum sem settar verða í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
980     Vinnumálastofnun.
        
1.01 Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundna fjárheimild til kaupa á húsnæði fyrir Svæðisvinnumiðlun Austurlands á Egilsstöðum. Leigusamningur við eigendur rennur út í árslok 2000 og ekki hefur tekist að finna hentugt leiguhúsnæði þrátt fyrir ítarlega athugun.
981     Vinnumál.
        1.90 Ýmislegt.
Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundið framlag til liðarins.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.41 Framlög og styrkir.
Gerð er tillaga um 104 m.kr. tímabundið framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs í kjölfar samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins í mars 2000 um að treysta stöðu einstaklinga á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og verða hæfari til að takast á við ný verkefni. Samhliða gerðu forvígismenn atvinnurekenda og félagsmálaráðherra samkomulag um 104 m.kr. framlag úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2001, 53 m.kr. framlag árið 2002 og 43 m.kr. framlag árið 2003 eða alls 200 m.kr.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.34 Geysir, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða.
Lagt er til að framlög til Klúbbsins Geysis verði hækkuð um 1,8 m.kr. vegna aukinna umsvifa. Markmið klúbbsins er að reka vinnumiðlun fyrir geðfatlað fólk auk annarrar starfsemi í þágu þess. Klúbburinn hefur tvo starfsmenn en þörf er á þeim þriðja.
         1.43 Krossgötur, endurhæfingarheimili. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun á styrk til starfsemi Krossgatna.
         1.44 Byrgið, líknarfélag. Lögð er til 5 m.kr. tímabundin hækkun á fjárveitingum til Byrgisins til reksturs afeitrunardeildar í Hafnarfirði og áfangahúss fyrir fólk sem ekki hefur í önnur hús að venda. Áformað er að þar verði langtímameðferð sem geti varað í allt að þrjú ár.
         1.48 Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum. Þetta er nýtt viðfangsefni og hér er farið fram á 7 m.kr. fjárveitingu vegna stofnunar Nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum, sbr. tillögu til þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 9. maí 2000.
         6.41 Blindrafélagið, burstavél. Lagt er til að Blindrafélagið fái 10 m.kr. tímabundið fjárframlag til kaupa á burstagerðarvél fyrir Blindravinnustofuna sem verður 60 ára á næsta ári. Hún hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til vélarkaupanna, enda hefur verið rekstrarhalli á starfseminni síðustu ár.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

201     Tryggingastofnun ríkisins.
        1.01 Tryggingastofnun ríkisins.
Gerð er tillaga um 4 m.kr. millifærslu á almennan rekstur Tryggingastofnunar af liðnum 08-209-1.11 Sjúklingatryggingar vegna umsýslukostnaðar við sjúklingatryggingar en stofnunin mun annast umsýslu þeirra trygginga.
206     Sjúkratryggingar.
        1.15 Lyf.
Lögð er til 175 m.kr. hækkun á framlagi til lyfjamála. Endurmat á útgjöldum til lyfjamála eftir tíu mánuði bendir til þess að útgjöld vegna málaflokksins verði 4.755 m.kr. á árinu 2001 og hefur útgjaldaspáin hækkað um 175 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
         1.21 Hjálpartæki. Lagðar eru til tvær breytingar á liðnum til hækkunar um 40 m.kr. Annars vegar er gerð tillaga um 20 m.kr. framlag til Tryggingastofnunar til að gera henni kleift að hafa umsjón með öndunargrímum. Fjármunir voru á sínum tíma fluttir frá Tryggingastofnun til Landspítala til að annast öflun og umsjón með öndunarvélum en Tryggingastofnun annaðist þó eftir sem áður rekstur hluta þeirra. Í ljósi fenginnar reynslu er talið eðlilegt að umsjón með starfsemi þessari verði í höndum Tryggingastofnunar sem mun gera þjónustusamning við Landspítalann um þjónustu vegna öndunargríma fyrir sjúkratryggða einstaklinga í heimahúsum. Kostnaður vegna þessa samnings er áætlaður 40 m.kr. á ári og hafa þegar verið millifærðar 20 m.kr. af fjárheimildum Landspítala til Tryggingastofnunar.
                  Hins vegar er gerð tillaga um 20 m.kr. hækkun í ljósi endurmats á útgjöldum vegna hjálpartækja.
         1.31 Þjálfun. Lagt er til að 64,1 m.kr. framlag verði fært af sjúkratryggingum til málefna fatlaðra á viðfangsefni Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, 08-340- 1.10, til að ljúka við þjónustusamning við félagið. Til þessa hefur Tryggingastofnun ríkisins annast samningagerð við Endurhæfingarstöð félagsins sem jafnframt hefur fengið árlegan styrk frá heilbrigðisráðuneyti. Þrátt fyrir greiðslur ráðuneytisins hefur verið halli á rekstri stöðvarinnar sem hefur verið fjármagnaður af happdrættisfé félagsins. Með þjónustusamningnum er gert ráð fyrir að greiðslur til endurhæfingarstöðvarinnar verðið auknar til að styrkja rekstrarstöðu hennar.
209     Sjúklingatryggingar.
        1.11 Sjúklingatryggingar.
Gerð er tillaga um 4 m.kr. millifærslu af þessum lið á almennan rekstur Tryggingastofnunar vegna umsýslukostnaðar við sjúklingatryggingar en stofnunin mun annast umsýslu þeirra trygginga.
301     Landlæknir.
        1.01 Yfirstjórn.
Lögð er til 12 m.kr. hækkun á framlagi til landlæknisembættisins vegna klínískra leiðbeininga en hluti kostnaðar er tímabundinn. Annars vegar er um að ræða laun læknis sem hefur unnið að klínískum leiðbeiningum og hins vegar kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar. Með klínískum leiðbeiningum opnast möguleiki á að veita skilvirka læknismeðferð með hóflegum kostnaði. Við þetta starf er m.a. stuðst við vandaðar erlendar leiðbeiningar sem verður að laga að íslenskum aðstæðum en fyrirhugað er að skipa starfshópa lækna til ráðgjafar á hinum ýmsu sérsviðum. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2000 er farið fram á 7 m.kr. fjárveitingu til þessa verkefnis.
327     Geislavarnir ríkisins.
        1.01 Geislavarnir ríkisins.
Gerð er tillaga um 1,1 m.kr. framlag til að framfylgja eftirliti með allsherjarbanni við kjarnavopnum. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Samningurinn var fullgiltur 26. júní sl. Skv. 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Geislavarnir ríkisins fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Árlegur rekstrarkostnaður vegna þessa er áætlaður 1,1 m.kr.
         6.01 Tæki og búnaður. Lagt er til 2,4 m.kr. tímabundið framlag sem er áætlaður kostnaður til kaupa á stofnbúnaði til nota við eftirlit með framangreindu allsherjarbanni við tilraunum með kjarnavopn. Stofnkostnaðurinn felst í sérstökum tölvu- og hugbúnaðarkaupum.
330     Manneldisráð.
        
1.01 Manneldisráð. Lagt er til 1,8 m.kr. tímabundið framlag næstu þrjú árin til viðhalds á íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla, ÍSGEM. Hafist var handa við uppbyggingu á grunninum á áttunda áratugnum, en að mati sérfræðinga veitir grunnurinn mikilvægar upplýsingar bæði fyrir framleiðendur og neytendur um innihald matvæla. Fyrir heilbrigðisþjónustuna hefur grunnurinn einkum gildi varðandi rannsóknir á sambandi mataræðis og heilsu. Næringarmeðferð sjúklinga á sjúkrahúsum og ráðgjöf til almennings byggist einnig á gögnum frá ÍSGEM.
340     Málefni fatlaðra.
        1.10 Endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.
Gerð er tillaga um að 64,1 m.kr. framlag verði fært af sjúkratryggingum til málefna fatlaðra á viðfangsefni Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til að ljúka við þjónustusamning við félagið. Til þessa hefur Tryggingastofnun ríkisins annast samningagerð við Endurhæfingarstöð félagsins sem jafnframt hefur fengið árlegan styrk frá heilbrigðisráðuneyti. Þrátt fyrir greiðslur ráðuneytisins hefur verið halli á rekstri stöðvarinnar sem hefur verið fjármagnaður af happdrættisfé félagsins. Með þjónustusamningnum er gert ráð fyrir að auka greiðslur til endurhæfingarstöðvarinnar til að styrkja rekstrarstöðu hennar.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        6.01 Tæki og búnaður.
Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. tímabundið framlag til ársins 2004 til að greiða hluta af nýjum röntgenbúnaði fyrir myndgreiningardeild sjúkrahússins. Á árinu 1999 var heimilað að bjóða út tækjabúnað fyrir æðarannsóknastofu og tölvusneiðmyndatæki. Útboð fór fram á þessu ári og liggur niðurstaða nú fyrir. Sá búnaður, sem stjórnendur sjúkrahússins leggja til að verði keyptur, kostar um 83 m.kr. Ljóst er að fjárveitingar sjúkrahússins til tækjakaupa á þessu ári duga ekki til að kaupa þessi tæki.
370     Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi.
        1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi.
Gerð er tillaga um að veita 68 m.kr. tímabundið framlag til að fjármagna á næsta ári væntanlegar eftirstöðvar fæðingarorlofsgreiðslna samkvæmt núgildandi lögum um fæðingarorlof. Í ársbyrjun næsta árs taka gildi ný lög um greiðslur í fæðingarorlofi. Í stað þess að ríkisstofnanir greiði sjálfar laun í fæðingarorlofi af sínu rekstrarfé fær nýr sjóður það hlutverk.
373     Landspítali, háskólasjúkrahús.
        1.01 Landspítali, háskólasjúkrahús.
Tvær tillögur eru á þessum lið sem leiða til 103,4 m.kr. hækkunar. Er annars vegar tillaga um 120 m.kr. viðbótarframlag til mæta kostnaði af stærri skömmtum af lyfinu beta-interferon í baráttunni við MS-sjúkdóminn. Þegar er gert ráð fyrir 40 m.kr. af rekstrarútgjöldum Landspítalans til þessa verkefnis. Samtals er því reiknað með 160 m.kr. heildarkostnaði vegna lyfsins á næsta ári. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að skammtur af lyfinu þarf að vera sexfaldur til að skila tilætluðum árangri.
                  Hins vegar er lagt til að færðar verði 16,6 m.kr. af Landspítala – háskólasjúkrahúsi til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Hinn 1. október 1999 var mæðravernd Landspítala – háskólasjúkrahúss flutt og sameinuð mæðravernd Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík með samningi milli stofnananna.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir.
        
5.50 Viðhald sjúkrahúsa, óskipt og 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Fjárveitingar ætlaðar til viðhalds lækka um 60 m.kr. og á móti hækka fjárveitingar til stofnkostnaðar um sömu fjárhæð.
420     Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið.
        1.01 Sjúkrastofnanir SÁÁ.
Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag til framhaldsmeðferðar unglinga og fjölskyldumeðferðar á Sjúkrastöð Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.
501     Sjúkraflutningar.
        1.15 Sjúkraflug.
Lögð er til 41,9 m.kr. fjárveiting til að mæta kostnaði við sjúkraflug samkvæmt samningi sem áformað er að gera í kjölfar útboðs sem Ríkiskaup önnuðust. Samkvæmt útboðinu verður greitt fyrir heildargrunnbætur fyrir áætlunarflug annars vegar og heildargrunngjald fyrir sjúkraflug hins vegar. Enn fremur verður greitt gjald fyrir hvert sjúkraflug, svo og gjald fyrir hvern klukkutíma umfram staðalsjúkraflug. Með samningunum verður þjónusta sjúkraflugs í fastari skorðum og öryggi eykst. Kostnaðarauki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis vegna grunngjalds fyrir sjúkraflug er 41,9 m.kr. Að öðru leyti er kostnaður fyrir hvert einstakt sjúkraflug greiddur af Tryggingastofnun ríkisins.
510     Heilsuverndarstöðin í Reykjavík.
        1.01 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík.
Lagt er til að færðar verði 16,6 m.kr. frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Hinn 1. október 1999 var mæðravernd Landspítala – háskólasjúkrahúss flutt og sameinuð mæðravernd Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík með samningi milli stofnananna.
621     Forvarnasjóður.
        1.90 Forvarnasjóður.
Gerð er tillaga um 9,5 m.kr. fjárveitingar til fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi er tillaga um 5,5 m.kr. framlag til Forvarnasjóðs vegna ýmissa verkefna og þar á meðal til þátttöku í ECMDDA sem er evrópsk miðstöð í forvarnastarfi gegn vímuefnum. Í öðru lagi er tillaga um 1,5 m.kr. framlag sem renni til vímuefnalausrar miðstöðvar ungs fólks á Ísafirði í Gamla apótekinu til að efla forvarnastarf gegn vímuefnum. Í þriðja lagi er tillaga um 1,5 m.kr. tímabundinn rekstrarstyrk til félagasamtakanna Íslenskra ungtemplara. Í fjórða lagi er tillaga um 1 m.kr. framlag sem renni til vímuefnalausrar miðstöðvar ungs fólks í Skagafirði til að efla forvarnastarf gegn vímuefnum.

09 Fjármálaráðuneyti

101     Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn.
Lagt er til að framlag hækki um 4 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 4 m.kr. framlagi á liðnum 09-995 Skýrsluvélakostnaður vegna aukinnar aðkeyptrar þjónustu við upplýsingavinnslu fjárlagagerðar og reksturs fjárlagakerfis ráðuneyta og Alþingis. Fjárheimildin var hins vegar millifærð af fjárlagalið aðalskrifstofunnar í frumvarpinu og er tillagan ætluð til leiðréttingar á þeirri framsetningu.
481     Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum.
        6.01 Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum.
Gerð er tillaga um 200 m.kr. hækkun á fjárveitingu til að mæta útgjöldum samkvæmt ákvæðum um heimildir í 7. gr. fjárlagafrumvarpsins. Áætlanir um nýtingu þessara heimilda eru jafnan háðar mikilli óvissu en reynsla síðustu ára hefur leitt í ljós að fjárheimild liðarins hefur verið skorinn fullþröngur stakkur miðað við framkvæmd heimildarákvæðanna.
811     Barnabætur.
        1.11 Barnabætur.
Gerð er tillaga um 200 m.kr. hækkun á fjárheimild til greiðslu barnabóta. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 600 m.kr. hækkun á fjárheimildinni en sú áætlun hefur nú verið endurmetin. Aukin framlög skýrast af áformum um að draga úr tekjutengingu og afnema eignatengingu í barnabótakerfinu. Einnig verða teknar upp ótekjutengdar bætur fyrir börn yngri en sjö ára.
821     Vaxtabætur.
        1.11 Vaxtabætur.
Lagt er til að fjárheimild til greiðslu vaxtabóta verði lækkuð um 400 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun fyrir árið 2001. Lækkunin stafar af auknum tekjum launþega milli ára.
984     Fasteignir ríkissjóðs.
        1.11 Rekstur fasteigna.
Lagt er til að fjárheimild viðfangsefnisins hækki um 0,5 m.kr. vegna lítils háttar skekkju í reikningi á launa- og verðlagshækkun frumvarpsins sem hafði í för með sér að hækkun tekna og gjalda varð ekki alveg jöfn.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90 Launa- og verðlagsmál.
Lagt er til að veitt verði fjárheimild sem nemi 150 m.kr. vegna nýlegs samkomulags milli stéttarfélaga opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga um réttindamál starfsmanna, einkum veikinda- og fæðingarorlofsrétt. Samkomulagið tekur gildi 1. janúar 2001 og verður hluti af kjarasamningum hlutaðeigandi stéttarfélaga. Með samkomulaginu verður veikindaréttur samræmdur fyrir þessi stéttarfélög. Þá gerir samkomulagið ráð fyrir að ríkisstofnanir greiði framlag sem nemi 0,41% af heildarlaunum starfsmanna í stéttarfélögunum í sérstakan Fjölskyldu- og styrktarsjóð. Hlutverk sjóðsins verður einkum að greiða þann mismun sem er á milli réttinda samkvæmt fæðingarorlofslögum sem taka gildi um næstu áramót og heldur meiri réttinda sem ríkisstarfsmenn hafa haft til þessa samkvæmt reglugerð um fæðingarorlof. Einnig verður það hlutverk sjóðsins að stéttarfélögin geti tekið á sérstökum áföllum hjá félagsmönnum sínum sem veikindarétturinn nær ekki til. Þá er sjóðnum ætlað að koma til móts við þarfir félagsmanna stéttarfélaganna varðandi heilsueflingu. Kostnaður við framlög í sjóðinn er áætlaður 150 m.kr. og er hann færður í einu lagi á þennan lið. Fyrirhugað er að fjárheimildinni verði skipt niður á einstakar stofnanir þegar launaforsendur verða endurmetnar með tilliti til nýrra kjarasamninga.

10 Samgönguráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar.
Gert er ráð fyrir að fjárheimild sem nemi 9,7 m.kr. verði millifærð af viðfangsefninu 10-190-1.12 á nýtt viðfangsefni hjá Flugmálastjórn, 10-471-1.11 Styrkir til innanlandsflugs. Fjárheimildin er ætluð til að mæta framlögum til flugrekstraraðila í kjölfar útboðs á sjúkra- og áætlunarflugi innan lands.
         1.25 Staðsetningarkerfi. Lagt er til að heiti viðfangsefnis 10-190-1.25 verði breytt úr GPS-staðsetningarkerfi í Staðsetningarkerfi.
         1.34 Flugskóli Íslands. Farið er fram á 9,7 m.kr. framlag til rekstrar Flugskóla Íslands eins og verið hefur undanfarin ár. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarstyrkur til skólans falli niður en í staðinn komi stofnstyrkur að upphæð 15 m.kr. á ári í þrjú ár til kaupa á flughermi fyrir skólann. Þetta byggðist á þeirri forsendu að búist var við samkeppni í rekstri flugskóla, þ.e. til bóklegs náms í atvinnuflugi. Vegna samkeppnissjónarmiða þótti ekki réttlætanlegt að styrkja einn skóla umfram annan í slíkum rekstri. Af þessu hefur ekki orðið og því er talið rétt að veita áfram sama styrk til skólans.
         1.42 Gestastofur og markaðsstarf. Lagt er til að heiti viðfangsefnis verði breytt úr Ferðamál og markaðsstarf í Gestastofur og markaðsstarf.
         1.47 Markaðssetning Íslands í Norður-Ameríku. Farið er fram á 12 m.kr. hækkun á fjárveitingu til verkefnis um markaðssetningu Íslands í Norður-Ameríku vegna hækkunar á gengi Bandaríkjadals. Í samningi um verkefnið er gert ráð fyrir árlegu framlagi í fimm ár að fjárhæð 700.000 Bandaríkjadalir. Þegar samningurinn var gerður var gengi Bandaríkjadals u.þ.b. 70 kr. en er nú komið í ríflega 87 kr. Samningurinn rennur út árið 2004.
         1.90 Ýmislegt. Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundna hækkun þessa liðar til að kosta sérútbúna bifreið í Árneshreppi í þeim tilgangi að hana megi nota til að aka yfir Trékyllisheiði að vetrarlagi og auka þannig öryggi íbúanna í hreppnum.
         6.41 Hlutur ríkisins í flughermi fyrir flugskóla. Lagt er til að tímabundinni 15 m.kr. fjárveitingu til 2003, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, verði breytt í 10 m.kr. fjárveitingu til ársins 2005. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að rekstrarstyrkur til Flugskóla Íslands félli niður en í staðinn kæmi stofnstyrkur að upphæð 15 m.kr. á ári til þriggja ára til kaupa á flughermi. Nú er hins vegar lagt til að stofnstyrkur til kaupa á flugherminum verði lækkaður í 10 m.kr. til ársins 2005.
335     Siglingastofnun Íslands.
        6.70 Hafnamannvirki.
Gerð er tillaga um 84,6 m.kr. lækkun á greiðsluheimild vegna hafnamannvirkja í samræmi við gildandi hafnaáætlun. Á árinu 2000 var gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda sem nemur 194,3 m.kr. Á næsta ári er sambærileg tala 109,7 m.kr. og þarf því að lækka greiðsluna um 84,6 m.kr. Fjárveiting liðarins verður óbreytt eftir sem áður.
471     Flugmálastjórn.
        1.11 Styrkir til innanlandsflugs.
Gerð er tillaga um 51 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði við áætlunarflug innan lands samkvæmt samningi sem áformað er að gera í kjölfar undangengins útboðs. Samkvæmt útboðinu verða greiddar heildargrunnbætur fyrir áætlunarflug annars vegar og heildargrunngjald fyrir sjúkraflug hins vegar. Heildarkostnaður vegna útboðsins er 155 m.kr. Þar af er hlutur samgönguráðuneytisins 60,7 m.kr. vegna grunnbóta fyrir áætlunarflug. Á viðfangsefninu 10-190-1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar er í frumvarpinu 9,7 m.kr. fjárheimild sem hefur verið ætluð til þessa verkefnis og er sú fjárhæð flutt þaðan til Flugmálastjórnar. Er því gerð tillaga hér um 60,7 m.kr. fjárveitingu.
651     Ferðamálaráð.
        1.11 Ferðamálasamtök landshluta.
Gerð er tillaga um 4 m.kr. hækkun fjárveitinga til þess að ferðamálasamtök landshluta geti sinnt hlutverki sínu og staðið undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað.

11 Iðnaðarráðuneyti

101
     Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01 Yfirstjórn.
Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag vegna kostnaðar sem hlýst af yfirstjórn byggðamála. Vorið 1999 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem leggur fjölmargar skyldur á ráðuneytið í þessum efnum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 5 m.kr. fjárveitingu til þessa málaflokks. Áformað er að bæta við hálfu starfi til viðbótar einu starfi sem fyrir er. Óhjákvæmilega fylgir ýmis annar starfskostnaður, svo sem vegna ferðalaga út á land, norræns og alþjóðlegs samstarfs, kaupa á sérfræðiþjónustu o.fl.
251     Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
        1.10 Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
Lögð er til 25 m.kr. fjárveiting til að endurgreiða kostnað vegna kvikmyndargerðar í ljósi endurskoðunar á lögum nr. 43/1999, um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

13 Hagstofa Íslands

101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa.
        1.50 Þjóðskráin. Gerð er tillaga um 20 m.kr. framlag vegna samdráttar sölutekna upplýsinga úr þjóðskrá. Einnig er sýnt að hagræðing vegna upptöku nýs þjóðskrárkerfis verður minni en að var stefnt. Það stafar af því að kerfið er flóknara og viðhaldsfrekara en reiknað var með í fyrstu.

14 Umhverfisráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.23 Ýmis umhverfisverkefni.
Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundið framlag til vinnuhóps náttúrustofa og heilbrigðiseftirlits á Vestfjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi vestra til að gera úttekt á skólpmengun við litla þéttbýlisstaði við sjávarsíðuna og skipuleggja vöktun á mengun við sömu staði. Árið 1997 hófst samstarf milli Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og Náttúrustofu Vestfjarða um sýnatökur og mælingar við þéttbýlisstaði á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra en vegna fjárskorts hefur ekki verið hægt að ganga frá niðurstöðum þessara athugana. Til að lýsa ástandinu á raunsannan hátt þarf að koma til ítarlegri sýnataka yfir lengra tímabil.
         1.90 Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um að stofnaður verði sérstakur safnliður hjá umhverfisráðuneytinu með 3 m.kr. fjárveitingu. Sundurliðun liðarins er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
301     Skipulagsstofnun.
        1.01 Skipulagsstofnun.
Ekki er talið að unnt verði að afla sértekna af umhverfismati eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Lækka því gjöld til jafns við lækkun tekna eða alls um 4 m.kr.
381     Ofanflóðasjóður.
        
1.01 Almennur rekstur og 6.60 Ofanflóðasjóður. Gerð er tillaga um 7 m.kr. millifærslu af stofnkostnaði yfir á nýtt viðfangsefni 14-381-1.01 til að aðgreina rekstrarkostnað frá styrkveitingum.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. nóv. 2000.Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.Hjálmar Jónsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Kristján Pálsson.
Fylgiskjal I.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Á fund nefndarinnar komu Björn Friðfinnsson og Ásdís Sigurjónsdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Skarphéðinn Berg Steinarsson frá forsætisráðuneyti, Böðvar Bragason, Sólmundur Már Jónsson og Geir Jón Þórisson frá lögreglunni í Reykjavík og Jón H. Snorrason, Guðmundur Stefánsson og Jónmundur Kjartansson frá ríkislögreglustjóra.
    Á fundum sínum ræddi nefndin ítarlega þá fjárlagaliði sem snúa að löggæslumálum.
    Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að rekstrarframlag til embættis lögreglustjórans í Reykjavík er áætlað rétt rúmlega 1.533 millj. kr. Í máli lögreglustjóra kom fram að rekstur embættisins hefði verið erfiður frá því að lögreglulög, nr. 90/1996, tóku gildi 1. júlí 1997. Greindi hann nefndinni frá því að fram til þess tíma hefði embættið ætíð skilað afgangi en eftir setningu laganna hefðu fjárveitingar ekki verið nægar. Beiðnir um fjárveitingar hefðu grundvallast á því að koma fjárveitingum í rétt horf í samræmi við þann kostnað sem hlaust af breytingum sem gerðar voru með lögreglulögum en fram kom í máli lögreglustjórans og fulltrúa embættisins að enn væri verið að vinna upp halla vegna breytinganna. Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að rétt sé að gera úttekt á þeim breytingum sem gerðar voru með lögunum.
    Nefndin ræddi ítarlega um fíkniefnamál og leggur meiri hlutinn áherslu á aukningu fjárframlaga til málaflokksins á fjárlögum næsta árs.
    Þá greindi lögreglustjóri frá því að verkefnum hjá embættinu hefði fjölgað mjög. Nefndi hann sem dæmi að opinberar heimsóknir hefðu verið nokkrar á árinu sem hefði haft óvænt fjárútlát í för með sér en ekki hefði verið hægt að taka kostnað vegna þeirra með í reikninginn þegar fjárhagsáætlun var gerð, enda var þá ekki ljóst að af heimsóknunum yrði. Fékk nefndin þær upplýsingar frá lögreglustjóra og fulltrúum dómsmálaráðuneytis að kostnaður af opinberum heimsóknum á þessu ári væri um 12 millj. kr. Ljóst er að stór hluti af fjárhæðinni er kostnaður við yfirvinnu lögreglumanna í tengslum við heimsóknirnar og er þessi kostnaður greiddur af rekstrarfé lögreglu. Að mati meiri hlutans þarf að skoða vel fyrirkomulag fjárveitinga vegna opinberra heimsókna. Telur hann eðlilegt að gert verði sérstaklega ráð fyrir kostnaði við löggæslu í tengslum við þær í fjárveitingum til lögregluembættanna.
    Undirbúningur fyrir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu er nú í fullum gangi og hefur nefndin fylgst nokkuð með honum. Í máli fulltrúa ríkislögreglustjóra kom fram að Íslendingar hafa fengið góða einkunn fyrir undirbúning og þjálfun starfsmanna fyrir Schengen-samstarfið en Lögregluskóli ríkisins hefur séð um þjálfun starfsmanna.
    Sverrir Hermannsson og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. nóv. 2000.Þorgerður K. Gunnarsdóttir, form.


Jónína Bjartmarz.


Ásta Möller.


Hjálmar Jónsson.


Drífa Hjartardóttir.
Fylgiskjal II.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.    Minni hluti allsherjarnefndar tekur undir margt af því sem fram kemur í áliti meiri hlutans en vill auk þess benda á eftirfarandi atriði:
    Minni hlutinn efast um að hægt sé að beita flötum niðurskurði til að ná fram markmiðum fjárlaga en dómsmálaráðuneyti ætlar ýmsum embættum að skera niður um 1,7% á fjárlögum 2001.
    Minni hlutinn leggur áherslu á að löggæslunni séu tryggðir nægir fjármunir svo að hún geti sinnt þeim störfum sem henni ber. Fulltrúar stærsta lögregluembættisins í landinu komu fyrir nefndina og fullyrtu að embættið hefði aldrei fengið nauðsynlegt fjármagn til að geta tekið við stórum hluta verkefna Rannsóknarlögreglu ríkisins á viðunandi hátt. Enn fremur vekur minni hlutinn athygli á þeirri þróun sem orðið hefur á fjárveitingum til embættis ríkislögreglustjóra undanfarin ár.
    Minni hlutinn telur yfirlýsingu dómsmálaráðherra um nauðsyn aukinna fjárframlaga til málaflokksins staðfesta skoðun minni hlutans á stöðu löggæslunnar og væntir þess að hugmyndum ráðherra um auknar fjárveitingar verði fundinn staður í fjárlögum áður en þau verða afgreidd.
    Minni hlutinn bendir á að kostnaður við innréttingar og breytingar á húsnæði Alþingis við Austurstræti 8–10 og 10A er ekki í samræmi við áætlanir. Minni hlutinn leggur áherslu á að Alþingi sinni eftirliti með framkvæmdum sem fram fara af hálfu þess.
    Minni hlutinn styður hugmyndir um að umboðsmanni Alþingis verði tryggðir fjármunir til að fjölga starfsfólki við embættið svo að það geti sinnt sjálfstæðum rannsóknum í meira mæli og stytt þann tíma sem nú er á vinnslu mála hjá embættinu.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 21. nóv. 2000.Guðrún Ögmundsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.
Fylgiskjal III.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Á fund nefndarinnar komu Örlygur Geirsson, Gísli Þór Magnússon og Auður B. Árnadóttir frá menntamálaráðuneyti, Leifur Eysteinsson frá fjármálaráðuneyti, Ólafur Búi Gunnlaugsson og Guðmundur H. Frímannsson frá Háskólanum á Akureyri, Páll Skúlason, Þórður Kristinsson og Gunnlaugur Jónsson frá Háskóla Íslands, Ólafur Proppé og Guðmundur Ragnarsson frá Kennaraháskóla Íslands, Steingrímur Ari Arason og Stefán Aðalsteinsson frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Sölvi Sveinsson, Lárus H. Bjarnason og Einar Birgir Stefánsson frá Félagi íslenskra framhaldsskóla, Guðbrandur Steinþórsson, Erna G. Agnarsdóttir, Magnús Matthíasson og Sverrir Arngrímsson frá Tækniskóla Íslands og Ingibjörg Ásgeirsdóttir og Hannes Gíslason frá Námsgagnastofnun.
    Nefndin ræddi ítarlega á fundum sínum þá fjárlagaliði sem snúa að menntamálum og leggur áherslu á eftirfarandi:
    Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að lokið sé samningum við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um þjónustu skólanna og framlög til kennslu. Enn er eftir að ljúka samningum við Viðskiptaháskólann á Bifröst, Háskólann á Akureyri og Listaháskóla Íslands en áætlað er að samningum við tvo hina fyrrnefndu ljúki á þessu ári. Nefndin bendir á nauðsyn þess að þjónustusamningum við háskólana ljúki sem fyrst.
    Verið er að vinna að gerð reglna um framlög til rannsókna í háskólum og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að á næstunni verði gengið til samninga við háskólana á því sviði. Í máli fulltrúa Háskóla Íslands kom fram að af hálfu háskólans er þess vænst að beinar fjárveitingar til rannsókna verði sem jafnastar fjárveitingum til kennslu. Jafnframt kom fram í máli þeirra að samningaviðræður við menntamálaráðuneytið um framlög til rannsókna hjá Háskóla Íslands væru á lokastigi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að samningaviðræður við aðra háskóla eru ekki hafnar en að mati nefndarinnar er brýnt að samningar um framlög til rannsókna í háskólunum verði gerðir eins fljótt og kostur er.
    Þá vill nefndin benda á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 80 millj. kr. fjárveitingu vegna fjölgunar nemenda í Háskóla Íslands en fulltrúar Háskólans greindu frá því að þeir teldu að það væri ekki nægilegt, enda teldu þeir að fjölgun nemenda yrði meiri en frumvarpið gerði ráð fyrir.
    Reiknilíkan til að reikna út kennslukostnað framhaldsskóla kom til umræðu í nefndinni. Unnið er að endurskoðun þess á vegum menntamálaráðuneytis og leggur nefndin áherslu á að endurskoðuninni verði hraðað.
    Nefndin bendir á mikilvægi þess að ákvarðað verði sem fyrst um framtíðarskipan Tækniskóla Íslands.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málefni Námsgagnastofnunar kom fram að mikil þörf er á að fara vandlega yfir málefni stofnunarinnar. Ljóst er að þörf er á að auka fjárveitingar til námsefnisgerðar og að mati nefndarinnar er brýnt að hugað verði að því hvernig staðið verður að gerð námsefnis í framtíðinni.
    Tómas Ingi Olrich og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. nóv. 2000.Sigríður A. Þórðardóttir, form.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni Johnsen.


Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara.


Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.     


Þuríður Backman, með fyrirvara.
Fylgiskjal IV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.


    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Nefndin fékk á sinn fund Stefán Skjaldarson, Hjálmar W. Hannesson og Auðun Atlason frá utanríkisráðuneyti.
    Í áliti sínu til fjárlaganefndar undanfarin ár hefur utanríkismálanefnd minnt á mikilvægi þess að málefni utanríkisþjónustunnar séu í stöðugri endurskoðun, m.a. með það fyrir augum að nýta takmarkaðan mannafla og fjármagn sem best.
    Stefnt er að því að opna tvö ný sendiráð á næsta ári, þ.e. í Tókýó og Ottawa, auk þess sem fastanefnd Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu verður breytt í sendiráð Íslands í Vínarborg. Óskað er eftir fjárveitingu til að mæta kostnaði vegna þessa í frumvarpi til fjáraukalaga. Gert er ráð fyrir 800 millj. kr. aukafjárveitingu til kaupa á lóð og húsnæði fyrir sendiráð í Tókýó og 110 millj. kr. fjárveitingu til kaupa á lóð og húsnæði fyrir sendiráð í Ottawa. Þá er gert ráð fyrir 48 millj. kr. fjárveitingu vegna umframkostnaðar við endurbætur á húsnæði ýmissa sendiráða.
    Á fundi nefndarinnar um fjárlagafrumvarpið kom fram að stefnt er að pappírslausum viðskiptum milli sendiráða og er talið að þetta muni skila hagræðingu til framtíðar. Gert er ráð fyrir 30 millj. kr. fjárveitingu til uppsetningar á málaskrám í sendiráðum og fastanefndum erlendis á næsta ári til þess að stuðla að framangreindu markmiði. Nefndin leggur áherslu á að pappírslaus viðskipti ættu einnig að auðvelda og styrkja samstarf og upplýsingaflæði til utanríkismálanefndar Alþingis.
    Að öðru leyti sér utanríkismálanefnd ekki ástæðu til að gera athugasemdir við fjárlagafrumvarpið.
    Einar K. Guðfinnsson og Jón Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. nóv. 2000.Tómas Ingi Olrich, form.


Árni R. Árnason.


Jónína Bjartmarz.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara.


Sighvatur Björgvinsson, með fyrirvara.


Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.
Fylgiskjal V.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.

    Landbúnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Nefndin fékk á sinn fund Guðmund Sigþórsson, Ingimar Jóhannsson og Guðmund Helgason frá landbúnaðarráðuneyti og skýrðu þeir þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá heimsótti nefndin Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá.
    Landbúnaðarnefnd vekur athygli á þeim landshlutabundnu skógræktarverkefnum sem verið er að vinna að. Aukning í umsóknum um skógræktarverkefni hefur verið mikil. Útilokað er fyrir landshlutabundin skógræktarverkefni sem starfa lögum samkvæmt að standa við skuldbindingar sínar og verkefni gagnvart bændum ef ekki kemur til meiri fjárveiting á fjárlögum en tillaga er gerð um í fyrirliggjandi frumvarpi. Jafnframt vill nefndin benda á að á tímum samdráttar og samþjöppunar í hefðbundnum landbúnaðargreinum getur skógrækt verið mikilvæg viðbót fyrir atvinnulíf í sveitum landsins og spornað gegn búferlaflutningum auk þess sem um þjóðhagslega arðbært byggðaverkefni er að ræða. Þá er talsvert um dulið atvinnuleysi í sveitum og taka því margir skógræktarverkefni fegins hendi.
    Nefndin vekur athygli á erfiðri stöðu loðdýrabænda og nauðsyn á sambærilegri niðurgreiðslu á loðdýrafóðri og verið hefur. Einnig vekur nefndin athygli á nauðsyn rammasamnings ríkis og bænda um loðdýrabúskap.
    Landbúnaðarnefnd tekur undir beiðni Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum til fjárlaganefndar um aukið framlag á fjárlögum til að tryggja framgang Garðyrkjumiðstöðvar á Reykjum.
    Samkvæmt lögum nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, og árangursstjórnunarsamningi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri við landbúnaðarráðuneytið er landbúnaðarháskólanum gert illmögulegt að inna lögbundin verkefni sín af hendi miðað við fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga. Þá styður nefndin að Hólaskóla, Hólum í Hjaltadal, verði veitt áframhaldandi fjárframlög til uppbyggingar reiðskemmu. Enn fremur bendir nefndin á mikilvægi þess að lokið verði við annan áfanga fiskeldisrannsóknarhúss Hólaskóla samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun.
    Þuríður Backman skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún hyggst skýra við umræður um frumvarpið.
    Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Einar Oddur Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson og Guðjón Guðmundsson.

Alþingi, 15. nóv. 2000.Hjálmar Jónsson, form.


Jónína Bjartmarz.


Drífa Hjartardóttir.


Guðmundur Árni Stefánsson, með fyrirvara.


Þuríður Backman, með fyrirvara.


Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara.
Fylgiskjal VI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.

    Sjávarútvegsnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Nefndin fékk á sinn fund Arndísi Á. Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Þórð Ásgeirsson og Gylfa Ásbjartsson frá Fiskistofu, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni og Jón Heiðar Ríkharðsson og Friðrik Friðriksson frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
    Í máli fulltrúa sjávarútvegsráðuneytis kom fram að engar meiri háttar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsemi aðalskrifstofu ráðuneytisins eða stofnana þess. Þá kom fram að í núgildandi fjárlögum er gert ráð fyrir 4 millj. kr. fjárveitingu til rannsókna á kalkþörungum í Húnaflóa og Arnarfirði á grundvelli þingsályktunar sem Alþingi samþykkti. Fyrir þá upphæð var unnið að rannsóknum í Arnarfirði og því nauðsynlegt að sama fjárhæð sé í fjárlögum ársins 2001.
    Í máli fulltrúa Fiskistofu kom fram að þörf væri á auknu fjárframlagi vegna veiðieftirlits. Fiskistofa hafi þegar ráðið fimm nýja veiðieftirlitsmenn til að leggja mat á raunverulegt brottkast afla og til að grípa til viðeigandi aðgerða til þess að koma í veg fyrir það. Jafnframt stendur til að ráða fimm veiðieftirlitsmenn frá og með næstu áramótum. Þá kom fram í máli fulltrúa Fiskistofu að eftirlits- og skoðunarstöðvar hefðu verið byggðar upp víðs vegar um landið í samráði við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Nú hefur ESA hins vegar gert þá kröfu að eftirlitsstöðvum verði breytt í landamærastöðvar sem mun jafnframt hafa í för með sér að Fiskistofa þarf að breyta núverandi fyrirkomulagi varðandi skoðunarstöðvar. Ekkert liggur fyrir um endanlega útfærslu, kostnað eða hver muni bera þann kostnað.
    Hjá fulltrúa Hafrannsóknastofnunarinnar kom fram að nauðsyn væri á að styrkja útibú stofnunarinnar á Ísafirði og í Ólafsvík með auknum mannafla og leggur nefndin til að orðið verði við þeirri beiðni. Þá vekur nefndin athygli á að hækkun olíuverðs á þessu ári hefur haft afar neikvæð áhrif á rekstur skipa Hafrannsóknastofnunarinnar. Því er nauðsynlegt að fara rækilega yfir þann þátt málsins svo að tryggt sé að hægt verði að halda úti skipum stofnunarinnar svo sem áform eru um. Loks vekur nefndin athygli á brýnni þörf á auknum veiðarfærarannsóknum og áhrifum þeirra á lífríki sjávar.
    Hjá fulltrúum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins kom fram að einungis 1/ 3 af veltu hennar er ríkisframlög en stofnunin er að öðru leyti háð annarri fjáröflun. Þá bentu fulltrúar stofnunarinnar á að þörf væri á því að nýta útibú hennar betur þar sem 20% af kostnaðarveltu stofnunarinnar fara í rekstur þeirra. Því telja fulltrúar stofnunarinnar mikilvægt að auknu fé verði varið til að styrkja útibúin. Þannig verður hægt að vinna að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum og auka jafnframt sérhæfingu hvers útibús í stað þess að nýta þau nánast eingöngu sem þjónustuútibú eins og nú er víða. Hér er um stefnumótun að ræða sem sjávarútvegsnefnd er samþykk og lýsti raunar stuðningi við í áliti sínu til fjárlaganefndar um gildandi fjárlög. Því leggur nefndin til að fjárveiting til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins vegna þessa hækki um 12 millj. kr. frá frumvarpinu.
    Svanfríður Jónasdóttir og Jóhann Ársælsson skrifa undir álitið með fyrirvara sem þau hyggjast skýra við umræður um frumvarpið.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu en með fyrirvara.
    Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. nóv. 2000.Einar K. Guðfinnsson, form.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.


Vilhjálmur Egilsson.


Svanfríður Jónasdóttir, með fyrirvara.


Jóhann Ársælsson, með fyrirvara

    .

Pétur Bjarnason.
Fylgiskjal VII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Á fund nefndarinnar komu Sturlaugur Tómasson og Garðar Jónsson frá félagsmálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu kemur fram að útgjöld félagsmálaráðuneytisins hækka um 2.700 millj. kr. frá fjárlögum ársins 2000. Meginskýring hækkunarinnar er hinn nýstofnaði Fæðingarorlofssjóður en framlag til hans er um 2.369 millj. kr. Mismunurinn skiptist milli annarra verkefna ráðuneytisins á eftirfarandi hátt: Til aðalskrifstofu ráðuneytisins fara um 4 millj. kr., Vinnueftirlit ríkisins fær um 1,3 millj. kr., til málefna barna og unglinga renna 8 millj. kr., til málefna fatlaðra 250,1 millj. kr., til vinnumála um 30 millj. kr. og 84,6 millj. kr. fara til annarra verkefna.
    Samkvæmt frumvarpinu skiptast niðurfelld útgjöld milli málaflokka með eftirfarandi hætti: 50 millj. kr. til húsnæðismála, 2,8 millj. kr. til stjórnsýslustofnana, 4,6 millj. kr. til málefna fatlaðra, 25 millj. kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og 301 millj. kr. til vinnumála, aðallega Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þá renna út tímabundnar fjárveitingar sem nema um 17 millj. kr. Í útgjaldaramma ráðuneytisins er gert ráð fyrir lækkun útgjalda frá fyrri áformum með frestun eða lækkun á stofnkostnaði sem nemur 50 millj. kr. Tillögur ráðuneytisins um skiptingu sparnaðarins eru þessar: 1,1 millj. kr. hjá stjórnsýslustofnunum, 4 millj. kr. hjá málefnum barna og unglinga og 44,9 millj. kr. hjá málefnum fatlaðra.
    Nefndin fór yfir einstaka liði frumvarpsins en ræddi auk þess sérstaklega málefni fatlaðra. Einkum var rætt um þann fjölda sem er á biðlista eftir þjónustu hjá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra sem nú er um 200 einstaklingar. Þá telur nefndin rétt að benda á það alvarlega ástand sem skapast hefur vegna starfsmannaskorts við umönnun fatlaðra. Félagsmálanefnd bendir á að í nokkrum stofnunum hefur skapast vandi vegna þess hversu mikill launamunur ófaglærðs fólks er eftir stéttarfélögum. Nefndin kemur því á framfæri við fjárlaganefnd að nauðsynlegt er að leysa úr þessum vanda.
    Arnbjörg Sveinsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem hún á sæti í fjárlaganefnd.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. nóv. 2000.Arnbjörg Sveinsdóttir, form., með fyrirvara.


Ólafur Örn Haraldsson.


Drífa Hjartardóttir.


Jónína Bjartmarz.


Pétur H. Blöndal.Fylgiskjal VIII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.


    Minni hlutinn tekur undir ýmsar athugasemdir hjá meiri hluta nefndarinnar en leggur áherslu á eftirfarandi:
    Mikið er nú rætt um flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Fyrir liggur frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en málefni fatlaðra eru nú hluti þeirra laga. Ekki er að sjá á fjárlagafrumvarpinu að gera eigi ráð fyrir auknum framlögum til málaflokksins og enn á ný eru framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra skert, en samkvæmt lögum um málefni fatlaðra eiga óskertar tekjur erfðafjársjóðs að renna til Framkvæmdasjóðsins. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2001 er gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti verði 607 millj. kr. en framlag til Framkvæmdasjóðsins er aðeins 235 millj. kr. Það er allsendis óviðunandi þar sem rúmlega 200 fatlaðir eru nú á búsetubiðlistum og útskriftum af Kópavogshæli miðar ekkert. Þessu er harðlega mótmælt og er afar mikilvægt að skýrt komi fram raunhæfir framreikningar á kostnaði við þennan málaflokk svo að sveitarfélögin viti hver staðan verður hyggist þau taka við málaflokknum eins og stefnt hefur verið að.
    Samkvæmt fjárlögum eiga að falla niður framlög úr ríkissjóði til niðurgreiðslu á vöxtum á leiguíbúðum. Þetta er afleiðing af því að félagslega íbúðakerfið var lagt niður. Þá komu fram þau áform að hætta niðurgreiðslu vaxta frá og með áramótum 2000/2001. Í kjölfar lokunar á félagslega íbúðakerfinu rauk verð á leiguíbúðum upp, en kjör þeirra eru með öllu orðin óviðráðanleg fyrir láglaunafólk. Þrátt fyrir loforð félagsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að bæta aðstæður leigjenda hafa vextir á leiguíbúðum smám saman verið að hækka í allt að 3,2%. Í áratugi hafði ríkt sátt um að halda vöxtunum lágum, eða í 1%. Nú eru áform um að hætta niðurgreiðslu vaxta frá næstu áramótum sem veldur annaðhvort stöðvun á uppbyggingu leiguíbúða eða verulegri hækkun á leigugreiðslum hjá láglaunafólki verði ekkert að gert. Þetta gerist á sama tíma og biðlisti eftir leiguíbúðum er lengri en nokkru sinni áður, einkum vegna lokunar á félagslega íbúðakerfinu. Neyðarástand ríkir hjá mörgum fjölskyldum sem bíða eftir leiguíbúðum. Nú er margra ára bið eftir slíkum íbúðum, en um 2.000 láglaunafjölskyldur eru á biðlistum og margar þeirra í sárri neyð.
    Á það skal minnt að árlega var komið upp að meðaltali um 300 leiguíbúðum meðan vextirnir voru 1%. Aftur á móti hefur verulega dregið úr uppbyggingu leiguíbúða eftir vaxtahækkun á lánum og lokun félagslega íbúðakerfisins. Árið 1997 fengu sveitarfélögin einungis lán til 49 leiguíbúða og á árinu 1998 til 38 leiguíbúða. Ljóst er að ef hækka á vextina á slíkum lánum enn frekar er hætta á að hvorki sveitarfélögin né félagasamtök treysti sér til að byggja leiguíbúðir nema hækka leiguna verulega sem aftur veldur auknum útgjöldum hjá sveitarfélögunum vegna húsaleigubóta.
    Gulrótin sem ríkisstjórnin virðist ætla að færa sveitarfélögum og félagasamtökum í stað niðurgreiðslu á vöxtum á leiguíbúðum eru 50 millj. kr. til stofnkostnaðarstyrkja sem nota á til að styrkja sveitarfélög og félagasamtök til að koma á fót leiguíbúðum. Samkvæmt fjárlögunum á að veita 90% lán til 500 leiguíbúða á næsta ári sem áætlað er að kosti 7 millj. kr. hver. Það þýðir 100 þús. kr. styrk frá ríkissjóði á hverja íbúð en allir sjá að það mun í engu hvetja sveitarfélög eða félagasamtök til uppbyggingar leiguíbúða. Heimild til lánveitinga til 500 leiguíbúða á næsta ári er því sýndarmennskan ein sem litlu mun skila til að bæta ófremdarástandið á leigumarkaðinum.
    Þá gagnrýnir minni hlutinn harðlega vanefndir ríkisstjórnarinnar á fjárframlögum í varasjóð vegna afskrifta og niðurgreiðslna eldri lána Byggingarsjóðs verkamanna, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál.
    Í fjárlagafrumvarpinu er ekki að sjá merki þess að auka eigi fjármagn til hinnar nýstofnuðu Jafnréttisstofu heldur er Jafnréttisstofu gert að spara 500 þús. kr. á næsta fjárlagaári. Þetta skýtur mjög skökku við þar sem frekar hefur verið talað um aukinn kostnað vegna flutnings stofunnar til Akureyrar. Það er alvarlegt mál að í upphafi skuli krafist sparnaðar í stað þess að auka fjárveitingar til hinnar nýju stofnunar en minni hlutinn telur að slíkt sé óhjákvæmilegt þar sem reikna má með ýmsum viðbótarkostnaði í rekstri vegna flutnings til Akureyrar.
    Loks mótmælir minni hlutinn harðlega að fjárframlög til að auka hlut kvenna í stjórnmálum hafa verið skorin niður úr 5 millj. kr. í 4,1 millj. kr. nú þegar sveitarstjórnarkosningar eru fram undan.

Alþingi, 22. nóv. 2000.Ásta R. Jóhannesdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.
Fylgiskjal IX.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.

    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Nefndin fékk á sinn fund Davíð Gunnarsson, Dagnýju Brynjólfsdóttur og Magnús Skúlason frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Auk þeirra komu á fund nefndarinnar að eigin ósk Ólafur Þór Ævarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, Þórður Sverrisson, formaður samráðs- og samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur, og Þórir Kolbeinsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna.
    Í frumvarpinu kemur fram að útgjöld til málaflokksins hækka um 5,2 milljarða króna, eða 7% frá fjárlögum ársins 2000. Um 80% hækkunarinnar, eða 4,2 milljarðar króna, skýrast af launa- og verðlagsbreytingum. Raunhækkun útgjalda nemur því rúmum 1 milljarði króna, eða 1,3% miðað við fjárlög ársins 2000. Ástæður hækkunarinnar eru m.a. auknar fjárveitingar vegna bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, lífeyristrygginga og sjúklingatryggingar sem er nýr bótaflokkur. Þá fá stóru sjúkrahúsin, heilsugæslan, hjúkrunarheimilin og aðrar heilbrigðisstofnanir sinn skerf.
    Nefndin fjallaði um einstaka liði frumvarpsins og var sérstaklega rætt um sjúkrahústengda hjúkrunarþjónustu og heimahjúkrun heilsugæslustöðva, svo og um framkvæmd ferliverka, bæði innan og utan sjúkrahúsa, og launakerfi heimilislækna með tilliti til áhrifa þessa á eftirspurn og aðgengi innan heilbrigðiskerfisins og á stefnumörkun þess.
    Í máli fulltrúa lækna sem komu á fund nefndarinnar kom fram óánægja með samninga sérfræðilækna við Tryggingastofnun ríkisins þar sem ýmsar breytingar hefðu haft ófyrirséð áhrif á þá, svo sem samdráttur í vinnu ferliverka innan sjúkrahúsa og aukin eftirspurn eftir sérfræðilæknisþjónustu. Á hinn bóginn hefði launakerfið sem heimilislæknar ynnu nú eftir samkvæmt úrskurði kjaranefndar skert aðgengi að heilsugæslunni sem aftur hefði leitt til þess að álag á læknavaktina, slysa- og bráðavaktina hefði aukist. Læknarnir kváðu nokkuð almenna samstöðu meðal þeirra um nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi og skipulagi heilbrigðiskerfisins og hvatti nefndin þá til að koma fram með heildstæðar hugmyndir sem næðu til allra þátta þess, jafnt heilsugæslu, sérfræðiþjónustu og sjúkrahúsreksturs. Málflutningur læknanna varð tilefni ítarlegrar umræðu innan nefndarinnar við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins þar sem m.a. kom fram að fjárþörf heilbrigðiskerfisins ykist stöðugt, menn leituðu sér heilbrigðisþjónustu í meira mæli, töluverð aukning hefði orðið á þjónustu sérfræðilækna og tilteknum aðgerðum hefði fjölgað mikið. Á vegum ráðuneytisins fer nú fram úttekt á þessu.
    Til að stytta dýra sjúkralegu telur meiri hlutinn hagkvæmt að gera stjórnum heilsugæslu í hverju umdæmi, svo og hjúkrunarfræðingum sem starfa samkvæmt samningi hjúkrunarfræðinga við Tryggingastofnun ríkisins, kleift að taka að sér fleiri og sérhæfðari verkefni.
    Tómas Ingi Olrich var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Arnbjörg Sveinsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 20. nóv. 2000.Jónína Bjartmarz, form.


Ásta Möller.


Guðni Ágústsson.


Drífa Hjartardóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir, með fyrirvara.
Fylgiskjal X.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá 1. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Fyrsti minni hluti tekur undir þann hluta meirihlutaálitsins sem snýr að heimahjúkrun.
    Misskiptingin hefur aukist í samfélaginu og hafa aldraðir og öryrkjar verið hlunnfarnir. Á því er ekki tekið í fjárlagafrumvarpinu og því vill 1. minni hluti mótmæla. Ríkissjóður skilar miklum tekjuafgangi og enn breikkar bilið milli tryggingagreiðslna og almennra launa. Staðreyndin er að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa dregist aftur úr þróun lágmarkslauna og launavístölu. Staðtölur Tryggingastofnunar sem komu út í október sl. staðfesta þetta. Bætur almannatrygginga hafa hækkað mun minna en launavísitala. Þar kemur einnig fram að 43% öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði og verða því að byggja afkomu sína nánast einvörðungu á greiðslum frá almannatryggingakerfinu.
    Grunnlífeyrir og tekjutrygging er nú rúmar 48 þús. kr. en lágmarkslaunin 72 þús. kr. Skattleysismörkin hafa staðið í stað svo að lífeyrisþegi sem býr einn, nýtur eingöngu bóta og er með um 70 þús. kr. frá Tryggingastofnun þarf að greiða af þeim skatta, nokkuð sem ekki hefur viðgengist fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Ýmsar breytingar hafa verið gerðar sem rýra kjör lífeyrisþega. Má þar nefna bifreiðakaupastyrkina og bílakaupalánin. Bifreiðakaupastyrkjum fyrir hreyfihamlaða var fækkað um tæpan helming í tíð þessarar ríkisstjórnar og lánakjörin á bifreiðakaupalánunum hafa versnað mjög, farið úr 1% vöxtum upp í markaðsvexti og gerir það öryrkjum mjög erfitt að taka slík lán.
    Á sama tíma og lífeyrir og tekjutrygging hækkuðu um 23% hækkaði hlutur sjúks gamals fólks og öryrkja í lyfjakostnaði um 120%. Það er samfélaginu dýrt að halda öldruðum og öryrkjum í fátækt eins og nú er. Það er rándýr fátækt. Aldraðir og öryrkjar sem ekki geta tekið þátt í samfélaginu brotna niður, halda ekki heilsu og valda heilbrigðiskerfinu miklum útgjöldum. Þetta er bæði þjóðhagslega og heilsuhagfræðilega óhagkvæm stefna í málefnum lífeyrisþega. Verulegt áhyggjuefni er hve börn öryrkja líða fyrir þessa stefnu og eru félagslega út undan og afskipt.
    Fyrsti minni hluti áréttar að afnám tekjutengingar við laun maka er löngu tímabær. Ekki er gert ráð fyrir fé í fjárlagafrumvarpinu til að afnema þá forneskju sem tekjutenging við laun maka lífeyrisþega er. Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu til afnám þessarar tengingar með breytingartillögu við síðustu fjárlög og hafa nú á haustþinginu enn og aftur lagt fram frumvarp til að afnema þessa siðlausu reglu. Fólk fær laun óháð tekjum maka síns, atvinnuleysisbætur óháð tekjum maka en ef menn verða óvinnufærir eða hafa lokið starfsævinni eru launin tengd tekjum maka. Þessi niðurlægjandi regla hefur unnið gegn fjölskyldum og gegn hjónabandi lífeyrisþega. Í tvígang hafa stjórnvöld þó minnkað tekjutenginguna sem er hænufet í rétta átt. Afnám þessarar óréttlátu reglu kostar ríkissjóð um 360 millj. kr. samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun. Sú staðreynd að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum staðfestir bág kjör stórs hóps aldraðra í íslensku samfélagi. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega er með óskerta tekjutryggingu. 1. minni hluti telur óviðunandi að ríkisstjórnin geri ekkert annað til að rétta hlut lífeyrisþega en að hækka tryggingagreiðslurnar um 4% um áramótin. Það dugar skammt fyrir þá sem eingöngu treysta á almannatryggingar sér til framfærslu.
    Hlutdeild sjúklinga í lyfjum hefur aukist mjög mikið síðastliðið ár og enn á að varpa meiri kostnaði á herðar sjúklinga samkvæmt frumvarpinu. 1. minni hluti lýsir yfir verulegum áhyggjum af þessari þróun og mótmælir síauknum álögum á sjúklinga, m.a. í formi aukinnar þátttöku í lyfjakostnaði.
    Útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála eru langtum lægri á Íslandi en hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Það sýnir fagleg úttekt á íslenska velferðarkerfinu sem kom út í bókinni Íslenska leiðin.
    Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að taka á fjármálum Landspítalans en ljóst er að 500 millj. kr. vantar til að halda úti sömu þjónustu árið 2001 og nú í ár, þrátt fyrir að sumarlokanir á ýmsum deildum séu allt til áramóta í ár. Við þessu verður að bregðast við fjárlagagerð.
    Biðlistar eftir aðgerðum hafa lengst undanfarið og telja flutningsmenn að taka þurfi sérstaklega á biðlistum eftir bæklunaraðgerðum og hjarta- og þindarslitsaðgerðum, m.a. í ljósi þess að biðlistar eru þegar upp er staðið mjög kostnaðarsamir fyrir þjóðfélagið allt, auk þess að valda sjúklingum vinnu- og tekjutapi og þeim og fjölskyldum þeirra ómældum þjáningum. Samkvæmt könnun landlæknisembættisins árið 2000 kemur fram að undanfarin fjögur ár hafi 7.000 manns verið á biðlistum að staðaldri og kemur meiri hluti þeirra úr röðum eldri borgara. Athugun á bæklunarbiðlistum sýnir að 65% sjúklinga bíði 6–12 mánuði eftir aðgerð þrátt fyrir verulegar þjáningar á biðtímanum.
    Skortur á hjúkrunarvist fyrir aldraða er mikill. Sérstaklega er þörfin fyrir hjúkrunarheimili mikil á höfuðborgarsvæðinu og bíða nú 250 aldraðir eftir hjúkrunarrými í Reykjavík einni. Ekki er að sjá að á þessum vanda sé tekið í fjárlagafrumvarpinu og er það óviðunandi.
    Löngu er tímabært að lög um heilsugæslu komist að fullu til framkvæmda og komið verði upp heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfi. 1. minni hluti vekur athygli á því að ekki er gert ráð fyrir þessu í frumvarpinu.
    Þá gagnrýnir 1. minni hluti harðlega stefnuleysi ríkisstjórnarinnar varðandi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, en svo virðist sem það hafi verið tilviljunum háð hver þróunin hefur verið í þeim efnum. Ríkisstjórnin hefur engin skilgreind markmið önnur en þau að það eigi að gera þjónustusamninga um einstaka þætti þjónustu. Á starfstíma ríkisstjórnarinnar hefur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þó aukist án þess að það hafi haft í för með sér, að því er séð verður, hagræðingu eða minni útgjöld ríkisins til málaflokksins. Þvert á móti hefur læknisþjónusta aukist utan sjúkrahúsa og hefur sá liður á fjárlögum aukist verulega frá síðasta ári. Í fjárlagafrumvarpinu er leitast við að skýra þessa aukningu en svo virðist sem heilbrigðisyfirvöld hafi engin tök á þróuninni. Þá virðist sem heilbrigðisyfirvöld hafi engum tökum náð á útgjöldum til sjúkrahúsanna þrátt fyrir sameiningu tveggja stærstu stofnananna í Reykjavík. 1. minni hluti telur það eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar að ná tökum á hinum miklu fjármunum sem fara í að halda úti heilbrigðiskerfi og að móta skýra stefnu í þeim efnum. Einkarekstur á einum stað í kerfinu hefur að sjálfsögðu áhrif á aðra þætti þess og því er það grundvallarskylda hverrar ríkisstjórnar að tala skýrt um það hvert hún ætlar í þeim efnum. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru því miður handahófskennd hvað þetta varðar og svo virðist sem samasemmerki sé sett á milli aukins einkareksturs og minni ríkisútgjalda. Svo þarf alls ekki að vera eins og reynslan sýnir.
    Sem dæmi um handahófskennd vinnubrögð má nefna nýlegan samning um rekstur einkarekins hjúkrunarheimilis í Sóltúni. Með samningnum var stigið það skref að setja á stofn einkarekið hjúkrunarheimili sem verður rekið af hlutafélagi en slík ákvörðun er veruleg stefnubreyting og hefur vakið upp margar spurningar. Þær stofnanir sem ekki eru í eigu ríkisins en sinna slíkri starfsemi eiga það sameiginlegt að vera ekki reknar í hagnaðarskyni heldur í þágu ákveðins málstaðar. Nú þegar ríkisstjórnin hefur tekið upp það nýmæli að gera samning við hlutafélag um rekstur öldrunarþjónustu, hvers má þá vænta í framtíðinni hvað varðar annan einkarekstur í heilbrigðiskerfinu? Við því hafa ekki fengist skýr svör. Ríkisstjórnin virðist einungis líta til einstakra dæma í stað þess að horfa heildrænt á framtíðarstefnumótun í þessum efnum. Slíkt er fullkomlega ólíðandi, slík stefnumótun er forsenda þess að hægt sé að ná tökum á útgjöldum til málaflokksins.

Alþingi, 20. nóv. 2000.Ásta R. Jóhannesdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Fylgiskjal XI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Annar minni hluti nefndarinnar tekur undir álit 1. minni hluta.
    Auk þess vill 2. minni hluti benda á mikilvægi þess að nýta vel þá þekkingu og starfskrafta sem þegar eru til staðar á heilbrigðisstofnunum landsins.
    Heilbrigðisstofnanir verða að hafa möguleika á að ráða heilbrigðisstarfsmenn í þær stöður sem vantar í þjónustuna í dag. Þar sem skortur á heilbrigðisstarfsmönnum stafar af aðhaldi í rekstri hefur undirmönnun valdið miklu álagi á alla starfsemina og verður því að linna með því að auka fjárveitingar í samræmi við þjónustu hverrar stofnunar.
    Mikilvægt er að draga ekki úr þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni heldur auka hana eftir þörfum og fullnýta stofnanirnar eins og hægt er með tilliti til bættrar þjónustu í heimabyggð. Tryggja þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu utan dagvinnutíma, og þá sérstaklega bakvöktum lækna, og til þess þarf aukið fjármagn inn í rekstur margra stofnana.
    Nýta á þann möguleika að koma upp sérhæfðri þjónustu fyrir allt landið sem létt getur á biðlistum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni þarf að auka og laga að þörfum hvers byggðarlags. Ein leið til þess er að auka farandþjónustu sérfræðinga og skapa henni fastan sess í heilbrigðiskerfinu og í fjárlögum.
    Nokkrar heilbrigðisstofnanir eiga í rekstrarerfiðleikum þrátt fyrir leiðréttingu á rekstrarstöðu við síðustu afgreiðslu fjárlaga og verður sérstaklega að taka tillit til þeirra við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001. Þar má nefna m.a. Ríkisspítala, Landspítalann – háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni leiðir ekki til lægri framlaga úr ríkissjóði og er nær eingöngu bundin við þéttbýli, einkum höfuðborgarsvæðið.
    Sjúkraflug verður að skilgreina sem hluta heilbrigðisþjónustunnar og rekstur þess þarf bæði að vera fjárhagslega og faglega tryggður með sérútbúinni sjúkraflugvél.

Alþingi, 21. nóv. 2000.Þuríður Backman.Fylgiskjal XII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Nefndin fékk á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Auði Eyvinds frá samgönguráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri og Kristín H. Sigurbjörnsdóttir frá Vegagerðinni, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Hermann Guðjónsson og Sigurbergur Björnsson frá Siglingastofnun Íslands.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins hækka um rúmlega 309 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Munar þar mest um 184 millj. kr. framlag til Póst- og fjarskiptastofnunar. Framlag til yfirstjórnar Vegagerðarinnar hækkar um 81 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag til aðalskrifstofu ráðuneytisins hækki um 26,5 millj. kr.
    Viðhalds- og stofnkostnaður er áætlaður 12.128,7 millj. kr. og er það 2.566 millj. kr. hækkun milli ára. Helstu breytingarnar eru 1.736 millj. kr. hækkun til vegamála og 757 millj. kr. hækkun á framlagi til Siglingastofnunar.
    Í útgjaldaramma ráðuneytisins hefur verið gert ráð fyrir lækkun útgjalda frá fyrri áformum með frestun eða lækkun á fyrirhuguðum framkvæmdum eða öðrum stofnkostnaði sem nemur 950 millj. kr.
    Fulltrúar Vegagerðarinnar lýstu ánægju sinni með að tillit hefði verið tekið til vegáætlunar við gerð fjárlagafrumvarpsins. Vegamálastjóri tók fram að sú hækkun sem kæmi fram í frumvarpinu til yfirstjórnar skýrðist að stórum hluta af breytingum á umsýslugjaldi sem sett hefði verið inn í liðinn um yfirstjórn sem þýddi að megnið af hækkuninni rynni beint aftur í ríkissjóð. Vakti hann jafnframt athygli á því að samkvæmt frumvarpinu væri gert ráð fyrir að Vegagerðin drægi úr framkvæmdum fyrir 800 millj. kr. á árinu frá því sem vegáætlun gerir ráð fyrir, en ekki hefði verið ákveðið hvar sá niðurskurður kæmi niður.
    Flugmálastjóri kvað ekkert í frumvarpinu koma sér verulega á óvart. Lýsti hann nokkrum áhyggjum af Schengen-samstarfinu, en eins og staðan væri í dag væri ekki enn búið að koma upp nægilega góðri aðstöðu á Akureyri og Egilsstöðum og stutt væri í að samningurinn tæki gildi.
    Í máli fulltrúa Siglingastofnunar Íslands kom fram að ekki væri gert ráð fyrir hærri rekstrarframlögum til stofnunarinnar en hún hefði fengið í fjárlögum síðasta árs. Þvert á móti drægjust framlög ríkissjóðs til stofnunarinnar saman um 4,5 millj. kr. á milli ára, en á móti kæmi að gert væri ráð fyrir að sértekjur hækkuðu um sömu fjárhæð. Fulltrúar Siglingastofnunar ítrekuðu ósk sína, sem þeir höfðu áður komið á framfæri við fjárlaganefnd, um fjárveitingu til eftirtalinna þriggja verkefna, endurnýjunar á skipaskrá og lögskráningarskrá, uppbyggingar gæðakerfis fyrir skoðanir skipa og báta og rannsóknar vegna iðnaðarhafna, en ekki er gerð ráð fyrir þessum verkefnum í fjárlagafrumvarpinu.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að nauðsynlegum framkvæmdum í tengslum við Schengen- samstarfið á Akureyri og Egilsstöðum verði flýtt þannig að koma megi í veg fyrir vandræði þegar samningurinn tekur gildi 21. mars nk.
    Jón Kristjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    

Alþingi, 16. nóv. 2000.Árni Johnsen, form.


Jón Kristjánsson, með fyrirvara.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Hjálmar Árnason.


Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara.


Kristján L. Möller, með fyrirvara.


Jón Bjarnason, með fyrirvara.
Fylgiskjal XIII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október sl.
    Nefndin fékk á sinn fund Þorgeir Örlygsson, Kristmund Halldórsson og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti og skýrðu þeir þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Þorkell Helgason frá Orkustofnun, Kristján Jónsson og Eiríkur Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins og Smári Sigurðsson og Andrés Magnússon frá Iðntæknistofnun.
    Engar meiri háttar breytingar virðast gerðar í fjárlagafrumvarpinu innan þeirra stofnana sem heyra undir iðnaðarráðuneyti. Hins vegar hefur orðið grundvallarbreyting á aðalskrifstofu ráðuneytisins þar sem iðnaðarráðuneyti hefur nú tekið við byggðamálum og mikið álag er á ráðuneytinu vegna stóriðjumála, vinnslu kolvetnis, nýrra eldsneytisgjafa, yfirvofandi skipulagsbreytinga í orkumálum o.s.frv. Þrátt fyrir þetta hefur starfsmönnum ráðuneytisins ekki fjölgað. Fram kom í máli ráðuneytisstjóra að ráðuneytið ætti örðugt með að sinna með sóma þeim verkefnum sem á því hvíla. Af þessum sökum leggur meiri hlutinn til að í fjárlögum ársins 2001 verði gert ráð fyrir tveimur nýjum stöðugildum á aðalskrifstofu iðnaðarráðuneytis og því verði fjárveiting til ráðuneytisins hækkuð um 10 millj. kr.
    Meiri hlutinn telur brýnt að hraðað verði vinnu við skilgreiningu á hlutverki Orkustofnunar, ekki síst með hliðsjón af hlutverki stofnunarinnar í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum. Jafnframt þarf að skilgreina hvert stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar á að verða í framtíðinni. Þá er mikilvægt að taka húsnæðismál Orkustofnunar til úrlausnar. Meiri hlutinn ítrekar álit sitt frá síðasta ári um að mikilvægt sé að Orkustofnun geti ráðið til sín virkjanaverkfræðing og auðlindahagfræðing en álag á starfsmenn hennar hefur aukist með verkefnum sem tengjast stóriðju, virkjunum, nýju eldsneyti, kolvetni o.s.frv. Því mælir meiri hlutinn með því að fjárframlag til Orkustofnunar verði hækkað um 10 millj. kr.
    Meiri hlutinn telur árangur af starfi Impru, þjónustumiðstöðvar Iðntæknistofnunar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki, vera mjög jákvæðan. Á innan við tveimur árum hafa 11–12 fyrirtæki þróast í gegnum Impru og tekið til starfa í atvinnulífinu. Velta þessara fyrirtækja er áætluð samtals um 200 millj. kr. og starfsmenn eru um 70. Meiri hlutinn telur brýnt að Impra verði viðurkennd formlega sem sérstakur liður á fjárlögum.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að af framlögum ríkissjóðs til rannsóknar- og þróunarmála hefur hlutur iðnaðartengdra rannsókna verið mun minni en annarra starfsgreina þrátt fyrir vaxandi gildi iðnaðar- og þjónustugreina í atvinnulífinu. Meiri hlutinn varpar fram þeirri spurningu hvort tímabært sé að endurskoða rannsóknar- og þróunarfjárveitingar til einstakra ráðuneyta þannig að féð verði síður eyrnamerkt hefðbundnum atvinnugreinum en þess í stað lagt í einn almennan atvinnuvegasjóð. Þá er mikilvægt að eflt verði samstarf allra þeirra stofnana ríkisins sem sinna rannsóknum og nýsköpun á öllum sviðum.
    Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á að breyta þarf lögum og fella niður ákvæði um að niðurgreiðsla á hitun húsa skuli bundin rafhitun. Þetta fyrirkomulag hefur m.a. leitt til þess að hitun húsa með jarðhita er í raun orðin dýrari en sú niðurgreidda.
    Bryndís Hlöðversdóttir og Svanfríður Jónasdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Ísólfur Gylfi Pálmason skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hann á sæti í fjárlaganefnd.

Alþingi, 15. nóv. 2000.Hjálmar Árnason,     form.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir,     með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir, með fyrirvara.


Drífa Hjartardóttir.


Árni R. Árnason.


Ísólfur Gylfi Pálmason,     með fyrirvara.
Fylgiskjal XIV.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.    Minni hlutinn er samþykkur því sem fram kemur í áliti meiri hlutans um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2001 en vill taka eftirfarandi atriði fram:
    Vandi Rafmagnsveitna ríkisins vegna þjónustu við dreifbýlissvæði er óleystur.
    Byggðastofnun hefur litla sem enga fjármuni til að taka þátt í ýmiss konar samstarfsverkefnum.
    Í frumvarpinu er ekki tekið á vanda hitaveitna sem eiga undir högg að sækja í samkeppni við niðurgreidda raforku til húshitunar.
    Fyrirhugað er að verja miklum fjármunum í iðnaðarrannsóknir vegna stóriðju. Þessum fjármunum væri betur varið til almennra iðnaðarrannsókna.

Alþingi, 17. nóv. 2000.Árni Steinar Jóhannsson.
Fylgiskjal XV.Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 9. október 2000.
    Á fund nefndarinnar kom Þórður H. Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneyti. Þá bárust nefndinni erindi frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Umhverfissamtökum Íslands.
    Í frumvarpinu kemur fram að rekstrargjöld umhverfisráðuneytisins hækka um 124,6 millj. kr. frá fjárlögum ársins 2000. Meginskýring hækkunarinnar er 29 millj. kr. framlag til Hollustuverndar ríkisins vegna aukins rekstrarkostnaðar en umsvif stofnunarinnar hafa aukist mikið á undanförnum árum með aðild Íslands að ýmsu alþjóðastarfi og samningum. Einnig hækkar framlag til Skipulagsstofnunar um 15,4 millj. kr. vegna tilfærslu skipulagsgjalds til sveitarfélaga og kostnaðar í kjölfar setningar laga um mat á umhverfisáhrifum sem samþykkt voru á síðasta ári. Þá eru Brunamálastofnun ríkisins ætlaðar 8 millj. kr. til að efla starfsemi Brunamálaskólans. Hækkun útgjalda vegna Náttúruverndar ríkisins er að raungildi um 29 millj. kr. og munar þar mest um 19 millj. kr. fjárveitingu til lagfæringar og uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum og að útgjöld vegna Náttúrufræðistofnunar Íslands hækka að raungildi um 8,7 millj. kr.
    Nefndin fjallaði um einstaka liði frumvarpsins og ræddi auk þess sérstaklega framlag til að styrkja fráveitur sveitarfélaga en gert er ráð fyrir lækkun útgjalda frá fyrri áformum með frestun á 100 millj. kr. framlögum til fráveitna sveitarfélaganna. Meiri hlutinn telur það áhyggjuefni ef þessu brýna verkefni sveitarfélaganna verður slegið á frest. Þá komu fram þær ábendingar í nefndinni að of strangar kröfur væru gerðar til fráveitumála þeirra sveitarfélaga sem búa að óbreyttu við hagstæðar aðstæður.
    Þá urðu í umfjöllun nefndarinnar nokkrar umræður um fjölsótta ferðamannastaði. Einkum var rætt um þjóðgarðinn í Skaftafelli en hluti nefndarinnar heimsótti þjóðgarðinn nú í september. Var bent á að þjóðgarðurinn byggi nú við fjárskort en brýn þörf væri á fjármagni til að leggja göngustíga og endurbyggja húsakost og aðstöðu á svæðinu. Eins og málin stæðu hefði þjóðgarðurinn ekki fjárhagslega burði til að standa undir slíkum framkvæmdum.
    Loks telur meiri hlutinn rétt að benda á að með aukinni áherslu á umhverfismál hafa stofnanir á þessu sviði fengið vaxandi ábyrgð og aukin verkefni, m.a. vegna lögbundinnar skyldu og ákvarðana annarra ráðuneyta, og því verður að mæta.
    Hvað varðar framangreind erindi vill meiri hlutinn geta þess að nefndin hefur ekki til ráðstöfunar eiginlegan safnlið eins og flestar aðrar nefndir þingsins og vísar hann því erindunum til fjárlaganefndar með þeim tilmælum að hún taki til vandlegrar athugunar að verða við þeim.
    Ísólfur Gylfi Pálmason skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hann á sæti í fjárlaganefnd.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. nóv. 2000.Ólafur Örn Haraldsson, form.


Ásta Möller.


Gunnar Birgisson.


Ísólfur Gylfi Pálmason, með fyrirvara.


Katrín Fjeldsted.Fylgiskjal XVI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.    Minni hlutinn telur að kveða þurfi sterkar að orði en gert er í nefndaráliti meiri hlutans hvað varðar fjárveitingar til einstakra þátta og stofnana sem heyra undir umfjöllunarsvið nefndarinnar.
    Í frumvarpinu kemur fram að í spá um útgjaldaaukningu vegna umhverfisverndar á næstu fjórum árum sé gert ráð fyrir 2,5% árlegri aukningu. Það er mat minni hlutans að það nægi engan veginn í þau fjárfreku verkefni sem fram undan eru. Nægir þar að nefna að Íslendingar hafa ekki sinnt framkvæmd samnings um líffræðilegan fjölbreytileika og að fjármunir til lögbundinnar náttúruverndaráætlunar eru enn ekki til staðar svo neinu nemi. Samkvæmt áætlun frá Náttúruvernd ríkisins hefur lágmarksþörf til að koma af stað vinnu við náttúruverndaráætlun hljóðað upp á 15 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir 4 millj. kr. og á fjárlögum yfirstandandi árs eru 5 millj. kr. ætlaðar til verksins. Enn hefur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki fengið neitt fjármagn til undirbúnings náttúruverndaráætlun en þáttur stofnunarinnar í áætluninni er umtalsverður. Minni hlutinn minnir á upplýsingar sem umhverfisráðherra lagði fyrir 125. löggjafarþing þess efnis að til að mæta brýnni þörf á bættu aðgengi og viðhaldi vinsælustu ferðamannastaða Íslands þyrfti 430 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir broti af því fjármagni (t.d. 19 millj. kr. til Náttúruverndar ríkisins og 47,5 millj. kr. til Ferðamálaráðs). Innan þessarar útgjaldaukningar til umhverfisverndar rúmast ekki heldur stöðugt vaxandi hlutverk Hollustuverndar ríkisins sem er fólgið í því að framfylgja reglum þeim sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar ásamt öðrum alþjóðlegum samningum á sviði hollustuverndar og mengunarvarna.
    Þá vill minni hlutinn að veitt verði aukið fjármagn til þjóðgarðsins í Skaftafelli sem hefur þurft að búa við allt of þröngan kost allan síðasta áratug. Minni hlutinn telur einnig að gera þurfi átak í málefnum þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og minnir á að þjóðgarðar landsins eigi að vera flaggskip í ferðaþjónustu en ekki dragbítur eins og raun er orðin.
    Varðandi fjárveitingar til skipulagsmála leggur minni hlutinn áherslu á að hækkun verði á framlagi til Skipulagsstofnunar vegna vinnu við áætlanir um landnotkun á landsvísu. Fjárþörf verkefnisins er 10 millj. kr. og telur minni hlutinn brýnt að verkinu verði hraðað svo sem kostur er.
    Þá lætur minni hlutinn í ljós vonbrigði vegna áformaðrar frestunar á 100 millj. kr. framlagi til fráveitna sveitarfélaganna og lýsir þeirri skoðun sinni að sú frestun stafi einungis af fjárskorti sveitarfélaganna sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að fara í fjárfrekar framkvæmdir af þessu tagi. Þess vegna hefði að mati minni hlutans verið nauðsynlegt að taka á því máli á annan hátt en með frestun framlaga ríkisins til verkefnanna, t.d. með því að ræða mögulegar breytingar á þátttöku ríkisins í fráveituverkefnum sveitarfélaganna. Minni hlutinn telur brýnt að taka til gagngerrar skoðunar ábendingar um að of strangar kröfur séu gerðar til fráveitumála þeirra sveitarfélaga sem búa við hagstæðar aðstæður.
    Hvað varðar erindi frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Umhverfissamtökum Íslands leggur minni hlutinn áherslu á þörf frjálsra félagasamtaka fyrir stuðning úr ríkissjóði og telur að um slíkan stuðning þurfi að marka ákveðna stefnu.
    Minni hlutinn áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögur við þá liði sem hann gerir athugasemdir við í álitinu verði ekki orðið við þeim við afgreiðslu fjárlaganefndar.

Alþingi, 16. nóv. 2000.Kolbrún Halldórsdóttir.


Jóhann Ársælsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.