Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 376  —  313. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Í stað orðanna „10 árum“ í 1. mgr. 173. gr. a laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, kemur: 12 árum.

2. gr.

    Í stað orðanna „10 árum“ í 2. mgr. 264. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997, kemur: 12 árum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við refsiréttarnefnd. Með frumvarpinu er lagt til að refsimörk 173. gr. a almennra hegningarlaga verði hækkuð úr allt að 10 árum í 12 ár. Þá er og lagt til að refsimörk 264. gr. sömu laga verði til samræmis einnig hækkuð úr allt að 10 árum í allt að 12 ár.

II.

    Lög um refsinæmi fíkniefnabrota eiga rætur að rekja til ársins 1923 en þá voru fyrstu lög um það efni sett hér á landi og nefndust þau lög um tilbúning og verslun með ópíum o.fl. nr. 14/1923 en þau voru að verulegu leyti reist á Haag-samþykkt frá 23. janúar 1912 sem Ísland gerðist aðili að árið 1921. Lögunum var breytt töluvert með lögum nr. 43/1968 og lögum nr. 25/1970 en þau voru síðan endurútgefin með áorðnum breytingum sem lög nr. 77/1970. Breytingarnar miðuðu einkum að því að rýmka svigrúm dómsmálaráðherra til að mæla fyrir um hvaða efni skyldu lúta lögunum og að færa refsimörk vegna brota á lögunum í 6 ára fangelsi auk þess sem upptökuákvæði var lögfest.
    Árið 1974 voru samþykkt á Alþingi gildandi lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Einnig voru þá samþykkt lög nr. 64/1974 en með þeim var mælt fyrir um refsinæmi alvarlegra fíkniefnabrota í almennum hegningarlögum. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um ávana- og fíkniefni sagði meðal annars svo: „Er mjög tímabært að endurskoða lögin og semja ný heildarlög um þetta efni að stofni til. Jafnframt er þess að geta, að í grannlöndunum hefur verið farin sú leið að lögfesta refsiákvæði í almennum hegningarlögum um vörslu og ýmiss konar meðferð á fíkni- og ávanaefnum m.a. í því skyni að árétta, hve alvarlegum augum menn líta á þessi brot. Ráðuneytin eru þeirrar skoðunar að þessa stefnu beri einnig að taka hér á landi, og hefir verið samið sérstakt frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem stefnir að því að koma á þessari skipan.“
    Með lögum nr. 64/1974 var nýju ákvæði, 173. gr. a, bætt við almenn hegningarlög um að öll meiri háttar brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni vörðuðu við hegningarlögin. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal hver sá sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt sæta fangelsi allt að 10 árum. Í 2. mgr. segir síðan að sömu refsingu skuli sá sæta sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiði, búi til, flytji inn, flytji út, kaupi, láti af hendi, taki við eða hafi í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt sem greint er í 1. mgr.
    Með lögum nr. 10/1997 kom nýtt ákvæði í 264. gr. almennra hegningarlaga þar sem þvætti ávinnings af brotum á almennum hegningarlögum var gert að sjálfstæðu refsiverðu broti. Áður hafði slík almenn heimild ekki verið í lögum að undanskildu ákvæði 173. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 39/1993. Samkvæmt því ákvæði skyldi hver sá sem tæki við eða aflaði sér eða öðrum ávinnings af broti gegn 173. gr. a sæta fangelsi allt að 10 árum. Sömu refsingu skyldi sá sæta sem geymdi eða flytti slíkan ávinning, aðstoðaði við afhendingu hans eða stuðlaði á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíku broti. Í greinargerð með frumvarpi því sem lögfesti 173. gr. b sagði um refsimörk ákvæðisins að þar sem brot gegn ákvæðinu gætu verið jafnalvarleg og sjálft fíkniefnabrotið væri lagt til að þau vörðuðu sömu refsingu og brot gegn 173. gr. a. Við lögfestingu 264. gr. almennu hegningarlaganna var 173. gr. b felld brott þar sem verknaðarlýsing þeirrar greinar rúmaðist innan hins nýja ákvæðis. Hins vegar þótti ekki rétt að lækka refsihámark fyrir þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum frá því sem þá var og var því sérregla sett í 2. mgr. 264. gr. þar sem hámarksrefsing fyrir þau brot var áfram 10 ár.

III.

    Við lögfestingu 173. gr. a almennra hegningarlaga árið 1974 var höfð hliðsjón af norrænum lögum og þá einkum dönskum refsilögum. Rétt þykir að gera í helstu atriðum grein fyrir norrænni löggjöf á þessu sviði.
    Í 191. gr. dönsku hegningarlaganna, sem er að finna í kafla um brot sem hafa í för með sér almannahættu, er ákvæði sem er sambærilegt við 173. gr. a íslensku hegningarlaganna. Í 1. mgr. danska ákvæðisins segir að hver sá sem andstætt lögum um ávana- og fíkniefni afhendi mörgum mönnum ávana- og fíkniefni eða afhendi þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Hafi mikið magn af sérstaklega hættulegu eða skaðlegu efni verið afhent eða hafi afhending slíks efnis að öðru leyti haft í för með sér hættu geti það varðað fangelsi allt að 10 árum. Í 2. mgr. er síðan ákvæði algerlega samhljóða 2. mgr. íslenska ákvæðisins.
    Í 14. kafla norsku hegningarlaganna um brot sem hafa í för með sér almannahættu er að finna ákvæði í 162. gr. um fíkniefnabrot. Þar segir í 1. mgr. að hverjum sem ólöglega framleiði, flytji inn, flytji út, afli, varðveiti, sendi eða afhendi efni sem teljist til ávana- og fíkniefna samkvæmt lögum og reglum um ávana- og fíkniefni skuli refsað fyrir ávana- og fíkniefnabrot með sektum eða allt að 2 ára fangelsi. Í 2. mgr. segir að fyrir gróft ávana- og fíkniefnabrot skuli refsað með allt að 10 ára fangelsi og skuli við mat á því hvort brotið sé gróft sérstaklega litið til þess hvers kyns fíkniefni er um að ræða, magn þess og á hvern hátt það hafi verið afhent. Í 3. mgr. segir síðan að hafi verið um afhendingu sérlega mikils magns að ræða skuli refsing vera þriggja til 15 ára fangelsi. Séu fyrir hendi sérstaklega vítaverðar aðstæður geti refsing orðið allt að 21 árs fangelsi.
    Í sænskum lögum hefur sambærilegu ákvæði og hér um ræðir verið fundinn staður í sérstökum ávana- og fíkniefnarefsilögum nr. 1968:64. Í 1. gr. þeirra laga er varsla, afhending og hvers konar meðferð ávana- og fíkniefna, sambærileg þeirri meðferð sem lýst er í 2. mgr. íslenska ákvæðisins, lýst refsiverð og varðar brot gegn ákvæðinu allt að 3 ára fangelsi. Í 3. gr. laganna segir að sé brotið gróflega gegn 1. gr. laganna skuli refsing vera minnst 2 ára fangelsi og allt að 10 ára fangelsi. Við mat á því hvort brot teljist gróft skuli sérstaklega taka tillit til þess hvort brotið hafi verið liður í umfangsmikilli starfsemi eða atvinnustarfsemi, hvort um mikið magn af ávana- og fíkniefnum hafi verið að ræða eða hvort þau hafi verið sérstaklega hættuleg.
    Í finnskum lögum eru ákvæði um fíkniefnabrot í 50. kafla hegningarlaganna. Í Finnlandi getur gróft brot gegn ávana- og fíkniefnalögunum varðað fangelsi allt að 10 árum.

IV.

    Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna yfirlit yfir þá dóma Hæstaréttar þar sem sakfellt hefur verið fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga. Einnig er þar að finna valda héraðsdóma sem gengið hafa í umfangsmiklum fíkniefnamálum að undanförnu. Af þessari dómaframkvæmd verður ráðið að þróunin hefur ótvírætt orðið sú að þyngja verulega refsingar í alvarlegustu fíkniefnabrotum. Þetta á einkum við í málum varðandi mjög hættuleg efni eins og MDMA (ecstacy). Hér má vísa til Hrd. 1997:328 þar sem refsing fyrir innflutning á 964 töflum af þessu efni var ákveðin fangelsi í sex ár. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000 var refsing fyrir innflutning og sölu á mun meira magni fíkniefna, þar á meðal 5850 töflum af MDMA ákveðin fangelsi í 9 ár. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2000 var síðan refsing einnig ákveðin fangelsi í 9 ár fyrir vörslu og fyrirhugaða sölu á 14.292 töflum í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
    Með refsimati dómstóla hafa refsimörk 173. gr. a verið nýtt nánast að fullu í alvarlegustu fíkniefnabrotum. Af þeim sökum þykir nauðsynlegt að hækka refsimörkin svo dómstólum verði gert kleift að ákveða þyngri refsingu ef reyna mun á enn alvarlegri brot. Þótt reynt sé með öllum tiltækum ráðum að hamla gegn brotastarfsemi af þessu tagi verða refsilög að gera ráð fyrir viðhlítandi refsingum vegna alvarlegri brota en reynt hefur á hingað til. Er því lagt til að refsimörk 173. gr. a verði hækkuð. Að virtu samræmi milli refsimarka innan hegningarlaga þykir hæfilegt að refsimörk ákvæðisins verði allt að 12 ára fangelsi í stað 10 ára. Með þessari breytingu er lögð sérstök áhersla á alvarleika þessara brota og tekið undir það refsimat sem dómstólar hafa beitt. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir að hækkun á refsimörkum ein út af fyrir sig leiði almennt til þyngingar á refsingum við fíkniefnabrotum heldur er verið að skapa dómstólum frekara svigrúm við ákvörðun refsingar sem þeir meta hæfilega. Þá er lagt til að refsimörk 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga vegna þvættisbrota verði einnig 12 ára fangelsi til samræmis við hækkun refsimarka vegna fíkniefnabrota.



Fylgiskjal I.


Íslensk dómaframkvæmd.

    Hér á eftir fara reifanir á sakfellingardómum á grundvelli 173. gr. a almennra hegningarlaga frá því að ákvæðið kom inn í lögin, 1974, til 30. september 2000.

Hrd. 1982:281.
    
B hafði um tveggja ára skeið stundað innflutning á fíkniefnum og dreifingu þeirra í hagnaðarskyni. Var um mikið magn að ræða eða u.þ.b. 15,3 kg af hassi og 1g af amfetamíni. Hæstiréttur taldi brot ákærða stórfelld, þau tækju yfir alllangan tíma og lýstu einbeittum brotavilja. Væri bæði um innflutning mikils magns af hassi að ræða og í mörg skipti umfangsmikla dreifingu gegn háu fégjaldi auk þess sem B hefði sammælst við ýmsa menn um framningu brotanna. Var honum dæmd refsing 2 ára fangelsi og auk þess 30.000 kr. sekt í ríkissjóð. Einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að staðfesta bæri refsiákvörðun héraðsdóms um 3 ára fangelsisrefsingu.

Hrd. 1982:816.
    
H var gefið að sök að hafa á 5 mánaða tímabili keypt u.þ.b. 13,3 kg af hassi sem hann flutti milli landa og seldi að stórum hluta til margra manna fyrir háar fjárhæðir. Í Hæstarétti sagði: „Brot ákærða eru stórfelld. Er hér bæði um innflutning allmikils magns af hassi að ræða og umfangsmikla dreifingu gegn háu fégjaldi. Sammæltist ákærði við ýmsa menn um framningu brotanna, [...]. Hann var aðeins tvítugur að aldri, er hann framdi brotin“. Refsing þótti hæfilega ákveðin 16 mánaða fangelsi auk 20.000 kr. sektar í ríkissjóð.

Hrd. 1982:995.
    
S og R höfðu um langt skeið stundað innflutning á hassefnum til Íslands og dreifingu í hagnaðarskyni. Gerðu þeir þetta stundum saman og stundum í félagi með öðrum manni. Þetta atferli þeirra stóð í langan tíma og var um mikið magn að ræða. Hæstiréttur taldi S frumkvöðul brotanna og dæmdi hann í 14 mánaða fangelsi auk 6.500 kr. fésektar í ríkissjóð. Refsing R þótti hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi auk 5.000 kr. sektar í ríkissjóð.

Hrd. 1982:1718.
    
F var gefið að sök að hafa á 6 mánaða tímabili ýmist flutt inn eða keypt af öðrum og selt til margra manna u.þ.b. 18 kg af hassi, 6 kg af marihuana og 100 g af hassolíu. Hæstiréttur taldi brot F vera stórfelld og lýsa einbeittum brotavilja. Um innflutning mikils magns af hassi og marihuana hefði verið að ræða og í mörg skipti og umfangsmikla dreifingu gegn háu fégjaldi. Þá hefði F sammælst við ýmsa menn um framningu brotanna. Refsingin var dæmd sem hegningarauki við aðra fíkniefnadóma og var hún ákveðin fangelsi í 2 ár auk 9.000 kr. sektar í ríkissjóð.

Hrd. 1983:1997.
    
S var ákærður í 8 liðum fyrir að hafa margsinnis á 8 mánaða tímabili aflað sér fíkniefna í Hollandi og Danmörku og síðan selt efnin, að undanskilinni eigin neyslu, til margra manna gegn verulegu gjaldi og haft af því fjárhagslegan ávinning. S var sýknaður af þremur ákæruliðum en að öðru leyti var hann sakfelldur og dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði og var að auki gert að greiða 20.000 kr. sekt í ríkissjóð. Tveir dómarar skiluðu sératkvæðum varðandi refsingu S, vildi annar dæma S í tveggja ára fangelsi en hinn í þriggja ára fangelsi.

Hrd. 1983:2035.
    
E var talinn sannur að því að hafa á 9 mánaða tímabili margsinnis staðið að innflutningi á u.þ.b. 3,3 kg af hassefnum til Íslands og dreift þeim til margra manna í ávinningsskyni. Við refsiákvörðun vísaði Hæstiréttur til þess að ákærði hefði yfirleitt verið frumkvöðull brotanna og yrði það virt honum til refsiþyngingar en að ákærði hefði á hinn bógin ekki gerst brotlegur við fíkniefnalöggjöfina um nokkurt skeið og yrði það virt honum til hagsbóta. Refsing var dæmd sem hegningarauki við annan fíkniefnadóm og var E dæmdur í 9 mánaða fangelsi og 20.000 kr. sekt.

Hrd. 1987:317.
    
G var sakfelldur fyrir að hafa keypt 1600 skammta af LSD í Amsterdam og sent efnið til Íslands í bréfapósti í því skyni að selja það, ráðstafað óvissum hluta efnisins hér á landi og haft hluta þess í vörslum sínum. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að selja 10 g af amfetamíni en sú háttsemi varðaði ekki við 273. gr. a almennra hegningarlaga. Hlaut G fyrir þetta 2 ára og 6 mánaða fangelsisdóm. Í héraðsdómi hafði refsing verið talin hæfileg fangelsi í 5 ár og 25.000 kr. sekt í ríkissjóð.

Hrd. 1987:325.
    
F var sakfelldur fyrir að hafa keypt 1600 skammta af LSD í Amsterdam og sent það í bréfapósti til Íslands í því skyni að selja það. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að kaupa og senda til Íslands 73 g af amfetamíni en sú háttsemi varðaði ekki við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Hæstiréttur taldi refsingu hæfilega fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Héraðsdómur hafði talið refsingu hæfilega fangelsi í 5 ár og 50.000 kr. sekt. í ríkissjóð, en hann hafði sérstaklega vakið athygli á hinum gríðarlega miklu hættueiginleikum sem ofskynjunarlyfið LSD hefur í för með sér.

Hrd. 1987:890.
    
S, K og Á voru sakfelldir fyrir að standa sameiginlega að innflutningi á 5.143,4 g af hassi, 242,5 g af amfetamíni og 17 g af kókaíni en efnin voru að verulegum hluta ætluð til sölu hér á landi. S og K keyptu fíkniefnin í Hollandi en S fjármagnaði kaupin. Hlutverk Á var að flytja fíkniefnin til Íslands og var samkomulag um að hann fengi greitt fyrir flutninginn. Hæstiréttur dæmdi S í 2 ára fangelsi og 50.000 kr. sekt, K var dæmdur í 3 ára fangelsi og 50.000 kr. sekt en með í þeirri refsiákvörðun var refsing fyrir annað brot sem K hafði verið sakfelldur fyrir í undirrétti. Á hlaut 18 mánaða fangelsi og 50.000 kr. sekt.

Hrd. 1988:1713.
    
K og S voru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu staðið að innflutningi á samtals 13,6 kg af hassi í ágóðaskyni. K var einnig talinn sannur að því að hafa á árinu 1986 staðið að smygli á 777 g af hassi og á árinu 1985 sex sinnum haft í fórum sínum og staðið að sölu á hassi, kókaíni, blöndu af amfetamíni og kókaíni og kannabisefni en sú háttsemi varðaði ekki við 173. gr. a almennra hegningarlaga. K var dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði og 120.000 kr. sekt (vararefsing 50 daga fangelsi). S var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og 50.000 kr. sekt (vararefsing 20 daga fangelsi).

Hrd. 1991:522.
    
Ó var sakfelldur fyrir að hafa verið frumkvöðull í skipulagningu innflutnings og dreifingar á tæplega 1 kg af kókaíni á árinu 1988. Í Hæstarétti sagði: „Við ákvörðun refsingar ber að hafa það í huga að ákærði hefur ekki áður komið við sögu fíkniefnamála eða orðið brotlegur við almenn hegningarlög. Brotið var framið í hagnaðarskyni og af einbeittum vilja, og um var að ræða mikið magn af hættulegu fíkniefni. Brotið var skipulagt með ærinni fyrirhöfn, en hagnaður af því varð minni en vonir þátttakenda stóðu til. Enda þótt brotið yrði fyrst uppvíst eftir alllangan tíma, var það minna en helmingur efnisins, sem þeir höfðu þá náð að dreifa.“ Var Ó dæmdur í fangelsi í 4 ár og til að greiða 150.000 kr. í sekt til ríkissjóðs (vararefsing 50 daga fangelsi). Í héraði hafði Ó hlotið fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.

Hrd. 1993:739.
    
H og S voru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu staðið að því á tveggja ára tímabili að flytja til landsins 65,5 kg af hassi í ágóðaskyni. Refsing hvors um sig var hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og 500.000 króna sekt í ríkissjóð (vararefsing 90 dagar). Þótti verka til refsiþyngingar að ákærðu voru báðir fulltíða menn og stóðu saman að því að flytja inn og koma í sölu mjög miklu magni fíkniefna í von um stórfelldan hagnað. Þá var aðferð sú sem ákærðu beittu við brot sín ekki tekin með skyndiákvörðun heldur þrauthugsuð og fjárhagslegur hagnaður af brotum þeirra talinn verulegur.

Hrd. 1993:1081.
    
S var sakfelldur fyrir stórfellt brot á löggjöf um ávana- og fíkniefni, ofsaakstur og líkamsárás. Hvað varðaði fíkniefnaþáttinn var hann sakfelldur fyrir að hafa flutt hingað til lands frá Kaupmannahöfn 1.201 g af kókaíni sem hann hugðist síðar selja. Refsing ákærða þótti hæfilega ákvörðuð fangelsi 7 ár.

Hrd. 1997:328.
    
L var ákærður fyrir að hafa flutt með sér hingað til lands í hagnaðarskyni samtals 964 töflur með vímuefninu MDMA og 58,1 g af kókaíni, sem hvort tveggja þótti hafa verið ætlað til sölu hér á landi. Um heimfærslu háttseminnar til refsiákvæða taldi Hæstiréttur bæði kókaín og MDMA hættuleg fíkniefni og tíundaði sérstaklega hættueiginleika vímuefnisins MDMA og féllst á þá niðurstöðu héraðsdóms að atferli ákærða varðaði við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að með atferli sínu stefndi ákærði að því að koma í dreifingu hér á landi miklu magni hættulegra vímuefna og að aðferðin við innflutning efnanna bar vott um þaulskipulagt brot. Að því virtu og með hliðsjón einkum af 1., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga var ákvörðun héraðsdóms um 6 ára fangelsi staðfest.

Hrd. 1997:337.
    
J var sakfelldur fyrir að hafa flutt inn til landsins 955 g af amfetamíni sem hann hugðist selja hér á landi í ágóðaskyni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að J hafði áður verið dæmdur fyrir kaup og innflutning á fíkniefnum sem hann hugðist selja í ágóðaskyni auk þess sem hann hafði í þrjú skipti önnur sætt refsingu fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Var refsing ákveðin fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.

Hrd. 1997:1354.
    
KJS og TKÓ voru sakfelldir fyrir stórfelld brot á fíkniefnalöggjöfinni. KJS var sakfelldur fyrir að hafa keypt 250 töflur af vímuefninu MDMA fyrir aðra ákærðu og afhent þeim. TKÓ var sakfelldur fyrir að hafa flutt hingað til landsins 250 töflur af vímuefninu MDMA í hagnaðarskyni og fyrir að selja hluta af þeim. Við ákvörðun refsingar var sérstaklega vikið að hættueiginleikum vímuefnisins MDMA og var refsing TKÓ ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði en refsing KJS var, eins og þátttöku hans í heildarverknaðinum var háttað, ákveðin 18 mánaða fangelsi.

Hrd. 1998:1162.
    
X, Y, P og G var gefið að sök að hafa staðið saman að kaupum og innflutningi á 783 töflum með vímuefninu MDMA í hagnaðarskyni. Héraðsdómur sakfelldi þá fyrir háttsemina og taldi að við refsiákvörðun yrði að líta til þess að ákærðu fluttu til landsins mikið magn af mjög hættulegu fíkniefni sem ætlað var til sölu og að brot þeirra var vel skipulagt og verknaðurinn unninn af þeim í félagi. Rétt þótti þó við ákvörðun refsingar X og Y að taka tillit til þess að þeir játuðu brot sín greiðlega og áttu þannig þátt í að málið upplýstist en þó bar að líta til þess að X var aðalskipuleggjandi innflutningsins. Refsing X var ákveðin fangelsi í 3 ár og 6 mánuði en refsing Y fangelsi í 3 ár. Hvað varðaði B, þá bar að líta til þess að hann lagði til fjármagnið og var refsing hans ákvörðuð fangelsi í 4 ár. Við ákvörðun refsingar G var litið til þess að hann var starfsmaður í póstþjónustunni og þannig í lykilaðstöðu til að ráðagerðir hinna næðu fram að ganga og var refsing hans ákvörðuð 4 ára fangelsi. P og G áfrýjuðu dóminum til Hæstaréttar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms hvað varðaði þátt P en þáttur G í brotunum var talinn nokkru minni en annarra ákærðu og refsing því ákvörðuð fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Hrd. 1998:2727.
    
Á, E, J og S voru ákærðir fyrir að hafa í hagnaðarskyni staðið saman að skipulagningu og innflutningi á 1.100 töflum af MDMA og 396 skömmtum af LSD. Í héraðsdómi hlaut Á, sem hafði þónokkurn brotaferil en ekki verið refsað fyrir fíkniefnabrot áður, 5 ára og 6 mánaða fangelsi. E, sem einnig átti nokkurn brotaferil að baki og hafði m.a. verið sektaður einu sinni fyrir fíknilagabrot hlaut fangelsi í 4 ár og 6 mánuði en tekið hafði verið tillit til þess að hann gekkst greiðlega við broti sínu og greiddi fyrir að málið upplýstist. J sem hafði hreinan sakaferil hlaut 4 ára fangelsi. S sem ekki hafði sakaferil sem talinn var skipta máli hlaut 5 ára fangelsisdóm. Tekið var tillit til þess að hann greiddi fyrir að málið upplýstist. Á og E áfrýjuðu dóminum til Hæstaréttar þar sem dómur héraðsdóms var staðfestur.

Hrd. 1998:3152.
    Ákærði, A, var fundinn sekur um að hafa í ágóðaskyni flutt til landsins 901 töflu af vímuefninu MDMA, 376,4 g af amfetamíni og 85,1 g af kókaíni. Við ákvörðun refsingar ákærða var litið til þess mikla magns hættulegra efna sem hann flutti til landsins í ágóðaskyni og að hann hafði áður hlotið dóm fyrir stórfelldan innflutning fíkniefna. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 5 ár og 6 mánuði.

Hrd. 1999:2271.
    K var ákærður fyrir að hafa flutt hingað til lands frá Alicante 2.031 töflu af MDMA sem honum var ljóst að voru að verulegu leyti ætlaðar til sölu hér á landi. Í héraðsdómi sagði: „Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert athæfi. Við ákvörðun refsingar hans ber að hafa hliðsjón af því að með brotinu var að því stefnt að koma í dreifingu hér miklu magni af hættulegu vímuefni. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár.“ Hæstiréttur vísaði málinu frá vegna annmarka á héraðsdómi og lagði því ekki efnisdóm á málið.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000 í málinu nr. 774/2000.
    
Í málinu sem ákæruvaldið höfðaði gegn 19 einstaklingum fyrir innflutning og sölu á ávana- og fíkniefnum hlutu 3 þeirra, þeir Ó, S, og J, þyngri refsingu en 5 ára fangelsi. Ó sem hafði tvisvar sinnum áður hlotið viðurlagaákvörðun fyrir fíkniefnabrot var sakfelldur fyrir að hafa flutt til landsins samtals 42 kg af hassi, 2 kg af marihuana, 6 kg af kannabis, 1,3 kg af kókaíni, 4,4 kg af amfetamíni og 5.850 töflur af MDMA og fyrir að hafa selt hluta af fíkniefnunum. Héraðsdómur taldi brotin stórfelld og að þau vörðuðu meðal annars innflutning á fíkniefnum með mikla hættueiginleika. Þá var metið til refsiþyngingar að Ó hafði framið brotin í samvinnu við aðra. Var refsing ákvörðuð hæfileg fangelsi í 9 ár. S sem hafði gengist undir 3 lögreglustjórasáttir og 4 dómsáttir fyrir umferðar- og fíkniefnabrot og hlotið 4 refsidóma fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot var sakfelldur fyrir að hafa flutt til landsins 40 kg af hassi, 2 kg af marihuana, 1 kg af kókaíni og 1,4 kg af amfetamíni og fyrir að hafa selt hluta þessara efna. Héraðsdómur taldi brot S stórfelld og þaulskipulögð og að þau hefðu meðal annars varðað innflutning á fíkniefnum með mikla hættueiginleika. Þau hefðu verið unnin í samvinnu við aðra og horfði það til refsiþyngingar. Refsing var ákvörðuð hæfileg fangelsi í 7 ár og 6 mánuði. J sem hafði gengist undir nokkrar sáttir fyrir umferðarlagabrot og hlotið 2 ára fangelsisdóm fyrir fíkniefnabrot var sakfelldur fyrir að hafa flutt inn 40 kg af hassi, 2 kg af marihuana, 1 kg af kókaíni og 1,4 kg af amfetamíni og selt hluta af fíkniefnunum. Héraðsdómur taldi brotin stórfelld og horfði til refsiþyngingar að þau voru framin í samvinnu við aðra. Refsing J þótti hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 ár og 6 mánuði.
     S og J áfrýjuðu dómi þessum til Hæstaréttar.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2000 í málinu nr. 866/2000.
    GIÞ var sakfelldur fyrir innflutning í ágóðaskyni á 3.850 MDMA-töflum og að hafa átt þátt í sölu/dreifingu á um 1.000 taflna. Hlaut hann fangelsi í 7 ár og sekt kr. 3 milljónir.
     IÞA og SIB voru sakfelldir fyrir að hafa í ágóðaskyni staðið að innflutningi ásamt G á 1.850 töflum af áðurnefndum 3.850 töflum og að hafa selt/dreift megninu af þeim töflum. Voru þeir dæmdir til 5 ára fangelsisrefsingar og 1 milljónar kr. sektar hvor.
    MÞE var sakfelldur fyrir að hafa átt þátt í innflutningnum með því að leggja 100.000 kr. til kaupanna og fyrir sölu á 60 töflum. Var hann dæmdur í fangelsi í 12 mánuði skilorðsbundið. Sekt 150.000 kr.
    MÍH var sakfelldur fyrir að liðsinna SIB við innflutninginn með því að kaupa fyrir hann gjaldeyri o.fl. Hlaut hann fangelsi í 12 mánuði skilorðsbundið.
    JÁG var sakfelldur fyrir afhendingu og sölu á um 1.600 töflum, auk þess að aðstoða við móttöku efnisins og skiptingu. Var hann dæmdur í fangelsi í 4 ár og dæmdur til að greiða kr. 1 milljón í sekt.
    ÞJ var sakfelldur fyrir sölu og dreifingu um 1.500 taflna. Hlaut hann fangelsi í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2000 í málinu nr. S 1900/2000.
    F var sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum falið innanklæða samtals 14.292 töflur og 22,49 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, sem hann hugðist selja í Bandaríkjum Norður-Ameríku í ágóðaskyni. F hafði ekki áður sætt refsingum sem dómurinn taldi skipta máli. Við ákvörðun refsingar var litið til þess mikla magns hættulegra fíkniefna sem hann hafði í vörslum sínum. Refsing þótti hæfilega ákveðin 9 ára fangelsi.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/1940,
almennum hegningarlögum.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á refsimörkum vegna fíkniefnabrota samkvæmt almennum hegningarlögum. Ekki er talið að frumvarpið hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.