Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 388  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2001.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2001 kemur nú til umræðu. Endurskoðuð tekjuáætlun og lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir og niðurstaða liggur ekki fyrir um mörg mikilvæg málefni, svo sem fjárþörf heilbrigðisgeirans, málefni Byggðastofnunar og Ríkisútvarpsins, svo að eitthvað sé nefnt. Þá er enn beðið eftir svari menntamálaráðuneytisins við aukinni fjárþörf framhaldsskólanna. Þess vegna má telja fullvíst að gjaldahlið frumvarpsins muni taka nokkrum breytingum við 3. umræðu.
    Þetta fjárlagafrumvarp er nú tekið til 2. umræðu við miklar óvissuaðstæður. Viðskiptahallinn stefnir í 60 milljarða kr. á þessu ári. Gengi krónunnar er fallandi og hefur þurft að verja háum fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum henni til varnar. Það er einnig dálítið ankannalegt að þrátt fyrir yfirlýsingar um góðæri og rekstrarfgang ríkissjóðs er gjaldeyrisstaðan svo þröng að ríkissjóði er ókleift að greiða niður erlend lán. Tekjur ríkisins eru enn fremur að miklu leyti tengdar sköttum á innflutning og veltu í þjóðfélaginu. Áætlanir um tekjur og gjöld eru því í mikilli óvissu ef samdráttur verður í innflutningi eða hagvöxtur verður með minna móti eins og haustspá þjóðhagsstofnunar gerði ráð fyrir. Kjaradeila framhaldskólakennara er í hnút og mörg stéttarfélög eru með lausa samninga og því ríkir einnig mikil óvissa á almennum vinnumarkaði.

Störf fjárlaganefndar.
    Frá því síðla í september hafa fulltrúar sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og einstaklingar komið til fundar við nefndina. Þeir hafa borið fram erindi sín, greint frá áherslum, veitt upplýsingar og lagt fram beiðnir um framlög. Fulltrúarnir hafa lagt á sig mikla vinnu, oft komið um langan veg og lagt fram vönduð og greinargóð erindi. Slíkar heimsóknir eru afar þýðingarmiklar fyrir fjárlagavinnuna og tengsl Alþingis við þjóðina. Því er mikilvægt að halda þessum dyrum opnum og bjóða upp á þessi samskipti við fólkið í landinu. Að mati 2. minni hluta er varhugavert ef einstök ráðuneyti letja forstöðumenn sína og ábyrgðaraðila til þess að koma fyrir nefndina og kynna vinnu og þarfir stofnana sinna. Stofnanir bera margs konar samfélagsskyldur en eru ekki bara bókhaldstofur fyrir einstakar rekstrareiningar ráðuneyta. 2. minni hluti veit engin dæmi til þess að nefndin hafi hafnað viðtali. Það er mun frekar að hún hafi átt frumkvæði að því að kalla fulltrúa ýmissa stofnana fyrir sig.
    Ríkisendurskoðun gerir nú reglulega úttekt á frammistöðu framkvæmdarvaldsins, ráðstöfun fjár og hvernig opinberir aðilar rækja skyldur sínar. Mikilvægt er að fjárlaganefnd taki skýrslur og álit Ríkisendurskoðunar fljótt og örugglega til umræðu og hafi þær til ályktunar eða hliðsjónar í sínum gerðum. Þetta er samróma álit nefndarinnar og leggur 2. minni hluti áherslu á að því verði fylgt af einurð.
    Annar minni hluti leggur áherslu á skyldur nefndarinnar við Alþingi og ótvírætt sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikilvægi þessa ber sérstaklega að árétta þegar meiri hlutinn að baki ríkisstjórninni er mjög stór, eins og nú er raunin. En almennt má segja að það ríki kerfislægur þrýstingur af hálfu framkvæmdarvaldsins í þá átt að segja löggjafanum fyrir verkum. Lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, sem kveða á um meðferð ríkisfjármuna, fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga ýta undir þessa tilhneigingu.
    Um framkvæmd fjárlaga segir í 30. gr.: „Einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneytið heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu á fjárlögum. Með rekstrarverkefni er átt við afmarkaða rekstrarþætti eða rekstur ríkisstofnunar í heild sinni vegna viðfangsefna eða þjónustu sem ýmist er kveðið á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt.“
    Þessi ákvæði eru tilgreind hér sérstaklega því þarna er að finna smugur fyrir framkvæmdarvaldið til að ákveða fjárframlög til stórra og lítilla málaflokka og viðfangsefna án þess að Alþingi fái miklu ráðið. Í skjóli þessa ákvæðis er samið um víðfeðm verkefni, t.d. við hin svokölluðu reynslusveitarfélög og við Háskóla Íslands, samið um framlög til framhaldsskóla, svo að dæmi séu nefnd. Þarna falla einnig undir ýmsir safnliðir ráðuneytanna og óskipt fé ráðherra. Ef svo fer fram sem verið hefur nú síðustu ár er stutt í það að meginþorri útgjalda einstakra ráðuneyta renni til þeirra sem ein heildarupphæð, óskipt. Síðan mun framkvæmdarvaldið tilkynna að gerðir hafi verið hinir og þessir þjónustusamningar, eða árangursstjórnunarsamningar, þar sem útgjaldaskipting hefur verið gerð á grundvelli þessara eða hinna reiknilíkana sem ráðuneytin hafa unnið. Skipting fjár á einstaka rekstrarliði og viðfangsefni verða því komin úr höndum löggjafans og til framkvæmdarvaldsins sem mun eðli sínu samkvæmt vera upptekið af hinni bókhaldslegu hlið viðfangsefna.
    Annar minni hluti telur að fyrrgreind ákvæði fjárreiðulaganna séu túlkuð allt of rúmt af framkvæmdarvaldinu. Það getur ekki hafa verið ætlun löggjafans að meginþorri útgjalda ríkisins sé bundinn með þessum hætti, því að þannig er gengið á móti góðum og gegnum lýðræðislegum gildum sem við byggjum okkar stjórnskipan á. Við þessa ráðstöfun verður viðbragðsgeta framkvæmdarvaldsins gagnvart pólitískum vilja og ákvörðunum Alþingis takmörkuð og það geta hindrað nauðsynlega endurskipulagningu og nýsköpun sem Alþingi vill ná fram.
    Alþingi liggur nú undir gagnrýni fyrir það að vera í of ríkum mæli afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Þess vegna er afar mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart öllum misfellum sem geta verið túlkaðar í þessa veru.

Lokaorð.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilja aðra forgangsröðun í útgjöldum ríkisins en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Fjárlögum ríkisins á að beita til þess að auka jöfnuð í samfélaginu þannig að enginn þurfi líða vegna aldurs, fötlunar eða búsetu. Vinstri hreyfingin grænt framboð leggur enn fremur til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna. Jafnframt að stefna í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og tekið verði upp grænt bókahald þegar meta skal arðsemi í atvinnurekstri og við ákvörðun framkvæmda.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar munu því flytja breytingartillögur við frumvarpið sem taka mið af þessum áherslum flokksins.
    Afgreiðsla stórra málaflokka, svo sem heilbigðisstofnana, byggðamála, fjarkennslu, fjarvinnslu og ýmissa liða menntamála, bíður 3. umræðu frumvarpsins. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu flytja breytingartillögur við þá málaflokka eftir því sem tilefni gefur þegar tillögur meiri hlutans eru komnar fram.
    Breytingartillögur við tekjuhlið fjárlagfrumvarpsins munu hins vegar bíða 3. umræðu eða þar til endurskoðuð þjóðhagsáætlun liggur fyrir og stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram endurskoðaðar tekjutillögur fyrir árið 2001.

Alþingi, 30. nóv. 2000.



Jón Bjarnason.