Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 425  —  80. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um dómtúlka og skjalaþýðendur.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá dómstólaráði, Lögmannafélagi Íslands, Félagi löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda og Íslenskri málnefnd.
    Með frumvarpinu er lögð til heildarendurskoðun á gildandi lögum um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalþýðendur, nr. 32/1914. Frumvarpið felur í sér nokkuð ítarlegri ákvæði en gildandi lög gera ráð fyrir. Frumvarp sama efnis var til umfjöllunar hjá nefndinni á 125. löggjafarþingi en var ekki afgreitt og var ein ástæðan sú að nefndin taldi ákvæði sem fjölluðu um hæfisskilyrði umsækjenda um löggildingu of ströng. Er það nú til umfjöllunar á ný í breyttri mynd að því er þau ákvæði varðar.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um ákvæði frumvarpsins sem snýr að gjaldtöku fyrir að þreyta prófraun sem umsækjendur um löggildingu sem dómtúlkar eða skjalaþýðendur þurfa að gangast undir og kallaði jafnframt eftir upplýsingum um kostnað við próf sem haldin hafa verið. Í kostnaðaráætlun fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að kostnaður við árlegar prófanir umsækjenda geti numið um 1 millj. kr. Í upplýsingum þeim sem nefndinni bárust frá dómsmálaráðuneyti kom fram að undanfarin 20 ár hefðu verið haldin nokkuð reglulega á tveggja ára fresti próf fyrir þá sem vildu öðlast réttindin. Heildarkostnaður við prófin hefði verið á bilinu 950.000 – 1.250.000 kr. og mun hann fyrst og fremst hafa falist í vinnu prófdómenda og prófstjórnar, svo og vinnu við að undirbúa prófið og halda það. Jafnframt kom fram að miðað við kostnað undanfarinna þriggja prófa (árin 1993, 1995 og 1997) megi ætla að kostnaður hvers próftaka verði um 50.000 kr. Nefndin minnir á að prófgjöldin eru þjónustugjöld og því óheimilt að innheimta hærra gjald en nemur raunverulegum kostnaði við prófin.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Leggur nefndin til að skyldu dómsmálaráðherra skv. 5. gr. til að fella löggildingu úr gildi ef viðkomandi fullnægir ekki lengur hæfisskilyrðum a-liðar 1. mgr. 2. gr. verði breytt í heimild. Vegna athugasemda sem nefndinni bárust vill nefndin leggja áherslu á að ef til niðurfellingar löggildingar kemur gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru orðalagsbreytingar.     Hjálmar Jónsson, Jónína Bjartmarz og Sverrir Hermannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. nóv. 2000.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Katrín Fjeldsted.


Lúðvík Bergvinsson.


Ólafur Örn Haraldsson.