Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 433  —  333. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Skilgreining á tollyfirvaldi orðast svo: Tollstjórar.
     b.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í skilgreiningu á hugtakinu „Rammaskeyti“ kemur: ráðherra.
     c.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í skilgreiningu á hugtakinu „Gagnaflutningsnet“ kemur: ráðherra.
     d.      Hugtakið „Tölvukerfi ríkistollstjóra“ verður: Tölvukerfi tollyfirvalda.

2. gr.

    Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: tollstjórum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. kemur: tollyfirvalda.
     b.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 4. mgr. kemur: ráðherra.
     c.      Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 5. mgr. kemur: Ráðherra.
     d.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 5. mgr. kemur: tollyfirvalda.
     e.      Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 11. mgr. kemur: Ráðherra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 1. mgr. kemur: Ráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.
     c.      Í stað orðsins „ríkistollstjóri“ í 3. mgr. kemur: ráðherra.

5. gr.

    Í stað 2.–4. mgr. 28. gr. laganna koma fjórar málsgreinar svohljóðandi:
    Ráðherra ákveður með reglugerð hvar tollhafnir skuli vera, að fengnum tillögum viðkomandi tollstjóra, enda sé fullnægt skilyrðum 64. gr. laganna.
    Við ráðstöfun á hafnarsvæðum, hafnarlóðum og öðrum svæðum, sem ætluð eru til uppskipunar eða geymslu á ótollafgreiddum vörum, skulu sveitar- og hafnarstjórnir hafa samráð við viðkomandi tollstjóra.
    Séu skilyrði til tolleftirlits og vörslu á vörum í aðaltollhöfn eða tollhöfn ófullnægjandi getur ráðherra afturkallað tollhafnarréttindi að fenginni umsögn viðkomandi tollstjóra og tollstjórans í Reykjavík.
    Tollstjórinn í Reykjavík skal annast úttektir á aðaltollhöfnum og tollhöfnum í umboði ráðherra. Tollstjórinn í Reykjavík skal hafa samráð við viðkomandi tollstjóra við úttekt á aðaltollhöfnum og tollhöfnum.

6. gr.

    Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 1. mgr. 29. gr. laganna kemur: tollstjóranum í Reykjavík.

7. gr.

    30.–37. gr. laganna, ásamt fyrirsögnum, orðast svo:

Yfirstjórn tollamála.

    a.     (30. gr.)
    Ráðherra er æðsti yfirmaður tollamála samkvæmt lögum þessum og hefur eftirlit með því að tollstjórar og ríkistollanefnd ræki skyldur sínar. Hann hefur rétt til að athuga aðflutnings- og útflutningsskýrslur og öll gögn varðandi þær og krefja framangreinda aðila skýringa á öllu því er varðar framkvæmd laga þessara. Sama skal gilda um framtöl og gögn varðandi þau sem um ræðir í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og lögum um virðisaukaskatt og talin eru varða tollamál sem tekið hefur verið til athugunar.

Tollstjórar.

    b.     (31. gr.)
    Tollstjórar eru tollstjórinn í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur og sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. lög nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, með síðari breytingum.
    Ráðherra skipar tollstjórann í Reykjavík til fimm ára í senn og skal hann fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti, sbr. lög nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, með síðari breytingum.
    Tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, annast álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Þeir annast jafnframt hver í sínu tollumdæmi eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu, svo og flutningi á ótollafgreiddum varningi innan lands, auk annars eftirlits lögum samkvæmt.
    Ráðherra skipar aðaldeildarstjóra og deildarstjóra til fimm ára í senn. Tollstjóri skipar aðra tollverði og ræður aðra starfsmenn við embætti sitt, sbr. 39. gr. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsheiti tollvarða.

    c.     (32. gr.)
    Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra geta ákveðið að þar sem henta þykir skuli lögreglumenn annast tolleftirlit jafnframt öðrum löggæslustörfum.
    Fela má starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands að annast tolleftirlit.
    Þegar lögreglumönnum, starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum er falið að vinna tollgæslustörf, án þess að þeir hafi tollgæslu að aðalstarfi, hafa þeir sömu heimildir til starfa og gegna sömu starfsskyldum og tollverðir.
    Tollstjórar geta falið tollvörðum að gegna almennum löggæslustörfum, hverjum í sínu tollumdæmi.

Eftirlit og samræming.

    d.     (33. gr.)
    Ráðherra hefur eftirlit með því að tollframkvæmdin sé í samræmi við lög, reglur og önnur fyrirmæli varðandi tollamálefni og alþjóðasamninga um þau efni sem Ísland er aðili að. Hann getur kannað tollskjöl aðila og hvert það atriði er varðar framkvæmd laga þessara og annarra laga um tolla og aðra skatta eða gjöld sem lögð eru á af tollstjórum eða umboðsmönnum þeirra. Getur hann í því skyni krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá tollstjórum, umboðsmönnum þeirra og öðrum þeim sem fram koma gagnvart tollstjórum vegna tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum, svo og þeim sem um ræðir í 24. og 122. gr.
    Tollstjórinn í Reykjavík skal í umboði ráðherra annast samræmingu tollframkvæmdar og eftirlits- og rannsóknarstarfa á tollsvæði íslenska ríkisins. Hann getur, að eigin frumkvæði eða samkvæmt kæru, hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar innflutning, umflutning og útflutning á vörum til og frá landinu og ferðir og flutning fara og fólks til og frá landinu, svo og flutning á ótollafgreiddum varningi innan lands samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagafyrirmælum. Aðrir tollstjórar skulu veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd starfanna.
    Ráðherra annast framkvæmd og samskipti við erlend tollyfirvöld samkvæmt þeim milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og lúta að framkvæmd tollamála, nema annað sé þar ákveðið eða ráðherra ákveði annað.

    e.     (34. gr.)
    Ráðherra setur, að fengnum tillögum tollstjórans í Reykjavík, reglur varðandi tollframkvæmd sem gilda skulu um starfsemi tollstjóra og umboðsmanna þeirra.
    Tollstjóranum í Reykjavík ber að veita tollstjórum og umboðsmönnum þeirra leiðbeiningar um tollframkvæmdina og kynna þeim dóma, úrskurði og aðrar ákvarðanir sem þýðingu kunna að hafa fyrir störf þeirra. Hann skal einnig gefa út leiðbeiningar, úrskurði og önnur gögn sem hann metur að rétt sé að kynna fyrirtækjum og almenningi.

    f.     (35. gr.)
    Við embætti tollstjórans í Reykjavík skal vera tollskóli er veiti tollstarfsmönnum fræðslu í tollamálum. Gera má það að skilyrði fyrir ráðningu í fasta stöðu að viðkomandi hafi lokið prófi frá skólanum. Ráðherra setur nánari reglur um nám við skólann. Ráðherra er heimilt að ákveða að innheimt skuli gjald vegna kostnaðar sem hlýst af námskeiðshaldi við skólann fyrir aðra en tollstarfsmenn.

    g.     (36. gr.)
    Tollstjórinn í Reykjavík skal sjá um þróun og rekstur þess tölvu- og upplýsingakerfis sem notað er af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Hann skal setja innflytjendum, útflytjendum, farmflytjendum og öðrum, sem senda tollyfirvöldum upplýsingar vegna tollafgreiðslu um gagnaflutningsnet, samskiptareglur.
    Ráðherra ákveður form tollskjala og eyðublaða sem notuð eru við tollframkvæmdina og hvaða atriði skuli tilgreina þar.

    h.     (37. gr.)
    Telji tollstjórinn í Reykjavík rétt að ákvörðun um atriði sem lúta að framkvæmd laga þessara eða annarra laga um tollamál, m.a. ákvörðun um gjöld og skatta sem tollstjórar leggja á og innheimta, sé endurskoðuð getur hann skriflega og með rökstuddum hætti mælt fyrir um að málið skuli tekið upp að nýju, enda séu skilyrði 98. og 99. gr. uppfyllt ef um hækkun gjalda er að ræða.
    Ákvæði 1. mgr. taka ekki til úrskurðar og ákvörðunar tollstjóra skv. 100. og 142. gr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      Orðin „og ríkistollstjóri“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „og ríkistollstjóra“ í 2. mgr. falla brott.

9. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla orðast svo: Tollsvæði, tollumdæmi, tollhafnir, tollstjórar o.fl.

10. gr.

    Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 4. mgr. 46. gr. laganna kemur: Ráðherra.

11. gr.

    Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. mgr. 47. gr. laganna kemur: Ráðherra.

12. gr.

    1. mgr. 50. gr. laganna orðast svo:
    Tollstjórar annast rannsókn brota á lögum þessum að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu. Skulu þeir, hvenær sem þess er þörf, hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um refsivert brot. Hafi tollstjóri utan embættis tollstjórans í Reykjavík grun um að stórfelld tollsvik hafi verið framin skal hann þegar tilkynna það til tollstjórans í Reykjavík. Um rannsókn skulu að öðru leyti gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála.

13. gr.

    Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 53. gr. laganna kemur: Ráðherra.

14. gr.

    Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 70. gr. laganna kemur: Ráðherra.

15. gr.

    Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 3. mgr. 100. gr. laganna kemur: ráðherra.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Innflytjandi getur skotið úrskurði tollstjóra um endurákvörðun skv. 99. gr., úrskurði tollstjóra skv. 100. gr., þó ekki úrskurði sem kæranlegur er til ráðherra skv. 102. gr., og ákvörðun tollstjóra skv. 142. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga, talið frá póstlagningu úrskurðar eða ákvörðunar.
     b.      Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.
     c.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 4. mgr. kemur: tollstjóranum í Reykjavík.
     d.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 11. mgr. kemur: ráðherra.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Heimilt er að skjóta úrskurðum tollstjóra, öðrum en þeim sem sæta kæru til ríkistollanefndar, til ráðherra innan 60 daga frá uppkvaðningu úrskurðar.
     b.      Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ 2. og 3. mgr. kemur: Ráðherra.
     c.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ 2. mgr. kemur: ráðherra.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Kærur til ráðherra.

18. gr.

    Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 4. mgr. 142. gr. laganna kemur: tollstjóranum í Reykjavík.

19. gr.

    Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 146. gr. laganna kemur: Ráðherra.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ríkistollstjóri“ í 2. mgr. kemur: tollstjórinn í Reykjavík.
     b.      Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. kemur: fjármálaráðherra.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum.
22. gr.

    Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.
23. gr.

    8. tölul. 22. gr. laganna orðast svo: Tollstjórinn í Reykjavík og tollverðir.

VI. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.
24. gr.

    4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.

VII. KAFLI
Starfsmenn, gildistaka o.fl.
25. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður embætti ríkistollstjóra lagt niður og skulu starfsmönnum embættisins boðin störf hjá þeim tollyfirvöldum sem taka við verkefnum ríkistollstjóra, eftir því sem tök eru á. Um réttarstöðu starfsmanna embættisins fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

26. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001. Eftir gildistöku breytinga samkvæmt lögum þessum á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, skal fella meginmál breytinganna inn í þau lög, ásamt síðari breytingum, og gefa lögin út svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fjármálaráðherra og tollstjórinn í Reykjavík taka við almennum réttindum og skyldum embættis ríkistollstjóra og við samningum við þriðja aðila eftir því sem við getur átt samkvæmt ákvæðum laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á yfirstjórn tollkerfisins. Megininntak breytingarinnar er að embætti ríkistollstjóra er lagt niður og verkefni þess falin fjármálaráðherra og tollstjóranum í Reykjavík.

Skipulag tollkerfisins.
    Samkvæmt tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, er landinu skipt upp í 27 tollumdæmi og fer tollstjóri með stjórn hvers tollumdæmis. Sýslumenn eru tollstjórar hver í sínu umdæmi nema í Reykjavík þar sem er sérstakur tollstjóri. Tollstjórar annast tollheimtu og tolleftirlit hver í sínu umdæmi. Þeir sjá um álagningu og innheimtu hvers konar tolla, skatta og gjalda sem lögð eru á og innheimt af innfluttum vörum, þ.m.t. virðisaukaskatts. Þeir fylgjast einnig með framkvæmd tollalaga og tollgæslu, jafnframt því að veita einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu og upplýsingar.
    Samkvæmt tollalögum er fjármálaráðherra æðsti yfirmaður tollamála og hefur eftirlit með því að ríkistollstjóri, ríkistollanefnd og tollstjórar ræki skyldur sínar. Ríkistollstjóri fer hins vegar, í umboði ráðherra, með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits hvarvetna á tollsvæði ríkisins. Embætti ríkistollstjóra er miðlægt stjórnsýsluembætti sem sinnir eftirlits- og samræmingarhlutverki. Einkum er fjallað um hlutverk þess í 31.–35. gr. tollalaga.     Meginviðfangsefni embættisins eru eftirfarandi:
.      Yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits hvarvetna á tollsvæði ríkisins.
.      Eftirlit með störfum tollstjóra.
.      Framkvæmd milliríkjasamninga og erlend samskipti á sviði tollamála.
.      Eftirlits- og rannsóknarstörf varðandi innflutning og útflutning vara.
.      Endurákvörðun gjalda sem tollstjórar hafa ákveðið.
.      Gerð starfsreglna og útgáfa leiðbeininga.
.      Útgáfa leiðbeininga fyrir fyrirtæki og almenning.
.      Þróun og rekstur tölvu- og upplýsingakerfa á sviði tollafgreiðslu.
.      Fræðslumál tollstarfsmanna.
    Með hliðsjón af smæð íslenska stjórnsýslukerfisins skiptir miklu máli að skipulag einstakra þátta þess sé einfalt og skilvirkt þannig að þekking og starfskraftar nýtist sem best til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Miðað við gildandi skipulag er í vissum tilvikum verið að sinna sambærilegum verkefnum hjá embætti ríkistollstjóra og embættum einstakra tollstjóra. Jafnframt er stefnumótun ýmist á hendi fjármálaráðuneytisins eða ríkistollstjóra. Af því leiðir að starfskraftar þeirra sem að þessum málum koma eru oft dreifðari en æskilegt væri vegna skörunar verkefna.
    Með hliðsjón af framangreindu er því lagt til í frumvarpi þessu að embætti ríkistollstjóra verði lagt niður og verkefni þess færð undir fjármálaráðuneytið og tollstjórann í Reykjavík. Samhliða því verði starfsemi einstakra tollstjóra efld, sem og þáttur fjármálaráðuneytisins í yfirumsjón með tollkerfinu.

Breytingar á skipulagi tollkerfisins.
Núgildandi fyrirkomulag.
    Eins og að framan greinir er landinu skipt upp í 27 tollumdæmi. Embætti tollstjórans í Reykjavík er þar langstærst, en um það umdæmi fara 80–90% af öllum innflutningi til landsins. Í því sambandi má benda á að Reykjavíkurhöfn er ein af stærstu gámahöfnum á Norðurlöndum. Flest hinna tollumdæmanna eru hins vegar fremur smá. Auk tollumdæmanna er starfrækt embætti ríkistollstjóra sem hefur það meginverkefni að hafa eftirlit með tollstjórum, sinna tiltekinni rannsóknarvinnu á landsvísu, fara með samræmingarhlutverk, sjá um þróun og rekstur tölvukerfis tollyfirvalda, sjá um fræðslu tollstarfsmanna og útgáfumál sem og almenna miðlun upplýsinga. Loks er ráðherra æðsti yfirmaður tollamála.

Tilflutningur verkefna til fjármálaráðuneytis.
    Með þeim tillögum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er stefnt að því að samnýta sem best krafta starfsmanna í tollkerfinu með því að fækka stjórnsýsluembættum þess. Jafnframt verður hlutverk fjármálaráðuneytisins við stefnumótun í tollamálum eflt til muna. Af breytingunum leiðir að ábyrgð ráðherra á tollkerfinu verður skýrari og hlutverk hans í stefnumótun og uppbyggingu tollkerfisins markvissara en nú er.
    Eftir breytinguna mun fjármálaráðherra bera mun ríkari ábyrgð en áður á eftirlitsþætti tollkerfisins, sem og eftirliti með einstökum tollstjórum. Auk þess hefur Ríkisendurskoðun almennt eftirlit með starfsemi einstakra tollstjóra hér eftir sem hingað til.
    Samkvæmt tollalögum getur innflytjandi skotið úrskurði tollstjóra um gjaldskyldu, tollflokkun, tollverð og fjárhæð aðflutningsgjalda til ríkistollanefndar og verður engin breyting gerð á því. Á hinn bóginn munu aðrir úrskurðir tollstjóra, svo sem ákvörðun um niðurfellingu og endurgreiðslu aðflutningsgjalda, í öllum tilvikum sæta kæru til fjármálaráðherra, en samkvæmt gildandi lögum er það úrskurðarvald á hendi embættis ríkistollstjóra.
    Þá verður leitast við að tryggja að boðleiðir og forræði á stjórnun aðgerða sé með skýrum hætti og um leið lögð áhersla á virkt samráð milli einstakra tollumdæma og ráðuneytisins.

Tilflutningur verkefna til tollstjórans í Reykjavík.
    Samhliða fyrrgreindri tilfærslu verkefna til fjármálaráðuneytis verður tollstjóranum í Reykjavík falið að fara með tiltekið samræmingarhlutverk svo og að stýra, í samráði við viðkomandi tollstjóra, eftirlitsaðgerðum á landsvísu. Með slíkri hagræðingu er unnt að nýta betur þá fjármuni sem nú er varið til tollkerfisins til þess að styrkja mikilvæga þætti í starfsemi þess. Þar er einkum horft til herts fíkniefnaeftirlits og bættrar tollheimtu. Gert er ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík geti haft umsjón með rannsókn tollamála hvar sem er á landinu gerist þess þörf. Þrátt fyrir að tollstjóranum í Reykjavík sé falið að annast, í umboði ráðherra, tiltekna yfirumsjón þessara mála er lögð á það rík áhersla að hann hafi virkt samráð við tollstjóra í hverju umdæmi og að þeir fari með umsjón aðgerða í sínu umdæmi eftir því sem kostur er. Með því er einstökum tollstjórum gert kleift að sækja liðsstyrk til stærsta tollstjóraembættisins um leið og staðarþekking þeirra er nýtt til hins ýtrasta.
    Með því að fela stærsta tollumdæminu að annast samræmingu starfa og gerð kynningarefnis og eyðublaða, svo og aðra uppbyggingu á þjónustu tollkerfisins, skapast jafnframt betri skilyrði til að meta þarfir einstaklinga og fyrirtækja með markvissari hætti en áður.

Eftirlit með innflutningi fíkniefna.
    Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi hefur ríkistollstjóri með höndum stefnumótun á sviði fíkniefnaeftirlits auk þess sem hann hefur heimild til að sinna eftirliti á landsvísu. Tollstjórar fara hins vegar með framkvæmd tollgæslu hver í sínu umdæmi. Eins og að framan greinir fer langmest af vöruflutningi til og frá landinu um umdæmi tollstjórans í Reykjavík. Af því leiðir að starfsmenn hans koma óhjákvæmilega mest að framkvæmd daglegs eftirlits og hafa því góða innsýn inn í þau verkefni sem fengist er við hverju sinni. Starfsmenn tollstjórans í Reykjavík hafa enn fremur nokkra reynslu af samvinnu við önnur tollumdæmi á sviði fíkniefnaeftirlits.
    Með breytingum á hlutverki tollstjórans í Reykjavík, samkvæmt frumvarpi þessu, aukast möguleikar tollyfirvalda til að nýta þessa reynslu í þágu virkara eftirlits með ólöglegum innflutningi fíkniefna. Embættið verður þannig betur í stakk búið til að undirbúa eftirlit með nákvæmari áhættugreiningu en nú er og getur þannig sinnt tollgæslu með markvissari hætti. Sú þekking ætti einnig að nýtast öðrum tollstjórum við skipulagningu tollgæslu í sínum umdæmum. Þannig ætti svigrúm embættisins til frekara samráðs við önnur tollstjóraembætti að aukast, svo og aðgangur þeirra að sérhæfðum tollgæslumönnum með sérþjálfaða hunda og nauðsynlegan búnað til slíkra verkefna.

Almennt tolleftirlit.
    Auk eftirlits með ólöglegum innflutningi fíkniefna er mikilvægt að efla almennt eftirlit með tollheimtu. Vegna nýrrar tækni við afgreiðslu aðflutningsskýrslna með rafrænum hætti hefur sjálfvirkni í tollafgreiðslu innfluttra vara aukist verulega. Þetta birtist einkum í því að nú eiga innflytjendur möguleika á að senda aðflutningsskýrslur með tölvuskeyti til viðkomandi tollstjóra. Af því leiðir að innflytjendur þurfa ekki að leggja fram kvittanir fyrir innfluttum vörum og farmskírteini í tengslum við hverja tollafgreiðslu. Auknar kröfur til meiri hraða og skilvirkni við tollafgreiðslu og stóraukið vöruflæði hefur leitt til þess að starfsmenn tollyfirvalda koma æ minna að hverri tollafgreiðslu með beinum hætti. Aðstæður til tollendurskoðunar eru því gjörbreyttar. Þessi þróun hefur leitt til þess að nú er nauðsynlegt að sinna tolleftirliti úti í fyrirtækjunum sjálfum og byggja eftirlitsaðgerðir á vel skilgreindu áhættumati þar sem leitast er við að greina hvar helst sé líklegt að brot séu framin. Þessi starfsemi kallar á nýjar áherslur, aukna menntun og sérhæfingu starfsmanna tollsins. Með þeim skipulagsbreytingum sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu verður tollkerfið hæfara til að sinna þessum verkefnum þar sem mannafli þess ætti að nýtast betur.

Samhæfing tollembætta.
    Með framangreindum skipulagsbreytingum verður í engu dregið úr tollgæslu. Hins vegar verður tollstjórinn í Reykjavík hæfari til að veita liðsinni við tolleftirlit í öðrum umdæmum þegar nauðsynlegt er að efla það þar tímabundið og jafnframt að samhæfa eftirlitsaðgerðir í fleiri en einu umdæmi. Í tengslum við það er mikilvægt að komið verði á fót viðvarandi samráði tollstjóra varðandi skipulag tolleftirlits á landsvísu, sem og reglubundnu samráði milli ráðherra og tollyfirvalda.
    Gert er ráð fyrir að gerður verði nýr árangursstjórnunarsamningur við embætti tollstjórans í Reykjavík þar sem kveðið verði nánar á um starfsemi þess, þ.m.t. samskipti þess við önnur tollstjóraembætti.

Starfsmannamál.
    Starfsmenn ríkistollstjóra eru nú 23 talsins og starfa þeir í fjórum deildum. Í tengslum við þær skipulagsbreytingar sem boðaðar eru í þessu frumvarpi verður leitast við að bjóða þeim starfsmönnum áframhaldandi störf í tollkerfinu, sambærileg þeim sem þeir gegna nú, eftir því sem kostur er, enda afar mikilvægt að nýta sem best þá sérfræðiþekkingu sem núverandi starfsmenn embættisins búa yfir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á skilgreiningum til samræmis við tillögur frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að mælt verði fyrir um að Seðlabanka Íslands beri að tilkynna tollstjórum um opinbert viðmiðunargengi erlendrar myntar í stað ríkistollstjóra.


Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji almennar reglur um skjalausa sendingu gagna um tölvukerfi tollyfirvalda og hafi heimild til að stöðva móttöku skeyta sem send eru um það. Skv. g-lið 8. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir því að tollstjórinn í Reykjavík sjái um þróun og rekstur tölvukerfisins.

Um 4. gr.

    Lagt er til að ráðherra verði falið að móta form og efni aðflutningsskýrslna og þeirra fylgiskjala sem þeim skulu fylgja. Þetta hlutverk er nú í höndum ríkistollstjóra.

Um 5. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum ákveður ráðherra hvar tollhafnir skulu vera að fenginni tillögu ríkistollstjóra. Jafnframt er mælt fyrir um það að sveitar- og hafnarstjórnir skuli hafa samráð við ríkistollstjóra um skipulag hafnarsvæða. Loks er gert ráð fyrir að ríkistollstjóri geti afturkallað tollhafnarréttindi ef hann telur skilyrði til tolleftirlits og vörslu á vörum ekki viðunandi.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra fari nú með þetta hlutverk ríkistollstjóra að fenginni umsögn viðkomandi tollstjóra. Með því er tryggt að sjónarmið viðkomandi tollstjóra liggi fyrir við töku ákvarðana sem tengjast tollhöfnum í umdæmi þeirra. Til að gæta samræmis í framkvæmd er gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík annist úttekt á tollhöfnum í umboði ráðherra.

Um 6. gr.

    Með því að mæla fyrir um að tilkynna skuli um leyfi sem veitt eru skv. 29. gr. til tollstjórans í Reykjavík er tryggt að hann hafi heildaryfirsýn yfir komu þeirra skipa og flugvéla til landsins sem losa eða lesta vörur utan tollhafna. Það er nauðsynlegur þáttur í því samræmingarhlutverki sem tollstjóranum í Reykjavík er ætlað samkvæmt frumvarpinu.

Um 7. gr.

    Í greininni er nánari útfærsla á þeim breytingum á skipulagi tollkerfisins sem grein er gerð fyrir í almennum athugasemdum. Í 31. gr. gildandi tollalaga er vikið að skipun ríkistollstjóra og annarra starfsmanna embættisins. Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að greinin verði felld brott.     
    Um a-lið (30. gr.).
    Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða utan þess að orðið „ríkistollstjóri“ er fellt brott. Í greininni er vísað til laga um tekjuskatt og eignarskatt og laga um virðisaukaskatt án þess að númer þeirra séu tilgreind. Það er gert til þess að ekki þurfi að breyta ákvæðinu sérstaklega ef þessir lagabálkar fá ný númer í framtíðinni. Nú gilda lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, auk síðari breytinga, og lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, auk síðari breytinga.
    Um b-lið (31. gr).
    Lagt er til að 36. gr. tollalaga verði 31. gr. laganna. Hér er einungis um formbreytingu að ræða.
    Um c-lið (32. gr.).
    Lagt er til að 37. gr. tollalaga verði 32. gr. laganna. Hér er einungis um formbreytingu að ræða.
    Um d-lið (33. gr.).
    Samkvæmt 30. gr. tollalaganna er ráðherra æðsti yfirmaður tollamála og hefur eftirlit með því að tollstjórar og ríkistollanefnd ræki skyldur sínar. Í 32. gr. laganna er svo mælt fyrir um það að ríkistollstjóri skuli hafa eftirlit með störfum tollstjóra og umboðsmanna þeirra. Í samræmi við þær breytingar sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er lögð til sú breyting að ráðherra verði falið með beinum hætti að hafa eftirlit með því að tollframkvæmdin sé í samræmi við lög, reglur og önnur fyrirmæli.
    Þá er lagt til að tollstjórinn í Reykjavík annist, í umboði ráðherra, samræmingu tollframkvæmdar og eftirlits- og rannsóknarstarfa á tollsvæði íslenska ríkisins. Einnig að hann geti, að eigin frumkvæði eða samkvæmt kæru, hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar innflutning, umflutning og útflutning á vörum til og frá landinu og ferðir og flutning fara og fólks til og frá landinu, svo og flutning á ótollafgreiddum varningi innan lands samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagafyrirmælum. Aðrir tollstjórar skulu veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd starfanna. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er lögð áhersla á að tollstjórinn í Reykjavík fari með þessa heimild í góðu samstarfi við viðkomandi tollstjóra. Enn fremur er eðlilegt að stjórnun rannsóknarverkefna, úrvinnsla þeirra og eftirfylgni verði eftir því sem nokkur kostur er í höndum viðkomandi tollstjóra.
    Loks er lagt til að ráðherra annist framkvæmd og samskipti við erlend tollyfirvöld samkvæmt þeim milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og lúta að framkvæmd tollamála, nema hann ákveði annað.
    Um e-lið (34. gr.).
    Samkvæmt gildandi lögum setur ríkistollstjóri reglur varðandi tollframkvæmd sem gilda skulu um starfsemi tollstjóra og umboðsmanna þeirra. Í 1. mgr. greinarinnar er lagt til að ráðherra setji þessar reglur, að fenginni umsögn tollstjórans í Reykjavík. Þetta er eðlilegt í ljósi þess að tollstjórinn í Reykjavík fer með samræmingar- og eftirlitshlutverk í umboði ráðherra. Að öðru leyti er greinin efnislega sambærileg 1. mgr. 33. gr. tollalaga.
    Um f-lið (35. gr.).
    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 33. gr. tollalaga utan þess að tollstjóranum í Reykjavík er falið að annast fræðslumál tollstarfsmanna.
    Um g-lið (36. gr.).
    1. mgr. greinarinnar er efnislega sambærileg 34. gr. tollalaga utan þess að tollstjóranum í Reykjavík eru falin þau störf sem ríkistollstjóri hefur nú með höndum.
    Í 2. mgr. mgr. er lagt til að ráðherra ákveði form og efni tollskjala og eyðublaða í stað ríkistollstjóra.
    Um h-lið (37. gr.).
    Lagt er til að tollstjóranum í Reykjavík verði heimilt að fela tollstjórum að taka upp mál að nýju telji hann ástæðu til þess að fyrri ákvörðun tollstjóra verði endurskoðuð. Þessi heimild er nauðsynleg til þess að tollstjórinn í Reykjavík geti sinnt eftirlits og samræmingarhlutverki sínu. Heimildin er nú í höndum ríkistollstjóra, sbr. 35. gr. tollalaganna, þó með nokkuð öðrum hætti sé.

Um 8. gr.

    Í 39. gr. tollalaga er mælt fyrir um að tollstjórar og ríkistollstjóri skipi tollverði og sé heimilt að setja tollverði tímabundið til starfa. Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að orðið „ríkistollstjóri“ verði fellt brott úr greininni.

Um 9. gr.

    Með greininni er orðið „ríkistollstjóri“ fellt brott úr fyrirsögn kaflans.

Um 10. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að ráðherra verði, í stað ríkistollstjóra, falið að setja reglur um notkun handjárna og gasvopna.

Um 11. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að ráðherra verði, í stað ríkistollstjóra, falið að ákveða gerð innsigla og notkun þeirra.

Um 12. gr.

    Til skýringar er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 13. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að ráðherra verði, í stað ríkistollstjóra, falið að ákveða form og efni skýrslna vegna fara í utanlandsferðum.

Um 14. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að ráðherra verði, í stað ríkistollstjóra, falið að veita sérstök leyfi til að annast flutning á ótollafgreiddum vörum innan lands.

Um 15. gr.

    Um skýringar vísast til athugasemda við 17. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Í a-lið greinarinnar er mælt fyrir um að tilteknir úrskurðir tollstjóra sæti kæru til ríkistollanefndar með sama hætti og nú er. Aðrir úrskurðir tollstjóra sæta kæru til fjármálaráðherra í stað ríkistollstjóra eins og nú er.
    Í b-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík geti kært tiltekna úrskurði tollstjóra til til ríkistollanefndar. Samkvæmt gildandi lögum er þessi heimild nú í höndum ríkistollstjóra. Um röksemdir fyrir breytingunni er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu varðandi samræmingarhlutverk tollstjórans í Reykjavík.
    Í c-lið er lagt til að ríkistollanefnd sendi tollstjóranum í Reykjavík, í stað ríkistollstjóra nú, afrit af kæru innflytjanda ásamt fylgigögnum.
    Um d-lið greinarinnar er vísað til athugasemda við 17. gr. frumvarpsins.
    

Um 17. gr.

    Lagt er til að úrskurðir tollstjóra, aðrir en þeir sem sérstök heimild er til að kæra til ríkistollanefndar, sæti kæru til fjármálaráðherra. Samkvæmt gildandi lögum er meginreglan sú að slíkir úrskurðir sæti kæru til ríkistollstjóra. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir er oft mikilvægt fyrir þann sem kærir að fá skjóta úrlausn sinna mála. Í ljósi þess og að almennt er um að ræða fremur litla fjárhagslega hagsmuni er lagt til að þeir úrskurðir tollstjóra sem kveðið er á um í 102. gr. tollalaga sæti kæru til fjármálaráðherra.

Um 18. gr.

    Með vísan til samræmingarhlutverks tollstjórans í Reykjavík og almennra athugasemda er lagt til að tollstjóranum í Reykjavík verði, í stað ríkistollstjóra, send tiltekin gögn er varða bindandi upplýsingar um tollflokkun vöru.

Um 19. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að ráðherra verði, í stað ríkistollstjóra, falið að setja reglur um skil tollstjóra á upplýsingum úr aðflutnings- eða útflutningsskjölum og öðrum gögnum að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

Um II.–VI. kafla

    Í II.–VI. kafla frumvarpsins, þ.e. 20.–24. gr., er mælt fyrir um breytingar á nokkrum lögum þar sem kveðið er á um hlutverk ríkistollstjóra. Í þeim tilvikum er gert ráð fyrir að hlutverk ríkistollstjóra verði falið fjármálaráðherra eða tollstjóranum í Reykjavík eftir atvikum í samræmi við þá stefnumótun sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 20. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum, getur gjaldskyldur aðili og ríkistollstjóri skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. 11. gr. laganna til ríkistollanefndar. Þó er mælt fyrir um að úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða lækkun gjalda á grundvelli 3., 5. eða 6. gr. tollalaga sæti kæru til ríkistollstjóra.
    Með hliðsjón af því samræmingar- og eftirlitshlutverki sem tollstjóranum í Reykjavík er ætlað að fara með í umboði fjármálaráðherra er lagt til að mælt verði fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík geti skotið úrskurðum skv. 1. mgr. 11. gr. laga um vörugjald til ríkistollanefndar. Enn fremur er gert ráð fyrir að úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða lækkun gjalda á grundvelli 3., 5. eða 6. gr. tollalaga sæti kæru til fjármálaráðherra sem æðsta yfirmanns tollamála. Um röksemdir fyrir því er vísað til athugasemda með 17. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt sætir úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. sömu greinar, kæru til ríkistollstjóra. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að nefndir úrskurðir sæti kæru til fjármálaráðherra. Um röksemdir fyrir því er vísað til athugasemda með 17. gr. frumvarpsins.

Um 22. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um gjald af áfengi, nr. 96/1995, með síðari breytingum, sætir úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu áfengisgjalds skv. 6. gr. laganna kæru til ríkistollstjóra í samræmi við 102. gr. tollalaga. Lagt er til að umræddir úrskurðir tollstjóra sæti kæru til fjármálaráðherra sem æðsta yfirmanns tollamála. Um röksemdir fyrir því er vísað til athugasemda með 17. gr. frumvarpsins.


Um 23. gr.

    Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, er ríkistollstjóri, tollstjórinn í Reykjavík og tollverðir embættismenn. Þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að embætti ríkistollstjóra verði lagt niður er lagt til að orðið „ríkistollstjóri“ verði fellt brott úr þessari upptalningu.

Um 24. gr.

    Í 4. mgr. 9. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er mælt fyrir um að ríkistollstjóri sé handhafi lögregluvalds. Þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að embætti ríkistollstjóra verði lagt niður er lagt til að orðið „ríkistollstjóri“ verði fellt brott úr lögunum.

Um 25. gr.

    Ákvæðið tekur til þeirra starfsmanna embættis ríkistollstjóra sem ekki verða fluttir á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en undir það ákvæði falla tollverðir sem hafa skipun til starfsins, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 22. gr. og 23. gr. þeirra laga.
    Stefnt er að því að starfsmönnum ríkistollstjóra verði boðin störf við sömu eða sambærileg verkefni og þeir gegna nú, enda mikilvægt að nýta áfram sem best þá reynslu og sérþekkingu sem starfsmenn embættisins búa yfir. Með ákvæðinu er leitast við að tryggja að þrátt fyrir breytingarnar fái núverandi starfsmenn ríkistollstjóra áfram starf við sitt hæfi.

Um 26. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987,
með síðari breytingum, og fleiri lögum er varða tollgæslu og tollheimtu.

    Með frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting að embætti ríkistollstjóra verði lagt niður og verkefni þess falin fjármálaráðherra og tollstjóranum í Reykjavík. Samhliða því verði starfsemi tollstjórans í Reykjavík efld, sem og þáttur fjármálaráðuneytisins í yfirumsjón með tollkerfinu.
    Að mati fjármálaráðuneytisins mun breytingin ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs þar sem hún mun einfalda skipulag og bæta nýtingu starfskrafta.