Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 436  —  177. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 5. des.)1. gr.

    2. gr. laganna hljóðar svo:
    Blindrabókasafn Íslands miðlar skáldverkum, fræðiritum og öðru efni, þar á meðal námsgögnum, til blindra og til þeirra sem eiga við lestrarörðugleika að etja í sem bestu samræmi við óskir og þarfir lesandans.
    Blindrabókasafn fylgist með nýjungum á sínu sviði og kynnir þær. Safnið skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnsmála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins.

2. gr.

    Í stað orðanna „Bókavarðafélagi Íslands“ í c-lið 1. mgr. 3. gr. laganna og „Bókavarðafélag Íslands“ í 10. gr. laganna kemur: Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræða, og: Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða.

3. gr.

    5. gr. laganna hljóðar svo:
    Blindrabókasafn skiptist í þrjár deildir, útláns- og upplýsingadeild, námsbókadeild og tæknideild. Að öðru leyti skal starfsskipting stofnunarinnar ákveðin í reglugerð, sbr. 10. gr. Verkefni deilda eru í megindráttum þessi:
     a.      Útláns- og upplýsingadeild. Þar fer fram flokkun og skráning safnkosts, upplýsingaþjónusta, útlán og kynning á þjónustu Blindrabókasafnsins í heild.
     b.      Námsbókadeild. Aflar og gefur út námsefni við hæfi blindra, sjónskertra og annarra sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt.
     c.      Tæknideild. Sér um framleiðslu útlánsefnis, varðveislu frumgagna og viðhald safnkosts.

4. gr.

    6. gr. laganna hljóðar svo:
    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Blindrabókasafns Íslands til fimm ára að fenginni umsögn stjórnar safnsins. Forstöðumaðurinn annast yfirstjórn safnsins, er í fyrirsvari fyrir safnið út á við, ber ábyrgð á rekstri þess og stjórnar daglegum rekstri. Jafnframt annast hann ráðningar annarra starfsmanna.

5. gr.

    7. gr. laganna hljóðar svo:
    Stjórn Blindrabókasafns skipar þriggja manna bókvalsnefnd til tveggja ára í senn. Hlutverk hennar er að móta stefnu í bókvali og gæta jafnvægis milli fræðslu- og skemmtiefnis. Í henni skulu sitja einn bókmenntafræðingur, einn sérkennari og einn fulltrúi Blindrafélagsins.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.