Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 456  —  1. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2001.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 30. nóvember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins og Íbúðalánasjóðs. Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar og efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.
    Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem verða á tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum 2–4. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 5. og 6. gr. frumvarpsins. Framsögumaður meiri hlutans mun gera grein fyrir helstu breytingum sem lagt er til að gerðar verði á 7. gr. í ræðu sinni við upphaf 3. umræðu.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 253,1 milljarður kr. sem er 12,8 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu. Þar vega þyngst auknar tekjur af sölu á varanlegum rekstrarfjármunum að fjárhæð 8,2 milljarðar kr.
    Tillögur meiri hlutans er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til hækkunar útgjalda um 5.410,7 m.kr.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

00 Æðsta stjórn ríkisins

201
     Alþingi.
        1.04 Alþjóðasamstarf
. Lögð er til 5 m.kr. hækkun á fjárveitingu til alþjóðasamstarfs. Veruleg aukning hefur orðið á ráðstefnuhaldi á Íslandi síðustu ár en oft eru ákvarðanir um slíkar ráðstefnur ekki fyrirliggjandi við undirbúning fjárlagatillagna. Nú liggur fyrir að haldin verður ráðstefna á vegum Vestnorræna ráðsins og nýlega hefur verið tekin ákvörðun um fund á vegum þingmannanefndar um norðurheimskautsmál. Þá munu fleiri ráðstefnur á döfinni.
         6.21 Fasteignir. Lögð er til 25 m.kr. tímabundin hækkun fjárveitinga til að ljúka endurskipulagningu á húsnæði Alþingis sem hafin var með leigutöku Austurstrætis 8–10 og 10A. Breyting verður á notkun Austurstrætis 12–14, Þórshamars, Vonarstrætis 8 og Blöndalshúss. Kirkjuhvoll verður tekinn úr leigu og hluti Austurstrætis 12, en 3. hæð Austurstrætis 10A verður tekin á leigu. Í tengslum við þessar breytingar er heimild í 7. gr. til að selja Skólabrú 2 en söluandvirðið rennur í ríkissjóð.
620     Ríkisendurskoðun.
        6.21 Fasteignir.
Gerð er tillaga um 28 m.kr. fjárveitingu vegna húsnæðismála Ríkisendurskoðunar, þar af eru 5 m.kr. vegna innréttinga. Um tveggja ára skeið hafa farið fram viðræður Ríkisendurskoðunar og skrifstofustjóra fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytis um viðbótarhúsnæði fyrir stofnunina. Einkum hefur verið horft til húseignar ríkisins að Skúlatúni 6 sem er áfast húsnæði stofnunarinnar. Í viðræðum við fjármálaráðuneyti og Fasteignir ríkissjóð hefur komið fram tillaga um að skynsamlegast væri að byggja tvær hæðir ofan á húsið. Þannig fengist besta nýtingin á þeirri aðstöðu sem fyrir hendi er. Núverandi húsnæði Ríkisendurskoðunar er í umsjón Fasteigna ríkissjóðs og greiðir stofnunin leigugjöld af því. Óskir stofnunarinnar í sambandi við viðbótarhúsnæðið eru þær að Fasteignir ríkissjóðs komi húseign þeirri sem hún á að Skúlatúni 6 í leiguhæft ástand að óskum stofnunarinnar sem hún síðan mundi greiða leigugjald fyrir.

02 Menntamálaráðuneyti

205      Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.
         1.01 Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Lagt er til að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi verði veittar 4 m.kr. til viðgerða og umhirðu handrita. Nokkrar stórar skinnbækur í safninu þarfnast mikilla viðgerða og mikið af safnkostinum þarfnast minni háttar viðgerða og eftirlits. Stofnunin þarf að geta ráðið mann í fullt starf við þessi verkefni.
318     Framhaldsskólar, stofnkostnaður.
         6.90 Byggingarframkvæmdir, óskipt.
Lögð er til 20 m.kr. hækkun á liðnum vegna framkvæmda við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi en gengið hefur verið frá samningi við menntamálaráðuneyti um þær.
451     Símenntun og fjarvinnsluverkefni.
        1.11 Símenntun og fjarvinnsluverkefni
. Lögð er til 30 m.kr. hækkun á þessum lið og er fjárhæðin ætluð til að sinna framboði á námi á háskólastigi á Austurlandi og Vestfjörðum í samræmi við þingsályktun um stefnu í byggðamálum. Einnig er hún ætluð til að styrkja fræðslumiðstöðvar vegna kostnaðar þeirra vegna mikilla fjarlægða og fjarskiptakostnaðar. Auk þess er ráðuneytinu heimilt að styrkja fámenn byggðarlög til kaupa á fjarnámsbúnaði.
             Þá er lögð til 56 m.kr. fjárveiting til rekstrar símenntunarmiðstöðva og er það liður í átaki til eflingar fjarkennslu. Stöðvarnar eru átta og fær hver þeirra 7 m.kr. fjárveitingu sem færist á eftirfarandi viðfangsefni sem öll eru ný:
             1.21 Símenntunarstöð á Vesturlandi.
             1.22 Fræðslumiðstöð Vestfjarða.
             1.23 Farskóli Norðurlands vestra.
             1.24 Símenntunarstöð Eyjafjarðar.
             1.25 Fræðslumiðstöð Þingeyinga.
             1.26 Fræðslunet Austurlands.
             1.27 Fræðslunet Suðurlands.
             1.28 Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.
564
     Listdansskólinn.
        1.02 Annað en kennsla.
Lagt er til að tekjur af innritunargjöldum, 5,3 m.kr., verði færðar sem ríkistekjur en ekki sértekjur á sama hátt og tekjur annarra skóla af innritunargjöldum.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.10 Byggða- og minjasöfn.
Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun á liðnum svo að hægt verði að ráða minjavörð á Norðurlandi eystra. Jafnframt er lagt til að Minjasafni Egils Ólafssonar, Hnjóti, verði veitt 2 m.kr. tímabundin fjárveiting upp í kostnað við kaup á fasteign til að leysa geymsluvanda safnsins.
         5.25 Viðhald á stafkirkju í Vestmannaeyjum. Gerð er tillaga um að veita 2,5 m.kr. til viðhalds á stafkirkju í Vestmannaeyjum samkvæmt samkomulagi Vestmannaeyjabæjar, Þjóðminjasafns og Biskupsstofu.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        
6.21 Endurbótasjóður menningarstofnana. Gerð er tillaga um 16 m.kr. framlag til viðhaldsverkefna í Þjóðleikhúsinu. Fjárhæðin færist af óskiptu fé liðarins og er því ekki um hækkun liðar að ræða.
982     Listir, framlög.
        1.90 Listir.
Gerð er tillaga um 0,4 m.kr. hækkun á safnliðnum og er fjárhæðin ætluð hópi áhugafólks um eflingu menningar á Vopnafirði, Menningu um landið.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.11 Styrkir til útgáfumála.
Gerð er tillaga um að veita 2 m.kr. framlag til að styrkja útgáfu Sögu íslenskrar utanlandsverslunar 900–2002 sem unnið er að á vegum Sagnfræðistofnunar. Hækkar því safnliðurinn um 2 m.kr.
988     Æskulýðsmál.
        1.90 Æskulýðsmál.
Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. hækkun safnliðarins og er fjárhæðin ætluð til að styrkja Norræn samtök um ungmennastarf, NSU, við áframhaldandi uppbyggingu samtakanna.
989     Ýmis íþróttamál.
        
1.23 Landsmót ungmennafélaga í Stykkishólmi. Gerð er tillaga um að veita Stykkishólmsbæ 5 m.kr. framlag upp í kostnað við uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum í tengslum við unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður í Stykkishólmi sumarið 2002. Farið er fram á sömu fjárveitingu árið 2002.
         1.30 Bridgesamband Íslands. Lögð er til 7 m.kr. hækkun til Bridgesambands Íslands. Til stendur að minnast þess að tíu ár eru síðan Íslendingar urðu heimsmeistarar í bridge og er ætlunin að þjálfa upp nýtt landslið til að keppa um titilinn árið 2002.
999     Ýmislegt.
        1.43 Skriðuklaustur.
Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til kaupa á innanstokksmunum í Gunnarsstofnun, Skriðuklaustri.
         1.90 Ýmis framlög. Lagt er til að veitt verði 0,3 m.kr. tímabundið framlag upp í kostnað við að reisa listaverk eftir Ásmund Sveinsson til minningar um Guðríði Þorbjarnardóttur á fæðingarstað hennar, Laugarbrekku undir Jökli.
         6.93 Snorrastofa. Gerð er tillaga um að veita 7 m.kr. tímabundna fjárveitingu vegna ófyrirséðrar hækkunar á kostnaði við að ganga frá byggingu Snorrastofu og umhverfi hennar. Samið var við menntamálaráðuneytið haustið 1999 um 18 m.kr. framlag sem greiddist á þremur árum. Ekki eru ákvæði um verðtryggingu í samningnum en verulegur vaxtakostnaður hefur bæst við vegna lántöku sem þurfti til þess að hægt væri að ljúka framkvæmdum. Áætlaður kostnaður var 109,7 m.kr. en hann reyndist verða 120,6 m.kr. Nú vantar nær 21 m.kr. til þess að greiða skuldir vegna framkvæmdanna.

03 Utanríkisráðuneyti

101
     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.02 Varnarmálaskrifstofa.
Lagt er til að greiðsla úr ríkissjóði hækki um 10 m.kr. Við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2001 var fyrir mistök gert ráð fyrir auknum ríkistekjum af lóðaleigu á varnarsvæðum.
211     Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli.
        1.01 Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli.
Gjöld stofnunarinnar hækka um 1,3 m.kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun um tekjur af lendingargjaldi er gert ráð fyrir að þær verði 487 m.kr. árið 2001. Flugstöð Leifs Eiríkssonar varð hlutafélag 1. október 2000. Við þá breytingu féll niður 25% hluti áætlaðra lendingargjalda sem hafa runnið til Flugstöðvarinnar í B-hluta. Í fjárlögum fyrir árið 2000 var sá hluti 112 m.kr. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að tekjur af lendingargjaldi verði 487 m.kr. og 25% hlutdeild er 121,8 m.kr. Framlagið verður notað til að greiða niður skuldir Flugmálastjórnar og færist sem viðskiptahreyfing í fjárlögum fyrir árið 2001.

04 Landbúnaðarráðuneyti

190
     Ýmis verkefni.
         1.31 Skógræktarfélag Íslands. Lagt er til að Skógræktarfélagi Íslands verði veitt 5,7 m.kr. framlag til stuðnings við rekstur félagsins.
221     Veiðimálastofnun.
        1.01 Veiðimálastofnun.
Gerð er tillaga um að veita 3 m.kr. til þess að styrkja rekstur Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar á Hólum.
801     Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu.
        1.01 Beinar greiðslur til bænda.
Lagt er til að beingreiðslur til bænda vegna mjólkurframleiðslu hækki um 67 m.kr. vegna 4,99% hækkunar á grundvallarverði mjólkur sem tekur gildi 1. janúar 2001, en þegar hefur verið gert ráð fyrir 4% hækkun í forsendum fjárlagafrumvarps. Einnig er gert ráð fyrir að neysla innan lands aukist um 1 milljón lítra og verði 103 milljónir lítra á næsta ári. Beingreiðslur ríkisins reiknast sem hlutfall af grundvallarverði mjólkur.
         1.02 Lífeyrissjóður bænda. Lagt er til að greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda hækki um 2,5 m.kr. Framlag ríkissjóðs miðast við fast hlutfall af beingreiðslum til bænda.
818     Búnaðarsjóður.
        1.10 Búnaðarsjóður.
Farið er fram á 66 m.kr. hækkun á framlagi ríkisins til Búnaðarsjóðs til jafns við áætlaða innheimtu búnaðargjalds. Áætlanir um innheimtu búnaðargjalds á næsta ári hafa verið endurskoðaðar í ljósi innheimtu það sem af er þessu ári og endurskoðunar á stofni gjaldsins. Búnaðargjald skiptist þannig að um 58% af gjaldinu renna til sjóðsins og um 42% til Lánasjóðs landbúnaðarins. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem um skil á mörkuðum tekjum er að ræða og hækka tekjur og gjöld um sömu fjárhæð.
823     Lánasjóður landbúnaðarins.
        6.60 Lánasjóður landbúnaðarins.
Farið er fram á 30 m.kr. hækkun á framlagi ríkisins til Lánasjóðs landbúnaðarins til samræmis við endurskoðaða áætlun um innheimtu búnaðargjalds. Áætlanir um innheimtu búnaðargjalds hafa verið endurskoðaðar í ljósi raunverulegrar innheimtu og áætlana um gjaldstofn næsta árs. Um 42% tekna af gjaldinu renna til sjóðsins og um 58% til Búnaðarsjóðs. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem um skil á mörkuðum tekjum er að ræða.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

190
     Ýmis verkefni.
        1.21 Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla.
Við 2. umræðu um frumvarpið var gerð tillaga um að veita 5,5 m.kr. tímabundið framlag til hafrannsóknarskipsins Drafnar sem nýtt er sem skólaskip 60 daga á ári. Fjárveitingin var færð á lið 05-202 1.30 en er nú færð af honum á þennan lið því að þar hafði þegar verið áætlað fyrir helmingi kostnaðar við rekstur skipsins sem er um 11 m.kr. á ári.
202     Hafrannsóknastofnunin.
        1.01 Almenn starfsemi.
Lögð er til 9 m.kr. fjárveiting til Hafrannsóknastofnunarinnar til að styrkja útibú hennar á Ísafirði og í Ólafsvík.
         1.30 Rannsóknaskip. Sem fyrr greinir millifærast af þessu viðfangsefni 5,5 m.kr. á lið 05-190-1.21 til hafrannsóknarskipsins Drafnar.
203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
         1.01 Almenn starfsemi.
Lagt er til að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verði veitt 10 m.kr. framlag til að styrkja útibú stofnunarinnar svo að hægt verði að vinna að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum og auka sérhæfingu hvers útibús.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

210
     Héraðsdómstólar.
        1.01 Héraðsdómstólar.
Lagt er til 7 m.kr. framlag til að ráða aðstoðardómara við héraðsdómstólana á Vestfjörðum og Austurlandi.
395     Landhelgisgæsla Íslands.
        5.41 Viðhald skipa og flugfarkosta.
Gerð er tillaga um að veita Landhelgisgæslunni 40 m.kr. tímabundið framlag til að gera breytingar á stýrisbúnaði varðskipanna Týs og Ægis.
413     Sýslumaðurinn í Borgarnesi.
        1.20 Löggæsla. Nauðsynlegt er að efla umferðarlöggæslu og auka umferðareftirlit á þjóðvegum. Því er lagt til að lögreglumönnum verði fjölgað á þremur stöðum á landinu. Í Borgarnesi er lagt til að bætt verði við einu stöðugildi lögreglumanns og fjárveitingar því hækkaðar um 4,5 m.kr.
421     Sýslumaðurinn á Sauðárkróki.
        1.20 Löggæsla.
Á Sauðárkróki er lagt til að bætt verði við einu stöðugildi lögreglumanns og fjárveitingar því hækkaðar um 4,5 m.kr.
430     Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal.
        1.20 Löggæsla.
Í Vík er lagt til að bætt verði við hálfu stöðugildi lögreglumanns og fjárveitingar því hækkaðar um 2 m.kr.
701     Biskup Íslands.
        1.01 Þjóðkirkja Íslands.
Lagt er til að veittar verði 4 m.kr. vegna prests í Grafarvogsprestakalli og er um lokagreiðslu að ræða.

07 Félagsmálaráðuneyti

190     Ýmis verkefni og 313 Jafnréttisstofa.
        1.23 Framkvæmdaáætlun um jafnréttismál, 1.26 Jafnréttisráð og 1.01 Jafnréttisstofa. Millifærðar eru 6,9 m.kr. af liðnum 1.23 Framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. Á liðinn 07-190-1.26 Jafnréttisráð fara 3,5 m.kr. og á liðinn 1.01 Jafnréttisstofa fara 3,4 m.kr.
722     Sólheimar í Grímsnesi.
         1.70 Sólheimar í Grímsnesi.
Lagt er til að heiti viðfangsefnisins verði Sólheimar í Grímsnesi en það var Vistheimilið að Sólheimum, Grímsnesi.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        
1.10 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Lögbundið framlag ríkissjóðs í sjóðinn tekur mið af innheimtum skatttekjum ríkisins innan ársins og útsvarsstofni næstliðins árs. Í ljósi endurskoðunar á áætluðum skatttekjum ríkissjóðs árið 2001 er farið fram á að framlagið verði hækkað um 36 m.kr.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.31 Félagasamtök, styrkir
. Gerð er tillaga um 6,9 m.kr. hækkun á safnliðnum. Skulu 3 m.kr. renna til Íslenskrar ættleiðingar, 2 m.kr. til Kristskirkju, Landakoti, 1,5 m.kr. til Sjálfsbjargar og 0,4 m.kr. til hækkunar á framlagi til Leigjendasamtakanna.
         1.47 Félagsþjónusta við nýbúa . Gerð er tillaga um 1 m.kr. fjárveitingu til að styrkja starf prests sem þjónar nýbúum án tillits til trúar eða þjóðernis og starfar með félagsráðgjöfum Félagsstofnunar Reykjavíkurborgar.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        1.01 Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Farið er fram á 25 m.kr. fjárveitingu til að leiðrétta framlag til sjúkrahússins samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar árið 1999. Matið var byggt á upplýsingum stjórnenda sjúkrahússins um fjárheimildir þess. Í ljós hefur komið að ónotað framlag til stofnframkvæmda hafði ranglega verið talið með rekstrartekjum sjúkrahússins og afkoman því ofmetin. Framlag til sjúkrahússins var því áætlað lægra sem fjárbeiðninni nemur.
373     Landspítali, háskólasjúkrahús.
        1.01 Landspítali, háskólasjúkrahús.
Lagt er til 150 m.kr. tímabundið framlag til greiðslu kostnaðar við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01 Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa
. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1999 og fjárlaga ársins 2000 voru verulegir fjármunir veittir til heilbrigðisstofnana í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði þeirra. Ákvörðun um aukafjármagn var háð því að heilbrigðisstofnanir yrðu reknar innan fjárheimilda á árinu 2000. Af þeim upplýsingum sem fjárlaganefnd hefur fengið hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti er ljóst að ekki hefur tekist að laga rekstrarumfang nokkurra heilbrigðisstofnana að þeim fjárheimildum á árinu 2000 sem að var stefnt. Hér er um að ræða tiltölulega fáar stofnanir af þeim 87 heilbrigðisstofnunum sem reknar eru með framlögum frá ríkinu.
             Meiri hlutinn telur miðað við forsögu þessa máls og ákvarðanir Alþingis að stofnanir geti ekki lengur vikist undan því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að laga umfang rekstrar að fjárheimildum hverju sinni. Meiri hlutinn leggur til að veita 200 m.kr. til óskipts liðar hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sem ráðstafað yrði á árinu 2001 til þeirra heilbrigðisstofnana sem ekki hafa náð því á árinu 2000 að laga starfsemi sína að fjárheimildum. Skilyrði fyrir því að stofnun fái framlög af óskipta liðnum eru:
                  –      að fyrir liggi áætlun um ráðstöfun sem tryggir að rekstur verði í samræmi við fjárheimildir,
                   að gengið verði til þeirra nauðsynlegu aðgerða við stjórn viðkomandi stofnana sem tryggi betur að ákvörðun Alþingis nái fram að ganga.
             Þá er enn fremur gert ráð fyrir að hluta af þessum fjármunum verði ráðstafað sem langtímaframlagi til þeirra heilbrigðisstofnana sem áforma endurskipulagningu á rekstri eða sameiningu við aðra heilbrigðisstofnun í hagræðingarskyni.
             Ákvörðun um einstök framlög er háð samþykki fjárlaganefndar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.
             Þá er jafnframt lagt til að veitt verði 30 m.kr. framlag til greiðslu á uppsöfnuðum rekstrarhalla landlæknisembættisins. Fyrir liggja áætlanir sem eiga að tryggja að rekstur embættisins verði innan fjárheimilda á næsta ári. Í fjáraukalagafrumvarpi er 30 m.kr. framlag til þessa verkefnis þannig að það verður alls 60 m.kr. á tveimur árum. Áður en framlaginu er úthlutað skal leggja mat á afkomu embættisins á árinu 2001 og hrinda nauðsynlegum aðgerðum í framkvæmd til að tryggja að reksturinn verði innan fjárheimilda.
385     Framkvæmdasjóður aldraðra.
        1.01 Kostnaður skv. 3.–5. tölul. 12. gr. laga um málefni aldraðra
og 6.01 Stofnkostnaður og endurbætur. Gerð er tillaga um 100 m.kr. hækkun á framlagi í Framkvæmdasjóð aldraðra sem skiptist jafnt á rekstrarverkefni og stofnkostnað. Annars vegar er tillaga um 71 m.kr. hækkun vegna áforma um að hækka sérstakt gjald sem rennur í sjóðinn. Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um að sérstakt gjald sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og renna skal í Framkvæmdasjóð aldraðra skuli nema 4.578 kr. á hvern gjaldanda árið 2001 í stað 4.065 kr. í gildandi lögum. Hins vegar er áætlað að tekjur sjóðsins hækki um 29 m.kr. vegna leiðréttingar á álagningu. Samtals aukast því tekjur sjóðsins um 100 m.kr. sem skiptast til helminga á milli rekstrar og stofnkostnaðar eins og áður sagði.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.90 Ýmis framlög
. Lagt er til að safnliðurinn hækki um 1 m.kr. vegna verkefnisins Heilsubærinn Bolungarvík á nýrri öld.
430     Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun.
        5.21 Viðhald fasteignar.
Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til að vinna að brunavörnum í húsi Sjálfsbjargar.
490     Vistun ósakhæfra afbrotamanna.
        1.01 Vistun ósakhæfra afbrotamanna
. Lagt er til að veittar verði 6 m.kr. til að mæta auknum rekstrarkostnaði Sogns vegna ósakhæfra afbrotamanna en alvarlegum fíkniefnamálum hefur fjölgað og erfiðum málum tengdum þeim. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að draga úr útgjöldum stofnunarinnar en þrátt fyrir það er talið nauðsynlegt að hækka rekstrarframlagið.

09 Fjármálaráðuneyti

721
     Fjármagnstekjuskattur.
         1.11 Fjármagnstekjuskattur. Gerð er tillaga um að fjárheimild vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir af eigin vaxtatekjum og söluhagnaði eigna verði hækkuð um 820 m.kr. Skýrist það af því að gert er ráð fyrir að sala á eignum ríkisins verði meiri á árinu en fyrirhugað var í fjárlagafrumvarpinu. Sama fjárhæð færist til tekna hjá ríkissjóði þannig að afkoman verður óbreytt eftir sem áður.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90 Launa- og verðlagsmál.
Gerð er tillaga um 150 m.kr. hækkun á fjárheimild þessa liðar. Fjárheimildin er ætluð til að mæta nokkurri hækkun á forsendum frumvarpsins um almenna verðlagsþróun milli áranna 2000 og 2001. Tillagan gerir ráð fyrir að verðlagshækkunin verði um 4,5% að meðaltali á milli ára í stað 4% hækkunar sem miðað var við í frumvarpinu.
999     Ýmislegt.
        1.73 Vöktun á Eyjafjallajökli og Kötlu.
Lagt er til að felld verði niður 23,8 m.kr. fjárveiting í frumvarpinu sem ætluð var til að mæta tímabundnum kostnaði á árinu 2000 vegna kaupa á búnaði og vöktunar hjá nokkrum stofnunum í tengslum við jarðhræringar í Eyjafjallajökli og á Kötlusvæðinu.
         1.74 Vöktun og rannsóknir vegna jarðskjálfta á Suðurlandi. Gerð er tillaga um 40 m.kr. fjárveitingu sem varið verði til að mæta kostnaði við vöktun og rannsóknir í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi. Í fjáraukalögum fyrir árið 2000 hefur þegar verið gert ráð fyrir framlagi til að standa straum af hluta þessa kostnaðar hjá rannsóknastofnunum, auk þess að bæta ýmis tjón og fjármagna bráðabirgðahúsnæði fyrir þá sem misstu hús sín. Á næsta ári er gert ráð fyrir 40 m.kr. kostnaðarauka vegna meiri vöktunar og rannsókna nokkurra stofnana og er miðað við að fjárheimildinni verði skipt samkvæmt tillögum nefndar ráðuneytisstjóra sem hefur málið til umfjöllunar. Jafnframt er unnið að því að tryggja sem best skipulag þessarar starfsemi og gott samstarf milli allra viðkomandi stofnana.

10 Samgönguráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar.
Í sérstöku yfirliti, 16, fellur niður d-liður, styrkir til flugfélaga að fjárhæð 9,7 m.kr., og var sú fjárhæð millifærð við 2. umræðu fjárlaga á nýtt viðfangsefni hjá Flugmálastjórn, 10-471-1.11 Styrkir til innanlandsflugs.
         1.29 Almannavarna- og björgunarskóli á Gufuskálum. Gerð er tillaga um að veita Slysavarnafélaginu Landsbjörg 5 m.kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til að byggja upp rústabjörgunaraðstöðu að Gufuskálum. Áætlaður kostnaður er 22 m.kr.
335     Siglingastofnun Íslands.
        6.80 Sjóvarnargarðar
. Gerð er tillaga um að framlag til sjóvarnargarða hækki um 2,8 m.kr. vegna sjóvarna í Leiru í Gerðahreppi og er þetta lokagreiðsla til sjóvarna þar.
471     Flugmálastjórn.
        1.11 Styrkir til innanlandsflugs
. Farið er fram á 7 m.kr. fjárveitingu vegna samnings sem gerður var á yfirstandandi ári um áætlunarflug til Gjögurs. Samkvæmt nýgengnu útboði er kostnaður samgönguráðuneytis 60,7 m.kr. vegna útboðs á flugi til nokkurra staða á landinu. Gjögur var hins vegar ekki í því útboði. Við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið voru millifærðar 9,7 m.kr. af viðfangsefninu 10-190-1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar á nýtt viðfangsefni hjá Flugmálastjórn 10-471-1.11 sem höfðu verið ætlaðar til þessa verkefnis.
651     Ferðamálaráð.
        1.15 Samstarfssamningar við Grænland og Færeyjar. Lagt er til að karlakórnum Heimi verði veitt 0,5 m.kr. tímabundin fjárveiting til að styrkja ferð kórsins til Grænlands.
        
1.81 Ferðamál skv. 8. gr. laga nr. 117/1994. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag til rannsókna í ferðaþjónustu.

11 Iðnaðarráðuneyti

371
     Orkusjóður.
         6.11 Virkjanarannsóknir. Lögð er til 25 m.kr. hækkun á þessum lið til að flýta framkvæmd rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með það fyrir augum að geta gefið umsögn um nokkra virkjunarkosti til samanburðar við áformaða Kárahnjúkavirkjun seint á árinu 2001.
399     Ýmis orkumál.
        1.18 Hitaveitur á köldum svæðum
. Liðurinn hækkar um 18 m.kr. til að standa undir kostnaði við jarðhitaleitarátak en það er kostnaður iðnaðarráðuneytis af átakinu á árunum 2000 og 2001.
411     Byggðastofnun.
        
1.10 Byggðastofnun. Lagt er til að Byggðastofnun verði veitt 50 m.kr. fjárveiting í afskriftarsjóð. Jafnframt er lagt til að veittar verði 5,5 m.kr. til byggðarannsókna til þess að fjármagna samning Byggðastofnunar, Háskólans á Akureyri og iðnaðarráðuneytis frá sl. sumri.
         1.11 Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Lögð er til 38 m.kr. hækkun til atvinnuþróunarfélaga Byggðastofnunar en framlagið hefur verið 65 m.kr. í nokkur ár og stofnunin hefur bætt við framlagið svo að greiðsla til félaganna hefur orðið 103 m.kr. Með þessari fjárveitingu er kleift að endurnýja samninga við atvinnuþróunarfélögin.

12 Viðskiptaráðuneyti

402     Fjármálaeftirlitið.
        1.01 Fjármálaeftirlitið
. Gert er ráð fyrir að gjöld Fjármálaeftirlitsins hækki um 18,8 m.kr. Í fjárlagafrumvarpinu eru gjöld stofnunarinnar áætluð 209,2 m.kr. en samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun eru þau nú áætluð 228 m.kr. Þá er fyrirhugað að innheimta 195,4 m.kr. gjald hjá eftirlitsskyldum aðilum en það er 13,8 m.kr. lækkun frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Mismunur á útgjöldum og rekstrartekjum er 32,6 m.kr. og verður hann fjármagnaður með rekstrarafgangi ársins 2000 sem gert er ráð fyrir að færist á milli ára. Sá mismunur kemur því fram á fjárlagaliðnum í sundurliðun 2 í frumvarpinu sem viðskiptahreyfing.

14 Umhverfisráðuneyti

190     Ýmis verkefni.
        1.23 Ýmis umhverfisverkefni.
Gerð er tillaga um tvær hækkanir á þessu viðfangsefni. Annars vegar er lagt til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag til Fræðasetursins í Sandgerði til að bæta aðstöðu sem sýni eru geymd í og tryggja betur varðveislu þeirra. Áætlaður kostnaður er um 5 m.kr. þar sem klæða þarf veggi með eldvarnarklæðningu og setja upp viðvörunarkerfi. Hins vegar er gerð tillaga um að veita 1 m.kr. framlag vegna vinnu við Staðardagskrá 21 í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
         1.57 Þjóðgarður á Snæfellsnesi, undirbúningur. Gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu til undirbúnings stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Er fjárhæðin ætluð til að standa straum af ýmsum kostnaði, svo sem ráðningu þjóðgarðsvarðar frá og með miðju ári, stofnkostnaði og kynningarmálum á friðlýstum svæðum.
         1.90 Ýmis verkefni. Lagt er til að safnliðurinn hækki um 1 m.kr. og verði alls 4 m.kr.
403     Náttúrustofur.
        1.10 Náttúrustofa Neskaupstað
. Gerð er tillaga um 3,5 m.kr. hækkun á framlagi til Náttúrustofu Austurlands til að efla grunnrannsóknir á hreindýrastofninum og til að stofnunin geti sinnt á fullnægjandi hátt þeim verkefnum sem henni hafa verið falin á sviði rannsókna og ráðgjafar vegna hreindýrastofnsins. Náttúrustofunni er ætlað að sinna hagnýtum rannsóknum, m.a. vegna vöktunar stofnsins, og almennum rannsóknum til að auka þekkingu á líffræði og lifnaðarháttum hreindýranna. Þá ber henni að meta ágang hreindýra á land.
        1.12 Náttúrustofa Bolungarvík. Lögð er til 5 m.kr. fjárveiting til Náttúrustofu Vestfjarða til að halda áfram rannsóknum í Hornstrandafriðlandi. Megináherslan var í upphafi lögð á rannsóknir á refum en nú hafa rannsóknir á gróðri aukist. Áætlaður kostnaður stofunnar við þessar rannsóknir næsta ár er 7 m.kr.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        
1.10 Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gerð er tillaga um að fjárheimild vegna gjaldfærðra vaxta verði aukin um 3,2 milljarða kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og að greiðsluheimild verði aukin um 3 milljarða kr. Breytt áætlun um þennan lið skýrist að miklu leyti af endurskoðaðri stefnu um lánsfjármögnun ríkissjóðs á næsta ári. Sú stefnumörkun hefur farið fram í samráði við Seðlabanka Íslands og Lánasýslu ríkisins að undanförnu og hefur hún verið kynnt fyrir aðilum á fjármagnsmarkaði. Þau áform miða að því að ríkissjóður þrengi ekki með aðgerðum sínum að gjaldeyrisstöðu Seðlabankans og að stuðlað verði að styrkari verðmyndun markaðsbréfa ríkissjóðs. Breyttar forsendur frá frumvarpinu felast einkum í þrennu: Í fyrsta lagi er nú gert ráð fyrir að gefa út ríkisbréf og ríkisvíxla í auknum mæli og nota fjárinnstreymið til ráðstafana á fjármagnsmarkaði sem geta t.d. falið í sér forinnlausn á spariskírteinum og aukningu á inneign ríkissjóðs hjá Seðlabankanum. Leiðir það til þess að gjaldfærðir vextir ríkisbréfa og víxla verða hærri en reiknað var með í frumvarpinu. Í öðru lagi er nú fyrirhugað að mæta öllum gjaldföllnum afborgunum af erlendum lánum með nýjum erlendum lánum en að auka í staðinn verulega greiðslur á skuldbindingu ríkissjóðs hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hefur það í för með sér að vaxtagjöld af erlendum lánum verða hærri en gert var ráð fyrir í fyrri áætlun. Loks er nú reiknað með að vaxtagjöld af erlendum lánum verði talsvert hærri en samkvæmt fyrri áætlun þar sem gengi helstu gjaldmiðla hefur hækkað gagnvart íslensku krónunni og vaxtastig hefur farið hækkandi. Skýrir það um þriðjung hækkunarinnar á gjaldfærðu vöxtunum frá frumvarpinu.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ
SUNDURLIÐUN 3 (B-HLUTA) OG SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA)

    B- og C-hluta áætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga, breytinga á lántökum og nýrra upplýsinga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða. Í framhaldi af því gerir meiri hlutinn tillögu um breytingar á einni áætlun í B-hluta og fimm áætlunum í C-hluta.

31 Iðnaðarráðuneyti

321    Rafmagnsveitur ríkisins. Framlag til fyrirtækisins úr ríkissjóði hækkar um 8 m.kr. frá frumvarpinu og verður 169 m.kr. Sú hækkun er leiðrétting sem gerð er til samræmis við fyrirhugað framlag í A-hluta frumvarpsins. Við þessa breytingu batnar staða á handbæru fé í árslok um sömu fjárhæð.

42 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna. Áætlun sjóðsins hefur verið endurskoðuð. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir 4% verðlags- og gengisbreytingu milli áranna 2000 og 2001 í stað 3% í frumvarpinu. Einnig er gert ráð fyrir að leggja tæplega 358 m.kr. sem svarar til 9,8% útlánafjárhæðar í afskriftarsjóð í samræmi við forsendur Ríkisendurskoðunar, en í frumvarpinu var ekki gert ráð fyrir framlagi í sjóðinn. Aðrar rekstrartekjur eru áætlaðar 12,4 m.kr. sem er 9,4 m.kr. hækkun frá frumvarpinu. Annars vegar er áætlað fyrir 6,6 m.kr. sértekjum á móti kostnaði við úthlutun styrkja til jöfnunar á námskostnaði framhaldsskólanemenda en sjóðurinn hefur tekið að sér þá þjónustu. Hins vegar er gert ráð fyrir 2,8 m.kr. auknum tekjum af greiðslu- og tilkynningargjöldum. Önnur rekstrargjöld sjóðsins hækka um 8,6 m.kr. og munar þar mest um kostnað við þjónustu tengda svonefndum dreifbýlisstyrkjum. Áætlað er að sjóðurinn veiti 85 m.kr. lán á markaðskjörum sem er 10 m.kr. lækkun frá frumvarpinu vegna færri umsókna. Útlán eru áætluð 3.665 m.kr. samanborið við 3.540 m.kr. í frumvarpinu og skýrist breytingin að mestu af breyttum verðlags- og gengisforsendum. Gert er ráð fyrir að innheimta 2.500 m.kr. í afborgunum af veittum lánum sem er 100 m.kr. hækkun frá frumvarpinu. Varanlegir rekstrarfjármunir eru áætlaðir 24 m.kr. sem er 8 m.kr. hækkun frá frumvarpinu. Stærsti hluti kostnaðarins er vegna viðhalds og endurbóta á hugbúnaði sjóðsins. Framangreindar breytingar leiða til þess að talið er að sjóðurinn þurfi að taka 2.900 m.kr. lán á árinu 2001, sem er 200 m.kr. minna en var áætlað áður, og að hann greiði 2.615 m.kr. í afborganir sem er 100 m.kr. lækkun frá frumvarpinu. Framlag úr ríkissjóði breytist ekki, en það er áætlað 2.150 m.kr. Framlagið reiknast sem 52% útlána eða 1.905,8 m.kr. að viðbættum 182,6 m.kr. rekstrargjöldum sjóðsins, 50 m.kr. vaxtastyrk sem er einnig talinn til rekstrargjalda og 24 m.kr. til fjárfestingar, en frá dragast 12,4 m.kr. rekstrartekjur.

44 Landbúnaðarráðuneyti

823    Lánasjóður landbúnaðarins. Aðrar tekjur hækka um 30 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um innheimtu búnaðargjalds á árinu 2001. Aðrar breytingar eru ekki gerðar á tekjum eða gjöldum og eykst því hagnaður sjóðsins um 30 m.kr. og handbært fé í árslok eykst sem því nemur.

47 Félagsmálaráðuneyti

201    Íbúðalánasjóður, húsbréfadeild. Áætlun sjóðsins hefur verið endurskoðuð. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að fjármunatekjur lækki um 176 m.kr. og fjármagnsgjöld um 195 m.kr. Hreinar fjármunatekjur hækka því um 19 m.kr. Því er gert ráð fyrir að húsbréfadeild verði rekin með 1.253 m.kr. hagnaði árið 2001. Áætlað er að rekstrarliðir sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi lækki um 1,1 milljarð kr. og verði því 8 milljarðar kr. Á yfirstandandi ári hafa umsóknir um lán í húsbréfakerfinu dregist saman og er ekki gert ráð fyrir aukningu á árinu 2001 eins og gert var í frumvarpinu. Samkvæmt endurskoðuðum forsendum er gert ráð fyrir að veitt löng lán verði 27,6 milljarðar kr. eða 4,3 milljörðum kr. lægri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Framangreindar breytingar leiða til þess að lánsþörf sjóðsins minnkar og tekin löng lán eru áætluð 27,3 milljarðar kr. sem er 4,2 milljörðum kr. lægri lánsfjárþörf en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

51 Iðnaðarráðuneyti

371    Orkusjóður. Gert er ráð fyrir 25 m.kr. hækkun á framlagi úr ríkissjóði til að flýta framkvæmd rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með það fyrir augum að geta gefið umsögn um nokkra virkjunarkosti til samanburðar við áformaða Kárahnjúkavirkjun seint á árinu 2001. Önnur rekstrargjöld hækka þá í sama mæli þar sem framlaginu verður ráðstafað til Orkustofnunar til að standa undir kostnaði við þessar rannsóknir og áætlanagerð.
411    Byggðastofnun.
Gerð er tillaga um að framlag úr ríkissjóði til stofnunarinnar hækki um 93,5 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu og verði alls 591,9 m.kr. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að stofnunin fái aukið framlag til að hún geti lagt 50 m.kr. í afskriftarsjóð sinn vegna útlánatapa. Í öðru lagi er um að ræða 38 m.kr. hækkun á framlagi til að endurnýja samninga við atvinnuþróunarfélög miðað við 103 m.kr. heildarkostnað en framlag til þess í fjárlögum hefur numið 65 m.kr. og hefur stofnunin greitt það sem á hefur vantað. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 5,5 m.kr. framlagi til að standa undir kostnaði við samning um byggðarannsóknir sem gerður var á milli stofnunarinnar, Háskólans á Akureyri og iðnaðarráðuneytisins í sumar. Við þessa breytingu á framlaginu frá ríkissjóði hækka þá framlög í afskriftarsjóð útlána um 50 m.kr. og önnur rekstrargjöld um 43,5 m.kr. í framsetningu á fjárreiðum stofnunarinnar. Loks er lagt til, að tillögu stjórnenda sjóðsins, að veitt lán árið 2001 lækki um 200 m.kr. og verði 2.000 m.kr. en staða á handbæru fé í árslok batnar þá sem því nemur.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 5. GR.

    Nokkrar breytingar eru lagðar til á 5. gr. frumvarpsins. Nú er ráðgert að ríkissjóður taki allt að 27,6 milljarða kr. að láni á næsta ári í stað 1,2 milljarða kr. Afborganir af teknum lánum aukast úr 32,7 milljörðum kr. í 36,8 milljarða kr. eða um 4,1 milljarð kr., einkum vegna aðgerða á innlendum fjármálamarkaði. Aukin lántökuheimild skýrist að öðru leyti af því að ekki er áformað að greiða niður erlend lán eins og áður var ráðgert og munar þar 15,6 milljörðum kr. Þá er nú áformað að styðja við vaxtamyndun á innlendum skuldabréfamarkaði með auknum skammtímalántökum sem nema um 6 milljörðum kr. og útgáfu á óverðtryggðum ríkisbréfum sem nemur sömu fjárhæð.
    Í 2. tölul. er lagt til að lántökuheimild Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 200 m.kr. og verði 2,9 milljarðar kr. Stafar breytingin af endurskoðun á áætlunum sjóðsins um útlán og fjármunahreyfingar á árinu.
    Loks er lagt til að lántökur húsbréfadeildar Íbúðalánasjóðs lækki um 4,2 milljarða kr. og verði alls 27,3 milljarðar kr. Í ljósi þróunar útlána það sem af er þessu ári er nú áætlað að lántakendum fækki heldur og að meðalfjárhæð hvers láns lækki frá því sem áður var áætlað.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 6. GR.

    Lagðar eru til tvær breytingar á 6. gr. frumvarpsins. Í samræmi við breytingar á útgjöldum Endurbótasjóðs menningarstofnana sem samþykktar voru við 2. umræðu um frumvarpið hækkar óskert framlag um 20 m.kr., úr 480 m.kr. í 500 m.kr. Þá er lagt til að 2. tölul., skerðingarákvæði um erfðafjárskatt, falli brott í samræmi við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001. Í því frumvarpi er lagt til að lög um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, nr. 12/1952, falli úr gildi og að tekjur af erfðafjárskatti og erfðafé renni framvegis í ríkissjóð í stað Erfðafjársjóðs.

Alþingi, 7. des. 2000.Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.


    

Ísólfur Gylfi Pálmason.


Hjálmar Jónsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Kristján Pálsson.Fylgiskjal I.

Álit


um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2001, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefur nefndin fjallað um 1. gr. fjárlagafrumvarpsins, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Nefndin fékk á sinn fund Bolla Þór Bollason og Kjartan J. Bendtsen frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og Þórð Friðjónsson og Katrínu Ólafsdóttur frá Þjóðhagsstofnun til að skýra málið frekar.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001 voru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 240,3 milljarðar kr. Þessi áætlun hefur nú verið endurskoðuð. Enn fremur hafa þjóðhagsforsendur fyrir árin 2000 og 2001 breyst nokkuð frá því sem gengið var út frá í fjárlagafrumvarpi sl. haust.
    Að öllu samanlögðu er nú talið að tekjur ríkissjóðs á árinu 2001 geti numið 253 milljörðum kr., eða 12,7 milljörðum kr. umfram áætlun fjárlagafrumvarps. Meginskýringu á auknum tekjum má rekja til fyrirhugaðrar sölu eigna ríkissjóðs, en gert er ráð fyrir að söluhagnaður hlutabréfa skili 8,2 milljörðum kr. á árinu 2001. Þar er stærsti þátturinn fyrirhuguð sala Landssímans á næsta ári.
    Helstu frávik einstakra tekjuliða koma fram í tekjuskatti einstaklinga vegna hækkunar á tekjugrunni ársins 2000 og meiri tekjubreytinga en gert var ráð fyrir við fyrri áætlun. Á móti vegur lækkun skatthlutfallsins um 0,33%. Samanlagt hækkar áætlun um tekjuskatt um tæplega 1,7 milljarða kr. Tekjuskattur lögaðila lækkar hins vegar um rúma 2,7 milljarða kr. vegna fyrirsjáanlegrar lakari afkomu þeirra og lægri álagningar á árinu 2000 en gert var ráð fyrir. Fjármagnstekjuskattur greiddur af ríkissjóði hækkar um 820 m.kr. vegna meiri eignasölu en áður var gert ráð fyrir. Þá eru tekjur af virðisaukaskatti taldar hækka um tæpa 2 milljarða kr. vegna hækkunar á tekjugrunni ársins 2000. Jafnframt eru vaxtatekjur ríkissjóðs taldar hækka um tæpa 2 milljarða kr. vegna aukinnar inneignar í Seðlabanka Íslands og fyrirframgreiðslu á framlagi í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samanlagt er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna breytinga á einstökum tekjuliðum fjárlagafrumvarps aukist um tæplega 2,6 milljarða kr.
    Þær skattalagabreytingar sem fyrirhugaðar eru lúta einkum að lækkun á skatthlutfalli tekjuskatts einstaklinga, eins og áður var getið, en sú breyting mun hafa 1.250 m.kr. áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Jafnframt munu fyrirhugaðar breytingar á barnabótakerfinu hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð upp á 700 m.kr. á árinu 2001. Auk þess mun lækkun kílómetragjalds þungaskatts leiða til 300 m.kr. lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Ekki er reiknað með sérstökum tekjuauka ríkissjóðs vegna frumvarps sem snýr að frestun á skattlagningu einstaklinga vegna söluhagnaðar af hlutabréfum og öðrum skattalagabreytingum.
    Helstu breytingar efnahagsforsendna sem varða tekjuáætlun fyrir árið 2001 eru að gert er ráð fyrir að einkaneysla minnki úr 2,6% í 1,7% og að fjárfesting dragist saman um 2,5% í stað 1,5%. Þá er reiknað með að kaupmáttur aukist um 0,5% á árinu 2001 í stað 1,5%.
    Reiknað er með að töluvert dragi úr hagvexti á árinu 2001 og hann nemi 1,6% sem er óbreytt frá þjóðhagsáætlun. Vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar hafa verðlagshorfur hins vegar versnað. Í þjóðhagsspá var reiknað með 4% hækkun milli áranna 2000 og 2001, en nú er gert ráð fyrir 5,8% verðlagshækkun milli ára. Þá eru líkur á að viðskiptahalli nemi 68 milljörðum kr. á árinu 2001, en á árinu 2000 var gert ráð fyrir 61,5 milljarða kr. viðskiptahalla. Hér er um að ræða 9,3% af landsframleiðslu. Í máli fulltrúa Þjóðhagsstofnunar kom hins vegar fram að helmingurinn af þessum mun skýrðist af breyttum uppgjörsaðferðum stofnunarinnar á þáttatekjum.
    Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2000.Vilhjálmur Egilsson, form.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.


Hjálmar Árnason.Fylgiskjal II.

Álit


um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2001, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur á einum stuttum fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytis fjallað um þær breytingar sem gerðar hafa verið á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2001. Jafnframt var á þessum eina fundi farið yfir með fulltrúum Þjóðhagsstofnunar endurskoðaðar horfur í efnahagsmálum 2001 og framvindu þessa árs. Í ljós kom að veigamiklar breytingar hafa orðið bæði hvað varðar tekjuáætlun og horfur í efnahagsmálum. Því átelur minni hlutinn það harðlega að nefndinni var ekki gefinn meiri tími til umfjöllunar og skoðunar á einstökum tekjuliðum og breyttri spá Þjóðhagsstofnunar.
    Í umsögn sinni um frumvarp til fjárlaga fyrir ári varaði minni hlutinn alvarlega við þróun í efnahagsmálum þjóðarinnar og sagði að ef ekki væri gripið til róttækra aðgerða af hálfu stjórnvalda stefndi í óefni. Sömu viðvörunarorð voru viðhöfð af öllum helstu sérfræðingum okkar í efnahagsmálum.
    Viðbrögð stjórnarflokkanna voru engin og fjárlög, sem og ýmis önnur þingmál sem juku á vandann í efnahagsmálum, voru afgreidd af stjórnarflokkum á síðasta þingi. Ljóst er af yfirferð Þjóðhagsstofnunar að vandinn sem við blasti fyrir ári hefur enn vaxið og ríkisstjórnin er að stefna þjóðinni í hreinar ógöngur.
    Gengi krónunnar hefur hríðfallið á undanförnum mánuðum, halli á vöruskiptum við útlönd verður meiri en búist var við, 34,3 milljarðar kr. en ekki 32,6 milljarðar kr. eins og þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir, og í heild er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn nemi á þessu ári um 61,5 milljörðum kr. sem jafngildir um 9,1% af landsframleiðslu. Þetta er í fullu samræmi við spá OECD um þróun efnahagsmála hér á landi. Ef miðað er við stöðu annarra landa innan OECD er aðeins Portúgal með meiri viðskiptahalla en Ísland á þessu ári. Spá Þjóðhagsstofnunar gerir ekki ráð fyrir að dragi úr viðskiptahallanum á árinu 2001. Þvert á móti er reiknað með auknum viðskiptahalla sem nemur um 6,5 milljörðum kr. Viðskiptahallinn verði 68 milljarðar kr. sem jafngildir 9,3% af landsframleiðslu. Spá OECD er ekki bjartari, hún gerir ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 10% af landsframleiðslu og eins og áður verði það aðeins í Portúgal sem sjá megi meiri viðskiptahalla. Þessi gífurlegi viðskiptahalli hefur á undanförnum mánuðum veikt stöðu krónunnar og Seðlabankinn ítrekað þurft að grípa til aðgerða til varnar krónunni. Þær aðgerðir hafa þó ekki dugað til og gengi krónunnar hefur haldið áfram að síga.
    Þennan vanda má rekja til þess að ríkisstjórnarflokkarnir brugðust ekki við í tíma þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir frá stjórnendum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitinu. Alþingi afgreiddi á síðasta vori lög sem fólu í sér verulega rýmkun á heimild til lífeyrissjóðanna til fjárfestingar erlendis. Það er alveg ljóst að stöðugt vaxandi fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis hafa í núverandi efnahagsástandi stuðlað að því að krónan hefur veikst. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið vöruðu sterklega við því síðastliðið vor að auka heimildir sjóðanna og við þeim afleiðingum sem það gæti haft á efnahagslífið, auknum viðskiptahalla og að veiking krónunnar þýddi hækkandi vaxtastig í landinu.
    Ríkisstjórnin hefur ekki tekið á þessum viðvörunum. Þannig hefur ríkisstjórnin í gegnum tíðina gert hver mistökin á fætur öðrum í efnahagsstjórn landsins og kosið að hunsa ráðleggingar og aðvaranir þeirra sem betur vita. Afleiðingarnar blasa við, mikill viðskiptahalli, verðbólgan hefur rokið upp, vextirnir hækkað og eru þeir nú mun hærri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.
    Aukinn viðskiptahalli endurspeglast vissulega í betri afkomu ríkissjóðs, en sá bati byggist á fölsku öryggi og honum fylgir mikil skuldasöfnun erlendis.
    Í upphafi þessa kjörtímabils lýsti forsætisráðherra mikilvægi þess að ná tökum á viðskiptajöfnuði og lækka erlendar skuldir. Þetta markmið í efnahagsstjórn hefur ekki náðst hjá ríkisstjórninni frekar en önnur. Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins voru þegar þessi ríkisstjórn tók við rúmlega 50% af landsframleiðslu.
    Í ár er reiknað með að þessi tala verði komin í 56,4% af landsframleiðslu og á næsta ári verði erlendar skuldir þjóðarbúsins 65,7% af landsframleiðslu.
    Ef hins vegar er miðað við heildarskuldastöðu eru þessar tölur enn verri. Þá er reiknað með að hrein erlend skuldastaða sem hlutfall af landsframleiðslu verði á næsta ári yfir 90%.
    Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar veldur ekki einungis versnandi stöðu þjóðarbúsins, skuldir heimilanna hafa einnig aukist gífurlega. Í lok ársins 1999 voru skuldir heimilanna um 500 milljarðar kr. en áætlað er að þær hækki á þessu ári um nærfellt 100 milljarða kr. og verði yfir 600 milljarðar kr. í árslok. Röng efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar veldur því að Seðlabankinn hefur orðið að hækka vexti verulega. Það ásamt vaxandi verðbólgu og hærra vöruverði bitnar af fullum þunga á skuldsettum fjölskyldum.
    Þær forsendur sem menn gáfu sér í kjarasamningum í upphafi þessa árs eru að bresta. Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar bitnar af fullum þunga á heimilunum. Þjóðhagsstofnun gerir nú ráð fyrir að kaupmáttur launa aukist aðeins um 0,5% á næsta ári í stað 1,5% í fyrri spá. Þá er reiknað með að fjárfestingar dragist saman, töluvert dragi úr hagvexti og nú er gert ráð fyrir 5,8% verðlagshækkun milli ára og áframhaldandi háum vöxtum.
    Þótt spáð sé minni fjárfestingu og minni einkaneyslu en ráð var fyrir gert í fyrri spá Þjóðhagsstofnunar skilar virðisaukaskatturinn auknum tekjum í ríkissjóð. Það skýrist af hækkandi verðlagi.
    Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs yrðu 240,3 milljarðar kr. Við endurskoðun er nú talið að tekjurnar verði um 253 milljarðar kr., hækki um 12,7 milljarða kr.
    Stærsti hluti þessarar tekjuaukningar er tilkominn vegna fyrirhugaðrar sölu Landssímans og annarra eigna almennings í landinu. Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að sala eigna skilaði um 7 milljörðum kr. en ný áætlun hljóðar upp á 15,5 milljarða kr., hækkun um 8,2 milljarða kr. Ýmsar spurningar vakna vegna fyrirhugaðrar eignasölu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, enda liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um það hvernig staðið verður að henni.
    Það er umhugsunarvert hversu skynsamlegt er að hraða sölu eigna við þær ótryggu efnahagsaðstæður sem við búum við. Það getur skipt sköpum, þegar um er að ræða svo háar upphæðir sem ríkið ætlar að taka inn vegna sölu eigna, hvernig þeim er ráðstafað í hagkerfinu.
    Það vekur athygli að alla efnahagslega stefnumótun um einkavæðingu skortir. Í ótryggu efnahagsástandi er nauðsynlegt að fyrir liggi áður en Alþingi samþykkir fjárlög hvernig ríkisstjórnin hyggst ráðstafa þeim fjárhæðum sem fást af eignasölu. Af fenginni reynslu af efnahagsstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks varar minni hlutinn alvarlega við fyrirhugaðri eignasölu ríkisstjórnarinnar.
    Önnur helstu frávik frá fjárlagafrumvarpinu koma fram í skattahækkun á einstaklinga en tekjuskatturinn á að skila tæplega 1,7 milljörðum kr. meira en gert var ráð fyrir þrátt fyrir lækkun tekjuskatts til móts við útsvarshækkun. Hins vegar lækkar tekjuskattur lögaðila um rúma 2,7 milljarða kr. vegna lægri álagningar en á þessu ári. Virðisaukaskatturinn á að skila tæplega 2 milljörðum kr. í auknar tekjur og skýrist það fyrst og fremst af hækkandi verðlagi. Vaxtatekjur ríkissjóðs eiga að hækka um tæpa 2 milljarða kr. vegna aukinnar inneignar í Seðlabankanum og fyrirframgreiðslu á framlagi í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Barnabætur hafa verið skertar verulega á undanförnum árum. Í síðustu kosningum lofaði Framsóknarflokkurinn bót og betrun í þeim efnum. Þau loforð hafa ekki gengið eftir. Nú á að sýna lit og gera breytingar á barnabótakerfinu sem munu kosta ríkissjóð 700 milljónir kr. Sú upphæð mun þó í engu duga til þess að bæta aðrar álögur sem ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafa haft í för með sér fyrir barnafjölskyldur.
    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega óstjórn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum landsins. Ný þjóðhagsspá og tekjuforsendur fjárlaga sýna vaxandi viðskiptahalla, aukna verðbólgu, hækkandi vexti og verðlag, aukna erlenda skuldasöfnun þjóðarbúsins.
    Efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar eru á kostnað launafólks og stefnir í aukið félagslegt og efnahagslegt misrétti í landinu.

Alþingi 7. des. 2000.Margrét Frímannsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.