Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 470  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2001.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Spá Þjóðhagsstofnunar fyrir þetta ár og næsta gefur mun dekkri mynd af stöðu efnahagsmála en Samfylkingin hafði spáð. Þar er í reynd staðfest að efnahagsstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur rekið upp á sker. Allt hefur þróast með öðrum hætti en forsætisráðherra hefur margsinnis spáð. Verðbólga er á uppleið, andstætt spám hans, vextir hækka, þrátt fyrir gagnstæðar spár forsætisráðherra, og viðskiptahallinn hefur, þrátt fyrir orð forsætisráðherra, náð sögulegri stærð og vex enn. Spá Þjóðhagsstofnunar staðfestir allt sem Samfylkingin hefur haldið fram á síðustu missirum. Þá er óhjákvæmilegt að rifja upp nýstárlega kenningu sem forsætisráðherra hefur sett fram innan hagfræðinnar og felur í sér að núverandi viðskiptahalli stafi einkum af einkaneyslu og sé því góðkynja. Síðustu mánuðir hafa sýnt hið gagnstæða. Mikill og vaxandi viðskiptahalli hefur grafið undan genginu, eins og Samfylkingin spáði, og gengið hefur nú þegar fallið um 10%. Um þessar mundir er því haldið uppi nánast með handafli Seðlabankans.
    Meginmarkmið frumvarps ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2000 var að treysta stöðugleika. Nú er ljóst að það hefur brugðist. Viðskiptahalli fer hraðvaxandi, vextir hækkandi og verðbólga er sömuleiðis á uppleið. Nú ræða sérfræðingar í efnahagsmálum ekki lengur um hvernig megi ná mjúkri lendingu heldur hvort unnt sé að forðast harðan skell. Ríkisstjórnin fór ekki að ráðum Samfylkingarinnar um að beita aðhaldsaðgerðum til að draga úr ríkisumsvifum meðan tækifærið gafst. Ekki var notaður sá byr sem uppsveiflan hafði skapað til að treysta stöðu ríkisfjármála. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að minna á að Samfylkingin bauð í upphafi kjörtímabilsins upp á samstarf um að draga saman seglin í ríkisbúskapnum. Því var hafnað. Á síðasta sumri, þegar ljóst var að syrti í álinn, bauð hún á ný upp á samstarf við stjórnarflokkana með þátttöku aðila vinnumarkaðarins í því skyni að skapa þjóðarsátt um viðnám gegn verðbólgu. Ábyrgðarleysi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar endurspeglast best í því að hún hafnaði einnig því tilboði.
    Helsta ráð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar nú er að selja eignir til erlendra fyrirtækja og fá með því erlendan gjaldeyri inn í landið til að sporna gegn taumlausum viðskiptahalla og styrkja þar með krónuna. Fyrirhuguð er sala fimmtungs hlutafjár í Landssímanum og ljóst að Landsbanki og Búnaðarbanki eru sömuleiðis á sölulista ríkisstjórnarinnar. Með þessu á að bæta afkomu ríkissjóðs um 15 milljarða kr.
    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2000 og þær breytingar sem urðu á því í meðförum þingsins sýna skýrt þá lausung sem viðhöfð hefur verið, upp á „hundruð milljóna“, svo að vitnað sé í orð varaformanns fjárlaganefndar. Í engu var brugðist við viðvörunum og varnaðarorðum Samfylkingarinnar um hættur í efnahagsþróuninni, hvað þá að reynt væri að bregðast við eins og 1. minni hluti fjárlaganefndar lagði til í nefndaráliti um fjárlög fyrir árið 2000.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2001 var áætlað að gjöld næmu 209.970 millj. kr. og tekjur 240.300 millj. kr. Tekjuafgangur var þannig áætlaður 30.330 millj. kr. Síðan frumvarpið var lagt fram hafa útgjöldin verið aukin um 9.188,7 millj. kr. Um 600 millj. kr. má rekja til vanda heilbrigðisstofnana. Tekjur ríkissjóðs hafa einnig hækkað frá því að frumvarpið var lagt fram um 12.800 millj. kr. Þetta þýðir að tekjuafgangur er nú áætlaður 33.941,3 millj. kr., eða sem nemur 3.611,3 millj. kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Fyrirsjáanlegur vandi.
    Áður hefur verið bent á að margt bendi til að enn sé óleystur vandi í heilbrigðiskerfinu og að í menntamálunum sé vandinn verulegur hjá mörgum framhaldsskólum og skólum á háskólastigi. Ekki er nægjanlega tekið á þeim vanda. Ekki er heldur tekið á velferðarmálum eins og Samfylkingin hefur lagt fram hugmyndir um, þ.e. með því að tryggja afkomu þeirra sem lakast eru settir, og ekkert hefur verið gert til að greina á milli aldraðra, öryrkja og einstæðra foreldra eftir mismunandi kjörum sem þeir búa við. Samfylkingin krefst þess að gripið verði til ráðstafana til að leysa þann vanda sem lýtur að þeim sem lakast eru settir og lýsir megnri andúð á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Lánsfjáráætlun.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2001 var gert ráð fyrir að lántökur næmu 1,2 milljörðum kr. Á þeim 67 dögum sem liðnir eru frá framlagningu þess hefur áætlunin breyst og fyrirhugað er að taka að láni 27,6 milljarða kr. Afborganir hækka um 4,1 milljarð kr. og verða 36,8 milljarðar kr. Allt þetta má rekja til aðgerða á innlendum fjármálamarkaði, sem sagt gengislækkunar. Þetta er eðlilegt framhald af vandræðaganginum á þessu ári en nú liggur fyrir að lántökur ársins 2000 verða einnig langt umfram áætlanir fjárlaga. Í stað þess að lántökur næmu 5 milljörðum kr. er nú áætlað að þær nemi 25,5 milljörðum kr.
    Ástæða er til að vitna til framhaldsnefndarálits 1. minni hluta frá liðnu ári en þar stóð m.a.: „Miðað við fyrirsjáanlegan viðskiptahalla á næsta ári, ásamt þeirri staðreynd að ekki dregur úr neyslu, er alveg ljóst að þessi áætlun stenst ekki og að lántökur ríkissjóðs verða talsvert umfram það sem áætlað var. Að sama skapi yrði ekki greitt eins mikið niður af erlendum lánum og gert var ráð fyrir. Liggur þá ekki annað fyrir en að afgangurinn verði frystur í Seðlabanka.“ Þetta sýnir að ríkisstjórnin hefur léleg tök á efnahagsmálum og bregst ekki við breyttum aðstæðum fyrr en um seinan.

Þjóðhagsforsendur.
    Á undanförnum árum hafa tekjuliðir frumvarps til fjárlaga breyst við 3. umræðu í kjölfar endurskoðaðrar þjóðhagsspár. Nú bregður svo við að ekki er talin ástæða til þessa þrátt fyrir að endurskoðuð þjóðhagsspá víki í veigamiklum atriðum frá forsendum frumvarpsins. Spá Þjóðhagsstofnunar gerir nú ráð fyrir að verðbólga verði allt að 5,8% í stað 4% í forsendum frumvarpsins. Þessi mikla breyting er m.a. rakin til 3,5–4% lækkunar á gengi krónunnar. Vegna þessa er nú aðeins reiknað með 0,5% kaupmáttaraukningu á næsta ári. Útlit er fyrir 68 milljarða kr. viðskiptahalla, sem svarar til 9,3% áætlaðrar landsframleiðslu. OECD er til muna svartsýnni og spáir 10% halla á næsta ári.

Samanburður á forsendum fjárlaga og endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar


(magnbreytingar í %).



Fjármálaráðuneytið Þjóðhagsstofnun
Fjárlög Áætlun Spá Áætlun Spá
2000 2000 2001 2000 2001
Einkaneysla 3,0     4,0 2,6 4,0 1,7
Samneysla 2,5     3,5 3,0 3,5 3,0
Fjárfesting 2,7     10,5 -1,5 10,8 -2,6
Þjóðarútgjöld alls 2,8 5,1 1,7 5,3 0,9
Útflutningur vöru og þjónustu 1,9 0,9 -0,9 2,5 0,0
Innflutningur vöru og þjónustu 1,9 4,7 -0,3 5,9 -1,2
Landsframleiðsla 2,9 3,7 1,6 4,0 1,6
Vísitala neysluverðs 4,5 5,5 4,0 5,2 5,8
Ráðstöfunartekjur á mann 5,9 6,9 5,6 7,2 5,3
Kaupmáttur ráðstöfunartekna 1,6 1,4 1,5 2,0 0,5

    Veikist gengi krónunnar enn má búast við enn meiri verðhækkunum. Það þarf ekki skarpa sérfræðinga til að sjá hvaða áhrif þetta hefur á skuldir heimilanna sem hafa aukist verulega á þessu ári. Viðskiptahallinn í ár verður um 61,5 milljarðar kr. og spáð er að hann verði kominn um og yfir 70 milljarða kr. í árslok 2001. Ljóst er að fjármálastjórn ríkisins ræður ekki við það ástand sem er að skapast í hagkerfinu. Hagfræðistofnun benti nýlega á í skýrslu um eðli og orsakir viðskiptahalla að skattahækkanir og lækkun ríkisútgjalda yllu í senn minni eftirspurn og minni viðskiptahalla. Síðan segir orðrétt í skýrslunni: „Ef við viljum ráða niðurlögum verðbólgu með því að draga úr innlendri eftirspurn en jafnframt minnka viðskiptahallann verðum við að beita öflugri fjármálastefnu. Peningamálastefnan ein og sér getur ekki náð báðum markmiðum á sama tíma.“ Bent er á að kostir peningamálastefnunnar felast í hversu fljótvirk hún er en fjármálastefnan er hins vegar svifaseinni. Í ljósi þessa þarf að leggja áherslu á öflugt eftirlit með bönkum og að náið sé fylgst með stöðugleika fjármálakerfisins. Eins og fram hefur komið hafa útgjöld ríkissjóðs aukist að raungildi um 50 milljarða kr. frá árinu 1994 og stefnir í að þau aukist að raungildi um 5 milljarða kr. á árinu 2001. Þegar horft er til þess að nú er seinni hluti kjörtímabils þessarar ríkisstjórnar að renna upp er ekki að vænta aðhaldssamrar fjármálastjórnar á næstu árum.

Tekjuhlið frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir tekjum sem nema 253,1 milljarði kr. Þar af er gert ráð fyrir tekjum af sölu eigna (sjá álit efnahags- og viðskiptanefndar) sem nema 15,5 milljörðum kr. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að tekjur af reglulegri starfsemi ríkisins (án sölu eigna o.fl.) aukist um 6,4% á milli ára. Ef tekið er tillit til óreglulegra liða nemur tekjuaukinn 12,9%. Ein af breytingunum frá frumvarpinu er tæplega 3 milljarða kr. lækkun á tekjuskatti lögaðila og er nú gert ráð fyrir að sá skattur dragist saman um 10,2% frá árinu 2000. Versnandi afkoma fyrirtækja er vissulega áhyggjuefni. Þetta eykur þrýsting á hækkun verðlags og jafnvel gengislækkun.
    Tekjuáætlun fjárlaga er háð sveiflum í efnahagslífinu eins og reynslan sýnir. Á undanförnum árum hafa tekjur aukist jafnt og þétt og yfirleitt verið umfram áætlun fjárlaga. Þetta hefur gefið svigrúm til að auka útgjöld án þess að hafa veruleg áhrif á tekjujöfnuð. Með þessu er umfang ríkisrekstrarins aukið meira en góðu hófi gegnir og skapar það erfiðleika þegar tekjur dragast saman. Því er ákaflega mikilvægt að útgjöld fari ekki fram úr áætlun fjárlaga. Það getur og hefur leitt til þess að fjármálamarkaðurinn hætti að treysta efnahagsstjórninni. Á þetta atriði lagði 1. minni hluti áherslu í framhaldsnefndaráliti 1999 við þriðju umræðu fjárlaga en þar segir: „Það er einnig áhyggjuefni að markaðurinn virðist ekki bregðast við afkomu ríkissjóðs eins og ætla mætti. Þetta þýðir að aðgerðir og áætlanir í ríkisfjármálum vekja ekki traust hjá almenningi og fyrirtækjum. Því þarf að beita mun meira aðhaldi í peninga- og vaxtamálum ef takast á að vinna gegn þenslunni og viðskiptahallanum og auka tiltrú markaðarins á stjórn ríkisfjármála.“
    Eins og fyrr segir er áætluð sala Landssímans og sala á Landsbanka og Búnaðarbanka. Það eru augljós markmið ríkisstjórnar að selja þessar eignir og afla með því gjaldeyristekna til styrktar krónunni, með því skal reynt að koma á jafnvægi í efnahagsmálum. Þá er nauðsynlegt að kanna áhrif sameiningar bankanna á markaðinn, ekki síst á atvinnumál á landsbyggðinni því að óhjákvæmilega fækkar útibúum við sameininguna. Þá hefur reynslan sýnt að bankakerfið á í erfiðleikum með að hagræða í rekstri þannig að hægt sé að draga úr vaxtamun hér innan lands. Samfylkingin bendir á að svona efnahagsaðgerðir hafa aðeins skammtímavirkni. Hið eina sem getur skilað árangri er að ríkissjóður dragi úr útgjöldum og beiti ýtrasta aðhaldi. Sparnaður er eini raunhæfi kosturinn til að draga úr þenslu og auka framlegð fyrirtækja.

Vesturbyggð og Orkubú Vestfjarða.
    Fyrsti minni hluti er þeirrar skoðunar að ekki komi til greina að skilyrða sölu á hlutum sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða fjárhagslegu uppgjöri við ríkið.
    Ljóst er að verulegur fjárhagsvandi steðjar að mörgum sveitarfélögum vegna laga sem kveða á um innlausnarskyldu þeirra á íbúðum í félagslega húsnæðiskerfinu. Sá vandi er hins vegar ekki að öllu leyti bundinn við Vestfirði. Í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar við fjárlagafrumvarpið er hins vegar lagt til að framkvæmdarvaldið fái heimild til að gera bráðabirgðasamkomulag við eitt tiltekið sveitarfélag, Vesturbyggð, um fjárhagslega fyrirgreiðslu „í tengslum við fyrirhuguð kaup ríkisins á eignarhluta sveitarfélagsins í Orkubúi Vestfjarða“. Fyrsti minni hluti er þeirrar skoðunar að sveitarfélög á Vestfjörðum eigi vissulega að hafa svigrúm til að selja hlut sinn í Orkubúi Vestfjarða. Það á hins vegar að vera frjáls framkvæmd, algerlega ótengd uppgjöri við ríkið vegna fjárhagsvandans sem stafar af félagslega húsnæðiskerfinu. Þess vegna mun 1. minni hluti ekki styðja umrætt ákvæði.
    Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að 3. gr. laga um Orkubú Vestfjarða, nr. 66 31. maí 1976, heimilar því aðeins tilteknu sveitarfélagi að selja hlut sinn í Orkubúinu að fyrir liggi að allir sameigendur hafi gefið leyfi sitt til þess að viðkomandi sveitarfélag gangi úr félaginu. Samfylkingin vekur athygli á því að slíkar heimildir liggja ekki fyrir.

Lokaorð.
    Fjárlagafrumvarp er sett fram við lokaumræðu miðað við óbreyttar forsendur frá því að það var lagt fram. Verulegur mismunur er á forsendum þess og nýrri spá Þjóðhagsstofnunar en stofnunin hefur nú sem áður nokkra fyrirvara á spánni. Úr þeim fyrirvörum má lesa að efnahagskerfið sé ákaflega viðkvæmt um þessar mundir. Þróun olíuverðs, launahækkanir, viðskiptahalli, staða krónunnar og aflabrögð eru allt óvissuþættir sem hver um sig gæti haft veruleg áhrif á afkomu þjóðarbúsins ef þróun þeirra verður önnur en spáð er.

Alþingi, 7. des. 2000.



Gísli S. Einarsson,


frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Össur Skarphéðinsson.