Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 473  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2001.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2001 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umræðu. Vísað er til nefndarálits 2. minni hluta við 2. umræðu. Enn fremur er vísað til álits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar varðandi tekjuhlið frumvarpsins og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs á næsta ári sem fylgir framhaldsnefndaráliti meiri hlutans.
    Áætlað er að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 253 milljarðar kr., 12,8 milljörðum kr. hærri en frumvarpið gerði ráð fyrir. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 219 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er áætlaður 34 milljarðar kr.

Nýrra vinnbragða við fjárlagagerðina er þörf.
    Ríkisstjórnin leggur fram frumvarp til fjárlaga í upphafi þings. Að því búnu fer það til fjárlaganefndar til frekari vinnu. Sú hefð hefur skapast að við 2. umræðu eru lagðar fram meginbreytingar þingsins á gjaldahlið frumvarpsins. 2. umræða hefur þó í auknum mæli snúist um efnahagshorfur og stefnu í ríkisfjármálum þrátt fyrir að endurskoðuð þjóðhagsspá og tekjuáætlun fyrir næsta ár liggi ekki fyrir. Við 3. umræðu er lögð fram endurskoðuð tekjuáætlun fyrir næsta ár og jafnframt þær efnahagsforsendur sem ríkisfjármálin byggjast á á næsta ári.
    Ítarleg umræða fer fram innan fjárlaganefndarinnar um sundurliðaða gjaldahlið frumvarpsins. Fjölmargir aðilar koma fyrir nefndina og skýra einstaka útgjaldaliði.
    Tekjuhlið frumvarpsins fær aftur á móti afar litla umfjöllun fjárlaganefndar sem er þó hin hlið fjárlagafrumvarpsins. Má nefna í því sambandi að endurskoðuð tekjuáætlun var kynnt í nefndinni rétt um það leyti sem hún afgreiddi frumvarpið frá sér. Þá kom fram tillaga ríkisstjórnarinnar um stórfellda sölu á ríkiseignum á næsta ári og þar með talið hluta í Landssímanum. Ekki fengust ræddar í nefndinni forsendur eða tilhögun sölunnar.
    Mun eðlilegra hefði verið að við 2. umræðu hefði verið fjallað um tekjuáætlun, efnahagsforsendur og stefnu í ríkisfjármálum. Við þá umræðu væri tekjuhlið frumvarpsins ákveðin. Við 3. umræðu væru útgjöldin endanlega ákveðin. Það er góður siður á vönduðum heimilum að telja fyrst í buddunni og ákveða síðan útgjöldin. Þannig ætti það einnig að vera hjá Alþingi gagnvart ríkisfjármálunum.

Stefnan í ríkisfjármálum.
    Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2001 eru nú afgreidd við mikla óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Forsendur í þjóðhagsáætlun hafa tekið stöðugum breytingum og hið sama gildir um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Þannig var viðskiptahalli þessa árs áætlaður 32 milljarðar kr. í þjóðhagsspá fyrir ári, en stefnir nú í að verða 62 milljarðar kr. og ekki víst að öll kurl séu komin til grafar. Við búum enn við „góðæri“ á yfirborðinu því að atvinna er næg þótt henni sé ef til vill misskipt eftir landshlutum. Landsframleiðsla vex enn og fjárfesting er mikil.
    Samt kveður við holan hljóm. Ljóst er að við núverandi horfur í efnahagsmálum ber ríkisvaldinu skylda til þess að sýna aðhald í rekstri og koma í veg fyrir þenslu. Það er að vissu leyti gert með þessum fjárlögum, en að vísu dálítið seint því að áhrif slíkra aðgerða taka nokkurn tíma að koma fram.
    Mikil óvarkárni einkenndi fjárlög á árinu 1998 í aðdraganda síðustu kosninga. Þau mistök ásamt ábyrgðarleysi í einkavæðingu, svo sem ríkisbankanna, varð til þess að verðbólga rauk upp og hefur verið 4–6% síðan. Mikilvægt er að aðhaldið komi fram á réttum stöðum og framlög til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu séu ekki skert. Þeir hafa hins vegar fengið næsta lítið í sinn hlut af góðærinu, en þurft að bera æ meiri byrðar, t.d. vegna húsnæðis-, lyfja- og lækniskostnaðar. Þar vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð sjá aðrar áherslur. Grein Ólafs Ólafssonar fyrrverandi landlæknis, sem birt er sem fylgiskjal með þessu áliti, sýnir hversu bág kjör margir ellilífeyrisþegar búa við, en 7.390 manns hafa lægri mánaðartekjur en 58.500 kr. fyrir skatta.

Vaxtastefnan.
    Mikil oftrú hefur ríkt á mætti vaxtaaðgerða til þess að slá á eftirspurn, en vaxtahækkanir hafa einungis orðið til þess að fyrirtæki flytja sig á erlenda fjármagnsmarkaði og hafa bankarnir fengið rýmri fjárráð til þess að auka útlán til einstaklinga. Afleiðingin, a.m.k. til skemmri tíma, hefur verið aukin þensla. Hávaxtastefna ríkisstjórnarinnar hefur aftur á móti einnig leitt af sér gífurlegan viðskiptahalla sem er spáð að aukist enn frekar á næsta ári.
    Að vissu leyti er mönnum vorkunn. Frelsið á fjármagnsmarkaði hér á landi er tiltölulega nýtt og lítil reynsla hefur fengist af því. Samt sem áður hefur ákveðin grunnhyggni einkennt gerðir manna. Menn virðast hafa tekið stöðugleikann sem sjálfsagðan hlut. Það mátti öllum vera ljóst að mikil aukning peningamagns í umferð, sem lengst af var samfara vaxtahækkunum Seðlabankans, hlyti að vera mjög þensluhvetjandi.
    Ef þetta ástand verður viðvarandi er fyrirséð að íslensk heimili beri ofurþungan fjármagnskostnað sem kann að reynast mörgum ofviða þegar áfram sækir. Enn fremur munu háir vextir koma afar illa við smærri fyrirtæki og hefta alla nýsköpun. Með öðrum orðum: háir vextir grafa undan framtíð Íslendinga þegar til lengdar lætur.

Eru bjargráðin erlendar lántökur?
    Ríkisstjórnin virðist hafa tekið fjármagnsinnstreymi sem sjálfsagðan hlut og lítið kapp var lagt á að greiða niður erlend lán ríkissjóðs á meðan peningarnir streymdu inn. Loksins þegar til átti að taka á næsta ári eru slíkar niðurgreiðslur ómögulegar. Áætlun stjórnarinnar frá í haust var sú að nota tekjuafganginn til þess að greiða niður erlendar skuldir. Það er hins vegar ekki hægt eins nú kemur fram vegna þess hve gjaldeyrisstreymi til landsins er viðkvæmt. Í stað þess að greiða niður lánin eru erlendar skuldir auknar.
    Þetta er mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að ríkissjóður er nú í þeirri stöðu að þurfa að taka erlend lán til þess að viðhalda genginu. Þá var óvarlegt að rýmka erlendar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna í upphafi þessa árs. Meðal annars í kjölfar þess hefur gjaldeyrisútstreymi orðið mikið vandamál. Það verkefni stjórnvalda að viðhalda stöðugleika hefur því orðið mun erfiðara en annars hefði þurft að vera og það að ófyrirsynju.
    Öllu verra er þó að eftir nær fullkomið andvaraleysi skiptir nú yfir í mikinn ótta um gengi krónunnar og fjármagnsjöfnuð landsins. Gengismálin hafa tekið yfir nær öll önnur markmið í hagstjórn. Það sést greinilega af einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Hér er markmiðið ekki að hagræða eða bæta þjónustu eins og svo oft er haldið fram um einkavæðingu. Markmiðið virðist vera aðeins það eitt að fá aukinn gjaldeyri inn í landið með öllum tiltækum leiðum, þar með talið sölu ríkisfyrirtækja.
    Gengi krónunnar skiptir efnahagslífið og kjör fólks að sjálfsögðu miklu máli. Atvinnulífið er mjög skuldsett í erlendum gjaldmiðlum og þolir illa gengislækkun. Sama gildir um fjárhag heimilanna, en lægra gengi hækkar vöruverð og höfuðstól verðtryggðra lána. Sú staða sem þjóðarbúið stendur nú frammi fyrir kom ekki til af sjálfu sér. Hún er afleiðing þeirra hagstjórnarákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið á síðustu árum.
    Þingflokkur vinstri grænna lýsir miklum áhyggjum af gangi mála. Ef þetta ástand varir miklu lengur er hætta á því að útflutningsgeta þjóðarbúsins skaðist þegar til lengri tíma er litið. Jafnvægi í efnahagslífinu innan lands og aukinn útflutningur er eina varanlega lausnin á viðskiptahallanum. Það skal viðurkennt að einkavæðing getur skapað gjaldeyristekjur, en aðeins einu sinni. Þegar eignirnar hafa verið seldar án þess að taka á undirliggjandi vanda er allt sem áður var.

Áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Allir þegnar þjóðfélagsins skulu eiga tryggð mannsæmandi samfélagslaun. Öll mismunun á lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu, sem og röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs.
    Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og að tekið verði upp „grænt bókhald“ þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.

Alþingi, 8. des. 2000.



Jón Bjarnason.




Fylgiskjal.


Ólafur Ólafsson,
fyrrverandi landlæknir:


Tæpur þriðjungur ellilífeyrisþega nær ekki „lágmarksframfærslumörkum“.


    (Morgunblaðið, 7. desember 2000.)


    Um 23.000 ellilífeyrisþegar fá óskertan grunnlífeyri þ.e. 17.715 kr. á mánuði en rúm 10.000 af þeim fá til viðbótar óskerta tekjutryggingu, þ.e. 30.461 kr. á mánuði eða samtals 48.176 kr. á mánuði. Rúm 4.000 fá heimilisbætur að upphæð 14.564 kr. á mánuði og 361 fá 7.124 kr. sem sérstakar heimilisbætur.
    Úr almennum lífeyrissjóðum verkafólks fá 3.486 manns 5.637 kr. á mánuði að meðaltali en 3.627 manns fá 14.743 kr. að meðaltali á mánuði, skattlagning hefst við 63.878 kr. fyrir einstakling en um 130.000 kr. fyrir fólk í sambúð.
    Hverjar eru rauntekjur ellilífeyrisþega þegar á heildina er litið. FEB óskaði eftir úttekt ríkisskattstjóra á málinu. Samkvæmt útreikningum sérfræðinga skattstjórans er tekjudreifing ellilífeyrisþega þessi. Tekið er tillit til allra tekna, skatta, útsvara, ívilnunar skv. 66. gr. og skv. 80. gr. ásamt persónuafslætti.

Tekjur og skattar ellilífeyrisþega árið 1999.



Fjöldi     Meðaltal á ári Skattar
890 124.000 4.000
1.271 299.000 2.000
1.917 522.000 3.000
3.312 702.000 12.000
4.296 909.000 68.000
4.912 1.097.000 130.000
3.121 1.292.000 186.000
7.147 1.495.000 206.000
26.866 1.233.000 168.000

    Úr þessari töflu má lesa að 7.390 manns, þ.e. 28%, hafa lægri mánaðartekjur (meðaltal) en 58.500 kr. fyrir skatta og 11.686, þ.e. 44%, um 75.000 kr. fyrir skatta. Eignarskattstofn þessara einstaklinga er rúmar 3–4 milljónir, óljóst er um skuldir. En tilraun verður gerð að áætla þær. Einnig verður kannaður hagur dvalarheimilisvistmanna en nú bíða um 560 manns þar af um 230 í brýnni þörf. Vissulega er hátekjufólk í hópnum en um 400 manns þ.e. 1,5% hafa á milli 370.000–735.000 á mánuði með eignarskattsstofn á milli 10–16 milljónir. Hagstofa Íslands hefur ekki reiknað út áætlaðan lágmarksframfærslukostnað eins og Hagstofur nágrannalandanna gera reglulega.
    En með hliðsjón af að skattleysismörk eru tæpar 64.000 kr. á mánuði og LÍN áætlar að námsmenn þurfi 66.500 kr. á mánuði til framfærslu má ætla að lágmarksframfærslukostnaður í dag sé á þeim slóðum. Ætla má að þriðjungur ellilífeyrisþega (þar á meðal öryrkjar) bera ekki úr býtum lágmarksframfærslutekjur. Samanburðurinn verður óhagstæðari ef kíkt er á síðustu neyslukönnun Hagstofu Íslands frá 1995. Þar kemur í ljós að miðað við 16,3% verðlagshækkun fram til ársins 2000 eyðir hver einstaklingur um 100.000 kr. á mánuði til lífsnauðsynja.
    Ástandið verður skýrara þegar litið er til þróunar kaupmáttar á síðustu árum. Þó að kaupmáttur lífeyrisþega hafi hækkað nokkuð á allra síðustu árum er ljóst að kaupmáttur þeirra hefur ekki tekið mið af launaþróun verkamanna eins og eldri borgarar hafa krafist. Þessar niðurstöður hafa öðlast viðurkenningu í „ráðherrasamráðsnefndinni“.
    Starfstengda lífeyrissjóðskerfið nær ekki að brúa þetta bil á næstu 15–20 árum. Langt er því í land áður en „lífeyrir 69 ára ellilífeyrisþega verður 70% af meðaltalsatvinnutekjum fólks á aldrinum 40–60 ára (að viðbættum 11% af atvinnutekjum á grunnlífeyri)“ eins og menn ætla í ritinu „Lífeyriskerfi og umönnunar tryggingar“ sem gefið var út á ári aldraðra 1999 af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hvers vegna er verið að rýra kjör margra aldraðra? Athyglisvert er að á árunum 1995–1999 fjölgaði lífeyrisþegum er búsettu sig í útlöndum um 64%.
    Hvað er til ráða? Þarf að fara með málið til mannréttindadómstóls Evrópu til þess að úrbætur fáist?