Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 490  —  90. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 121/1994, um neytendalán.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti, Magnús M. Norðdahl frá ASÍ, Önnu Birnu Halldórsdóttur frá Samkeppnisstofnun og Guðjón Rúnarsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka. Jafnframt bárust gögn frá viðskiptaráðuneyti og umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, Samkeppnisstofnun, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Fjármálaeftirlitinu og Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
    Frumvarpið er samið að fenginni reynslu af framkvæmd laga um neytendalán frá árinu 1994. Því er ætlað að fella brott ákvæði sem reynst hafa óþörf eða hafa gegnt sínu hlutverki og jafnframt að lagfæra orðalag. Auk þess er frumvarpinu ætlað að bæta í lögin tilvísun til þess Evrópuréttar sem þau byggjast á.
    Nefndin bendir á að í umsögn Samkeppnisstofnunar um frumvarpið kom fram að stofnunin hefði aldrei fengið sérstaka fjárveitingu til að standa undir kostnaði við eftirlit með lögum um neytendalán. Þá kemur fram í umsögninni að í ljósi þeirra breytinga sem frumvarpið hefur í för með sér sé nauðsynlegt að ráðist verði í kynningu á ákvæðum laganna fyrir neytendur og lánveitendur og leggur Samkeppnisstofnun áherslu á að henni verði gert kleift að ráðast í slíka kynningu. Nefndin bendir á að við þessa kynningu væri hægt að hafa samráð og samstarf við hagsmunaaðila. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að í 13. gr. laganna verði að finna sérstaka heimild til að setja reglugerð um framkvæmd upplýsingaskyldu. Nefndin vekur athygli á því að við samningu reglugerðarinnar sé rétt að haft verði samráð við helstu hagsmunaaðila, en Alþýðusamband Íslands hefur sérstaklega óskað eftir slíku samráði.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      a.    Lagt er til að tilvísun í númer laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði verði felld brott svo að ekki þurfi að breyta lögum um neytendalán á ný ef númer laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði breytist.
        b.    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að f-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, sem kveður á um að lánssamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign séu undanþegnir lögum um neytendalán, verði breytt þannig að hann taki til lánssamninga sem Íbúðalánasjóður gerir eða annarra sambærilegra fasteignaveðlánasamninga sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Við athugun málsins kom í ljós að annars staðar á Norðurlöndunum falla lánveitendur sem veita lán með veði í fasteign til lengri tíma undir ákvæði laga um neytendalán. Ástæðulaust þykir að undanskilja slíka aðila ákvæðum laganna og þeirri skyldu að veita lántakanda upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar af láni. Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að Íbúðalánasjóður, sem er sá aðili sem gerir flesta lánssamninga vegna öflunar íbúðarhúsnæðis, er ekki mótfallinn því að ákvæði laga um neytendalán taki einnig til slíkra samninga. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin jafnframt til að f-liður 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott.
     2.      Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að g-liður 1. mgr. 2. gr. laganna verði felldur brott, en þar er vísað í 3. gr. sem fjallar um yfirdráttarheimild. Lánssamningar sem fela í sér yfirdráttarheimild á tékkareikningi verða því ekki lengur undanþegnir ákvæðum laganna og upplýsingaskyldan samkvæmt þeim mun því ná til slíkra samninga. Því er nauðsynlegt að samræma 3. gr. laganna hinni fyrirhuguðu breytingu. Þær breytingar felast einkum í því að bætt er við greinina nýjum staflið, e-lið, þar sem tekið er fram að í samningi um yfirdráttarheimild skuli lántakanda greint frá árlegri hlutfallstölu kostnaðar við mismunandi notkun á heimildinni, en ljóst er að sú tala kann að vera breytileg eftir því hvernig heimildin er notuð hverju sinni. Einnig er gert ráð fyrir því í 2. málsl. að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið. Þannig væri t.d. hægt að taka fram hver árleg hlutfallstala kostnaðar væri miðað við að ákveðin yfirdráttarheimild væri nýtt að fullu, að hálfu leyti eða að einum tíunda. Loks er í 3. málsl. gert ráð fyrir því að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laganna um að lánssamningar samkvæmt lögunum skuli gerðir skriflega verði heimilt að breyta yfirdráttarheimild á tékkareikningi að munnlegri beiðni neytanda. Þá væri hægt að senda skriflegan samning til neytanda eftir á þar sem hlutfallstalan fyrir nýju heimildina væri gefin upp.
     3.      Lagt er til að tilvísun í númer laga um Evrópska efnahagssvæðið verði felld brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson og Sigríður A. Þórðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 2000.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.Lúðvík Bergvinsson.


Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.Hjálmar Árnason.