Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 500  —  317. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um málefni aldraðra, nr. 125/1999.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Ólaf Ólafsson, fyrrverandi landlækni, Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara og Rannveigu Sigurðardóttur frá ASÍ.
    Í frumvarpinu er kveðið á um hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið hefur gjaldið ekki breyst frá 1. janúar 1997 og er sú hækkun sem lögð er til í frumvarpinu miðuð við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar frá árinu 1997. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999 segir að gjald þetta skuli koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert og telur meiri hlutinn að hækkunin sé í samræmi við ákvæðið og að rétt sé að miða hana við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar eins og gert er í frumvarpinu.
    Fyrir liggur að stórum hluta sjóðsins hefur verið varið til rekstrar í stað uppbyggingar eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Meiri hlutinn leggur áherslu á að viðbótarfé það sem innheimtist, verði frumvarpið að lögum, renni til uppbyggingar enda má ætla af athugasemdum við frumvarpið að slíkt sé ætlunin. Þar kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu bíði um 560 manns eftir vistrými og þar af séu um 230 manns í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Meiri hlutinn telur brýnt að hraða uppbyggingu til að mæta þeirri þörf sem fyrir er.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þuríður Backman skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 11. des. 2000.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Katrín Fjeldsted.Ásta Möller.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Þuríður Backman,


með fyrirvara.